Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun
  • Gerjaður tedrykkur

Úrskurður nr. 8/2021

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Deilt var um tollflokkun á drykkjarvöru, þ.e. lífrænt ræktuðu tei sem blandað var hvítvíni. Ekki var fallist á með kæranda að varan félli undir tollskrárnúmer 2206.0043 í tollskrá þar sem ekki var talið að sá liður gæti yfirleitt tekið til blandaðrar drykkjarvöru eins og um væri að ræða. Miðað við umbúðir og áfengismagn var talið að varan félli undir tollskrárnúmerið 2206.0083.

Ár 2021, miðvikudaginn 27. janúar, er tekið fyrir mál nr. 119/2020; kæra A ehf., dags. 26. ágúst 2020, vegna bindandi álits tollgæslustjóra. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Helstu málavextir eru þeir að með umsókn, dags. 26. maí 2020, óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollyfirvalda á tollflokkun drykkjarvöru, Copenhagen Sparkling Tea, sbr. 21. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í umsókninni kom m.a. fram að um væri að ræða lífræna vöru án viðbætts sykurs, en þrjár tegundir vörunnar innihéldu 5% áfengi sem kæmi úr hvítvíni. Var vísað til meðfylgjandi upplýsinga og vörulýsingar framleiðanda. Tollgæslustjóri lét uppi bindandi álit hinn 27. maí 2020 í tilefni af umsókn kæranda þar sem tollgæslustjóri taldi að varan félli undir tollskrárnúmer 2206.0083, sem blanda gerjaðrar drykkjarvöru og óáfengrar drykkjarvöru, í einnota glerumbúðum stærri en 500 ml. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun tollgæslustjóra verði felld úr gildi og „að yfirskattanefnd úrskurði vöruna í nýjan tollflokk sem hæfir ofangreindri vöru“, eins og segir í kærunni.

II.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 26. ágúst 2020, kemur fram að Sparkling Tea sé ný drykkjartegund á íslenskum markaði. Tollgæslustjóri hafi talið vöruna falla undir tollskrárnúmer 2206.0083 sem kærandi telji ranga tollflokkun. Vöruliður 2206 sé í flokki IV í tollskrá sem taki til unninna matvæla, drykkjarvara, áfengra vökva og ediks, tóbaks og framleidds tóbakslíkis. Í 22. kafla sé fjallað sérstaklega um drykkjarvörur, áfengi og edik. Kærandi sé samþykkur því að vöruliður 2206 eigi við um vöruna, en telji hana falla undir tollskrárnúmer 2206.0043. Tollskrárnúmer 2206.0041 til og með 2206.0049 eigi við um „gerjaðar drykkjarvörur, hvorki blandaðar öðrum gerjuðum drykkjarvörum né óáfengum drykkjarvörum öðrum en þeim sem er að finna í hinni íblönduðu drykkjarvöru, enda sé varan meira en 2,25% og að hámarki 15% að styrkleika og innihaldi eingöngu vínanda sem myndast hefur við gerjun án hvers kyns eimingar“ . Ljóst sé að gerjun sem átt hafi sér stað sé gerjun sem hafi myndast án hvers kyns eimingar. Sé það því gerjaður drykkur í þessu samhengi, hvítvín sem sé blandað með te. Það sé því hvorki verið að blanda vöruna með öðrum gerjuðum drykkjarvörum né óáfengum drykkjarvörum öðrum en þeim sem sé að finna í hinni íblönduðu drykkjarvöru.

Í kærunni er tekið fram að þótt ljóst sé að orðalag tollskrárinnar sé óskýrt eigi hún við um þá vöru sem um ræðir. Með því að skoða aðra undirflokka sem vöruliður 2206 bjóði upp á megi sjá að aðeins sé boðið upp á fjóra flokka, þ.e. a–d. Þar sem um sé að ræða heilnæma vöru sem unnin sé úr vottuðu lífrænu efni, þar á meðal lífrænt vottuðu hvítvíni sem gerjað hafi verið án nokkurs konar eimingar, sé ljóst að flokkur b eigi best við um vöruna, þ.e. gerjaðar drykkjarvörur, hvorki blandaðar öðrum gerjuðum drykkjarvörum né óáfengum drykkjarvörum öðrum en þeim sem sé að finna í hinni íblönduðu drykkjarvöru, enda sé varan meira en 2,25% og að hámarki 15% að styrkleika og innihaldi eingöngu vínanda sem myndast hafi við gerjun án hvers kyns eimingar. Myndi ganga gegn lýðheilsumarkmiðum að setja vöruna í sama tollflokk og vöru sem íblönduð sé sterkum, eimuðum vökvum sem og sykurblönduðum drykkjum, svo sem „breezer“ eða slíkum drykkjum, enda séu þeir af allt öðrum uppruna og meiði en Sparkling Tea. Þá leiði tollflokkun tollgæslustjóra til þess að verð vörunnar verði of hátt og muni vart svara kostnaði fyrir innflytjanda að halda henni í verslunum og á veitingastöðum hér á landi.

Í niðurlagi kærunnar er þess getið að undirflokkur tollskrár sem tollgæslustjóri telji eiga við um vöru kæranda, þ.e. fjórði flokkur, eigi við um styrkta drykki, svo sem gosvín. Reiknivél á vef tollyfirvalda gefi yfirlit yfir algengustu tegundir, þ.e. bjór, gosvín („breezer“ o.fl.), léttvín og sterkt vín. Sé gosvín þannig sett í sérflokk, en þar sé t.d. um að ræða Bacardi romm sem sé blandað með hinum ýmsu bragðefnum.

III.

Með bréfi, dags. 1. október 2020, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu. Fram kemur í umsögninni að í málinu sé deilt um tollflokkun vöru sem nefnist Copenhagen Sparkling Tea. Um sé að ræða drykkjarvöru sem samanstandi af hvítvíni og tei og hafi 5% áfengisinnihald. Hið kærða bindandi álit kveði á um að varan skuli flokkast í tollskrárnúmer 2206.0083, þar sem um sé að ræða sparkling tea drykk, sem sé með 5% áfengismagn, miðað sé við að áfengið komi úr hvítvíni. Kærandi telji hins vegar að varan skuli falla undir tollskrárnúmer 2206.0049 (sic).

Í umsögninni er rakið að Copenhagen Sparkling Tea sé drykkjartegund sem innihaldi lífrænt te auk hvítvíns og hafi varan 5% áfengisinnihald. Drykkjarvörur flokkist í 22. kafla tollskrár og áfengar drykkjarvörur flokkist í vöruliði 2203–2208 í tollskrá á meðan óáfengar drykkjarvörur flokkist í vöruliði 2201 og 2202. Í ljósi 5% áfengisinnihalds vöru þessarar komi eingöngu vöruliðir 2203–2208 til álita við tollflokkun. Að þeim vöruliðum virtum sé ljóst að varan flokkist í vörulið 2206, enda sé hún blanda af hvítvíni og tei, þ.e. gerjaðri drykkjarvöru og óáfengri drykkjarvöru. Óumdeilt sé að varan heyri undir vörulið 2206, en ágreiningur lúti að undirskiptingu. Vöruliður 2206 skiptist í fjóra hluta, þ.e. 1) aðrar gerjaðar drykkjarvörur, t.d. eplavín, peruvín, mjöð eða hrísgrjónavín, með vínanda yfir 0,5% til 2,25%, 2) óblandaðar, gerjaðar drykkjarvörur með vínanda yfir 2,25% til 15% sem innihaldi eingöngu vínanda sem myndast hafi við gerjun án hvers kyns eimingar, 3) blöndur af öli og óáfengum drykkjarvörum með meira en 2,25% af hreinum vínanda að rúmmáli og loks 4) aðrar vörur í vörulið 2206 en þær sem nefndar hafi verið í fyrstu þremur skiptingunum. Ekki sé hægt að fella vöruna undir fyrstu þrjár skiptingarnar. Varan innihaldi 5% vínanda og falli því ekki undir fyrstu skiptinguna. Um sé að ræða blöndu af hvítvíni og lífrænt ræktuðu tei og því falli hún ekki undir aðra skiptinguna. Ekki sé um að ræða öl heldur vín og falli varan því ekki í þriðju skiptingu. Í ljósi þess að varan sé seld í 750 ml. glerflösku teljist hún réttilega flokkuð undir tollskrárnúmer 2206.0083. Vörur sem séu neysluhæfir vökvar og innihaldi meira en 2,45% af vínanda að rúmmáli, líkt og Copenhagen Sparkling Tea, teljist vera áfengi í skilningi 1. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, og af slíkum vörum beri því að greiða áfengisgjald. Áfengisgjald sé ákveðið í 3. gr. laga nr. 96/1995 á hvern sentilítra af vínanda í hverjum lítra hins áfenga drykkjar samkvæmt flokkun hans í tollskrá. Með hliðsjón af innihaldi og eðli Copenhagen Sparkling Tea sé ljóst að varan skuli bera áfengisgjald eftir 3. tölul. 3. gr. laganna sem annað áfengi, enda teljist varan ekki vera öl né vín í vöruliðum 2204 og 2205 eða óblönduð, gerjuð drykkjarvara.

Vegna sjónarmiða í kæru kæranda til yfirskattanefndar er tekið fram í umsögninni að ekki sé hægt að fallast á þá túlkun að varan falli undir aðra skiptingu sem gerjuð drykkjarvara, hvorki blönduð öðrum gerjuðum drykkjarvörum né óáfengum drykkjarvörum öðrum en þeim sem sé að finna í hinni íblönduðu drykkjarvöru, enda sé varan meira en 2,25% og að hámarki 15% að styrkleika og innihaldi eingöngu vínanda sem myndast hafi við gerjun án hvers kyns eimingar. Sé rýnt í orðalag vöruliðarins taki hann til drykkjarvöru sem hafi gerjast, t.d. þegar tveimur óáfengum vörum sé blandað saman sem síðar gerjast. Copenhagen Sparkling Tea sé hins vegar þannig samsett að hvítvíni og tei sé blandað saman. Þannig sé tei blandað saman við hina gerjuðu vöru sem leiði til þess að númerið 2206.0049 geti ekki átt um vöruna þar sem vara, sem blönduð sé annarri gerjaðri eða óáfengri drykkjarvöru, heyri ekki þar undir. Sé þess því krafist að niðurstaða hins kærða bindandi álits tollgæslustjóra verði staðfest.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 1. október 2020, var kæranda sent ljósrit af umsögn tollgæslustjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir bárust.

IV.

Kæra í máli þessu varðar bindandi álit tollgæslustjóra samkvæmt 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 sem embættið lét uppi 27. maí 2020 í tilefni af beiðni kæranda 26. sama mánaðar. Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu hér að framan óskaði kærandi eftir bindandi áliti tollgæslustjóra um tollflokkun drykkjarvöru undir heitinu Copenhagen Sparkling Tea. Í umsókninni kom fram að um væri að ræða lífræna vöru án viðbætts sykurs, en þrjár tegundir drykkjarins væru með 5% áfengismagni þar sem þær innihéldu hvítvín. Var vísað til meðfylgjandi upplýsinga af vefsíðu framleiðanda (sparklingtea.co) um vöruna þar sem m.a. kom fram að um væri að ræða freyðandi drykk „based on a careful selection of ... different organic teas ... combined in one bottle, together with a small base of white wine and a dash of lemon juice“ . Í hinu kærða bindandi áliti sínu komst tollgæslustjóri að þeirri niðurstöðu að varan félli undir tollskrárnúmer 2206.0083 í tollskrá sem blanda gerjaðrar drykkjarvöru og óáfengrar drykkjarvöru, í einnota glerumbúðum stærri en 500 ml. Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er hins vegar talið að varan geti fallið undir tollskrárnúmer 2206.0043 sem óblönduð, gerjuð drykkjarvara. Ekki er deilt um að varan falli undir vörulið 2206 („Aðrar gerjaðar drykkjarvörur (t.d. eplavín, peruvín, mjöður, hrísgrjónavín); blöndur gerjaðra drykkjarvara svo og blöndur gerjaðra drykkjarvara og óáfengra drykkjarvara, ót.a.“).

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Samkvæmt b-lið 2. tölul. reglnanna fer um tollflokkun blandaðra og samsettra vara eftir reglum 3. töluliðar þeirra. Samkvæmt a-lið 3. tölul. reglnanna skal vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu tekinn fram yfir vörulið með almennari vörulýsingu. Í b-lið 3. tölul. kemur fram að blöndur, samsettar vörur úr ýmsum efnum eða hlutum svo og vörusamstæður, sem eigi verður flokkað eftir reglu a-liðar 3. töluliðar, skuli flokka eftir því efni eða þeim hluta sem helst einkennir vörurnar, enda verði slíku mati komið við. Að því er snertir flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða kemur fram í 6. tölul. reglnanna að sú flokkun skuli í lagalegu tilliti byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemda við undirliði og, að breyttu breytanda, framangreindum reglum, með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir verða bornir saman.

Í 22. kafla tollskrár er fjallað um drykkjarvörur, áfenga vökva og edik. Eins og hér að framan er rakið falla undir vörulið 2206 í þessum kafla aðrar gerjaðar drykkjarvörur, „blöndur gerjaðra drykkjarvara svo og blöndur gerjaðra drykkjarvara og óáfengra drykkjarvara, ót.a.“ Vöruliður 2206 skiptist í fjóra jafnsetta undirliði. Fyrsti undirliðurinn, sem skiptist í tollskrárnúmer 2206.0031–2206.0039, tekur til drykkjarvöru af fyrrgreindum toga með meira en 0,5% til og með 2,25% vínanda að rúmmáli. Er ljóst að sá undirliður tekur ekki til vörunnar þar sem áfengisinnihald hennar er umfram þessi mörk. Undir annan undirlið vöruliðar 2206, sem skiptist í tollskrárnúmer 2206.0041–2206.0049, falla „gerjaðar drykkjarvörur, hvorki blandaðar öðrum gerjuðum drykkjarvörum né óáfengum drykkjarvörum öðrum en þeim sem er að finna í hinni íblönduðu drykkjarvöru, enda sé varan meira en 2,25% og að hámarki 15% að styrkleika og innihaldi eingöngu vínanda sem myndast hefur við gerjun án hvers kyns eimingar“. Er þetta sá undirliður sem kærandi telur eiga við. Undir þriðja undirliðinn (tollskrárnúmer 2206.0051–2206.0059) falla blöndur af öli og óáfengum drykkjarvörum og er ágreiningslaust að sá liður getur ekki tekið til vöru sem um ræðir. Eins og hér að framan greinir taldi tollgæslustjóri vöruna falla undir fjórða undirlið vöruliðarins („Annars, með meira en 2,25% af hreinum vínanda að rúmmáli“), nánar tiltekið tollskrárnúmer 2206.0083 miðað við tegund og stærð umbúða.

Í innihaldslýsingu framleiðanda, sem fylgdi beiðni kæranda um bindandi álit, kemur fram að drykkjarvaran sem um ræðir innihaldi lífrænt ræktað te sem blandað sé saman við hvítvín, sbr. hér að framan. Að því athuguðu og orðalagi þriðja undirliðar vöruliðar 2206, sbr. hér að framan, verður ekki talið að varan geti fallið undir þann undirlið, enda verður ekki talið að sá liður geti yfirleitt tekið til blandaðrar drykkjarvöru eins og um ræðir. Að þessu athuguðu ber samkvæmt skýringarreglum, sbr. 1. tölul. og a-lið 3. tölul. í almennum reglum um túlkun tollskrár, að flokka vöruna undir „Annars, með meira en 2,25% af hreinum vínanda að rúmmáli“ í undirliði 2206.0081–2206.0089, nánar tiltekið miðað við umbúðir í tollskrárnúmerið 2206.0083. Er kröfum kæranda því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja