Úrskurður yfirskattanefndar
- Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða
Úrskurður nr. 11/2021
Virðisaukaskattur 2020
Lög nr. 50/1988, bráðabirgðaákvæði XXXIII, 4. mgr. Reglugerð nr. 690/2020, 5. gr. f-liður.
Fallist var á kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við svonefnda grafín lakkvarnarmeðferð á fólksbifreið, enda þótti slík yfirborðsmeðferð frekast verða lögð að jöfnu við almennar lakkviðgerðir bifreiða sem telja yrði að féllu undir lagaheimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Var ekki fallist á sjónarmið ríkisskattstjóra þess efnis að um væri að ræða lið í reglulegri umhirðu bifreiðar eða minniháttar viðhald hennar í skilningi reglugerðar um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna.
Ár 2021, miðvikudaginn 27. janúar, er tekið fyrir mál nr. 184/2020; kæra A, dags. 20. nóvember 2020, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 2020. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 20. nóvember 2020, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt bréfi, dags. 18. nóvember 2020, að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 32.903 kr. samkvæmt endurgreiðslubeiðni sem barst ríkisskattstjóra 21. ágúst 2020. Var beiðnin byggð á 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Samkvæmt ákvæðum þessum skal á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að um væri að ræða beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við grafínhúðun eða keramikhúðun bifreiðar sem félli undir ákvæði f-liðar 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020 þar sem tekið væri fram að virðisaukaskattur fengist ekki endurgreiddur af reglulegri umhirðu fólksbifreiðar eða minniháttar viðhaldi hennar, svo sem ábyrgðarskoðun, tjónamati, ástandsskoðun, hjólbarðaviðgerðum, hjólbarðaskiptum, smurþjónustu, þrifum og bóni.
Í kæru kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Í kærunni kemur fram að grafínhúðun bifreiðar, sem kærandi hafi greitt 170.000 kr. fyrir, geti varla talist til reglulegrar umhirðu eða minniháttar viðhalds. Slík meðferð feli í sér umtalsverða breytingu á ytra byrði bifreiðar sem fremur mætti líkja við lakkvinnu en bón. Samkvæmt lýsingu seljanda þjónustunnar feli meðferðin í sér meiriháttar lagfæringu á lakkyfirborði bifreiða sem síðan sé varið með ásetningu lakkvarnarhúðar með fimm ára ábyrgð. Þá taki meðferðin tvo til þrjá daga. Þá hafi starfsmenn Skattsins fullyrt að vinna við lakkvörn og lagfæringar á rispum félli undir átakið „Allir vinna“. Átakið hafi haft áhrif á ákvarðanatöku kæranda um að kaupa þjónustuna.
II.
Með bréfi, dags. 15. desember 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi, dags. 5. janúar 2021, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Er tekið fram í bréfinu að meginreglan um endurgreiðslu virðisaukaskatts af bílaviðgerðum komi fram í f-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 690/2020 og ákvæði f-liðar 5. gr. reglugerðarinnar sé undantekning frá henni. Er ítrekað að kærandi hafi keypt lakkvarnarmeðferð sem falið hafi í sér viðgerð í skilningi 1. gr. reglugerðarinnar og geti ekki á nokkurn hátt talist til umhirðu eða minniháttar viðhalds, enda beri að skýra undantekningarákvæði þröngt. Þá beri að líta til þess að ríkisskattstjóri hafi áður samþykkt endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sambærilegrar meðferðar sem keypt hafi verið hjá sama aðila. Þar sem um algerlega sams konar mál sé að ræða beri að afgreiða málin á sama hátt, sbr. jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
III.
Í 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, kemur fram að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 skuli endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts. Endurgreiðsla eftir ákvæði þessu skal innt af hendi á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 90 dögum eftir að Skattinum barst erindið. Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðinu. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um virðisaukaskatt sem ekki telst endurgreiðsluhæfur og kemur fram í f-lið greinarinnar að virðisaukaskattur fáist ekki endurgreiddur af reglulegri umhirðu fólksbifreiðar eða minniháttar viðhaldi hennar, svo sem ábyrgðarskoðun, tjónamati, ástandsskoðun, hjólbarðaviðgerðum, hjólbarðaskiptum, smurþjónustu, þrifum og bóni.
Heimild bráðabirgðaákvæðis XXXIII til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við bílaviðgerðir, bílamálun og bílaréttingar var tekin upp með 7. gr. fyrrgreindra laga nr. 25/2020. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laganna, sbr. þskj. 118 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, kemur fram að lagt sé til að endurgreiðsla virðisaukaskatts taki einnig til vinnu við bílaviðgerðir, bílasprautun (bílamálun) og bílaréttingar (bifreiðasmíði). Ekki sé gert ráð fyrir því að heimild til endurgreiðslu taki til smurþjónustu eða hjólbarðaviðgerða.
Beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts tók til sölureiknings frá X sf., dags. 2. október 2020, að fjárhæð 170.000 kr. með virðisaukaskatti vegna svonefndrar grafín lakkvarnarmeðferðar á fólksbifreið. Er komið fram af hálfu kæranda að um sé að ræða lagfæringu á lakkyfirborði bifreiðarinnar sem síðan sé varin með ásetningu slitsterkrar lakkvarnarhúðar (grafínhúðar) og að meðferðin taki tvo til þrjá daga. Verður að ætla að ávinningur af slíkri meðferð sé einkum aukið slitþol lakkyfirborðs bifreiðar, sbr. m.a. upplýsingar á heimasíðu seljanda þar sem fram kemur að fimm ára ábyrgð sé veitt á meðferðinni. Að þessu athuguðu verður að telja að slík yfirborðsmeðferð verði frekast lögð að jöfnu við almennar lakkviðgerðir bifreiða sem telja verður að falli undir 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988. Með vísan til þess og þar sem ekki verður talið að um sé að ræða lið í reglulegri umhirðu bifreiðar eða minniháttar viðhaldi hennar í skilningi f-liðar 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020, en ákvæði þetta tiltekur ýmis óhjákvæmileg viðvik sem jafnan fylgja bifreiðaeign, og þar sem ágreiningslaust er í málinu að skilyrði endurgreiðslu séu að öðru leyti uppfyllt er fallist á kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af umræddum sölureikningi.
Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum, ber undir stjórnvald að framkvæma gjaldabreytingar sem stafa af úrskurði yfirskattanefndar. Er ríkisskattstjóra því falið að annast um endurgreiðslu samkvæmt úrskurði þessum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á umkrafða endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 32.903 kr.