Úrskurður yfirskattanefndar
- Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána
- Valdsvið yfirskattanefndar
Úrskurður nr. 13/2021
Lög nr. 30/1992, 2. gr. Lög nr. 129/1997, bráðabirgðaákvæði XVII (brl. nr. 40/2014, 1. gr.). Reglugerð nr. 991/2014, 1. gr.
Kæru í máli þessu, sem laut að ágreiningi um úttekt séreignarsparnaðar á grundvelli laga nr. 40/2014, sem leyfa nýtingu séreignarsparnaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, var vísað frá yfirskattanefnd þar sem kæruheimild til yfirskattanefndar vegna ákvarðana ríkisskattstjóra samkvæmt þeim lögum var ekki til að dreifa. Var kæran framsend fjármála- og efnahagsráðuneytinu til meðferðar og afgreiðslu.
Ár 2021, miðvikudaginn 10. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 202/2020; kæra A, dags. 21. desember 2020, vegna úttektar séreignarsparnaðar. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 21. desember 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 18. nóvember 2020, um að hafna umsókn kæranda um útgreiðslu séreignarsparnaðar frá 1. júlí 2014 vegna öflunar íbúðarhúsnæðis. Í kærunni er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og að kæranda verði heimilað að nýta uppsafnaðan séreignarsparnað frá 1. júlí 2014 og til þess dags er kærandi varð þinglýstur eigandi íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Fram kemur að kærandi uppfylli skilyrði fyrir nýtingu séreignarsparnaðar samkvæmt lögum nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, og reglugerð nr. 991/2014, um samræmt verklag við ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Nánar tiltekið kemur fram í kærunni að ágreiningur málsins lúti að því hvort skilyrði laga nr. 40/2014 þess efnis, að rétthafi sé ekki eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili sem heimild til úttektar séreignarsparnaðar sé nýtt, teljist ekki uppfyllt sé rétthafi eigandi búseturéttar á tímabilinu, eins og í tilviki kæranda, en kærandi líti svo á að ekki sé unnt að leggja búseturétt að jöfnu við eignarhald að íbúðarhúsnæði í þessu sambandi, svo sem rökstutt er frekar í kærunni.
II.
Með bréfi, dags. 4. febrúar 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd. Í umsögninni kemur fram að hinn kærði úrskurður varði umsókn kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á íbúð til eigin nota, sbr. heimild í lögum nr. 40/2014. Umsóknin hafi borist 20. október 2020 í gegnum vefsvæði Skattsins (leidretting.is). Ekki sé að finna heimild til að kæra úrskurði Skattsins til yfirskattanefndar í áðurnefndum lögum nr. 40/2014. Úrskurði Skattsins vegna umsókna um nýtingu heimildar samkvæmt lögunum megi kæra til fjármálaráðuneytisins með almennri stjórnsýslukæru, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæruheimild til yfirskattanefndar sé að finna í 7. gr. laga nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, en Skattinum hafi ekki borist umsókn frá kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar á grundvelli þeirra laga.
III.
Eins og fram kemur í kæru kæranda til yfirskattanefndar lýtur kæruefni málsins að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra frá 18. nóvember 2020 að hafna umsókn kæranda um úttekt séreignarsparnaðar vegna kaupa kæranda á íbúðarhúsnæði á árinu 2020, þ.e. nánar tiltekið að hafna úttekt viðbótariðgjalda sem greidd hafa verið frá 1. júlí 2014, en fram kemur í ákvörðuninni að fallist sé á úttekt séreignarsparnaðar á tímabilinu september 2020 til október sama ár. Þá kemur fram að umsókn kæranda hafi verið lögð fram á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XVII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, sem breyttu hinum fyrrnefndu lögum. Hvorki í greindum lögum né í reglugerð nr. 991/2014, um samræmt verklag við ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, sem sett er á grundvelli þeirra laga, er mælt fyrir um kæruheimild til yfirskattanefndar vegna ákvarðana ríkisskattstjóra samkvæmt þeim lögum, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Verður því ekki séð að í málinu liggi fyrir nein ákvörðun ríkisskattstjóra sem kæranleg sé til yfirskattanefndar. Er kærunni því vísað frá yfirskattanefnd.
Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu er vakin athygli á því að hinni kærðu ákvörðun embættisins megi skjóta til fjármála- og efnahagsráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er kæran því framsend ráðuneytinu til meðferðar og afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 7. gr. sömu laga.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd og framsend fjármála- og efnahagsráðuneytinu til afgreiðslu.