Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla vegna bókaútgáfu
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 14/2021

Lög nr. 30/1992, 2. gr.   Lög nr. 130/2018, 8. gr., 9. gr.  

Í máli þessu var ekki talið að fyrir lægi nein kæranleg ákvörðun nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, þ.e. ákvörðun um endurgreiðslu kostnaðar við útgáfu tiltekinnar bókar eða höfnun um endurgreiðslu sem tekin væri á grundvelli 8. gr. laga nr. 130/2018, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Var kærunni því vísað frá yfirskattanefnd.

Ár 2021, miðvikudaginn 10. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 168/2020; kæra A, dags. 27. október 2020, vegna ákvörðunar um endurgreiðslu vegna bókaútgáfu. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 27. október 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, dags. 29. september 2020, er varðar endurgreiðslu útgáfukostnaðar. Í kærunni kemur fram að ákvörðun nefndarinnar feli í sér að markaðs- og auglýsingakostnaður vegna bóka, sem gefnar séu út af efnisveitum eða áskriftarþjónustum og ekki séu aðgengilegar almenningi með öðrum hætti, teljist ekki endurgreiðsluhæfur kostnaður samkvæmt lögum nr. 130/2018, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, vegna umsókna um endurgreiðslu sem berist eftir 1. nóvember 2020. Í kærunni er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir. Loks er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Í kæru kæranda er greint frá málavöxtum og málsástæðum og lagarökum kæranda. Er þess m.a. getið að kærandi sé bókaútgefandi sem hafi sótt um endurgreiðslur á grundvelli laga nr. 130/2018 vegna útgáfu bóka. Þá er bent á að þrátt fyrir að bækur sem útgefnar séu af kæranda séu aðgengilegar á efnisveitu þá sé efnisveitan ekki útgefandi heldur kærandi. Megi því draga í efa að rök nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku fyrir því að markaðs- og auglýsingakostnaður vegna bóka, sem gefnar séu út af efnisveitum eða áskriftarþjónustum, sé ekki endurgreiðsluhæfur samkvæmt lögum nr. 130/2018 geti yfirleitt átt við um bækur sem útgefnar séu af kæranda. Til stuðnings kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar er bent á að ákvörðunin setji umsóknir kæranda um endurgreiðslu í uppnám. Í umsóknum kæranda sé m.a. gerð krafa um endurgreiðslu vegna kostnaðar í tengslum við kynningar og auglýsingar á nýútkomnum bókum.

II.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 4. desember 2020, hefur nefnd um stuðning við útgáfu bóka á íslensku lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur m.a. fram að hafnað sé þeim skilningi kæranda að hin kærða ákvörðun nefndarinnar brjóti gegn ákvæðum laga nr. 130/2018. Er tekið fram að við endurskoðun nefndarinnar á verklagi og úthlutunum hafi markaðs- og auglýsingakostnaður vegna bóka sem stæðu almenningi ekki til boða nema sem hluti af efnisveitu og/eða áskriftarþjónustu verið tekinn til sérstakrar skoðunar. Sé það mat nefndarinnar að slíkar kynningar og auglýsingar miði fyrst og fremst að því að fá viðskiptavini í áskrift að efnisveitu/áskriftarþjónustu, enda sé þeim ókleift að kaupa aðgang að einstakri bók eða fá hana lánaða á bókasafni. Ekki sé því unnt að rekja kostnaðinn beint til útgáfu viðkomandi bókar.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 23. desember 2020, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku og áréttað áður fram komnar kröfur og röksemdir.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, skulu ágreiningsmál um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna, þar með talin rekstrartöp, úrskurðuð af sérstakri, óháðri nefnd, yfirskattanefnd. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992 kemur fram að úrskurðarvald yfirskattanefndar taki til ákvarðana ríkisskattstjóra og tollyfirvalda sem þar greinir. Þá skal yfirskattanefnd úrskurða í kærumálum vegna ákvörðunar skatta og gjalda sem lögð eru á eða ákvörðuð af öðrum stjórnvöldum en greinir í 1. mgr. eftir því sem ákveðið er í lögum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 130/2018, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, kemur fram að ákvörðun nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku um hvað teljist vera endurgreiðsluhæfur kostnaður samkvæmt 6. gr. nefndra laga eða fjárhæð endurgreiðslu, svo og hvort fullnægjandi gögn liggi til grundvallar útgáfukostnaði, sé kæranleg til yfirskattanefndar. Er kærufrestur 30 dagar og reiknast frá dagsetningu ákvörðunar nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 130/2018. Um ákvarðanir nefndar þessarar um endurgreiðslu kostnaðar vegna útgáfu bóka, umsóknarferli o.fl. er fjallað í II. og III. kafla síðastnefndra laga. Kemur fram í 2. mgr. 8. gr. laganna að telji nefnd um stuðning við útgáfu bóka á íslensku að umsókn uppfylli skilyrði fyrir endurgreiðslu skuli hún ákvarða fjárhæð endurgreiðslu, ella skuli umsókn hafnað.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að kæran varði ákvörðun nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku frá 29. september 2020, sbr. bréf nefndarinnar, dags. þann dag, sem stílað er á „forráðamenn X“. Mun bréfið hafa borist X ehf. en ekki kæranda, eftir því sem fram kemur í kæru. Er tekið fram í kærunni að ætla verði að ákvörðunin hafi átt að beinast að kæranda en ekki X ehf. og er á það fallist í umsögn nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, dags. 4. desember 2020. Efnislega felur bréf nefndarinnar í sér að greint er frá tiltekinni ályktun nefndarinnar um endurgreiðslurétt vegna markaðs- og auglýsingakostnaðar af bókum, sem gefnar eru út af efnisveitum eða áskriftarþjónustum, svo sem þar greinir. Má ráða af bréfinu að um sé að ræða breytingu á túlkun nefndarinnar á ákvæðum laga nr. 130/2018 í þessu sambandi, enda er tekið fram að breytingarnar muni taka gildi um þær umsóknir sem berist nefndinni eftir 1. nóvember 2020. Þá er tekið fram í bréfinu að sem fyrr verði unnt að skjóta ákvörðunum nefndarinnar um hvað teljist vera endurgreiðsluhæfur kostnaður samkvæmt lögum nr. 130/2018 til yfirskattanefndar, sbr. 2. mgr. 9. gr. þeirra.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að fyrrgreint bréf nefndar um útgáfu bóka á íslensku feli í sér slíka ákvörðun samkvæmt lögum nr. 130/2018 sem fellur undir úrskurðarvald yfirskattanefndar samkvæmt 2. mgr. 9. gr. greindra laga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992, enda er ljóst að ekki er um að ræða ákvörðun um endurgreiðslu kostnaðar við útgáfu tiltekinnar bókar eða höfnun um endurgreiðslu sem tekin er á grundvelli 2. mgr. 8. gr. hinna fyrrnefndu laga. Þá er ekki öðrum málskotsheimildum til að dreifa í lögum nr. 130/2018 eða reglugerð nr. 393/2019, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, sem sett hefur verið á grundvelli 11. gr. nefndra laga, sem átt geta við um ákvörðunina. Samkvæmt þessu þykir bera að vísa kæru kæranda frá yfirskattanefnd. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja