Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lokunarstyrkur, fjárhæð

Úrskurður nr. 28/2021

Lög nr. 38/2020, 5. gr. 1. mgr.  

Í máli þessu var talið ótvírætt að fjárhæð lokunarstyrkja á grundvelli laga nr. 38/2020 tæki einvörðungu mið af þeim rekstrarkostnaði sem félli til hjá rekstraraðila á tímabilinu 24. mars til 3. maí 2020, þ.e. á því tímabili sem rekstraraðila var skylt að loka samkomustað eða láta af starfsemi, en ekki rekstrarkostnaði sem félli til utan þess tímabils. Var ekki fallist á með kæranda að við ákvörðun á fjárhæð lokunarstyrks skyldi tekið mið af heildarfjárhæð launa og launatengdra gjalda sem komu til greiðslu af hendi kæranda 31. mars 2020, enda var einungis hluti þess kostnaðar talinn tilheyra lokunartímabili.

Ár 2021, miðvikudaginn 3. mars, er tekið fyrir mál nr. 18/2021; beiðni A ehf., dags. 21. janúar 2021, um endurupptöku úrskurðar yfirskattanefndar nr. 2/2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með bréfi, dags. 21. janúar 2021, hefur kærandi farið fram á það við yfirskattanefnd að nefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 2/2021, sem kveðinn var upp 20. janúar 2021, í máli kæranda vegna lokunarstyrks samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Með úrskurði þessum var kæru kæranda, dags. 11. nóvember 2020, vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra, dags. 7. ágúst 2020, um lokunarstyrk að fjárhæð 1.005.951 kr. til kæranda, vísað frá yfirskattanefnd á þeim grundvelli að kæran væri fram komin að liðnum þriggja mánaða kærufresti samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum, sbr. 8. gr. laga nr. 38/2020. Var kærandi hvorki talinn hafa sýnt fram á að óviðráðanleg atvik hefðu valdið því að eigi var kært í tæka tíð né var talið að 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ætti að öðru leyti við í málinu, enda kom ekkert fram í kærunni um ástæður þess að kært var að liðnum lögboðnum kærufresti.

II.

Eftir atvikum og að virtum fram komnum skýringum kæranda þykir rétt að taka kæruna til efnislegrar meðferðar.

Samkvæmt kæru kæranda til yfirskattanefndar lýtur ágreiningur málsins að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að lækka tilfærðan launakostnað kæranda úr 890.102 kr. í 239.643 kr. við ákvörðun á lokunarstyrk til kæranda, sbr. II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Fyrir liggur að kæranda, sem rekur nuddstofu, var gert að láta af starfseminni á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020. Forsendur ríkisskattstjóra fyrir hinni kærðu ákvörðun voru þær að samkvæmt 5. gr. nefndra laga nr. 38/2020 tæki fjárhæð lokunarstyrks einungis mið af rekstrarkostnaði skattaðila á tímabilinu 24. mars til 3. maí 2020, en launakostnaður kæranda á því tímabili næmi fyrrgreindri fjárhæð 239.643 kr. Af hálfu kæranda er hins vegar litið svo á að í þessu efni beri að miða við þann dag sem laun og launatengd gjöld falli til, þ.e. 31. mars 2020 vegna þess mánaðar í tilviki kæranda. Er bent á í kæru að símakostnaður kæranda vegna þess tímabils sem um ræðir hafi ekki sætt hliðstæðri hlutföllun við ákvörðun lokunarstyrks. Rétt er að taka fram að út af fyrir sig er ekki deilt um skiptingu kostnaðarins á tímabil miðað við forsendur ríkisskattstjóra, en í því sambandi lagði embættið til grundvallar sundurliðun sem kærandi lagði sjálfur fram undir rekstri málsins, sbr. athugasemd þar að lútandi í hinum kærða úrskurði.

Um fjárhæð lokunarstyrkja er fjallað í 5. gr. laga nr. 38/2020. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna, eins og málsgreinin hljóðaði fyrir breytingu með 2. gr. laga nr. 55/2020, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum, skal fjárhæð lokunarstyrks vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila tímabilið 24. mars til 3. maí 2020. Lokunarstyrkur getur þó ekki orðið hærri en 800.000 kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila í febrúar 2020, þó að hámarki 2.400.000 kr. á hvern rekstraraðila.

Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020, kemur fram að í 1. mgr. greinarinnar komi fram sú meginregla að fjárhæð lokunarstyrks skuli vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á því tímabili sem skylt var að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, þ.e. 24. mars til 3. maí 2020. Er tekið fram að kalli Skatturinn eftir því þurfi rekstraraðili að sýna fram á að kostnaður hafi fallið til á því tímabili, svo sem með framlagningu greiðslukvittana. Kostnað sem falli til á lengra tímabili en 24. mars til 3. maí 2020 megi hlutfalla. Í dæmaskyni er nefnt í athugasemdum þessum „að hafi tiltekinn kostnaðarliður rekstraraðila í mars, apríl og maí 2020 verið samanlagt 3 millj. kr. gæti styrkur til hans vegna þessa kostnaðar numið ríflega 1,3 millj. kr. (3 millj. kr. * 41 dagur / 92 dagar).“

Samkvæmt framansögðu er ótvírætt að fjárhæð lokunarstyrkja á grundvelli laga nr. 38/2020 tekur einvörðungu mið af þeim rekstrarkostnaði sem fellur til hjá rekstraraðila á tímabilinu 24. mars til 3. maí 2020, þ.e. á því tímabili sem rekstraraðila var skylt að loka samkomustað eða láta af starfsemi, en ekki rekstrarkostnaði sem fellur til utan þess tímabils. Af þessu leiðir að þegar rekstrarkostnaður fellur til jafnt og þétt á tímabili, svo sem við á um launakostnað og ýmsan annan kostnað, getur þurft að grípa til hlutföllunar við ákvörðun á fjárhæð lokunarstyrks, svo sem gert er ráð fyrir í lögskýringargögnum, sbr. hér að framan. Í þessu sambandi þykir mega hafa hliðsjón af meginreglu um tímaviðmiðun rekstrarútgjalda sem fram kemur í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Um það atriði eru ákvæði bæði í fyrri málslið 2. mgr. 29. gr. og 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. greindra laga nr. 90/2003 þar sem fram kemur að til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar teljist þau gjöld sem „eiga á árinu“ að ganga til öflunar, tryggingar eða viðhalds tekna. Regla þessi um tímaviðmiðun rekstrarútgjalda er í samræmi við meginreglu laga nr. 90/2003 um tímaviðmiðun fyrir tekjufærslum, sbr. 2. mgr. 59. gr. laganna, sem er svohljóðandi: „Tekjur skal að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða.“

Með vísan til framanritaðs verður ekki fallist á með kæranda að við ákvörðun á fjárhæð lokunarstyrks félagsins vegna tímabilsins 24. mars til 3. maí skuli tekið mið af heildarfjárhæð launa og launatengdra gjalda sem komu til greiðslu af hendi félagsins 31. mars 2020, enda tilheyrir einungis hluti þess kostnaðar því tímabili sem um ræðir, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2020. Samkvæmt því og þar sem ekki er neinn tölulegur ágreiningur í málinu um skiptingu umrædds launakostnaðar, að því er séð verður, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja