Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lokunarstyrkur

Úrskurður nr. 29/2021

Lög nr. 38/2020, 4. gr. 1. tölul.   Auglýsing nr. 243/2020, 5. gr.  

Í máli þessu vegna lokunarstyrks var ekki talið að kæranda, sem var einkahlutafélag um rekstur tannsmíðastofu, hefði verið skylt að láta af þeirri starfsemi um vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Var ekki fallist á með kæranda að starfsemi tannsmiða yrði lögð að jöfnu við þjónustu tannlækna með tilliti til smithættu, enda krefðist starfsemi hinna fyrrnefndu engra slíkra samskipta við sjúklinga sem fælu í sér viðvarandi hættu á snertingu eða mikilli nálægð á sama hátt og við ætti um vinnu í munnholi sjúklings.

Ár 2021, miðvikudaginn 3. mars, er tekið fyrir mál nr. 197/2020; kæra A ehf., dags. 7. desember 2020, vegna ákvörðunar um lokunarstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 7. desember 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 7. september 2020, að hafna umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ákvörðun ríkisskattstjóra, sem tekin var í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 24. ágúst 2020, og svarbréf kæranda, dags. sama dag, var byggð á því að starfsemi kæranda, sem fólgin væri í rekstri tannsmíðastofu, félli ekki undir ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, þ.e. kæranda hefði ekki verið skylt að láta af starfseminni samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Kom fram að ekki yrði annað ráðið en að hjá tannsmiðum væru ekki til staðar bein tengsl við viðskiptavini. Hægt hefði því verið að viðhalda starfsemi í einhverri mynd og aðlaga hertum sóttvörnum.

Þess er að geta að með tölvupósti til ríkisskattstjóra 22. október 2020 fór kærandi fram á endurupptöku málsins, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í erindi þessu kom fram að skýringar kæranda í tilefni af bréfi ríkisskattstjóra, dags. 24. ágúst 2020, mætti skilja svo að tannsmiðir gætu ekki sinnt verkefnum, þ.e. smíðað tennur, nema að tannlæknum viðstöddum sem væri fjarri lagi. Starf tannsmiða krefðist snertingar og mikillar nálægðar við viðskiptavini, enda þyrftu tannsmiðir að hitta viðskiptavinina vegna mótunar, litaprófunar og mátunar. Yrði því að telja að tilefni væri til endurupptöku. Af hálfu ríkisskattstjóra var beiðni kæranda um endurupptöku hafnað með bréfi, dags. 3. nóvember 2020. Í bréfinu vísaði ríkisskattstjóri til þess að í 4. gr. laga nr. 38/2020 kæmi fram að rekstraraðili þyrfti að uppfylla öll skilyrði sem sett væru til að eiga rétt á lokunarstyrk. Þar af leiðandi kæmi ekki til álita rekstraraðili sem ekki uppfyllti öll skilyrðin. Breytti engu þar um að rekstrarforsendur hefðu brostið tímabundið. Þá kom fram að ekki hefði verið sýnt fram á það með innsendum gögnum að um bein samskipti væri að ræða milli tannsmiða og viðskiptavina þeirra nema í undantekningartilvikum. Verkefni tannsmiða bærust þeim beint frá tannlæknum sem sæju aðallega um að taka tanngerfi, mót o.fl. úr munnum viðskiptavina. Mætti í því sambandi vísa til 8. og 11. gr. reglugerðar nr. 1123/2012, um menntun, réttindi og skyldur tannsmiða og klínískra tannsmiða til að hljóta starfsleyfi, þar sem fram kæmi m.a. að tannsmiðir mættu ekki vinna í munnholi. Yrði því ekki séð að tannsmiðum hefði verið skylt að loka starfsstöð sinni heldur hefði þeim verið unnt að halda áfram vinnu við verkefni sem verið hefðu til staðar þegar til lokunar kom, þótt ný verkefni hefðu ekki bæst við frá tannlæknum á greindu tímabili. Slík takmörkun á hluta starfseminnar skapaði ekki rétt til styrkveitingar samkvæmt lögum nr. 38/2020.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess aðallega krafist að hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og að staðfest verði að kærandi uppfylli öll skilyrði þess að eiga rétt á lokunarstyrk. Til vara er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni er stuttlega greint frá málavöxtum og forsendum ríkisskattstjóra. Er tekið fram að ríkisskattstjóri hafi dregið óréttmætar ályktanir um eðli starfa tannsmiða, enda komi fram í 6. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 1123/2012 að klínískum tannsmið sé heimilt að starfa við töku móta, mátun, smíði og viðhald heilgóma og tannparta, sbr. þó 11. gr. nefndrar reglugerðar þar sem fjallað sé um náið samstarf tannsmiða og tannlækna. Sé því ekki um að ræða algert bann við vinnu tannsmiða í munnholi. Vegna forsendna ríkisskattstjóra að öðru leyti er bent á að tannsmiðir sitji ekki uppi með lager af tönnum sem bíði ísetningar hjá tannlækni. Starfsstöð kæranda sé á tannlæknastofu og sé starf kæranda samofið störfum tannlækna að öllu leyti. Tannsmiður hitti viðskiptavini, taki mót, geri litaprófanir og máti tennur í munnholi viðskiptavina. Komi viðskiptavinur ekki til tannlæknis sé tannsmiður í mesta lagi með verkefni fyrir tvo eða þrjá daga. Sú afstaða ríkisskattstjóra að lokunin hafi aðeins takmarkað störf tannsmiðs að hluta sé því röng og kærandi hafi engar tekjur haft á því tímabili sem lokunin stóð þar sem ekki var unnt að sinna starfinu, enda óheimilt vegna snertingar. Til samanburðar hafi tannlæknar getað farið yfir röntgenmyndir og gert áætlanir. Kærandi telji því ljóst að félagið uppfylli skilyrði laga nr. 38/2020 fyrir lokunarstyrk og sé þess því krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi.

II.

Með bréfi til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 8. desember 2020, óskaði yfirskattanefnd eftir umsögn ráðuneytisins um kæruefni málsins, sbr. 8. gr. laga nr. 38/2020. Af því tilefni hefur heilbrigðisráðuneytið lagt fram umsögn í málinu með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 26. janúar 2021. Í umsögninni kemur m.a. fram að með 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 hafi verið lokað á starfsemi sem krefjist snertingar eða mikillar nálægðar. Þau dæmi sem tiltekin séu í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020, séu öll sambærileg og eðlislík þeirri starfsemi sem tiltekin sé í auglýsingunni sjálfri. Fram kemur að meginviðmið ráðuneytisins við afmörkun á því hvort starfsemi þyrfti að loka sé hvort starfsemi sé þess eðlis að ekki væri mögulegt að halda henni áfram án snertingar eða nálægðar sem væri innan við tvo metra til lengri tíma. Starfsemi fjölmargra aðila hafi skerst vegna ákvæða auglýsingarinnar án þess að ráðuneytið hafi litið svo á að sú starfsemi félli undir 1. eða 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar. Í slíkum tilvikum hafi e.t.v. þurft að fækka fólki og/eða auka bil milli fólks með þeim afleiðingum að færri gátu stundað starfsemi í einu. Þar sem umrædd ákvæði auglýsingarinnar hafi falið í sér skerðingu á atvinnufrelsi hafi þau ekki verið túlkuð rýmra en leiði af orðalagi þeirra og önnur starfsemi en sú, sem talin sé upp, ekki verið talin falla undir nema að teljast að öllu leyti sambærileg. Að mati ráðuneytisins verði vart talið að starfsemi tannsmiða sé þannig í eðli sínu að hún feli í sér hættu á snertingu milli heilbrigðisstarfsmanns og sjúklings þannig að hún falli undir þá starfsemi sem við sé átt í 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 eða sé öldungis sambærileg við slíka starfsemi. Verði starfsemi tannsmiða ekki lögð að jöfnu við starfsemi tannlækna, sjúkraþjálfara, sjúkranuddara og fleiri sambærilegra stétta með tilliti til hættu á snertingu eða nálægð. Aftur á móti sé hægt að fallast á að starfsemi klínískra tannsmiða geti fallið undir ákvæðið, enda hafi klínískir tannsmiðir heimild til að starfa við töku móta, mátun, smíði og viðhald heilgóma og tannparta, sbr. ákvæði 6. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 1123/2012. Ekki liggi fyrir hvort kærandi sé með starfsleyfi til að starfa sem klínískur tannsmiður samkvæmt reglugerðinni og engin gögn hafi fylgt kæru til sönnunar í því efni. Hafa skuli í huga að samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar skuli tannsmiðir með sveinspróf, meistararéttindi og klínískir tannsmiðir sem öðlast hafi starfsréttindi fyrir gildistöku hennar halda þeim réttindum óskertum. Séu þeir því ekki tilgreindir í starfsleyfaskrá embættis landlæknis. Jafnframt sé bent á að lokun ýmissar starfsemi og þjónustu hafi leitt til þess að önnur starfsemi hafi þurft að hagræða eða breyta rekstri sínum eða jafnvel loka á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020. Með vísan til framanritaðs sé það mat heilbrigðisráðuneytisins að starfsemi tannsmiða uppfylli ekki skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 um að hafa verið skylt að láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, en að starfsemi klínískra tannsmiða uppfylli skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, enda séu þeir í snertingu við sjúklinga.

III.

Með bréfi, dags. 19. janúar 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna hennar. Kemur fram að vegna skýringa kæranda um nána samvinnu tannsmiða og tannlækna þyki rétt að árétta að starfsemi tannsmiða krefjist ekki beinna samskipta við viðskiptavini og sé því ekki meðal þeirrar starfsemi sem gert hafi verið að stöðva vegna kórónuveirufaraldurs, sbr. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar heilbrigðisráðherra nr. 243/2020, né falli starfsemin undir þá þjónustu sem krafist sé eða hætta sé á mikilli snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar. Samskipti tannsmiða séu fyrst og fremst við tannlækna, eins og fram komi í málsögngum, en ekki beint við viðskiptavini. Ljóst sé af lögum nr. 38/2020 að starfsemi og þjónusta sem ekki hafi beinlínis verið óheimil og gert að loka, sbr. framanritað, falli hér ekki undir þrátt fyrir nána samvinnu við aðrar starfsstéttir í starfsemi sem gert hafi verið að loka eða sæta takmörkunum. Séu þessi sjónarmið einnig reifuð í greinargerð með 4. gr. í frumvarpi til laga nr. 38/2020.

IV.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 15. febrúar 2021, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögnum heilbrigðisráðuneytisins og ríkisskattstjóra. Í bréfinu er ítrekað að það mat ríkisskattstjóra og ráðuneytisins, að starfsemi tannsmiða sé fyrst og fremst fólgið í samvinnu við tannlækna og krefjist ekki samskipta við viðskiptavini, sé rangt. Er tekið fram að kærandi (sic) sé tannsmiður, en þó ekki klínískur tannsmiður. Enginn klínískur tannsmiður sé starfandi á landinu í dag, en slíkir tannsmiðir starfi aðallega með tannlausum viðskiptavinum. Er vísað til 8. gr. reglugerðar nr. 1123/2012 og tekið fram að tannsmiðir starfi ekki í munnholi að því leyti að þeir sjái ekki um uppstillingu tanna, frágang og skil í munnholi á þeim tanngerðum sem þeir smíði. Mikilvægasta atriðið í ferli tannsmiðs sé litaprófun og þá sérstaklega á framtannasvæði, en þá komi viðskiptavinur í litaprufu þar sem notuð sé sérstök myndavél sem þurfi að stilla upp fyrir í munnholi. Beri tannsmiður þá mismunandi litaprufur upp við tennur með sérstöku ljósi. Litaprófun krefjist þannig samskipta við sjúkling og sannarlega sé hætta á snertingu vegna nándar. Starfsemi tannsmiða megi þannig að mörgu leyti leggja að jöfnu við starfsemi klínískra tannsmiða. Þá beri að líta til þess að önnur starfsemi, þar sem unnið sé í og við andlit viðskiptavinar, sé talin falla undir 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, t.d. snyrtifræði. Áréttað sé að ákvæðið feli ekki í sér tæmandi talningu á starfsemi sem skýlaust sé krafist lokunar á, enda sé eðli máls samkvæmt ekki hægt að koma slíku við í lagatexta. Er vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 4/2021 í þessu sambandi.

V.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 38/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra lokunarstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laganna á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fimm töluliðum í lagagreininni. Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 er skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að rekstraraðila hafi verið gert skylt að loka samkomustað samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.

Í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 eru ákvæði um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innanlands. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar ákveður ráðherra að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns. Hinn 6. mars 2020 lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi almannavarna hér á landi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Hinn 13. sama mánaðar ákvað heilbrigðisráðherra á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga að takmarka samkomur til að hægja á útbreiðslu veirunnar með auglýsingu nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Hinn 22. mars ákvað heilbrigðisráðherra síðan að takmarka samkomur enn frekar en áður með auglýsingu nr. 243/2020. Meðal þess sem hertar aðgerðir samkvæmt auglýsingunni fólu í sér var bann við samkomum þar sem fleiri en 20 manns komu saman og lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu frá 24. mars til og með 12. apríl 2020, sbr. m.a. 2. gr. og 5. gr. hennar. Ákvæði 5. gr. auglýsingarinnar um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu eru svohljóðandi:

„Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað á gildistíma auglýsingar þessarar. Þá skulu aðrir veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar ekki hafa opið lengur en til kl. 23:00 alla daga vikunnar.

Starfsemi og þjónusta sem krefst eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar er óheimil á gildistíma auglýsingar þessarar, svo sem allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa og önnur sambærileg starfsemi. Þetta á einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér, t.d. skíðalyftur.“

Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020, sbr. þskj. 1254 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, er vikið að framangreindu ákvæði 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 og tekið fram að það sé almennt orðað og beri ekki með sér tæmandi talningu á þeirri starfsemi sem falli undir skýlausa kröfu um lokun eða algera skerðingu á möguleikum aðila til að halda úti starfsemi eða veita þjónustu. Við mat á því hvað teljist sambærileg starfsemi samkvæmt 2. mgr. 5. gr. verði að horfa til þess hvort eðli starfseminnar krefjist eða feli í sér hættu á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar. Þar undir falli starfsemi ýmissa heilbrigðisstétta, svo sem tannlækna, hvers kyns líkams- og snyrtimeðferðir, til dæmis húðflúrunarstofur, hand- og fótaaðgerðir, sjúkraþjálfun og sjúkranudd. Meðferðir á dýrum, svo sem hundasnyrting, falli þar einnig undir. Þá er þess getið í athugasemdum að heilbrigðisráðuneytið hafi haft umsjón með fyrirspurnum um túlkun á inntaki og gildissviði auglýsingarinnar. Með hliðsjón af því sé í 8. gr. frumvarpsins lagt til að Skatturinn og yfirskattanefnd geti leitað umsagnar ráðherra sem fari með málefni sóttvarna um vafaatriði sem lúti að skilyrði 1. tölul. 4. gr., sbr. nú 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laga nr. 38/2020.

Eins og fram kemur í umsögn heilbrigðisráðuneytisins í máli þessu verða laga- og reglugerðarákvæði, sem fela í sér íþyngjandi skerðingar á atvinnufrelsi, jafnan ekki skýrð rýmkandi lögskýringu. Verður að telja að þetta eigi almennt við um túlkun fyrrgreindra ákvæða auglýsingar nr. 243/2020 um lokun samkomustaða og starfsemi vegna smithættu. Á hinn bóginn veitir ákvæði 2. mgr. 5. gr. nefndrar auglýsingar nokkurt svigrúm við túlkun að því leyti að ekki er um tæmandi talningu á óheimilli starfsemi að ræða í ákvæðinu þar sem önnur starfsemi, sem telja má sambærilega þeirri starfsemi sem þar er sérstaklega talin með tilliti til smithættu, er einnig óheimil á gildistíma auglýsingarinnar. Þá er sömuleiðis ljóst af orðalagi ákvæðisins að nægilegt er að starfsemi fylgi hætta á snertingu eða mikilli nálægð einstaklinga til að skylt sé að láta af henni. Við skýringu 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 í einstökum tilvikum þykir einnig rétt, m.a. í ljósi fyrrgreindra athugasemda í lögskýringargögnum, að hafa hliðsjón af því hvernig háttað sé möguleikum rekstraraðila til að laga rekstur sinn tímabundið að fjölda- og nálægðartakmörkunum samkvæmt 3. og 4. gr. auglýsingarinnar.

Kærandi í máli þessu rekur tannsmíðastofu. Fram er komið að tannsmiðir teljast til löggiltra heilbrigðisstétta samkvæmt lögum nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga. Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er bent á að þar sem tannlæknum hafi verið gert að hætta starfsemi sinni á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020 hafi starfsemi kæranda og annarra tannsmíðaverkstæða verið sjálfhætt þar sem öll verkefni þeirra við tannsmíði stafi frá tannlæknum og sjúklingum þeirra. Þá telur kærandi sömu rök eiga við um tannsmiði og tannlækna með tilliti til smithættu. Tekið skal fram að óumdeilt er í málinu að tannlæknum hafi verið skylt að láta af þjónustu sinni á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020, sbr. umsögn heilbrigðisráðuneytisins, dags. 26. október 2020, þar sem þetta kemur fram, og fyrrgreindar athugasemdir í frumvarpi til laga nr. 38/2020. Þá er starfsemi klínískra tannsmiða talin falla undir ákvæði 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 í umsögn heilbrigðisráðuneytisins á þeim forsendum að klínískir tannsmiðir hafi heimild til að vinna í munnholi sjúklinga samkvæmt 6. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 1123/2012, um menntun, réttindi og skyldur tannsmiða og klínískra tannsmiða til að hljóta starfsleyfi. Er bent á í umsögninni að tannsmiðir, sem ekki hafi starfsleyfi sem klínískir tannsmiðir, hafi ekki slíka heimild, sbr. 5. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Ganga verður út frá því að á tannsmíðastofu kæranda starfi enginn klínískur tannsmiður, sbr. bréf kæranda til yfirskattanefndar, dags. 15. febrúar 2021.

Sú starfsemi, sem sérstaklega er tilgreind í 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, þ.e. íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa og nuddstofa, er þess eðlis að henni verður trauðla sinnt án snertingar og/eða mikillar nálægðar einstaklinga, svo sem við á um ýmsa heilbrigðisþjónustu sem sérstaklega er undanþegin gildissviði auglýsingarinnar í 7. gr. hennar. Ekki verður fallist á með kæranda að starfsemi tannsmiða verði lögð að jöfnu við þjónustu tannlækna með tilliti til smithættu, enda krefst starfsemi hinna fyrrnefndu engra slíkra samskipta við sjúklinga sem fela í sér viðvarandi hættu á snertingu eða mikilli nálægð á sama hátt og við á um vinnu í munnholi sjúklings. Getur ekki leitt til annarrar niðurstöðu í þessu sambandi þótt skammvinnri myndatöku af sjúklingi vegna litaprófunar, eins og henni er lýst í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 15. febrúar 2021, sé í einhverjum tilvikum sinnt af tannsmiði á starfsstöð hans. Verður því ekki talið að starfsemi kæranda verði að þessu leyti lögð að jöfnu við þá starfsemi sem talin er í 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Eftir lögum nr. 38/2020 er afdráttarlaust skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að aðila hafi verið gert að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 1. eða 2. mgr. 5. gr. nefndrar auglýsingar, sbr. 1. tölul. 4. gr. laganna. Í lögunum eru ekki gerðar neinar undantekningar frá þessu skilyrði. Þótt engin ástæða sé til að draga í efa skýringar kæranda um áhrif lokunar tannlæknastofa á starfsemi félagsins á gildistíma auglýsingarinnar verður ekki litið framhjá því að sú aðstaða var ekki afleiðing þess að kæranda hafi verið skylt að láta af starfseminni eftir fyrrgreindum ákvæðum 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Verður því ekki talið að skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 séu uppfyllt í tilviki kæranda. Samkvæmt því og þar sem annarri lagaheimild er ekki til að dreifa í þessu sambandi verður að hafna kröfu kæranda í málinu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja