Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lokunarstyrkur

Úrskurður nr. 31/2021

Lög nr. 38/2020, 4. gr. 1. tölul.   Auglýsing nr. 243/2020, 5. gr.  

Í máli þessu var deilt um hvort kærandi, sem var einkahlutafélag með leyfi til reksturs veitinga- og skemmtistaðar, ætti rétt á lokunarstyrk vegna lokunar um vorið 2020. Hafnaði ríkisskattstjóri umsókn kæranda á þeim forsendum að fyrst og fremst væri um að ræða starfsemi veitingastaðar og útleigu veislusala. Í úrskurði yfirskattanefndar var m.a. vísað til þess að samkvæmt lögum nr. 85/2007 gæti veitingastaður, þar sem framreiddur væri matur til neyslu á staðnum, jafnframt talist skemmtistaður í skilningi laganna ef einnig væri boðið upp á reglubundna skemmtistarfsemi, svo sem tónlist og dans. Var starfsemi kæranda í eðli sínu talin vera af þessum toga, þ.e. blönduð starfsemi veitinga- og skemmtistaðar, og tekið fram að húsnæði félagsins væri sérútbúið til skemmtanahalds að ýmsu leyti. Var ekki talið girða fyrir rétt kæranda til lokunarstyrks þótt veitingar kynnu að vera fyrirferðarmeiri í starfsemi félagsins en skemmtanahald. Var krafa kæranda tekin til greina.

Ár 2021, miðvikudaginn 3. mars, er tekið fyrir mál nr. 167/2020; kæra A ehf., dags. 28. október 2020, vegna ákvörðunar um lokunarstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 28. október 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkiskattstjóra, dags. 7. september 2020, að hafna umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ákvörðun ríkisskattstjóra, sem tekin var í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 16. júlí 2020, og svarbréf kæranda, dags. 25. sama mánaðar, var byggð á því að starfsemi kæranda, sem fólgin væri í rekstri veitingastaðar og útleigu á veislusölum, félli ekki undir ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, þ.e. kæranda hefði ekki verið skylt að láta af starfseminni samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Kom fram að starfsemi kæranda félli undir 3. gr., 4. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, þ.e. um væri að ræða starfsemi sem hefði sætt fjölda- og nálægðartakmörkunum eða takmörkunum á opnunartíma. Hægt hefði því verið að viðhalda starfsemi í einhverri mynd og aðlaga hertum sóttvörnum. Var tekið fram að öðrum veitingastöðum en skemmtistöðum og krám hefði ekki verið gert að hætta starfsemi á gildistíma auglýsingarinnar, þótt þeim hefði eftir atvikum verið gert að sæta skerðingu á opnunartíma.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir ríkisskattstjóra að samþykkja umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt lögum nr. 38/2020. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði. Í kærunni er rakið að það sé rangt mat hjá ríkisskattstjóra að kærandi starfræki fyrst og fremst veitingastað ásamt salaútleigu. Hið rétta sé að starfsemi kæranda felist fyrst og fremst í skemmtanahaldi fyrir fyrirtæki, félög og einstaklinga, þar sem 100 til 800 manns komi saman af ýmsum tilefnum. Húsnæði kæranda sé sérhannað fyrir skemmtanir, viðburði og mannfagnaði þar sem gestir komi saman til að njóta matar og drykkjar, hlusta á ræður, gamanmál, tónlist og önnur skemmtiatriði. Kærandi uppfylli skilyrði laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, og reglugerðar nr. 1277/2016, um sama efni, og sé því með leyfi til reksturs veitingastaðar/skemmtistaðar samkvæmt flokki II í reglugerð þessari. Eftir birtingu auglýsingar nr. 243/2020 hafi öllum árshátíðum og öðrum viðburðum verið aflýst og sé tekjutap kæranda vegna þessa á bilinu 120-130 milljónir króna. Kærandi leigi aldrei út sal án þjónustu, eins og t.d. íþróttafélög og listasöfn geri, þar sem sá aðili sem standi fyrir viðkomandi viðburði fái tækifærisleyfi, enda uppfylli húsakynni slíkra aðila yfirleitt ekki kröfur um veitinga- og skemmtanaleyfi. Kærandi telji að framangreint beri með sér að félagið falli ekki í flokk veitingahúsa sem hafi verið unnt að halda opnu á gildistíma auglýsingarinnar og þjónusta allt að 20 gesti í einu. Af framangreindri lýsingu á starfsemi kæranda sé ljóst að kærandi reki ekki veitingahús sem geti viðhaldið starfsemi í einhverri mynd og því hafi kærandi orðið að loka. Það hefði falið í sér lögbrot eða hlutdeildarbrot á sóttvarnarreglum hefði kærandi fallist á að halda árshátíð ef svo ólíklega hefði viljað til að eitthvert fyrirtæki hefði pantað slíka hátíð á gildistíma auglýsingarinnar.

Í kærunni kemur fram að sá misskilningur virðist hafa verið uppi hjá ríkisskattstjóra að atvinnugreinanúmerið 56.10.0 samkvæmt íslenskri atvinnugreinaflokkun beri með sér eða bendi til þess að kærandi starfræki veitingahús en ekki skemmtistað og að flokka beri félagið sem veitingahús. Nánari athugun embættisins hafi leitt í ljós að ekki væri hægt að gefa kæranda annað atvinnugreinanúmer þar sem veitingastaðir og skemmtistaðir séu skráðir undir sama númeri (56.10.0). Kærandi byggi á því að ríkiskattstjóri hafi ekki kannað sem skyldi hvers konar starfsemi kærandi reki, enda hefði niðurstaðan þá orðið önnur og réttari frá sjónarhóli kæranda og í samræmi við efni og markmið laga nr. 38/2020.

Þá kemur fram í kærunni að verði talið að starfsemi kæranda flokkist ekki undir skemmtistað sé byggt á því að kæranda hafi verið óheimilt samkvæmt auglýsingu nr. 243/2020 að standa fyrir slíkum viðburðum sem séu meginuppistaða í starfseminni og meginuppspretta tekna kæranda, þ.e. árshátíðum og öðrum skemmtunum þar sem fjöldi manns komi saman til að skemmta sér við mat og drykk, dans og aðra skemmtun. Á slíkum samkomum sé mikil hætta á snertingu milli fólks og mikilli nálægð. Sé vakin athygli á því að talning á óheimilli starfsemi og þjónustu í 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar sé ekki tæmandi og verði ekki talið að kærandi reki skemmtistað í skilningi 1. mgr. 5. gr. sé ljóst að starfsemi og þjónusta kæranda krefjist og skapi hættu á snertingu milli fólks og mikilli nálægð og hafi af þeim sökum verið óheimil samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins. Þá byggi kærandi á því að í hinni kærðu ákvörðun felist mismunun gagnvart kæranda sem brjóti í bága við meginreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stjórnarskrár sem banni ómálefnalega mismunun. Krár og aðrir skemmtistaðir, sem hafi verið gert að skella í lás vegna smithættu, uppfylli að mati ríkisskattstjóra skilyrði fyrir lokunarstyrkjum. Útfrá smithættu sé þó enginn eðlismunur á starfsemi slíkra staða og starfsemi kæranda. Túlka beri skilyrði fyrir veitingu lokunarstyrkja vítt en ekki þröngt í samræmi við markmið sóttvarnarráðstafana og rúmist slík túlkun innan hins víðtæka hugtaks „samkomustaður“ sem sé notað í 4. gr. laga nr. 38/2020. Leiki vafi á því hvort tiltekin starfsemi teljist skemmtistaður og/eða staður þar sem nálægð og snerting skapi smithættu, t.d. vegna þess að vín sé haft um hönd, túlki sóttvarnaryfirvöld bannið við samkomum vítt en ekki þröngt.

II.

Með bréfi til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 29. október 2020, óskaði yfirskattanefnd eftir umsögn ráðuneytisins um kæruefni málsins, sbr. 8. gr. laga nr. 38/2020. Af því tilefni hefur heilbrigðisráðuneytið lagt fram umsögn í málinu með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 11. desember 2020. Í umsögninni kemur m.a. fram að með 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 hafi verið kveðið á um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu. Í umsögninni eru reifaðar athugasemdir í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020. Er tekið fram að þar sem fyrrgreind ákvæði auglýsingar nr. 243/2020 hafi falið í sér skerðingu á atvinnufrelsi hafi þau verið ekki verið túlkuð rýmra en leiði af orðalagi þeirra og önnur starfsemi en sú, sem talin sé upp, ekki verið talin falla undir nema að teljast að öllu leyti sambærileg. Að mati ráðuneytisins verði ekki talið að starfsemi kæranda flokkist undir starfsemi skemmtistaðar samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 heldur sem starfsemi veitingastaðar sem bundin hafi verið þar til gerðum takmörkunum samkvæmt 3. gr., 4. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar. Er bent á að skemmtistaðir séu skilgreindir í b-lið 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, sem sett sé á grundvelli laga nr. 85/2007, en þar komi m.a. fram að veitingastaðir séu með reglubundna skemmtistarfsemi og fjölbreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Undir þá skilgreiningu falli einnig staðir þar sem aðaláhersla sé lögð á áfengisveitingar, dans gesta, tónlist og langan afgreiðslutíma en engar eða takmarkaðar veitingar í mat. Í gögnum málsins sé að finna reikninga frá kæranda og af þeim verði ekki um villst að stærsti útgjaldaliður hvers reiknings sé vegna framreidds matar. Taki ráðuneytið undir með ríkisskattstjóra að við mat á því, hvernig starfsemi rekstraraðili reki, sé nærtækast að líta til þeirra upplýsinga sem komi fram á heimasíðu viðkomandi. Þar komi m.a. fram að kærandi veiti persónulega þjónustu og veitingamennsku.

Varðandi varakröfu kæranda um að starfsemi félagsins falli undir 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 vegna smithættu er í umsögn ráðuneytisins bent á að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 38/2020 sé fjallað um það hvaða starfsemi geti talist sambærileg þeirri starfsemi sem vísað sé til í 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar. Við slíkt mat beri nauðsyn til að horfa til þess hvort eðli starfsemi krefjist eða feli í sér hættu á snertingu milli fólks eða mikilli nálægð. Dæmatalning ákvæðisins í þessu sambandi sé í samræmi við túlkun og framkvæmd heilbrigðisráðuneytisins við afgreiðslu mála, þ.e. ráðuneytið hafi tekið þá afstöðu að slíkri starfsemi bæri að loka. Að mati ráðuneytisins verði ekki talið að starfsemi kæranda sé þannig í eðli sínu að hún krefjist snertingar eða feli í sér hættu á snertingu milli fólks þannig að hún falli undir þá starfsemi sem við sé átt í 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 eða sé öldungis sambærileg. Þannig hafi veitingastaðir verið sérstaklega taldir upp í dæmaskyni í 3. gr. auglýsingarinnar um starfsemi sem sé takmörkuð, en þó heimil að uppfylltum skilyrðum um fjölda- og nálægðartakmarkanir og takmarkanir á opnunartíma. Með vísan til framanritaðs sé það mat ráðuneytisins að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 um að félaginu væri skylt að láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020.

III.

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Kemur fram í umsögninni að ljóst sé af svörum kæranda í bréfi, dags. 25. júlí 2020, vegna fyrirspurnar ríkisskattstjóra að starfsemi kæranda og þjónusta sé ekki þess eðlis að hún hafi verið óheimil, sbr. 1. og 2 mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, heldur starfsemi af þeim toga sem sætt hafi fjöldatakmörkunum, sbr. 3. og 4. gr. auglýsingarinnar. Falli starfsemin því ekki undir skilyrði fyrir lokunarstyrk samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2020. Þá þyki upplýsingar á heimasíðu kæranda styðja þessa niðurstöðu, eins og fram komi í ákvörðun ríkisskattstjóra. Sömuleiðis telji ríkisskattstjóri framlögð gögn með kæru kæranda styðja framangreinda niðurstöðu, enda megi ráða af þeim að kærandi standi ekki fyrir eiginlegum rekstri skemmtistaðar sem rekinn sé sjálfstæður sem slíkur, heldur felist starfsemi kæranda í útleigu á sölum undir ýmsar hátíðir, svo sem ráðstefnur, fundi, árshátíðir, endurfundi og þess háttar, með mismikilli þjónustu í mat, drykk og leigu á skemmtikröftum eftir því tilefni sem henti leigutaka hverju sinni. Slíkri þjónustu hafi ekki verið gert að loka en þurft að sæta fjöldatakmörkunum og falli því ekki undir fyrrgreind skilyrði.

IV.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 29. desember 2020, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni umsögnum heilbrigðisráðuneytisins og ríkisskattstjóra. Í bréfinu er áréttað að starfsemi kæranda falli undir hugtakið skemmtistaður í reglugerð nr. 1277/2016, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, enda hafi kærandi undanfarin ár haldið fjölda árshátíða og aðra viðburði með veislumat, framreiðslu, skemmtiatriðum, barþjónustu og dansi sem fastráðið starfsfólk kæranda annist. Í leyfisbréfi kæranda samkvæmt lögum nr. 85/2007 komi fram að leyfið taki til reksturs veitingastaðar/skemmtistaðar í flokki II. Ríkisskattstjóri virðist gefa sér að skilyrði þess, að skemmtistaður geti fallið undir hugtakið skemmtistaður í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, sé að um sé að ræða „rekstur sjálfstæðs skemmtistaðar sem slíks“. Þetta eigi sér enga lagastoð, enda komi hvergi fram í lögum eða reglugerðum að réttindi eða skyldur í tengslum við skemmtanahald séu háð því að um „rekstur sjálfstæðs skemmtistaðar sem slíks“ sé að ræða. Með þessari túlkun sinni sé ríkisskattstjóri kominn út fyrir markmið og efni 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020. Kærandi byggi á því að ríkisskattstjóra beri að túlka 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 með hliðsjón af ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020. Þar sé vísað til samkomustaða sem verði að loka. Engum vafa sé undirorpið að kærandi sé rekstararaðili samkomustaðar í skilningi laga nr. 38/2020 fyrir skemmtanahald með tilheyrandi smithættu. Hafi ríkiskattstjóri verið í vafa um hvort starfsemi kæranda gæti fallið undir hugtakið „skemmtistaður“ í auglýsingunni hafi embættinu borið í samræmi við almennar lögskýringarreglur að horfa til tilgangs og markmiðs laga nr. 38/2020 og leggja mat á hvort mannfögnuðir, fundir og viðburðir sem fari fram hjá kæranda geri húsakynni félagsins að samkomustað fyrir skemmtanahald. Efni auglýsingar nr. 243/2020 feli bæði de lege og de facto í sér algjört bann við slíkri starfsemi sem kærandi hafi með höndum. Að öðru leyti sé vísað til áður fram kominna sjónarmiða kæranda.

Þá hefur kærandi með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 18. janúar 2021, komið á framfæri viðbótarupplýsingum í málinu. Í bréfi þessu er rakið að samkvæmt meðfylgjandi vottorði úr fyrirtækjaskrá, útgefnu 14. janúar 2021, sé kærandi nú skráður í tveimur atvinnugreinaflokkum, þ.e. annars vegar 56.10.0 (veitingastaðir) og hins vegar 56.30.0 (krár, kaffihús og dansstaðir). Skráningin sé nú í samræmi við starfsemi félagsins eins og hún hafi verið frá upphafi, sbr. og leyfisbréf sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Að mati kærandi hafi það ráðið miklu um neikvæða afstöðu ríkisskattstjóra til umsóknar félagsins um lokunarstyrk að félagið hafi verið skráð í atvinnugreinaflokk 56.10.0. Kærandi hafi lýst því nákvæmlega fyrir ríkisskattstjóra hvers eðlis starfsemi félagsins sé, þ.e. að um sé að ræða starfsemi sem falli undir starfsemi skemmtistaðar í skilningi auglýsingar nr. 243/2020. Ríkisskattstjóri hafi alfarið látið hjá líða að leiðbeina kæranda um að atvinnugreinaflokkun félagsins samræmdist ekki lýsingu á starfsemi þess. Við afgreiðslu umsókna kæranda hafi ríkisskattstjóri því vanrækt rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu sína og afleiðingin orðið sú að umsókn kæranda um lokunarstyrk hafi verið hafnað.

V.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 38/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra lokunarstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laganna á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fimm töluliðum í lagagreininni. Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 er skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að rekstraraðila hafi verið gert skylt að loka samkomustað samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.

Í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 eru ákvæði um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innanlands. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar ákveður ráðherra að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns. Hinn 6. mars 2020 lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi almannavarna hér á landi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Hinn 13. sama mánaðar ákvað heilbrigðisráðherra á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga að takmarka samkomur til að hægja á útbreiðslu veirunnar með auglýsingu nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Hinn 22. mars ákvað heilbrigðisráðherra síðan að takmarka samkomur enn frekar en áður með auglýsingu nr. 243/2020. Meðal þess sem hertar aðgerðir samkvæmt auglýsingunni fólu í sér var bann við samkomum þar sem fleiri en 20 manns komu saman og lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu frá 24. mars til og með 12. apríl 2020, sbr. m.a. 2. gr. og 5. gr. hennar. Ákvæði 5. gr. auglýsingarinnar um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu eru svohljóðandi:

„Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað á gildistíma auglýsingar þessarar. Þá skulu aðrir veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar ekki hafa opið lengur en til kl. 23:00 alla daga vikunnar.

Starfsemi og þjónusta sem krefst eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar er óheimil á gildistíma auglýsingar þessarar, svo sem allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa og önnur sambærileg starfsemi. Þetta á einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér, t.d. skíðalyftur.“

Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag sem hefur leyfi til reksturs veitinga- og skemmtistaðar í flokki II, sbr. leyfisbréf sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 28. febrúar 2019, sem fylgdi kæru til yfirskattanefndar í ljósriti. Af hálfu kæranda er því haldið fram að félagið uppfylli skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 fyrir greiðslu lokunarstyrks. Er sú afstaða byggð á því að kærandi hafi með höndum rekstur skemmtistaðar í skilningi 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 og félaginu því verið skylt að hafa lokað á gildistíma auglýsingarinnar. Í kærunni kemur fram að verði ekki fallist á þetta sé krafa kæranda byggð á því að félaginu hafi verið skylt að láta af starfsemi sinni á grundvelli 2. mgr. sömu greinar. Verður fyrst að leysa úr því hvort kærandi falli undir 1. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar þar sem félagið teljist reka skemmtistað.

Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020, sbr. þskj. 1254 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, er vikið að framangreindum ákvæðum 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Að því er snertir ákvæði 1. mgr. 5. gr. er tekið fram að skemmtistaðir og krár teljist til leyfisskyldra veitingastaða í skilningi 7. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. 4. gr. sömu laga. Skilgreiningu á skemmtistöðum og krám sé að finna í 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, um sama efni. Samkvæmt b-lið reglugerðarákvæðisins séu skemmtistaðir skilgreindir sem veitingastaðir með reglubundna skemmtistarfsemi og fjölbreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Undir þá skilgreiningu falli einnig staðir þar sem aðaláhersla sé lögð á áfengisveitingar, dans gesta, tónlist og langan afgreiðslutíma en engar eða takmarkaðar veitingar í mat. Samkvæmt f-lið ákvæðisins séu krár skilgreindar sem veitingastaðir með takmarkaða þjónustu og einfaldar eða engar veitingar í mat þar sem aðaláherslan sé lögð á áfengisveitingar og langan afgreiðslutíma. Öðrum veitingastöðum en skemmtistöðum og krám hafi ekki verið gert að hætta starfsemi á gildistíma auglýsingarinnar, þótt þeim hefði eftir atvikum verið gert að sæta skerðingu á opnunartíma, og eigi því ekki rétt á styrkjum samkvæmt frumvarpinu. Tekið er fram í athugasemdunum að skilgreining á starfsemi veitingastaða sé tilgreind í rekstrarleyfi viðkomandi staðar. Hafa beri í huga að á einum veitingastað geti verið starfrækt tvenns konar starfsemi á sama rekstrarleyfinu. Í dæmaskyni er nefnt að staður geti verið rekinn sem veitingahús á dagtíma en skemmtistaður á kvöldin. Við mat á því hvort slíkur veitingastaður eigi rétt á styrk beri að horfa til umfangs hvorrar starfsemi í rekstri staðarins.

Þess er að geta að í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laga nr. 38/2020, sbr. þskj. 1380, er sérstaklega vikið að rekstraraðilum sem hefðu með höndum fleiri en eina tegund starfsemi og þurft hefðu að loka eða stöðva hluta af starfsemi sinni en ekki allri. Kemur fram að meiri hluti nefndarinnar telji þá túlkun sem fram komi í greinargerð með frumvarpinu, þess efnis að í slíkum tilvikum beri að líta til umfangs hvorrar eða hverrar starfsemi fyrir sig við mat á því hvort rekstraraðili eigi rétt á lokunarstyrk, ekki vera í samræmi við orðalag ákvæðis 1. tölul. 4. gr. frumvarpsins. Telji meiri hlutinn að ef gera ætti að skilyrði fyrir lokunarstyrk að starfsemi sem heyrði undir ákvæðið næmi ákveðnu hlutfalli af heildarrekstri rekstraraðila þyrfti slíkt skilyrði að vera skýrt afmarkað í lagatextanum. Þá telji meiri hlutinn ekki tilefni til að bæta slíku skilyrði við ákvæðið, m.a. í ljósi ákvæðis 2. tölul. 4. gr. frumvarpsins um að rekstraraðili eigi aðeins rétt á lokunarstyrk ef tekjur hans í apríl 2020 séu a.m.k. 75% lægri en í apríl 2019. Telji meiri hlutinn því ljóst að rekstraraðili geti átt rétt á lokunarstyrk ef hann stundi starfsemi sem falli undir gildissvið 1. tölul., óháð því hve stórum þætti af heildarrekstri aðila sú starfsemi standi undir, enda sé öðrum skilyrðum laganna fullnægt.

Í gögnum málsins og á heimasíðu kæranda kemur fram að félagið starfræki sérhannað 2500 fermetra veitingahús á tveimur hæðum. Er rakið í kæru til yfirskattanefndar að starfsemi kæranda sé fólgin í veitinga- og skemmtanahaldi fyrir stærri hópa við ýmiss tilefni, svo sem árshátíðir, fundi, afmæli, brúðkaup, fermingar, erfidrykkjur, jólahlaðborð, endurfundi skólafélaga, skóladansleiki og einkasamkvæmi. Á heimasíðu kæranda kemur fram að salur á efri hæð hússins geti tekið allt að 650 gesti í sitjandi borðhald með stóru dansgólfi, en minni salur taki 60-120 gesti og henti því fyrir minni viðburði. Er tekið fram að salir hússins séu ekki til útleigu án veitinga. Sýnishorn af matseðlum fyrir hin ýmsu tilefni er að finna á heimasíðunni. Þá kemur fram í kæru að báðir salir hússins séu með sviði og dansgólfi, fullkomnu hljóðkerfi og fjórum börum. Þjónusta kæranda sé jafnframt fólgin í dyravörslu og fatahengi og meðal starfsmanna kæranda séu bæði tæknimaður (hljóðmaður) og hljóðfæraleikari sem annist undirleik í borðhaldi. Þegar aðrir skemmtikraftar komi fram á viðburðum í húsinu séu þeir á vegum kæranda sem greiði þeim laun.

Ekki verður séð að út af fyrir sig sé deilt um framangreinda lýsingu á starfsemi kæranda, sem byggir á upplýsingum sem fram koma á heimasíðu félagsins og í kæru til yfirskattanefndar. Rétt er þó að taka fram, vegna athugasemda ríkisskattstjóra þess efnis að starfsemi kæranda sé m.a. fólgin í útleigu veislusala, sem gerðar eru athugasemdir við í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 29. desember 2020, að útleiga samkomusala í atvinnuskyni er ekki í verkahring félagsins samkvæmt samþykktum þess, en í samþykktum þessum er skráður tilgangur félagsins rekstur veitingahúss, veislu- og fundarþjónusta og skyldur rekstur, svo og eignarhald á fasteignum og rekstur þeirra. Þá blasir ekki við að rekstrarleyfi kæranda, sbr. fyrrgreint leyfisbréf sýslumanns, dags. 28. febrúar 2019, taki til útleigu samkomusala í atvinnuskyni, sbr. hér ákvæði 1. og 2. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2007, né verður ráðið um slíka útleigu af framlögðum reikningnum vegna útseldrar þjónustu á árinu 2019, en nokkrir slíkir eru meðal gagna málsins. Af hálfu ríkisskattstjóra er hins vegar byggt á því að fyrst og fremst sé um að ræða starfsemi veitingastaðar og útleigu á veislusölum og að kærandi „standi ekki fyrir eiginlegum rekstri skemmtistaðar sem rekinn er sjálfstæður sem slíkur“, eins og segir í umsögn embættisins til yfirskattanefndar, dags. 24. nóvember 2020. Undir þetta er tekið í umsögn heilbrigðisráðuneytisins, dags. 11. desember 2020, þar sem bent er á að reikningar kæranda vegna útseldrar þjónustu beri glöggt með sér að stærsti útgjaldaliður hverju sinni sé vegna framreidds matar.

Í 4. gr. fyrrnefndra laga nr. 85/2007 eru ákvæði um flokkun veitingastaða þar sem skemmtistaðir, þar sem fram fer reglubundið skemmtanahald, og samkomusalir sem leigðir eru í atvinnuskyni eru taldir til veitingastaða að því tilskildu að þar sé jafnframt framreiddur matur og/eða drykkur sem boðinn er viðskiptavinum í atvinnuskyni, til neyslu á staðnum, sbr. a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar. Til samræmis við þetta eru skemmtistaðir skilgreindir svo í b-lið 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, að skemmtistaður sé veitingastaður með reglubundna skemmtistarfsemi og fjölbreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Ljóst er því að veitingastaður þar sem framreiddur er matur til neyslu á staðnum getur jafnframt talist skemmtistaður í skilningi laga nr. 85/2007 sé einnig boðið upp á reglubundna skemmtistarfsemi, svo sem tónlist og dans. Í fyrrgreindum athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 38/2020, er og sérstaklega vikið að slíkum stöðum sem bera svipmót hvoru tveggja veitingahúsa og skemmtistaða, þ.e. veitingastaða þar sem jafnframt fer fram skemmtanahald, og í dæmaskyni nefndur staður sem rekinn sé sem veitingahús á dagtíma en skemmtistaður á kvöldin. Miðað við fram komnar upplýsingar um starfsemi kæranda, sem eins og fyrr greinir eru í meginatriðum ágreiningslausar, verður ekki annað séð en að starfsemin sé í eðli sínu af þeim toga sem hér greinir, þ.e. blönduð starfsemi veitinga- og skemmtistaðar. Þykir ekki skipta öllu máli í því sambandi þótt umfang skemmtanahalds á einstökum viðburðum á staðnum hljóti að ráðast af óskum viðskiptavina hverju sinni, svo sem bent er á í umsögn ríkisskattstjóra, enda verður engu að síður að telja að kærandi standi fyrir reglubundinni skemmtistarfsemi í venjulegum skilningi í húsnæði félagsins sem eins og fram er komið er sérútbúið til skemmtanahalds að ýmsu leyti. Liggur og fyrir að kærandi hefur leyfi til reksturs skemmtistaðar, sbr. leyfisbréf sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 28. febrúar 2019. Vegna þeirrar áherslu sem lögð er á vægi matarveitinga í starfseminni í umsögn heilbrigðisráðuneytisins í málinu er ástæða til að árétta fyrrgreind sjónarmið í lögskýringargögnum, þ.e. nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, varðandi margþætta starfsemi, sbr. hér að framan. Verður því ekki talið girða fyrir rétt veitinga- og skemmtistaðar til lokunarstyrks samkvæmt lögum nr. 38/2020 þótt veitingar kunni að vera fyrirferðarmeiri í starfseminni en skemmtanahald. Með vísan til framanritaðs og í ljósi fram kominna skýringa kæranda þykir ekki varhugavert að fallast á að skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 fyrir greiðslu lokunarstyrks séu uppfyllt í tilviki kæranda.

Af niðurstöðu ríkisskattstjóra í málinu leiddi að embættið hefur enga afstöðu tekið til umsóknar kæranda að öðru leyti, þar með talið með tilliti til fjárhæðar lokunarstyrks. Að þessu gættu og með vísan til sjónarmiða er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þykir rétt að senda ríkisskattstjóra kæruna til meðferðar og töku nýrrar ákvörðunar, sbr. 7. gr. laga nr. 38/2020.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um greiðslu málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Samkvæmt framlögðum gögnum, sbr. sölureikning Samkeppnisráðgjafar ehf., dags. 27. október 2020, nemur kostnaður kæranda af meðferð málsins 245.520 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna 12 klst. vinnu sérfræðings. Með hliðsjón af því og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði og starfsreglna yfirskattanefndar frá 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 190.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina. Kæran er send ríkisskattstjóra til meðferðar og afgreiðslu. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 190.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja