Úrskurður yfirskattanefndar

  • Duldar arðgreiðslur
  • Húsnæðishlunnindi
  • Skattmat

Úrskurður nr. 32/2021

Gjaldár 2015, 2016 og 2017

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 4. tölul. og C-liður 4. tölul., 11. gr. 1. og 2. mgr., 118. gr.   Skattmat fyrir tekjuárin 2014, 2015 og 2016.  

Kærandi var ásamt maka sínum eigandi alls hlutafjár í X ehf. og varamaður í stjórn félagsins. Með úrskurði yfirskattanefndar var sú ákvörðun ríkisskattstjóra, að færa kæranda til tekna skattskyld húsnæðishlunnindi vegna endurgjaldslausra afnota af fasteign í eigu X ehf. á árunum 2013-2016, látin standa óhögguð, en ákvörðunin byggði á því að um væri að ræða óheimila úthlutun af fjármunum X ehf. (dulinn arð) sem skattleggja bæri sem gjöf í hendi kæranda. Var talið rétt að byggja ákvörðun tekjufærslu við þær aðstæður sem í málinu greindi á þeim viðmiðunum sem kveðið væri á um í skattmatsreglum ríkisskattstjóra. Sjá úrskurði yfirskattanefndar nr. 84/2020 og 92/2020.

Ár 2021, miðvikudaginn 10. mars, er tekið fyrir mál nr. 189/2020; kæra B, dags. 24. nóvember 2020, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2015, 2016 og 2017. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 24. nóvember 2020, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 12. nóvember 2020, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2015, 2016 og 2017. Með úrskurði sínum færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna sem skattskylda gjöf 1.284.506 kr. gjaldárið 2015, 1.470.183 kr. gjaldárið 2016 og 1.138.792 kr. gjaldárið 2017 vegna afnota kæranda af íbúðarhúsnæði í eigu X ehf. að M. Um skattskyldu teknanna vísaði ríkisskattstjóri til 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 11. gr. laganna. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi.

II.

Kærandi og eiginmaður hennar færðu til eignar hlutabréf í X ehf. að nafnverði 500.000 kr. í skattframtölum sínum árin 2014, 2015, 2016 og 2017. Fram er komið að hlutabréfin áttu þau til helminga. Eiginmaður kæranda var stjórnarmaður X ehf., svo og var hann skráður framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi. Mun hann hafa verið eini starfsmaður þess. Kærandi var varamaður í stjórn.

Forsaga máls þessa er sú að ríkisskattstjóri hóf á árinu 2017 athugun á skattskilum X ehf. fyrir rekstrarárin 2013 til 2016 sem laut m.a. að rekstri og nýtingu íbúðarhúsnæðis í eigu félagsins að M. Fasteign þessa keypti X ehf. á árinu 2013 og fékk eignina afhenta 1. júlí 2013. Kærandi og eiginmaður hennar fluttu lögheimili sitt og barna sinna að M í júlí 2013. Þau keyptu M af X ehf. á árinu 2016, sbr. afsal, dags. 1. desember 2016.

Í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. m.a. fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra til X ehf. annars vegar og kæranda og eiginmanns hennar hins vegar, svo og svarbréf aðila, boðaði ríkisskattstjóri kæranda og eiginmanni hennar endurákvörðun opinberra gjalda þeirra gjaldárin 2014, 2015, 2016 og 2017, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 5. júlí 2019. Sama dag gerði ríkisskattstjóri X ehf. grein fyrir áformaðri endurákvörðun opinberra gjalda félagsins sömu gjaldár. Forsendur ríkisskattstjóra í bréfinu til kæranda og eiginmanns hennar voru þær að þau hefðu ekki reiknað sér húsnæðishlunnindi í samræmi við skattmatsreglur fyrir hlutaðeigandi ár vegna afnota sinna af íbúðarhúsnæði X ehf. að M. Tiltók ríkisskattstjóri í bréfinu það fasteignamatsverð, sem hann taldi bera að reikna húsnæðishlunnindin af, og fjárhæð hlunnindanna, sundurliðað eftir árum. Samtals nam fjárhæð húsnæðishlunninda umrædd ár samkvæmt bréfi ríkisskattstjóra 1.491.875 kr. tekjuárið 2013, 3.270.000 kr. tekjuárið 2014, 3.477.500 kr. tekjuárið 2015 og 3.320.625 kr. tekjuárið 2016. Til frádráttar þeim fjárhæðum tilgreindi ríkisskattstjóri greiðslur hjónanna á rekstrarkostnaði eignarinnar sem ríkisskattstjóri taldi nema 305.825 kr. á árinu 2013, 360.222 kr. á árinu 2014, 174.745 kr. á árinu 2015 og 697.000 kr. á árinu 2016. Að teknu tilliti til nefndra greiðsla næmu vantalin húsnæðishlunnindi hjónanna því samtals 1.186.050 kr. gjaldárið 2014, 2.909.778 kr. gjaldárið 2015, 3.302.755 kr. gjaldárið 2016 og 2.623.625 kr. gjaldárið 2017. Áformað væri að hækka framtaldar tekjur þeirra af þessum sökum um nefndar fjárhæðir að viðbættu 25% álagi á vantalda skattstofna, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Að fengnu andmælabréfi, dags. 30. september 2019, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 3. desember 2019, þó þannig að ríkisskattstjóri ákvað að reikna húsnæðishlunnindi af u.þ.b. 90% fasteignamatsverðs. Samkvæmt því og að teknu tilliti til frádráttar vegna greiðslu á rekstrarkostnaði eignarinnar urðu tekjufærð hlunnindi kæranda og eiginmanns hennar samtals 1.030.582 kr. gjaldárið 2014, 2.569.012 kr. gjaldárið 2015, 2.940.365 kr. gjaldárið 2016 og 2.277.583 kr. gjaldárið 2017, auk álags samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Með kæru, dags. 12. febrúar 2020, skulu kærandi og eiginmaður hennar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 3. desember 2019, til yfirskattanefndar með kröfu um ógildingu hans. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 92/2020, sem kveðinn var upp 18. júní 2020, var ákvörðun ríkisskattstjóra um húsnæðishlunnindi kæranda felld úr gildi. Ákvörðun um húsnæðishlunnindi eiginmanns kæranda var hins vegar látin standa óhögguð. Í forsendum úrskurðarins var m.a. vikið að því að bæði í boðunarbréfi og í úrskurði ríkisskattstjóra væri vísað til ákvæðis 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 hvað varðaði lagagrundvöll skattlagningar húsnæðishlunninda hjá kæranda. Umrætt ákvæði fjallaði um endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu sem innt væri af hendi fyrir annan aðila. Gæti ákvæðið því ekki verið grundvöllur að skattlagningu húsnæðishlunninda hjá kæranda, enda hefði ekki verið um að ræða neitt launasamband milli hennar og eiganda íbúðarhúsnæðisins. Yrði að telja að ákvörðun skattskylda hlunninda vegna afnota kæranda af íbúðarhúsnæði X ehf. hefði orðið að byggjast á ákvæðum 11. gr. laga nr. 90/2003, enda þætti einsýnt að tekjur hluthafa af slíkum afnotum eigna hluta- eða einkahlutafélags teldust til arðstekna í skilningi 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 11. gr. sömu laga. Samkvæmt því og þar sem hin kærða skattlagning hefði ekki verið byggð á öðrum grundvelli var fallist á ógildingu úrskurðar ríkisskattstjóra að því er kæranda varðaði. Í úrskurði yfirskattanefndar var tekið fram að með úrskurðinum væri ekki tekin nein efnisafstaða til ágreiningsefnisins umfram það sem hefði leitt af framangreindu.

III.

Með bréfi til kæranda, dags. 9. október 2020, boðaði ríkisskattstjóri endurákvörðun opinberra gjalda hennar gjaldárin 2015, 2016 og 2017, sbr. 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í forsendum ríkisskattstjóra var vikið að úrskurði hans frá 3. desember 2019 og rakið að yfirskattanefnd hefði með úrskurði nr. 92/2020 komist að þeirri niðurstöðu að þar sem kærandi hefði ekki verið starfsmaður félagsins gæti tilgreind niðurstaða ríkisskattstjóra ekki komið til greina í tilfelli kæranda á þeim lagagrundvelli sem hún byggði á. Ákvörðun húsnæðishlunninda eiginmanns kæranda hefði hins vegar verið staðfest. Ráðið yrði af úrskurði yfirskattanefndar að afnot kæranda gætu talist til skattskyldra hlunninda en að skattlagningin þyrfti að byggja á öðrum lagaheimildum en gert hefði verið í úrskurði ríkisskattstjóra.

Ríkisskattstjóri tók fram að í úrskurði embættisins, dags. 3. desember 2019, hefði ítarlega verið gerð grein fyrir afnotum kæranda og eiginmanns hennar af íbúðarhúsnæði X ehf. að M á árunum 2014, 2015 og 2016 og ákvörðun húsnæðishlunninda rökstudd með vísan til skattmatsreglna ríkisskattstjóra. Yfirskattanefnd hefði staðfest forsendur ríkisskattstjóra að því er varðaði afnot hjónanna af húsnæðinu og útreikning skattskyldra hlunninda eiginmanns kæranda. Allar sömu röksemdir um afnot og útreikning húsnæðishlunninda ættu við í tilviki kæranda. Að framangreindu virtu taldi ríkisskattstjóri ljóst að meta yrði endurgjaldslaus afnot kæranda af íbúðarhúsnæði X ehf. til verðs og þá sem ígildi úthlutunar á fjármunum félagsins. Þætti réttast að styðjast við skattmöt ríkisskattstjóra vegna hlutaðeigandi tekjuára í þessu sambandi. Jafnræðisreglur styddu það jafnframt að notast skyldi við skattmatsreglur ríkisskattstjóra í þessum tilgangi fremur en önnur viðmið. Væri vísað til umfjöllunar í úrskurði ríkisskattstjóra frá 3. desember 2019 um afnot kæranda af íbúðarhúsi X ehf. að M á árunum 2014, 2015 og 2016 og útreikning húsnæðishlunninda.

Ljóst væri að kærandi hefði ásamt eiginmanni sínum haft full og endurgjaldslaus afnot af íbúðarhúsnæði X ehf. í krafti eignar- og stjórnunaryfirráða yfir félagsins. Með hliðsjón af úrskurði yfirskattanefndar nr. 92/2020 yrði í skattalegu tilliti að líta á ráðstöfun X ehf. á fasteign félagsins til endurgjaldslausrar búsetu fyrir hluthafa þess sem úthlutun af fjármunum félagsins sem tengdist hlutafjáreign kæranda. Þá yrði almennt að skilgreina úthlutun fjármuna sem þessara sem tekjur af hlutareign kæranda í X ehf. á grundvelli 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Hin endurgjaldslausu afnot kæranda af fasteign félagsins, sem telja yrði henni til tekna, teldist ekki til lögmætrar úthlutunar af fjármunum félagsins, sbr. m.a. ákvæði 73. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og VII., XII., og XIII. kafla laganna. Væri því um óheimila úttekt að ræða samkvæmt lögunum. Að þessu virtu yrði að fara með tekjur kæranda eftir ákvæðum 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Væru tekjurnar því skattskyldar sem gjöf samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 þar sem kærandi hefði ekki verið starfsmaður félagsins. Samkvæmt þessu hefði ríkisskattstjóri í hyggju að ákvarða kæranda tekjur að fjárhæð 1.284.506 kr. gjaldárið 2015, 1.470.183 kr. gjaldárið 2016 og 1.138.792 kr. gjaldárið 2017 vegna endurgjaldslausra afnota hennar af íbúðarhúsnæði X ehf.

Ríkisskattstjóri veitti kæranda 20 daga frest frá póstlagningardegi bréfsins til að koma að andmælum. Athugasemdir voru ekki gerðar af hálfu kæranda og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 12. nóvember 2020, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd. Samkvæmt því hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um 1.284.506 kr. gjaldárið 2015, 1.470.183 kr. gjaldárið 2016 og 1.138.792 kr. gjaldárið 2017.

IV.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 12. nóvember 2020, verði felldur úr gildi. Er vísað til þess að í hinum kærða úrskurði sé lagt upp með þau ósannindi að kærandi og eiginmaður hennar hafi haft endurgjaldslaus afnot af íbúðarhúsnæðinu að M. Eins og ítrekað hafi komið fram hafi þau greitt rekstrarkostnað fyrir félagið. Það sé endurgjald þó ríkisskattstjóri geti gagnrýnt fjárhæðir. Húsnæðið hafi einnig verið haldið göllum, svo sem lekavandamálum, sem staðfestir hafi verið af opinberum aðilum og ríkisskattstjóri hafi viðurkennt varðandi söluverð eignarinnar. Húsnæðið hafi einnig verið nýtt af félaginu í atvinnurekstur.

Í kærunni er tekið fram að engan skatt megi leggja á nema með lögum svo sem mælt sé fyrir um í 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar auk þess sem vandséð sé að ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar sé uppfyllt. Ríkisskattstjóri hafi ekki tekið tillit til aðstæðna kæranda heldur hafi geðþótti ráðið för og er í kærunni vísað til texta í ritinu „Veikburða Hæstiréttur“ þessu til stuðnings.

V.

Með bréfi, dags. 15. desember 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda þyki ekki hafa komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.          

Með tölvupósti 17. desember 2020 hefur umboðsmaður kæranda áréttað fram komin rök í kæru.

VI.

Með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna 1.284.506 kr. í skattframtali árið 2015, 1.470.183 kr. í skattframtali árið 2016 og 1.138.792 kr. í skattframtali árið 2017 sem gjöf samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Byggði ríkisskattstjóri á því að virða bæri endurgjaldslaus afnot kæranda af M, íbúðarhúsnæði í eigu X ehf., einkahlutafélags í helmingseigu kæranda, sem tekjur af hlutareign kæranda í félaginu (duldar arðgreiðslur), sbr. upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, og skattleggja eftir þeim reglum sem fram koma í 2. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 telst til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, auk venjulegrar arðgreiðslu, „sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu“. Arður af hlutum og hlutabréfum telst til skattskyldra tekna, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 er tekið fram að úthlutun verðmæta samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar til hluthafa eða hlutareiganda sem jafnframt er starfsmaður félags, eða tengds félags, teljist vera laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. ef hún er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög. Ef úthlutun til annarra en starfsmanna sé óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða einkahlutafélög skuli skattleggja úthlutunina sem tekjur samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. Í dóma- og úrskurðaframkvæmd hefur lengi verið byggt á því að upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 taki til greiðslna hluta- og einkahlutafélaga sem fram fara í þágu hluthafa þannig að telja verði slíkar greiðslur sem tekjur af hlutareign hluthafans í félaginu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 13. febrúar 1997 í máli nr. 88/1996 (H 1997:602). Þá hefur verið lagt til grundvallar að kaupi hluthafi eign af félagi á óeðlilega lágu verði eða selji félaginu eign á óeðlilega háu verði geti komið til þess að virða beri slíkar ráðstafanir í skattalegu tilliti sem úthlutun af fjármunum félagsins þannig að tekjufærsla úthlutunar (dulins arðs) hjá viðkomandi hluthafa fari fram á grundvelli 1., sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, sbr. t.d. úrskurð yfirskattanefndar nr. 98/2003. Telja verður hafið yfir allan vafa að sömu sjónarmið eigi við um afnot hluthafa af eignum hluta- eða einkahlutafélaga sem eiga sér stað án endurgjalds eða við verði sem telst verulega lægra en almennt gerist í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila.

Í úrskurði ríkisskattstjóra, sem til umfjöllunar var í úrskurði yfirskattanefndar nr. 92/2020, var gerð grein fyrir afnotum kæranda og eiginmanns hennar af íbúðarhúsnæði X ehf. á árunum 2014 til 2016 og útreikningur húsnæðishlunninda leiddur fram með tilvísun til skattmatsreglna ríkisskattstjóra þau ár sem málið tók til. Færði ríkisskattstjóri helming reiknaðrar hlunnindafjárhæðar til tekna hjá eiginmanni kæranda, og byggði þá ákvörðun á því að um væri að ræða sameiginleg not beggja eigenda félagsins af húsnæðinu. Með nefndum úrskurði yfirskattanefndar var fallist á það með ríkisskattstjóra að eiginmanni kæranda hefði borið að færa sér til tekna húsnæðishlunnindi vegna afnota hans af íbúðarhúsnæði í eigu X ehf. svo og lét yfirskattanefnd þá fjárhæð húsnæðishlunninda eiginmanns kæranda, sem ríkisskattstjóri hafði ákvarðað, standa óhaggaða. Með úrskurðinum var hafnað viðbárum eiginmanns kæranda um að tilefni væri til niðurfellingar eða lækkunar hlunnindafjárhæðar sökum greiðslu húsnæðiskostnaðar á árinu 2018, afnota X ehf. af hluta húsnæðisins vegna rekstrarþarfa félagsins og galla á eigninni. Hins vegar felldi yfirskattanefnd ákvörðun húsnæðishlunninda að hlut kæranda úr gildi. Eins og forsendum þeirrar ákvörðunar yfirskattanefndar var farið girðir niðurstaðan ekki fyrir það að ríkisskattstjóri hafi tekið álögð opinber gjöld kæranda til meðferðar að nýju.

Kæru til yfirskattanefndar verður að skilja þannig að ágreiningslaust sé að kærandi hafi ásamt eiginmanni sínum nýtt nefnda húseign að M til íbúðar fyrir sig frá því að X ehf. keypti húseignina um mitt ár 2013 og þar til hjónin keyptu hana af félaginu á árinu 2016. Á tímabili eignarhalds félagsins á íbúðarhúsnæðinu greiddu kærandi og eiginmaður hennar ekki leigu fyrir afnot sín af eigninni að því frátöldu að þau stóðu straum af tilteknum kostnaði vegna eignarinnar. Í kæru til yfirskattanefndar er hins vegar haldið til haga sömu viðbárum og fram komu við meðferð máls þess sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 92/2020.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að kærandi hafði á umræddum árum afnot af íbúðarhúsnæði í eigu X ehf. án greiðslu eðlilegs endurgjalds til félagsins fyrir afnotin. Að þessu virtu og í ljósi eignarhalds kæranda á hlut í nefndu einkahlutafélagi verður fallist á það með ríkisskattstjóra að tilefni sé til ályktunar um slíka afhendingu verðmæta til kæranda sem um ræðir í upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 (dular arðgreiðslur). Ber að telja andvirði umræddra gæða til tekna hjá kæranda eftir þeim reglum sem um ræðir í 2. mgr. 11. gr. laganna, enda er ljóst að ekki var um neina þá lögleyfðu úthlutun af fjármunum einkahlutafélagsins að ræða sem getið er í 73. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

Víkur þá að fjárhæð tekjufærslu hjá kæranda á framangreindum grundvelli. Í tilviki kæranda hefur ríkisskattstjóri ákvarðað fjárhæð tekjufærslu hjá kæranda eftir sömu viðmiðunum og gert var í máli eiginmanns hennar, þ.e. með stoð í skattmatsreglum ríkisskattstjóra vegna hlutaðeigandi ára. Nánar tiltekið hefur ríkisskattstjóri byggt á ákvæðum um mat húsnæðishlunninda í lið 2.8 í reglum um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2014, 2015 og 2016, sbr. auglýsingar nr. 14/2014, 1173/2014 og 1202/2015 í B-deild Stjórnartíðinda. Mælt er fyrir um matsreglur þessar í 118. gr. laga nr. 90/2003.

Tekið er fram í inngangskafla matsreglna ríkisskattstjóra að skattmatið taki til hvers þess sem njóti hlunninda eða sé aðnjótandi gæða sem telja beri til tekna samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003, óháð starfssambandi milli þess er lætur hlunnindi eða gæði af hendi og þess sem þeirra nýtur. Skipti ekki máli hvort það sem meta skuli til tekna sé endurgjald fyrir vinnu eða tilkomið með öðrum hætti. Þá segir í matsreglunum að þegar talað sé um launamann eða starfsmann í reglum þessum skuli það eftir því sem við eigi einnig taka til maka hans og barna, svo og hvers þess aðila sem njóti viðkomandi hlunninda í krafti eignar eða stjórnaraðildar, vensla eða tengsla, við þann sem hlunnindin lætur í té.

Samkvæmt framansögðu er með nefndum matsreglum lagður grundvöllur að áætlun skattskyldra tekna vegna margháttaða hlunninda og annarra gæða sem skattskyldum aðilum geta hlotnast og metin verða til peningaverðs. Að þessu athuguðu verður talið rétt að byggja ákvörðun tekjufærslu við þær aðstæður sem í máli þessu greinir á þeim viðmiðunum sem kveðið er á um í skattmatsreglum ríkisskattstjóra.

Í kæru er vísað til þess að kærandi hafi ásamt eiginmanni sínum greitt ýmsan kostnað vegna X ehf. sem virða beri sem endurgjald fyrir húsnæðisafnot þeirra og að húsnæðið hafi verið haldið göllum. Eins og fyrr segir er hér um sömu málsástæður að ræða og haldið var fram af hálfu eiginmanns kæranda í máli því sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 92/2020. Með þeim úrskurði var þessum viðbárum hafnað. Fyrir liggur að um var að ræða sameiginleg afnot kæranda og eiginmanns hennar af húsnæði X ehf. og verður að telja að sömu sjónarmið og réðu niðurstöðu í máli eiginmanns kæranda, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 90/2020, eigi í öllum atriðum við í tilviki kæranda. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið tilefni til að hagga við þeim fjárhæðum sem ríkisskattstjóri ákvarðaði til tekna hjá kæranda.

Tekið skal fram að óumdeilt er að kærandi var ekki starfsmaður X ehf. á árunum 2013, 2014 og 2015. Því bar að skattleggja nefndar tekjuviðbætur hjá kæranda sem skattskyldar gjafir samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, eins og ríkisskattstjóri gerði.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja