Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lokunarstyrkur

Úrskurður nr. 38/2021

Lög nr. 38/2020, 4. gr. 1. tölul.   Auglýsing nr. 243/2020, 5. gr.  

Kærandi í máli þessu var félag sem hafði með höndum sölu og útleigu leiktækja og annars búnaðar til afþreyingar. Ekki var fallist á með kæranda að aðstaða félagsins að M, þar sem viðskiptavinir áttu þess kost að kynna sér og prófa tæki og búnað sem kærandi hafði á boðstólnum, gæti talist „spilasalur“ í skilningi auglýsingar nr. 243/2020, um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar. Var ekki talið að kæranda hefði verið skylt að láta af starfsemi félagsins um vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og var kröfu kæranda um lokunarstyrk því hafnað.

Ár 2021, miðvikudaginn 17. mars, er tekið fyrir mál nr. 201/2020; kæra A ehf., dags. 11. desember 2020, vegna ákvörðunar um lokunarstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 11. desember 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 11. september 2020, að hafna umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin að undangengnum bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 23. júní 2020, sem ekki var svarað, og ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 24. ágúst sama ár, þar sem embættið hafnaði umsókn kæranda um lokunarstyrk, og framlögð gögn kæranda sem bárust ríkisskattstjóra dagana 27. ágúst og 1. september 2020. Á grundvelli þeirra gagna féllst ríkisskattstjóri á að taka málið til nýrrar meðferðar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og tók í kjölfarið hina kærðu ákvörðun. Byggðist höfnun ríkisskattstjóra á því að starfsemi kæranda, sem einkum væri fólgin í sölu og útleigu búnaðar til afþreyingar fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki, félli ekki undir ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, þ.e. kæranda hefði ekki verið skylt að láta af starfseminni samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sbr. 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Tók ríkisskattstjóri m.a. fram að kærandi hefði ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að félagið ræki spilasal þar sem innheimtur væri aðgangseyrir fyrir afnot af tækjum á staðnum eða að meginstarfsemi kæranda væri fólgin í rekstri spilasalar. Yrði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að salur sem kærandi héldi úti við M væri fyrst og fremst sýningarsalur þar sem hægt væri að sjá og prufa þau tæki sem kærandi byði til leigu. Að framangreindu virtu yrði ekki talið að starfsemi kæranda félli undir lög nr. 38/2020 þannig að kærandi ætti rétt á lokunarstyrk. Hugsanlega mætti þó telja að hluti starfsemi félagsins félli undir 3. eða 4. gr. auglýsingar nr. 243/2020 sem starfsemi sem hefði sætt fjölda- og nálægðartakmörkunum eða takmörkunum á opnunartíma. Hægt hefði því verið að viðhalda starfsemi í einhverri mynd og aðlaga hertum sóttvörnum.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi, enda uppfylli kærandi skilyrði fyrir veitingu lokunarstyrks. Í kærunni er tekið fram að kærandi haldi úti um 100 m2 spila- og leiktækjasal við M þar sem m.a. sé boðið upp á þythokkí, futsal, „photobootha“, karaókí, pílukast og borðspil. Salurinn sé öllum opinn og gestir greiði ekkert gjald fyrir afnot af leiktækjunum. Salurinn gegni veigamiklu hlutverki í rekstri kæranda þar sem megnið af tekjum félagsins megi rekja til heimsókna viðskiptavina þangað. Nauðsynlegt hafi reynst að loka húsnæðinu þar sem um samkomustað sé að ræða og sérstaka smithættu. Salurinn gegni lykilhlutverki í starfsemi kæranda og sé algjör forsenda fyrir tekjuöflun félagsins. Sé salurinn rekinn í þeim tilgangi að fá sem flesta í heimsókn og veiti kæranda ótvírætt samkeppnisforskot. Lokun salarins hafi því leitt til algers tekjufalls. Geti skráður tilgangur kæranda eða atvinnugreinaflokkun félagsins eðli máls samkvæmt ekki ráðið úrslitum um rétt kæranda til lokunarstyrks, en það gefi auk þess auga leið að rekstur spilasalar rúmist hæglega innan skráðs tilgangs félagsins. Þá geti ekki skipt máli þótt aðgangseyrir sé ekki innheimtur af gestum salarins, enda hljóti sú staðreynd að leiða til aukinnar aðsóknar og þar af leiðandi aukinnar smithættu umfram aðra spilasali. Í lögum nr. 38/2020 og lögskýringargögnum að baki þeim sé engin tilraun gerð til að skilgreina hugtakið „spilasalur“ sem notað sé í 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Því síður sé greiðsla aðgangseyris gerð að skilyrði. Kostnaður kæranda af rekstri spilasalar sé hinn sami og annarra rekstraraðila spilasala, þ.e. húsnæðiskostnaður, launakostnaður o.s.frv. Sanngirnisrök hnígi því til þess að játa kæranda rétt til lokunarstyrks eins og öðrum rekstraraðilum spilasala, sbr. markmið laga nr. 38/2020. Engin leið hafi verið fyrir kæranda að laga rekstur spilasalarins að hertum sóttvörnum. Þá sé hvergi í lögum nr. 38/2020 tekið fram að rekstur spilasalar þurfi að vera „meginhluti“ starfsemi viðkomandi aðila. Þó sé meginhluti rekstrarkostnaðar kæranda vegna starfrækslu salarins vegna húsaleigu, launa, fjárfestingar í tækjum og búnaði og auglýsinga. Sé þess krafist að kærandi njóti jafnræðis á við aðra rekstraraðila spilasala sem hafi fengið greiddan lokunarstyrk.

II.

Með bréfi til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 15. desember 2020, óskaði yfirskattanefnd eftir umsögn ráðuneytisins um kæruefni málsins, sbr. 8. gr. laga nr. 38/2020. Af því tilefni hefur heilbrigðisráðuneytið lagt fram umsögn í málinu með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 26. janúar 2021. Í umsögninni kemur fram að með 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 hafi atvinnufrelsi verið skert í ríkari mæli en leiddi af ákvæðum 3. og 4. gr. sömu auglýsingar um fjölda- og nálægðartakmarkanir. Við framkvæmd hinna fyrrnefndu ákvæða hafi þau því ekki verið túlkuð rýmra en leiði af orðalagi þeirra og önnur starfsemi en sú, sem talin sé upp, ekki verið talin falla undir nema að teljast að öllu leyti sambærileg. Að mati ráðuneytisins verði vart talið að starfsemi kæranda sé þannig í eðli í sínu að hún falli undir ákvæði 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 sem skýra verði svo að þeim aðilum sem þar falli undir hafi að mestu verið gert óheimilt að stunda starfsemi og ekki hafi ekki átt þess kost að laga rekstur sinn tímabundið að breyttu umhverfi með hertum sóttvörnum. Tekið sé undir með ríkisskattstjóra að ekki verði annað ráðið en aðalstarfsemi kæranda sé sala og útleiga á búnaði til afþreyingar. Þrátt fyrir að spilasalur félagsins þjóni hlutverki í rekstri kæranda verði ekki séð að félagið hafi ekki átt þess kost að laga rekstur sinn tímabundið að breyttu umhverfi. Hefði ráðuneytinu borist erindi frá kæranda í gildistíð auglýsingarinnar hefði ráðuneytið því ekki talið að loka bæri starfsemi félagsins á grundvelli 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar.

III.

Með bréfi, dags. 19. janúar 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er áréttað að ríkisskattstjóri hafi byggt ákvörðun sína á því að skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020, sbr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Ákvörðuninni til frekari stuðnings hafi verið vísað til þess að starfsemi kæranda samkvæmt samþykktum félagsins og öðrum gögnum, sbr. kynningarefni á vefsíðu og facebooksíðu kæranda, styðji ekki að starfsemi félagsins hafi verið slík að félaginu væri skylt að loka. Áréttað sé að kærandi haldi ekki úti starfsemi spilasalar og hafi ekki tekjur af slíkri starfsemi heldur sé um að ræða sýningarsal þar sem viðskiptavinum sé gefinn kostur á að skoða og eftir atvikum prófa hluta útbúnaðar sem þeim standi til boða. Þótt lokun slíks sýningarsalar eða takmörkun á aðgangi að honum geti vissulega haft áhrif á tekjuöflun félagsins þá leiði slík ráðstöfun ekki til þess að félagið eigi rétt á lokunarstyrk samkvæmt lögum nr. 38/2020. Tilvist sýningarsalarins geti og ekki valdið því að starfsemi kæranda teljist rekstur spilasalar þannig að félaginu hafi verið skylt að láta af allri starfsemi sinni.

IV.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2021, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögnum heilbrigðisráðuneytisins og ríkisskattstjóra. Í bréfinu tekur kærandi fram að félagið hafi sannanlega rekið spilasal í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, enda hafi aðbúnaður í salnum á engan hátt verið frábrugðinn aðbúnaði í öðrum spilasölum og smithætta sú sama. Ákvörðun heilbrigðisráðherra um lokun allra spilasala vegna smithættu hafi verið án undantekninga og þannig tekið til allra spilasala í landinu. Orðalag auglýsingarinnar sé ótvírætt og útilokað hafi verið fyrir fyrirsvarsmenn kæranda að bregðast öðru vísi við en með lokun salarins, enda hafi þung viðurlög legið við brotum á sóttvarnareglum, sbr. 19. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Í umsögn heilbrigðisráðuneytisins sé staðfest að salur kæranda við M teljist „spilasalur“ í þessum skilningi. Í umsögn ríkisskattstjóra kveði við annan tón að þessu leyti og rætt um sýningarsal, en þá sé litið framhjá því að í salnum séu tæki og búnaður sem krefjist snertingar. Viðskiptavinir kæranda séu hvattir til að koma í heimsókn, prufa tækin og gera sér glaðan dag. Fráleitt sé því talið að heimfæra spilasalinn undir hugtakið sýningarsalur. Þar sem öllum spilasölum hafi verið gert að loka hafi enga þýðingu í málinu hvort kæranda hafi verið unnt að laga reksturinn að hertum sóttvörnum. Af sömu ástæðu hafi bollaleggingar í umsögnum ríkisskattstjóra og ráðuneytisins um eðli starfsemi kæranda ekki þýðingu, enda séu skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 uppfyllt ef rekstraraðila hefur verið gert skylt að loka samkomustað samkvæmt 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Kæranda hafi verið skylt að loka spilasalnum sem hverjum öðrum samkomustað. Hugtakið samkomustaður sé ekki markað af eðli starfsemi, greiðslum, aðalstarfsemi, samþykktum félags eða upplýsingum á facebooksíðu heldur því hvort þar komi fjöldi einstaklinga saman. Eðli starfsemi kæranda og tekjuöflun í rekstrinum skipti engu máli fyrir úrlausn þess hvort kærandi eigi rétt á lokunarstyrk. Samkvæmt reglum sem um ræðir hafi t.d. skólasundlaugum og listasöfnum borið að loka burtséð frá því hvort innheimtur væri aðgangseyrir eða ekki. Sé hafið yfir allan vafa að kærandi eigi rétt á styrk þar sem félagið rak spilasal. Óumdeilt sé í málinu að önnur skilyrði 4. gr. laga nr. 38/2020 séu uppfyllt í tilviki kæranda.

V.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 38/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra lokunarstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laganna á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fimm töluliðum í lagagreininni. Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 er skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að rekstraraðila hafi verið gert skylt að loka samkomustað samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.

Í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 eru ákvæði um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innanlands. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar ákveður ráðherra að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns. Hinn 6. mars 2020 lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi almannavarna hér á landi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Hinn 13. sama mánaðar ákvað heilbrigðisráðherra á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga að takmarka samkomur til að hægja á útbreiðslu veirunnar með auglýsingu nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Hinn 22. mars ákvað heilbrigðisráðherra síðan að takmarka samkomur enn frekar en áður með auglýsingu nr. 243/2020. Meðal þess sem hertar aðgerðir samkvæmt auglýsingunni fólu í sér var bann við samkomum þar sem fleiri en 20 manns komu saman og lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu frá 24. mars til og með 12. apríl 2020, sbr. m.a. 2. gr. og 5. gr. hennar. Ákvæði 5. gr. auglýsingarinnar um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu eru svohljóðandi:

„Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað á gildistíma auglýsingar þessarar. Þá skulu aðrir veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar ekki hafa opið lengur en til kl. 23:00 alla daga vikunnar.

Starfsemi og þjónusta sem krefst eða hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar er óheimil á gildistíma auglýsingar þessarar, svo sem allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa og önnur sambærileg starfsemi. Þetta á einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér, t.d. skíðalyftur.“

Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag og er starfsemi félagsins fólgin í sölu og leigu á ýmsum búnaði til afþreyingar. Samkvæmt samþykktum kæranda er skráður tilgangur félagsins „útleiga á búnaði til viðburðahalds, viðburðastjórnun, innflutningur, smásala og annar skyldur rekstur“. Í kæru til yfirskattanefndar er rakið að félagið haldi úti aðstöðu að M þar sem gestum séu boðin endurgjaldslaus afnot af ýmsum leiktækjum og búnaði sem kærandi hafi á boðstólnum. Er því haldið fram af hálfu kæranda að þar sem félagið starfræki þannig spilasal í skilningi 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 hafi félaginu verið skylt að hafa lokað á gildistíma auglýsingarinnar. Séu skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 fyrir greiðslu lokunarstyrks því uppfyllt í tilviki kæranda. Þá verður að líta svo á, miðað við rökstuðning í kæru til yfirskattanefndar, að krafa kæranda sé einnig byggð á því að félaginu hafi verið skylt að láta af starfsemi á grundvelli 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Verður fyrst að leysa úr því hvort kærandi falli undir 1. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar þar sem félagið teljist reka spilasal.

Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020, sbr. þskj. 1254 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, er vikið að framangreindum ákvæðum 1. og 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Eins og bent er á í kæru kæranda til yfirskattanefndar er enga umfjöllun þar að finna um spilasali sérstaklega og engin afmörkun kemur þar fram á því hvaða samkomustaði beri að telja spilasali í skilningi 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Í reglugerð nr. 320/2008, um söfnunarkassa, sem sett hefur verið á grundvelli 4. gr. laga nr. 73/1994, um sama efni, eru spilasalir hins vegar taldir meðal staða þar sem heimilt er að reka söfnunarkassa, en samkvæmt 2. gr. nefndra laga nr. 73/1994 er með söfnunarkössum í lögunum átt við handvirka og/eða vélræna söfnunarkassa sem ekki eru samtengdir og í eru sett peningaframlög er veita möguleika á peningavinningi, svo sem nánar greinir. Eins og fram er komið var m.a. skylt að loka „spilakössum“ á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020 og þykir vafalaust að þar sé fyrst og fremst átt við söfnunarkassa samkvæmt framansögðu. Að þessu athuguðu verður að telja að með „spilasölum“ í 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 sé fyrst og fremst átt við samkomustaði þar sem gestum er boðið að spila í spilavélum eða taka þátt í spilum af öðrum toga.

Af hálfu kæranda er komið fram að í aðstöðu félagsins að M gefist áhugasömum viðskiptavinum kostur á að kynna sér og prófa tæki og búnað sem kærandi hafi á boðstólnum án sérstaks endurgjalds. Á heimasíðu kæranda sé þannig m.a. að finna myndskeið sem sýni salinn og hvetji áhorfendur til að koma í heimsókn, prufa spil og tæki og fá upplýsingar um leigukjör. Samkvæmt þessum skýringum kæranda er ljóst að jafna má aðstöðu þessari við almenna sýningaraðstöðu fyrirtækja þar sem viðskiptavinum býðst að kynna sér vöru eða þjónustu. Eins og fram er komið er starfsemi kæranda fólgin í sölu og útleigu á ýmsum búnaði til afþreyingar fyrir einstaklinga og hópa. Að þessu athuguðu og með vísan til þess sem hér að framan var rakið verður ekki fallist á með kæranda að umrædd aðstaða félagsins að M geti talist „spilasalur“ í skilningi 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Verður krafa kæranda ekki tekin til greina á þeim grundvelli sem hér um ræðir. Víkur þá að því hvort starfsemi kæranda geti fallið undir ákvæði 2. mgr. 5. gr. auglýsingarinnar.

Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020, sbr. þskj. 1254 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, er vikið að framangreindu ákvæði 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020 og tekið fram að það sé almennt orðað og beri ekki með sér tæmandi talningu á þeirri starfsemi sem falli undir skýlausa kröfu um lokun eða algera skerðingu á möguleikum aðila til að halda úti starfsemi eða veita þjónustu. Við mat á því hvað teljist sambærileg starfsemi samkvæmt 2. mgr. 5. gr. verði að horfa til þess hvort eðli starfseminnar krefjist eða feli í sér hættu á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar. Þar undir falli starfsemi ýmissa heilbrigðisstétta, svo sem tannlækna, hvers kyns líkams- og snyrtimeðferðir, til dæmis húðflúrunarstofur, hand- og fótaaðgerðir, sjúkraþjálfun og sjúkranudd. Meðferðir á dýrum, svo sem hundasnyrting, falli þar einnig undir. Þá er þess getið í athugasemdum að heilbrigðisráðuneytið hafi haft umsjón með fyrirspurnum um túlkun á inntaki og gildissviði auglýsingarinnar. Með hliðsjón af því sé í 8. gr. frumvarpsins lagt til að Skatturinn og yfirskattanefnd geti leitað umsagnar ráðherra sem fari með málefni sóttvarna um vafaatriði sem lúti að skilyrði 1. tölul. 4. gr., sbr. nú 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laga nr. 38/2020.

Sú starfsemi, sem sérstaklega er tilgreind í 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, þ.e. íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa og nuddstofa, er þess eðlis að henni verður trauðla sinnt án snertingar og/eða mikillar nálægðar einstaklinga, svo sem við á um ýmsa heilbrigðisþjónustu sem sérstaklega er undanþegin gildissviði auglýsingarinnar í 7. gr. hennar. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um starfsemi kæranda, sem eins og fram er komið er fólgin í sölu og útleigu leiktækja og annars búnaðar, þykir blasa við að hún verði ekki að þessu leyti lögð að jöfnu við þá starfsemi sem talin er í ákvæðinu. Verður því ekki talið að kæranda hafi verið skylt að láta af starfsemi félagsins á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020 frekar en öðrum aðilum með sambærilegan rekstur, sbr. fyrrgreind ákvæði 5. gr. auglýsingarinnar. Getur ekki leitt til annarrar niðurstöðu í þessu efni þótt kærandi hafi búið að þeirri aðstöðu sem um ræðir að M, enda verður hvorki séð að ómögulegt eða illgerlegt hafi verið að halda henni úti að teknu tilliti til fjölda- og nálægðartakmarkana, sbr. 3. og 4. gr. auglýsingar nr. 243/2020, né að tímabundin lokun aðstöðunnar hafi girt fyrir áframhaldandi starfsemi kæranda með sölu og útleigu búnaðar. Í lögum nr. 38/2020 er og gerður skýr greinarmunur á annars vegar þeirri starfsemi sem sæta þurfti almennum samkomutakmörkunum samkvæmt auglýsingu nr. 243/2020 og hins vegar starfsemi sem beinlínis var óheimil á gildistíma hennar, sbr. og tiltæk lögskýringargögn.

Með vísan til framanritaðs verður ekki talið að skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 séu uppfyllt í tilviki kæranda. Verður því að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja