Úrskurður yfirskattanefndar
- Bætur vegna altjóns eða eignarnáms
- Miskabætur
Úrskurður nr. 52/2021
Gjaldár 2020
Lög nr. 90/2003, 22. gr., 28. gr. 2. tölul.
Í máli þessu var ágreiningur um skattalega meðferð bóta sem Vegagerðinni var gert að greiða kæranda með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta á árinu 2019 vegna eignarnáms á landi kæranda. Taldi kærandi að sá hluti greiðslu Vegagerðarinnar, sem fól í sér bætur vegna verðrýrnunar aðliggjandi lands, þ.e. sjávarmegin þess lands sem eignarnámið tók til, gæti ekki talist til bóta vegna altjóns eða eignarnáms í skilningi 22. gr. laga nr. 90/2003. Yfirskattanefnd benti á að sá þáttur bótanna stæði í órjúfanlegum tengslum við þær bætur sem kæranda hefðu verið ákveðnar fyrir hið eignarnumda land. Var því fallist á með ríkisskattstjóra að þann hluta bótanna bæri að telja til bóta vegna eignarnáms í skilningi skattalaga. Á hinn bóginn var fallist á með kæranda að telja bætur vegna rasks og óþæginda á framkvæmdatíma til skattfrjálsra miskabóta, enda þótti ekki fara á milli mála að um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón væri að ræða vegna vegaframkvæmda í landi kæranda.
Ár 2021, miðvikudaginn 7. apríl, er tekið fyrir mál nr. 188/2020; kæra A, dags. 25. nóvember 2020, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2020. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæruefnið í máli þessu lýtur að skattalegri meðferð greiðslna að fjárhæð 7.021.040 kr. sem Vegagerðinni var gert að inna af hendi til kæranda með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta á árinu 2019 vegna eignarnáms á landspildu í landi M á sama ári, sbr. kæruúrskurð ríkisskattstjóra, dags. 18. september 2020. Er þess krafist í kæru til yfirskattanefndar, dags. 25. nóvember 2020, að hluti greiðslna þessara eða 3.063.860 kr. verði ekki talinn til söluverðs samkvæmt 22. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem um sé að ræða skattfrjálsar skaðabætur vegna tjóns á eignum sem ekki séu notaðar í atvinnurekstri, sbr. ákvæði 2. tölul. 28. gr. sömu laga. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
II.
Helstu málavextir eru þeir að í framhaldi af bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 6. maí 2020, sem barst embættinu 11. sama mánaðar og ríkisskattstjóri tók til meðferðar sem kæru á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2020, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kvað ríkisskattstjóri upp hinn kærða úrskurð 18. september 2020. Í úrskurði ríkisskattstjóra kom fram að með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta nr. …/2019 hefði verið ákvarðað um greiðslu eignarnámsbóta til kæranda vegna eignarnáms á landi hans M. Með úrskurði matsnefndarinnar hefðu eignarnámsbætur verið ákveðnar samtals 7.021.040 kr. og eignarnema jafnframt verið gert að greiða kæranda kostnað að fjárhæð 2.010.000 kr. vegna þóknunar lögmanns. Í úrskurðinum kæmi fram að um væri að ræða í fyrsta lagi bætur fyrir landspildu sem færi undir nýtt vegstæði, í öðru lagi bætur fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem nýtt vegstæði hefði á það land sem kærandi héldi eftir og í þriðja lagi bætur fyrir rask og ónæði. Samkvæmt þessu þætti ljóst að sú fjárhæð sem kærandi hefði fengið greidda að frátalinni lögmannsþóknun teldist til eignarnámsbóta. Ekki yrði því fallist á kröfu kæranda í bréfi hans, dags. 6. maí 2020, um að telja hluta bótanna falla undir 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003 sem skaða- eða miskabætur. Framtaldar eignarnámsbætur að fjárhæð 9.030.132 kr. yrðu samkvæmt framansögðu lækkaðar í 7.021.040 kr. eða sem næmi fjárhæð þóknunar og bæri að líta á bæturnar sem söluverð, sbr. 22. gr. laga nr. 90/2003. Í samræmi við heimild í 3. mgr. 15. gr. laganna yrði litið á helming fyrrnefndrar fjárhæðar eða 3.510.520 kr. sem skattskyldar tekjur kæranda. Kom fram í niðurlagi úrskurðarins að stofn kæranda til fjármagnstekjuskatts lækkaði úr 5.103.712 kr. í 4.099.166 kr.
III.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er greint frá málavöxtum og bent á að með hinum kærða úrskurði hafi ríkisskattstjóri einungis fallist á kröfu kæranda samkvæmt bréfi hans, dags. 6. maí 2020, að hluta til, þ.e. að því er snerti þann hluta greiðslu Vegagerðarinnar til kæranda sem teljist þóknun til lögmanns. Sé því kærð sú ákvörðun ríkisskattstjóra að hafna því að skaða- og miskabætur vegna annars vegar verðrýrnunar lands 2.063.860 kr. og hins vegar vegna rasks og ónæðis á framkvæmdatíma 1.000.000 kr. beri ekki að telja til söluverðs samkvæmt 22. gr. laga nr. 90/2003 heldur falli undir ákvæði 2. tölul. 28. gr. sömu laga. Kærandi telji ljóst, þrátt fyrir úrskurðarorð í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í máli hans, að ekki beri að líta á fyrrgreindan hluta bótanna sem söluverð þeirrar eignar sem tekin hafi verið eignarnámi. Þannig sé í úrskurðinum leitast við að leggja mat á fjárhæð bóta vegna þess hluta lands kæranda sem fari undir nýtt vegstæði og komist að þeirri niðurstöðu að greiða beri bætur fyrir 65.953 fermetra landspildu í landi M sem þyki hæfilega metnar 3.957.180 kr. eða 60 kr. á hvern fermetra. Telji kærandi að þennan hluta bótanna beri að virða sem söluverð, enda sé um að ræða bætur fyrir verðmæti þess lands sem tekið sé undir nýjan hringveg. Bætur vegna verðrýrnunar á aðliggjandi landsvæði í eigu kæranda geti ekki talist til söluverðs þar sem sá hluti landsins hafi ekki verið tekinn eignarnámi og engin eigendaskipti þannig átt sér stað að honum. Matsnefnd eignarnámsbóta hafi talið að nýr vegur skipti landi eignarnámsþola á þann veg að verðrýrnun yrði á landi sjávarmegin vegarins sem næmi 3,3 hekturum í landi M. Sé tekið fram í úrskurði nefndarinnar að með bótum fyrir þessa verðrýrnun hafi eignarnámsþola verið ákveðnar „bætur fyrir tjón af völdum umferðar nýs vegar um fjöruland“, eins og þar segi. Bætur vegna þess þáttar hafi verið ákveðnar 2.063.860 kr. Skilja verði tilvísun til 22. gr. laga nr. 90/2003 í ákvæði 2. tölul. 28. gr. sömu laga þannig að átt sé við hinar eiginlegu eignarnámsbætur, sem í eðli sínu myndi söluverð lands. Um eiginlegar skaðabætur fari hins vegar ávallt eftir 2. tölul. 28. gr. laganna.
Í kærunni er því jafnframt mótmælt að bætur fyrir rask og óþægindi vegna umsvifa Vegagerðarinnar á framkvæmdatíma, sem matsnefndin hafi metið hæfilegar með 1.000.000 kr., skuli taldar til söluverðs. Kærandi telji augljóst að um miskabætur sé að tefla en ekki eignarnámsbætur, þ.e. fjárbætur fyrir eign sem tekin sé eignarnámi, sbr. ákvæði 3. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms. Aðrar bætur vegna eignarnáms séu í eðli sínu skaða- og miskabætur sem fara skuli með sem slíkar í skattskilum eignarnámsþola. Ekki fái staðist að kærandi eigi að bera hallann af orðalagi í úrskurði matsnefndarinnar um eðli bóta eða óskýrleika í lögum um hvernig fara skuli með bætur vegna eignarnáms. Sé þess því krafist að úrskurði ríkisskattstjóra verði hnekkt að því er varðar bætur vegna verðrýrnunar aðliggjandi lands og tjóns af umferð um nýjan veg við fjöruland 2.063.860 kr. og bætur vegna rasks og ónæðis 1.000.000 kr. þannig að greindar bætur verði ekki taldar til söluverðs í skilningi 22. gr. laga nr. 90/2003 heldur falli undir 2. tölul. 28. gr. laganna og séu þannig skattfrjálsar. Þá sé krafist málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði, en samkvæmt vinnuyfirliti sé um að ræða kostnað að fjárhæð 99.572 kr. með virðisaukaskatti vegna erindis kæranda til ríkisskattstjóra og kostnað að fjárhæð 222.456 kr. með virðisaukaskatti vegna kæru til yfirskattanefndar, sbr. gögn er fylgja kærunni.
IV.
Með bréfi, dags. 15. desember 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og gert þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með tölvupósti til yfirskattanefndar 17. desember 2020 hefur kærandi ítrekað gerðar kröfur og sjónarmið í málinu.
V.
Ágreiningur í máli þessu lýtur að skattalegri meðferð bóta sem Vegagerðinni var gert að greiða kæranda með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta á árinu 2019 vegna eignarnáms á landspildu í landi M á því ári, sbr. kæruúrskurð ríkisskattstjóra, dags. 18. september 2020. Samkvæmt úrskurðarorði úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta var Vegagerðinni gert að greiða kæranda 7.021.040 kr. í eignarnámsbætur og 2.010.000 kr. í málskostnað. Með hinum kærða úrskurði féllst ríkisskattstjóri á að hin síðarnefnda greiðsla kæmi ekki til skattlagningar í skattframtali kæranda árið 2020, en leit svo á að hin fyrrnefnda greiðsla félli að öllu leyti undir ákvæði 22. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem fram kemur að bætur vegna altjóns eða eignarnáms teljist söluverð eigna og að um útreikning og meðferð söluhagnaðar fari eftir ákvæðum 12.-27. gr. laganna eftir því sem við eigi. Færði ríkisskattstjóri helming söluverðs samkvæmt þessu eða 3.510.520 kr. til skattskyldra tekna kæranda með vísan til 3. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda er þess krafist að hluti fyrrgreindrar greiðslu að fjárhæð 7.021.040 kr. verði ekki talinn til söluverðs samkvæmt 22. gr. laga nr. 90/2003, nánar tiltekið greiðsla að fjárhæð 3.063.860 kr. þar sem um sé að ræða skattfrjálsar skaðabætur vegna tjóns á eignum sem ekki séu notaðar í atvinnurekstri, sbr. ákvæði 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003. Þar sem ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við ákvörðun ríkisskattstjóra er ljóst að krafa kæranda lýtur að því að skattskyldur söluhagnaður í skattframtali hans árið 2020 vegna umræddrar greiðslu frá Vegagerðinni verði ákvarðaður 1.978.590 kr. ((7.021.040 – 3.063.860) / 2). Er krafan byggð á því að þar sem umræddar greiðslur Vegagerðarinnar að fjárhæð 3.063.860 kr. séu annars vegar bætur vegna verðrýrnunar aðliggjandi lands, þ.e. lands sem eignarnám Vegagerðarinnar í landi kæranda tók ekki til, að fjárhæð 2.063.860 kr. og hins vegar bætur vegna rasks og ónæðis á framkvæmdatíma að fjárhæð 1.000.000 kr. geti greiðslurnar ekki talist bætur vegna altjóns eða eignarnáms í skilningi 22. gr. laga nr. 90/2003.
Samkvæmt upphafsákvæði 7. gr. laga nr. 90/2003 teljast til skattskyldra tekna, með þeim undantekningum og takmörkunum er greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan tekjurnar stafa eða í hvaða formi þær eru. Í dæmaskyni um skattskyldar tekjur eru m.a. í 2. tölul. A-liðar sömu lagagreinar tilgreindar tryggingabætur, meðlög og styrkir svo og skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar aðrar skaðabætur og vátryggingabætur, sbr. þó 2. tölul. 28. gr. laganna. Í nefndum 2. tölul. 28. gr. er m.a. kveðið á um að til skattskyldra tekna teljist ekki eignaauki sem verður vegna greiðslu líftryggingafjár, vátryggingabóta vegna sjúkdómatrygginga, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, enda séu bætur þessar ákveðnar í einu lagi til greiðslu. Einnig skaðabætur og vátryggingabætur vegna tjóns á eignum sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri, sbr. þó 22. gr. Samkvæmt síðastnefndri lagagrein skulu bætur vegna altjóns eða eignarnáms teljast söluverð eigna og reiknast söluhagnaður og fer um meðferð hans eftir ákvæðum 12.-27. gr. eftir því sem við á. Í slíkum tilvikum er skattaðila þó heimilt að færa skattskyldan söluhagnað til tekna með jöfnum fjárhæðum á allt að fimm árum, í fyrsta sinn á söluári. Ef um er að ræða eign sem ekki er heimilt að fyrna er heimilt að verja söluhagnaðinum til öflunar sams konar eignar innan þriggja ára. Söluhagnaðurinn telst þá ekki til tekna en færist til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum telst mismunurinn til skattskyldra tekna.
Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta frá … 2019 í máli Vegagerðarinnar gegn kæranda var lagt mat á bætur vegna eignarnáms Vegagerðarinnar á landspildu í landi M. Í úrskurðinum kemur fram að eignarnám á spildunni sé til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga nr. 80/2007 í þágu framkvæmda við nýbyggingu Hringvegar á um 18 km löngum kafla, svo sem nánar greinir. Með úrskurði nefndarinnar voru kæranda í fyrsta lagi ákveðnar bætur fyrir 65.953 m² landspildu sem færi undir nýtt vegstæði að teknu tilliti til frádráttar vegna eldra vegstæðis, sbr. 4. mgr. 39. gr. vegalaga. Þóttu þær hæfilega ákveðnar 3.957.180 kr. Í öðru lagi voru kæranda ákveðnar bætur fyrir verðrýrnun lands sem kærandi hélt eftir, þ.e. sjávarmegin hins nýja þjóðvegar, undir eldra vegstæði sem skilað yrði til hans og í nágrenni kennileitisins T. Var það álit nefndarinnar að nýr vegur skipti landi kæranda á þann veg að verðrýrnun yrði á landi sjávarmegin vegar sem næmi 3,3 hekturum í landi M og að rétt væri að miða þá verðrýrnun við helming fermetraverðs vegna hins eignarnumda lands. Þóttu þær hæfilega ákveðnar 990.000 kr. Var tekið fram í úrskurðinum að með þeirri fjárhæð hefðu kæranda verið ákveðnar bætur fyrir tjón af völdum umferðar nýs vegar um fjöruland og var því hafnað sjálfstæðri kröfu hans þar um. Sömu viðmið voru lögð til grundvallar við mat nefndarinnar á verðrýrnun lands sem skilað yrði til kæranda, þ.e. helmingur fermetraverðs hins eignarnumda lands, og þóttu bætur vegna þess hæfilega ákveðnar 73.860 kr. Bætur vegna þeirrar ákvörðunar eignarnema að leggja kennileitið T undir nýtt vegstæði þóttu hæfilega ákveðnar 1.000.000 kr. Samtals voru því bætur vegna þessa þáttar ákveðnar 2.063.860 kr. Loks og í þriðja lagi voru kæranda ákveðnar bætur að fjárhæð 1.000.000 kr. vegna rasks og ónæðis vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma.
Í vegalögum nr. 80/2007 eru ýmis ákvæði um ákvörðun bóta vegna eignarnáms sem fram fer á grundvelli heimildar í 37. gr. þeirra laga. Í 1. mgr. 38. gr. laganna kemur fram að þegar ákvörðun um eignarnám eða aðrar eignarskerðingar liggur fyrir skuli leita samninga við landeiganda, og eftir atvikum aðra rétthafa, um bætur fyrir land undir veg, jarðefni til vegagerðar, jarðrask og átroðning og eftir atvikum aðra hagsmuni sem landeiganda er skylt að láta af hendi vegna vegagerðar samkvæmt 34. og 37. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 80/2007 fer um mat á bótum vegna eignarnáms á landi undir veg eftir ákvæðum þeirrar lagagreinar og almennum reglum um ákvörðun eignarnámsbóta. Er m.a. tekið fram í 2. mgr. 39. gr. laganna að við mat á bótum skuli taka tillit til árlegs afraksturs af landi, svo og til þess hvort girðingar þurfi að flytja eða nýjar að setja „og athuga vandlega allt það er getur haft áhrif á verðmæti þess er meta skal“. Við matið skuli meta sérstaklega þá hagsbót sem eiganda hlotnast við eignarnámið, umfram aðra landeigendur og rétthafa, svo sem ef eign hækkar í verði umfram aðrar eignir vegna framkvæmda, og skal slík hagsbót koma til frádráttar eignarnámsbótunum, sbr. 3. mgr. 39. gr. laganna.
Við ákvörðun bóta vegna eignarnáms sem fram fer á grundvelli vegalaga skal ennfremur gætt ákvæða laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, sbr. 1. gr. hinna síðarnefndu laga þar sem segir að við ákvörðun bóta vegna eignarnáms, sem heimilað sé í lögum, skuli gætt ákvæða fyrrnefndra laga. Er tekið fram að sama eigi við bætur og annað endurgjald, sem lögum samkvæmt skuli ákvarða í samræmi við lög um framkvæmd eignarnáms. Í athugasemdum við ákvæði þetta í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 11/1973, er m.a. bent á að stundum sé svo mælt fyrir í lögum, að tiltekið endurgjald eða bætur skuli ákveða í samræmi við eignarnámsreglur, án þess að með því sé tekin afstaða til þess hvort um eignarnámsbætur sé að ræða, og sé stundum reyndar ljóst að svo sé ekki. Sé í 1. gr. gert ráð fyrir því, að ákvörðun nefndra bóta fari eftir ákvæðum frumvarpsins (þskj. 23 á 93. löggjafarþingi 1972). Þess er að geta að í 12. gr. laga nr. 11/1973 er sérstakt ákvæði sem tekur til þeirrar aðstöðu er fasteign skerðist með þeim hætti við eignarnám að sá hluti hennar, sem eftir er, verður ekki nýttur á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign, sbr. 1. mgr. lagagreinarinnar. Er matsnefnd eignarnámsbóta þá heimilt að ákveða að kröfu eiganda að eignarnámið skuli ná til eignarinnar allrar. Sömu heimild hefur nefndin ef bersýnilegt ósamræmi reynist milli bóta vegna skerðingar eignar og verðmætis þess hluta hennar, sem eftir er, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna.
Samkvæmt framansögðu er gengið út frá því í vegalögum að við eignarnám, sem fram fer á grundvelli þeirra laga, geti verið skylt að inna af hendi bætur fyrir annað fjártjón sem eignarnám hefur í för með sér en beint tjón vegna þess lands sem gagngert er tekið eignarnámi undir nýjan veg, t.d. vegna töku jarðefnis til vegagerðar. Af dómaframkvæmd verður þannig ráðið að í málum vegna eignarnáms í þágu vegagerðar séu jafnan dæmdar bætur fyrir verðrýrnun annars lands en þess sem tekið er eignarnámi hverju sinni, enda séu skilyrði bótaábyrgðar talin uppfyllt. Má hér í dæmaskyni nefna dóma Hæstaréttar Íslands frá 17. mars 2005 í máli nr. 349/2004 og 8. október 2009 í máli nr. 345/2008 þar sem bætur voru ákveðnar fyrir verðrýrnun annars lands meðfram vegi, en í hinum fyrri dómi var jafnframt tekist á um það hvort skilyrði væru fyrir hendi til að ákveða bætur fyrir almenna verðrýrnun jarðar sem átti í hlut. Eins og fram er komið er í tilviki kæranda um að ræða bætur fyrir verðrýrnun lands sjávarmegin hins nýja Hringvegar, eldra vegstæðis sem skilað var aftur til kæranda og lands í næsta nágrenni kennileitis í landi M. Verður því að telja að í eðli sínu sé um að ræða bætur fyrir skerðingu á möguleikum kæranda til fénýtingar þess hluta landsins með sölu eða annars konar ráðstöfunum. Þykir þessi þáttur bótanna því standa í órjúfanlegum tengslum við þær bætur sem kæranda voru ákveðnar fyrir það land sem tekið var undir nýtt vegstæði Hringvegarins, sbr. til hliðsjónar ákvæði 12. gr. laga nr. 11/1973 sem hér að framan er rakið. Liggur og fyrir að fjárhæð bótanna tók mið af fermetraverði vegna hins eignarnumda lands, sbr. úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta í máli kæranda. Þá er hér til þess að líta að í vegalögum nr. 80/2007 er gert ráð fyrir því að verðhækkun lands umfram aðrar eignir vegna vegaframkvæmda skuli meta eiganda til hagsbóta og draga frá eignarnámsbótum, sbr. 3. mgr. 39. gr. laganna, sem þykir til marks um eðlissamstöðu í þessum efnum. Að framangreindu virtu verður að fallast á með ríkisskattstjóra að umræddar greiðslur Vegagerðarinnar til kæranda að fjárhæð 2.063.860 kr. beri að telja bætur vegna eignarnáms í skilningi 22. gr. laga nr. 90/2003. Verður því að hafna kröfu kæranda varðandi þessar greiðslur.
Með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta frá … 2019 voru kæranda eins og áður segir ákveðnar bætur að álitum að fjárhæð 1.000.000 kr. fyrir rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Þótt bæturnar séu taldar með eignarnámsbótum í niðurlagi úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta verður ekki talið að um eignarnámsbætur í skilningi 22. gr. laga nr. 90/2003 sé að ræða, enda fer ekki á milli mála að um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón er að tefla vegna vegaframkvæmda í landi kæranda. Af sömu ástæðu verður ekki fallist á með kæranda að bætur þessar geti talist til bóta fyrir tjón á eign samkvæmt 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003. Í sama ákvæði kemur fram að ekki beri að telja eignauka sem verði vegna greiðslu miskabóta til skattskyldra tekna. Ekki verður annað séð en að umræddar bætur að fjárhæð 1.000.000 kr. geti talist til miskabóta í þessum skilningi. Er krafa kæranda varðandi greiðslu þessa því tekin til greina, sbr. 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003. Af því leiðir að fjármagnstekjuskattsstofn kæranda gjaldárið 2020 lækkar um 500.000 kr. frá því sem ríkisskattstjóri ákvað.
Af hálfu umboðsmanns kæranda er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breytingu á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Umkrafinn kostnaður vegna kæru til yfirskattanefndar nemur 222.456 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna sex klst. vinnu sérkunnáttumanns. Að þessu athuguðu og með vísan til starfsreglna yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 70.000 kr. miðað við u.þ.b. þriggja klukkustunda vinnu sérkunnáttumanns.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Stofn kæranda til fjármagnstekjuskatts lækkar um 500.000 kr. frá því sem ríkisskattstjóri ákvað. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 70.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.