Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lokunarstyrkur

Úrskurður nr. 77/2021

Lög nr. 38/2020, 4. gr. 2. tölul.   Auglýsing nr. 243/2020, 7. gr. 2. mgr.  

Kröfu kæranda í máli þessu, sem var einkahlutafélag um læknisþjónustu, um greiðslu lokunarstyrks vegna heimsfaraldurs kórónuveiru var hafnað þar sem félagið uppfyllti ekki lagaskilyrði um að tekjur í apríl 2020 hefðu verið a.m.k. 75% lægri en í apríl 2019. Var ekki fallist á með kæranda að við mat á tekjusamdrætti í þessum efnum bæri ekki að taka með í reikninginn tekjur af nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem kæranda hefði verið heimilt að sinna á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Ár 2021, miðvikudaginn 19. maí, er tekið fyrir mál nr. 8/2021; kæra A ehf., dags. 8. janúar 2021, vegna ákvörðunar um lokunarstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r

I.

Með kæru, dags. 8. janúar 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 8. október 2020, að hafna umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ákvörðun ríkisskattstjóra, sem tekin var í framhaldi af erindi kæranda í bréfi, dags. 31. ágúst 2020, var byggð á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 þess efnis að tekjur rekstraraðila í apríl 2020 hefðu verið a.m.k. 75% lægri en í apríl 2019. Í erindi kæranda kæmi fram að tekjufall félagsins milli greindra mánaða næmi 68,1% og að einu tekjur þess hefðu verið vegna nauðsynlegrar þjónustu sem veitt hefði verið á grundvelli 2. mgr. 7. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, þ.e. vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu sem ekki gæti beðið. Þar sem fyrrgreint lagaskilyrði væri ekki uppfyllt í tilviki kæranda yrði þegar af þeirri ástæðu að hafna umsókn félagsins um lokunarstyrk. Fram kom í ákvörðun ríkisskattstjóra að engin heimild væri í lögum til að taka tillit til þess sjónarmiðs kæranda að viðmið laganna um tekjufall ætti ekki við þar sem um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu væri að ræða. Þá ætti ríkisskattstjóri ekki úrskurðarvald um hvort lokunaraðgerðir stjórnvalda og setning laga í kjölfar þeirra bryti gegn ákvæðum 75. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, eins og kærandi héldi fram.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi sé einkahlutafélag um læknisþjónustu eiganda félagsins. Er tekið fram að á lokunartímabili vegna auglýsingar nr. 243/2020 hafi kærandi einungis sinnt þjónustu sem talin var falla undir 2. mgr. 7. gr. nefndrar auglýsingar, þ.e. nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem ekki gat beðið. Annarri heilbrigðisþjónustu hafi ekki verið sinnt, enda hafi eigandi kæranda litið svo á að auglýsing nr. 243/2020 girti fyrir að henni væri heimilt að sinna slíkri þjónustu. Niðurstaðan hafi því orðið algert tekjufall vegna þess hluta starfseminnar sem kærandi hafi talið óheimilan, en hún hafi haft tekjur af þeim hluta starfseminnar sem hún hafi talið sér skylt að sinna. Verði að telja ómálefnalegt og órökrétt að hafna umsókn kæranda um lokunarstyrk á þeim grunni að félagið hafi ekki orðið fyrir 75% tekjufalli. Líta verði til þeirra sérstöku sjónarmiða sem eigi við um starfsemi kæranda þar sem félaginu hafi borið að sinna tiltekinni þjónustu en verið bannað að sinna öðrum verkefnum. Undir slíkum kringumstæðum sé óhjákvæmilegt að líta til raunverulegs tekjufalls, þ.e. tekjufalls sem leitt hafi af ákvæðum auglýsingar nr. 243/2020. Með vísan til framangreinds og sjónarmiða í bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 31. ágúst 2020, sé þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði endurskoðuð og að kæranda verði veittur lokunarstyrkur á grundvelli 4. gr. laga nr. 38/2020.

II.

Með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 24. febrúar 2021, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 38/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra lokunarstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laganna á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fimm töluliðum í lagagreininni. Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 er skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að rekstraraðila hafi verið gert skylt að loka samkomustað samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Þá er það skilyrði sett í 2. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 að tekjur rekstraraðila í apríl 2020 hafi verið a.m.k. 75% lægri en í apríl 2019.

Kærandi í málinu er einkahlutafélag um læknisþjónustu. Ágreiningslaust er að kæranda hafi verið skylt að láta af þeirri starfsemi um vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þannig að skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 sé uppfyllt í tilviki félagsins. Ríkisskattstjóri leit hins vegar svo á að skilyrði 2. tölul. sömu lagagreinar um 75% tekjufall væri ekki fullnægt í tilviki kæranda þar sem tekjur félagsins í apríl 2020 hefðu einungis verið 68,1% lægri en tekjur þess í apríl 2019 og tekjufall kæranda því verið undir lögbundnu lágmarki. Af hálfu kæranda er byggt á því að þar sem tekjur félagsins í apríl 2020 séu alfarið til komnar vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu, sem kæranda hafi verið bæði rétt og skylt að veita á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020, sbr. 3. mgr. 7. gr. hennar, beri ekki að taka þær tekjur með í reikninginn við mat á því hvort skilyrði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 sé uppfyllt í málinu. Tekjufall kæranda vegna þjónustu, sem félaginu hafi verið óheimilt að veita, sé því í reynd algert. Í 7. gr. auglýsingar nr. 243/2020 er mælt fyrir um takmarkanir á gildissviði hennar og kemur fram í 2. mgr. greinarinnar að auglýsingin taki ekki til nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu sem ekki getur beðið.

Vegna fyrrgreindra sjónarmiða kæranda, sem eins og rakið er lúta að því að félaginu hafi borið að sinna starfsemi að hluta á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020, skal tekið fram að í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laga nr. 38/2020, sbr. þskj. 1380 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, er sérstaklega vikið að rekstraraðilum sem hefðu með höndum fleiri en eina tegund starfsemi og þurft hefðu að loka eða stöðva hluta af starfsemi sinni en ekki allri. Kemur fram að meiri hluti nefndarinnar telji þá túlkun sem fram komi í greinargerð með frumvarpinu, þess efnis að í slíkum tilvikum beri að líta til umfangs hvorrar eða hverrar starfsemi fyrir sig við mat á því hvort rekstraraðili eigi rétt á lokunarstyrk, ekki vera í samræmi við orðalag ákvæðis 1. tölul. 4. gr. frumvarpsins. Telji meiri hlutinn að ef gera ætti að skilyrði fyrir lokunarstyrk að starfsemi sem heyrði undir ákvæðið næmi ákveðnu hlutfalli af heildarrekstri rekstraraðila þyrfti slíkt skilyrði að vera skýrt afmarkað í lagatextanum. Þá telji meiri hlutinn ekki tilefni til að bæta slíku skilyrði við ákvæðið, m.a. í ljósi ákvæðis 2. tölul. 4. gr. frumvarpsins um að rekstraraðili eigi aðeins rétt á lokunarstyrk ef tekjur hans í apríl 2020 séu a.m.k. 75% lægri en í apríl 2019. Telji meiri hlutinn því ljóst að rekstraraðili geti átt rétt á lokunarstyrk ef hann stundi starfsemi sem falli undir gildissvið 1. tölul., óháð því hve stórum þætti af heildarrekstri aðila sú starfsemi standi undir, enda sé öðrum skilyrðum laganna fullnægt.

Skilyrði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 um a.m.k. 75% tekjusamdrátt milli ára er afdráttarlaust og án nokkurs fyrirvara. Þá er ljóst af framangreindum athugasemdum í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að af hálfu nefndarinnar var litið svo á að í tilviki rekstraraðila með margþætta starfsemi, sem þurft hefðu að láta af hluta starfseminnar en ekki allri, yrði miðað við tekjur af heildarstarfsemi rekstraraðila við mat á umfangi samdráttar samkvæmt 2. tölul. 4. gr. laganna. Verður og að telja að sú niðurstaða sé frekast í samræmi við markmið laga nr. 38/2020, en eins og hér að framan er rakið er lokunarstyrkjum á grundvelli laganna ætlað að styðja við minni rekstraraðila sem orðið hafa fyrir tímabundnu tekjufalli vegna faraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Til samræmis við þetta markmið laga nr. 38/2020 gera skilyrði 2. og 3. tölul. 4. gr. þeirra ráð fyrir því að fram fari tiltekinn samanburður á tekjum rekstraraðila á lokunartímabili annars vegar og því tímabili þegar viðkomandi rekstraraðila var heimilt að halda starfsemi úti hins vegar. Sker sá samanburður úr um það hvort tekjufall rekstraraðila vegna lokunar starfsemi nær lögbundnu 75% lágmarki samkvæmt 2. tölul. 4. gr. laganna.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja