Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna staðgreiðsluskila

Úrskurður nr. 80/2021

Staðgreiðsla 2020

Lög nr. 94/1996, 17. gr. 6. mgr.  

Kröfu kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu vorið 2020 var hafnað með úrskurði yfirskattanefndar. Kom fram að þótt ekki væri nein ástæða til að draga í efa þær skýringar kæranda að starfsemi félagsins hefði raskast á umræddum tíma vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eins og starfsemi annarra fyrirtækja yrði ekki framhjá því litið að staðgreiðsluskil yrðu að teljast bæði regluleg og fyrirsjáanleg verkefni í starfsemi kæranda.

Ár 2021, miðvikudaginn 19. maí, er tekið fyrir mál nr. 165/2020; kæra A hf., dags. 20. október 2020, vegna staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur árið 2020. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 20. október 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 23. september 2020, um endurupptöku á fyrri úrskurði embættisins, dags. 5. júní 2020. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu álags vegna greiðslutímabilsins janúar-mars 2020 vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, sbr. 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Samkvæmt gögnum málsins nam fjárhæð álags alls 33.588.211 kr. Ríkisskattstjóri taldi að af hálfu kæranda hefðu ekki verið færðar fram gildar ástæður fyrir niðurfellingu álags, sbr. 6. mgr. 17. gr. greindra laga.

Af hálfu kæranda er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að álag vegna greiðslutímabilsins janúar-mars 2020 verði fellt niður á grundvelli 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Til vara er þess krafist að álagið verði lækkað verulega. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts vegna greiðslutímabilsins janúar-mars 2020, en gjalddagi var 20. apríl 2020 og eindagi 5. maí sama ár. Skilagrein og staðgreiðslu var skilað þann 15. maí 2020, auk álags að fjárhæð 33.588.211 kr. samkvæmt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. maí 2020, fór umboðsmaður kæranda fram á að álag á staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur vegna fyrrgreinds tímabils yrði fellt niður með vísan til 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Kom þar fram að ástæður síðbúinna skila kæranda væru til komnar vegna fordæmalausra aðstæðna í íslensku samfélagi, þ.e. vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Því væri um að ræða mistök sem rekja mættu til þess að viðeigandi starfsfólk hefði skyndilega haft takmarkaðan aðgang að starfsstöð félagsins, ásamt því að almennur vinnutími hefði riðlast og skipulag og verkferlar raskast með þessum afleiðingum. Síðbúin skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts hefðu ekki átt sér stað áður í starfsemi kæranda, eftir því sem best væri vitað, auk þess sem staðgreiðsla hefði verið innt umsvifalaust af hendi ásamt álagi þegar mistökin urðu kæranda ljós.

Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda til afgreiðslu þann 5. júní 2020 á grundvelli 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Varð það niðurstaða ríkisskattstjóra að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu álags. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að ríkisstjórn Íslands hefði lagt í ýmsar aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum með leiddu af heimsfaraldri og margar þeirra lytu að skattalegum úrræðum, sbr. t.d. bráðabirgðaákvæði XXXVII laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem veitti heimild til að fella niður álag samkvæmt 27. gr. sömu laga tímabundið eða ótímabundið, enda hefðu utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik almennt hamlað greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma. Engin sambærileg heimild hefði verið tekin upp í lög nr. 94/1996 og því væri ekki sérstakri heimild fyrir að fara til niðurfellingar álags nema 6. mgr. 17. gr. laganna. Væri það mat ríkisskattstjóra að ekki hefðu verið færðar fram gildar ástæður sem leyst gætu kæranda undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996, enda hefði ekkert komið fram um sérstakar ástæður eða atvik önnur en þau sem mörg önnur fyrirtæki byggju við. Væri beiðni kæranda því hafnað.

Með bréfi, dags. 3. júlí 2020, fór nýr umboðsmaður kæranda fram á endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 5. júní 2020, með vísan til 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfinu var í fyrsta lagi vísað til þess að kærandi hefði talið að félagið gæti fært fram frekari röksemdir og gögn í málinu áður en ríkisskattstjóri myndi kveða upp úrskurð, en svo hefði ekki verið. Beiting álags væri úr hófi og ekki í neinu samræmi við þau mistök sem orðið hefðu þar sem rask hefði orðið á allri starfsemi kæranda. Ætla mætti að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ætti að hafa áhrif á túlkun laga um beitingu álags við þessar aðstæður, einkum þegar refsing væri langt umfram það sem eðlilegt gæti talist. Forsendur fyrir beiðni kæranda væru í fyrsta lagi þær að þær aðgerðir sem ríkisstjórn Íslands hefði ráðist í bentu til þess að skýr vilji stæði til þess að ívilnanir yrðu veittar til að létta  undir með fyrirtækjum og einstaklingum og forða þeim frá tjóni og erfiðleikum. Yrði því að beita rýmra mati við skoðun á heimildum til niðurfellingar álags til hagsbóta fyrir skattgreiðendur eða a.m.k. ekki þröngu. Í öðru lagi væri mótmælt þeim rökum ríkisskattstjóra að ekki hefðu verið fyrir hendi önnur atvik en þau sem mörg fyrirtæki byggju við. Heimsfaraldurinn hefði haft veruleg áhrif á starfsemi kæranda sem hefðu leitt til þeirra mistaka sem um ræddi, en kærandi hefði alltaf staðið skil á staðgreiðslu á réttum tíma og umsvifalaust gengið frá greiðslu fjármagnstekjuskatts þegar félaginu urðu mistökin ljós, sbr. til hliðsjónar sjónarmið í úrskurði yfirskattanefndar nr. 392/2003. Í þriðja lagi var bent á að þrátt fyrir að aflétt hefði verið ýmsum takmörkunum og tilmælum, sem sett hefðu verið í sóttvarnarskyni, þann 5. maí 2020, þ.e. á gjalddaga staðgreiðslu, þá hefðu slíkar tilslakanir einnig í för með sér aukið rask þar sem starfsemi hefði þurft að skipuleggja upp á nýtt í ljósi nýrrar stöðu. Utanaðkomandi og óviðráðanleg atvik hefðu þannig komið til sem leitt hefðu til seinkunar á skilum staðgreiðslu. Var vísað til meðfylgjandi gagna þessu til stuðnings, m.a. innanhússgagna vegna viðbragða kæranda við heimsfaraldri.

Með bréfi, dags. 23. september 2020, hafnaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Kom fram í bréfinu að beiðnin byggði á sömu sjónarmiðum og fyrri beiðni kæranda um niðurfellingu álags, en væri nú studd gögnum sem gæfu mynd af því hversu víðtæk áhrif heimsfaraldur hefði haft á starfsemi kæranda. Ríkisskattstjóri féllst ekki á með kæranda að málsmeðferð embættisins hefði verið ábótavant, þ.e. að kærandi hefði talið sig fá tækifæri til þess að leggja fram frekari röksemdir og gögn, enda hefði komið fram í beiðni kæranda frá 15. maí 2020 að ástæða hinna síðbúnu skila á staðgreiðslu væru mistök starfsmanna kæranda. Ekki yrði því séð að beint orsakasamband hefði verið milli þeirra aðstæðna sem skapast hefðu í starfsemi kæranda vegna heimsfaraldurs og mistaka á skilum staðgreiðslu. Þá yrði ekki séð að þær fjölbreyttu aðgerðir, sem ráðist hefði verið í til að bregðast við aðstæðum í samfélaginu, hefðu staðið í vegi fyrir tímanlegum skilum á staðgreiðslu og því yrði að telja að kærandi bæri einn ábyrgð á því en ekki utanaðkomandi og óviðráðanleg atvik. Beiðni kæranda væri því hafnað.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 20. október 2020. Krafa kæranda um niðurfellingu álags á staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur er byggð á 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Í kærunni er í fyrsta lagi vísað til þess að skilagrein hafi í fyrsta skipti í sögu kæranda verið skilað of seint og munað þar nokkrum dögum. Gengið hafi verið frá skilum og greiðslu að viðbættu álagi að frumkvæði kæranda án tafar þegar síðbúin skil hefðu komið í ljós. Álagsbeiting sé verulega íþyngjandi vegna mistaka sem aldrei hafi áður komið upp hjá kæranda, en í heimsfaraldri hafi starfsemi kæranda verið í uppnámi. Í beiðni kæranda um endurupptöku málsins hafi m.a. verið vísað til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en undir þeim kringumstæðum sem um ræði hljóti meðalhófsreglan að hafa áhrif á mat skattyfirvalda sem sé rúmt samkvæmt 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Þá hafi verið vísað til fyrri úrskurða yfirskattanefndar, þ.e. úrskurða nr. 392/2003, 67/2014 og 278/2014, en ekki verði annað séð en að sjónarmið um utanaðkomandi og óviðráðanleg atvik eigi við í miðjum heimsfaraldri. Megináhersla til stuðnings kröfu kæranda sé sú að ríkisskattstjóri hafi víðtækt mat til niðurfellingar álags, sbr. 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Lítið sem ekkert hafi verið vikið að því víðtæka mati heldur hafi ríkisskattstjóri byggt niðurstöðu sína á því að ekki hafi verið gripið til sértækra aðgerða vegna skila á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts. Í bráðabirgðaákvæði XXXVII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 25/2020, sé ríkisskattstjóra heimilað, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, að fella niður álag samkvæmt 27. gr. laganna tímabundið eða ótímabundið, enda hafi utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik almennt hamlað greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma. Ríkisskattstjóri hafi tilkynnt um beitingu þessarar heimildar, m.a. þann 20. október 2020, þar sem fram komi að í ljósi erfiðs rekstrarumhverfis og óvissu í atvinnulífi hafi embættið ákveðið að nýta heimildina og beita ekki álagi á vangreiddan virðisaukaskatt. Með þessu hafi ríkisskattstjóri að mati kæranda litið svo á að heimsfaraldurinn hafi þau almennu áhrif að utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik hamli greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma. Kærandi hafi sýnt fram á með ítarlegum rökum og gögnum að aðstæður sem heimsfaraldurinn hafi skapað hafi leitt til þess að skilum á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts hafi seinkað. Ríkisskattstjóri hafi hafnað því með stuttri og almennri fullyrðingu um að orsakasamband sé ekki til staðar, en á sama tíma gefi hann út yfirlýsingar um að heimsfaraldur valdi því almennt að utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik hamli greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma. Krafa kæranda sé því áréttuð.

IV.

Með bréfi, dags. 15. desember 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögn ríkisskattstjóra er ítrekað að hin síðbúnu skil á staðgreiðslu hafi ekki stafað af utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum sem rekja megi til áhrifa heimsfaraldurs heldur hafi verið um mistök starfsmanna kæranda að ræða sem kærandi beri einn ábyrgð á. Varðandi bráðabirgðaákvæði XXXVII í lögum nr. 50/1988, sbr. breytingalög nr. 25/2020, bendir ríkisskattstjóri á að í nefndaráliti með ákvæðinu sé því lýst að ákvæðinu sé ætlað að veita fyrirtækjum í miklum rekstrar- og greiðsluvanda skjól og veita þeim aukna greiðslufresti. Heimildin sé ætluð aðilum sem lendi í greiðsluvanda, en ekki til að veita aðilum aukna skilafresti á lögboðnum skýrslum og skilagreinum.

Með bréfi, dags. 19. janúar 2021, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Er ítrekað að kærandi hafi sýnt fram á það með ítarlegum rökum og gögnum að þær aðstæður sem skapast hafi hjá félaginu og leitt hafi til seinkunar skila á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts hafi verið vegna heimsfaraldurs. Ríkisskattstjóri hafi ekki svarað þeim röksemdum efnislega að neinu marki heldur látið sitja við almennar röksemdir. Þá sé bráðabirgðaákvæði XXXVII í lögum nr. 50/1988 samkvæmt orðalagi sínu engan veginn eingöngu ætlað aðilum í greiðsluvanda, svo sem fram komi m.a. í tilkynningu á vef ríkisskattstjóra frá 26. ágúst 2020. Að mati kæranda beri röksemdir og framsetning ríkisskattstjóra vott um skort á meðalhófi, m.a. með vísan til umfangs viðurlaga, þ.e. álags, og þess stutta dráttar sem hafi orðið á skilum á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts.

Með tölvupósti umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar 11. maí 2021 fylgdu gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu kæranda.

V.

Í máli þessu er ágreiningur um beitingu álags á vangreidda staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, sbr. skilaskyldu kæranda samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með áorðnum breytingum. Um er að ræða vangreidda staðgreiðslu vegna greiðslutímabilsins janúar-mars 2020 og var gjalddagi skattsins 20. apríl 2020 og eindagi 15 dögum síðar eða 5. maí 2020, sbr. 7. gr. laga nr. 94/1996, eins og ákvæðinu var breytt með 5. gr. laga nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Óumdeilt er að greiðsla skattsins fór fram þann 15. maí 2020 er kæranda varð ljóst að greiðsla hefði ekki farið fram innan tilskilins tíma. Var kæranda gert að greiða álag samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 vegna síðbúinnar greiðslu. Ríkisskattstjóri synjaði kröfu kæranda um niðurfellingu álagsins með úrskurði, dags. 5. júní 2020, þar sem embættið taldi að af hálfu kæranda hefðu ekki verið færð fram gildar ástæður fyrir niðurfellingu álags samkvæmt 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Kærandi óskaði eftir endurupptöku málsins með erindi til ríkisskattstjóra 4. júlí 2020 og með bréfi, dags. 23. september 2020, synjaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um endurupptöku. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist í kæru til yfirskattanefndar að álag verði fellt niður, en til vara að álag verði lækkað verulega. Er krafa kæranda einkum studd þeim rökum að starfsemi kæranda hafi raskast bagalega um vorið 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru sem leitt hafi til síðbúinna skila á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts. Þegar kærandi hafi orðið mistakanna var hafi skatti verið skilað án dráttar ásamt álagi. Slík mistök hafi ekki áður átt sér stað af hendi kæranda.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 94/1996, eins og ákvæðinu var breytt með 5. gr. laga nr. 70/2009, skal greiðslutímabil skatts samkvæmt lögunum vera þrír mánuðir, þ.e. janúar-mars, apríl-júní, júlí-september og október-desember. Gjalddagar eru 20. apríl, 20. júlí, 20. október og 20. janúar og eindagi 15 dögum síðar. Í 8. gr. laganna segir að skilaskyldur aðili samkvæmt 3. gr. skuli ótilkvaddur greiða á gjalddaga samkvæmt 7. gr. skatt samkvæmt lögunum og skuli inna greiðslu af hendi til innheimtumanns ríkissjóðs í því umdæmi sem skilaskyldur aðili eigi lögheimili í. Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 er tekið fram að séu greiðslur samkvæmt lögunum eigi inntar af hendi á tilskildum tíma skuli ríkisskattstjóri gera skilaskyldum aðila að sæta álagi til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Sama gildir ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og skattur því verið áætlaður, sbr. 3. mgr. 9. gr., nema skilaskyldur aðili hafi greitt fyrir eindaga fjárhæð er svarar til áætlunarinnar. Í 2. mgr. 17. gr. eru síðan ákvæði um álag á vanskilafé samkvæmt 1. mgr. Þar er í fyrsta lagi mælt svo fyrir í 1. tölulið málsgreinarinnar að álagið skuli vera einn hundraðshluti af fjárhæð vanskilafjár fyrir hvern dag eftir eindaga, þó ekki hærra en tíu hundraðshlutar, og í öðru lagi er í 2. tölulið málsgreinarinnar mælt fyrir um álag til viðbótar af upphæð vanskilafjár reiknað frá og með gjalddaga, hafi ekki verið greitt á 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga, og skal álag þetta vera hið sama og dráttarvextir sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. má fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef skilaskyldur aðili færir gildar ástæður sér til afsökunar og metur ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Samkvæmt framansögðu er álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 lögbundið og leiðir sjálfkrafa af þeim tilteknu aðstæðum sem lýst er í 1. mgr. greinarinnar. Er því ekki að lögum til að dreifa mati ríkisskattstjóra á beitingu álags að undanskilinni niðurfellingu álags samkvæmt heimildarákvæði 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 við þær sérstöku aðstæður er þar greinir.

Fyrir liggur og er óumdeilt að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Veltur því úrlausn málsins á því hvort fram komnar upplýsingar um ástæðu þess að ekki var gerð grein fyrir afdreginni staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts og skattur greiddur á eindaga eigi að leiða til niðurfellingar álags á grundvelli 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996.

Eins og fram er komið er krafa kæranda um niðurfellingu eða lækkun álags einkum byggð á því að vegna heimsfaraldurs hafi orðið röskun á allri starfsemi félagsins sem leitt hafi til þess að ekki voru staðin skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts á réttum tíma. Hafi kærandi að eigin frumkvæði og án tafar leiðrétt mistökin þegar kæranda urðu þau ljós. Þá er vísað til aðgerða ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins, sbr. m.a. bráðabirgðaákvæði XXXVII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 25/2020, um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Er bent á að samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu sé ríkisskattstjóra heimilt, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, að fella niður álag á virðisaukaskatt samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988.

Samkvæmt framkomnum skýringum kæranda verður að leggja til grundvallar að greiðsludráttur staðgreiðslu vegna fyrrgreinds greiðslutímabils sé til kominn vegna mistaka starfsmanna kæranda, sbr. m.a. erindi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 15. maí 2020, þar sem fram kom að fordæmalausar aðstæður í starfsemi kæranda vegna áhrifa heimsfaraldurs, m.a. vegna takmarkaðs aðgangs starfsmanna að starfsstöð félagsins og riðlun á vinnutíma og skipulagi, hafi haft í för með sér að láðst hafi að standa skil á staðgreiðslu í tæka tíð. Ekki er nein ástæða til að draga í efa að starfsemi kæranda hafi raskast vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eins og starfsemi annarra fyrirtækja. Ekki verður hins vegar framhjá því litið að  staðgreiðsluskil verða að teljast bæði regluleg og fyrirsjáanleg verkefni í starfsemi kæranda, sbr. fyrrnefnd ákvæði 7. gr. laga nr. 94/1996. Vegna tilvísunar í kæru kæranda til aðgerða ríkisstjórnar vegna heimsfaraldurs og bráðabirgðaákvæðis XXXVII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, um heimild til niðurfellingar álags á virðisaukaskatt við þargreindar aðstæður, skal tekið fram að ákvæði þetta var tekið upp í frumvarp til laga nr. 25/2020, um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, með breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við frumvarpið, sbr. þskj. 1189 á 150. löggjafarþingi 2019-2020. Af lögskýringargögnum, sbr. nefndarálit á þskj. 1190, er ljóst að með ákvæðinu var ætlunin að koma til móts við fyrirtæki í greiðsluvanda. Ekki verður séð að slík sjónarmið eigi við í tilviki kæranda, enda hefur því ekki verið haldið fram í málinu. Þá voru engar hliðstæðar heimildir teknar upp í lög nr. 94/1996 með tilliti til álagsbeitingar á grundvelli þeirra laga.

Vegna athugasemda í kæru til yfirskattanefndar varðandi meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal áréttað að beiting álags samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 er lögbundin og leiðir sjálfkrafa af þeim aðstæðum sem lýst er í ákvæðinu, sbr. hér að framan. Verður því ekki talið að meðalhófsregla hafi staðið í vegi fyrir beitingu álagsins.

Með vísan til framanritaðs og þegar virt eru atvik að þeim drætti á skilum staðgreiðslu, sem í málinu greinir, verður að telja að hér sé um að ræða atriði sem kærandi ber einn ábyrgð á og verða ekki að neinu leyti kennd utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Samkvæmt þessu þykir kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður í skilningi 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 er leyst geti félagið undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. sömu lagagreinar. Verður því að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu eða lækkun álags. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja