Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 87/2021

Lög nr. 45/1987, 30. gr. 2. mgr., 31. gr. (brl. nr. 29/2021, 16. gr.)   Lög nr. 30/1992, 2. gr. 1. mgr. (brl. nr. 29/2021, 23. gr.)  

Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu var vísað frá yfirskattanefnd og málið sent ríkisskattstjóra til meðferðar. Var talið að eftir gildistöku laga nr. 29/2021 þann 1. maí 2021 takmörkuðust valdheimildir yfirskattanefndar við meðferð sektarmála við endurskoðun sektarákvarðana ríkisskattstjóra við meðferð kærumála og væri nefndin því ekki að lögum bær til að ákvarða gjaldanda sekt vegna meintra brota á skattalögum.

Ár 2021, föstudaginn 4. júní, er tekið fyrir mál nr. 12/2021; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 12. janúar 2021, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2017 og 2018.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa X ehf., nú afskráð, er gefið að sök eftirfarandi:

Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna. Vanræksla á afhendingu staðgreiðsluskilagreina á lögmæltum tíma.

A er gefið að sök að hafa vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf., nú afskráð, vegna greiðslutímabilanna maí, júní, nóvember og desember rekstrarárið 2017 og janúar til og með maí rekstrarárið 2018. Nemur vangoldin afdregin staðgreiðsla vegna umræddra tímabila samtals 14.002.594 kr. auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar að teknu tilliti til afdreginnar staðgreiðslu af launum hans. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:        

Rekstrarár

Greiðslutímabil

Vangoldin skilaskyld staðgreiðsla

Afdregin staðgreiðsla af launum fyrirsvarsmanns

Vangoldin skilask. stgr. að frádr. stgr. af launum fyrirsvarsmanns

2017

maí

2.061.912

244.246

1.817.666

2017

júní

2.695.541

639.798

2.055.743

2017

nóvember

2.177.054

403.002

1.774.052

2017

desember

1.653.871

329.811

1.324.060

Samtals kr.

 

8.588.378

1.616.857

6.971.521

2018

janúar

1.461.010

-

1.461.010

2018

febrúar

1.176.305

-

1.176.305

2018

mars

1.443.817

-

1.443.817

2018

apríl

1.425.534

-

1.425.534

2018

maí

1.524.407

-

1.524.407

 Samtals kr.

 

7.031.073

-

7.031.073

 Samtals alls kr.

15.619.451

1.616.857

14.002.594

Það er mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þessu hafi A komið til leiðar með saknæmum hætti að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 12. janúar 2021, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 25. febrúar 2021, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hann vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hans og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Með bréfi, dags. 5. maí 2021, hefur gjaldandi lagt fram vörn í málinu. Í vörninni er byggt á því að gjaldandi hafi innt af hendi verulegan hluta vangoldinna greiðslna frá því að vanskil byrjuðu að myndast. Þá beri að taka tillit til þess að gjaldandi hafi glímt við veikindi á því tímabili sem um ræðir en sé að vinna í því að ná heilsu á ný.

III.

Með lögum nr. 29/2021, um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn skattalagabrota (tvöföld refsing, málsmeðferð), sem öðluðust gildi þann 1. maí 2021 í kjölfar birtingar í A-deild Stjórnartíðinda hinn 30. apríl 2021, voru m.a. gerðar þær breytingar á tilhögun skattamála í landinu að embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins var lagt niður sem sjálfstætt embætti frá og með 1. maí 2021 og varð frá þeim degi sérstök eining innan Skattsins með heitinu skattrannsóknarstjóri. Í 2. mgr. 42. gr. laga nr. 29/2021 er kveðið á um að ríkisskattstjóri skuli taka við öllum óloknum málum skattrannsóknarstjóra ríkisins á hvaða stigi sem þau kunni að standa þegar lögin öðlist gildi. Þannig skuli ríkisskattstjóri taka við öllum rannsóknum, sektarákvörðunum, kærumálum, erindum, fyrirspurnum og öðrum þeim málum þar sem skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi ekki lokið málsmeðferð samkvæmt þeim lögum sem honum er falin framkvæmd á við sameiningu embættanna.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, eins og ákvæðið hljóðar eftir breytingu með 23. gr. laga nr. 29/2021, úrskurðar yfirskattanefnd í kærumálum vegna skatta, gjalda og sekta sem lagðar eru á eða ákvarðaðar af ríkisskattstjóra eða skattrannsóknarstjóra í umboði hans. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 29/2021 kemur fram að með lögfestingu frumvarpsins verði það hlutverk yfirskattanefndar að fjalla um kærur á ákvörðunum skattrannsóknarstjóra, meðal annars um að leggja á sektir eftir viðeigandi skattalögum. Með því verði sú breyting að yfirskattanefnd taki ekki frumákvörðun um sektir heldur verði hlutverk hennar að úrskurða um kærur vegna ákvörðunar skattrannsóknarstjóra. Með lögum nr. 29/2021 voru samhliða þessu gerðar breytingar á sektarákvæðum skattalaga sem endurspegla þessar breytingar á hlutverki yfirskattanefndar vegna meðferðar sektarmála, sbr. 16. gr. þeirra laga sem breytti ákvæðum 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem við á í máli þessu, þar sem kveðið er á um að það sé hlutverk skattrannsóknarstjóra að leggja á sektir samkvæmt 30. gr. laga nr. 45/1987 nema máli sé vísað til meðferðar hjá lögreglu, en skjóta megi ákvörðun skattrannsóknarstjóra til yfirskattanefndar og komi skattrannsóknarstjóri þá fram af hálfu hins opinbera fyrir nefndinni við meðferð málsins.

Samkvæmt framangreindu takmarkast valdheimildir yfirskattanefndar við meðferð sektarmála nú við endurskoðun sektarákvarðana ríkisskattstjóra (skattrannsóknarstjóra) við meðferð kærumála, sbr. hér að framan. Er yfirskattanefnd því ekki að lögum bær til að ákvarða gjaldanda sekt vegna meintra brota á lögum nr. 45/1987. Ber því að vísa sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins frá yfirskattanefnd. Með vísan til 42. gr. laga nr. 29/2021 er málið framsent ríkisskattstjóra til meðferðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er vísað frá yfirskattanefnd og málið sent ríkisskattstjóra til meðferðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja