Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 93/2021

Lög nr. 50/1988, bráðabirgðaákvæði XXXIII, 1. mgr.   Reglugerð nr. 690/2020, 1. gr.  

Samkvæmt sölureikningi B ehf., sem lá til grundvallar beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts, nam fjárhæð vinnuliðar 27.000 kr. án virðisaukaskatts. Til frádráttar voru færðar 7.093 kr. vegna efnis sem kærandi hafði áður greitt fyrir en skilað til seljanda gegn endurgreiðslu. Var fallist á kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 6.480 kr. vegna vinnuliðar.

Ár 2021, miðvikudaginn 9. júní, er tekið fyrir mál nr. 57/2021; kæra A, dags. 6. mars 2021, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 6. mars 2021, er ákvörðun ríkisskattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts til kæranda samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Með hinni kærðu ákvörðun sinni, dags. 5. mars 2021, féllst ríkisskattstjóri á endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 4.778 kr. samkvæmt reikningi B ehf., dags. 21. febrúar 2021, að fjárhæð 19.907 kr. án virðisaukaskatts. Í ákvörðuninni kom fram að endurgreiðsla virðisaukaskatts tæki einungis til vinnu manna á verkstað, en ekki til efniskaupa, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 690/2020 (sic). Endurgreiðslufjárhæð virðisaukaskatts gæti ekki verið hærri en sem næmi fjárhæð skattsins á reikningi og því lækkaði endurgreiðsla.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kæran lúti að ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingu á endurgreiðslufjárhæð virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu manna við íbúðarhúsnæði, sbr. umsókn kæranda þar um. Er bent á að samkvæmt framlögðum reikningi B ehf. sé vinnuliður að fjárhæð 27.000 kr. og þar af sé virðisaukaskattur 6.480 kr. sem sé sú endurgreiðsluupphæð sem sótt hafi verið um. Ríkisskattstjóri hafi ákveðið að lækka vinnuliðinn í 19.907 kr. og þar með endurgreiddan virðisaukaskatt í 4.778 kr. Kærandi óski eftir að þetta verði leiðrétt og endurgreiðslufjárhæð verði reiknuð einungis út frá vinnulið. Kemur fram að heildarreikningur hljóði upp á 19.907 kr. og innifalið í því sé endurgreiðsla á efniskostnaði að fjárhæð 7.093 kr. Vísar kærandi til þess að samkvæmt reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts eigi efniskostnaður ekki að vera tekinn með í endurgreiðslu og því eigi útreikningur á endurgreiðslu einungis að miða við vinnulið sem nemi 27.000 kr.

II.

Með bréfi, dags. 20. apríl 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun embættisins verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Vísar ríkiskattstjóri til þess að kærandi hafi lagt fram beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna við endurbætur á íbúðarhúsnæði samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Til grundvallar beiðninni hafi kærandi lagt fram reikning útgefinn af B ehf. Á reikningi þessum sé tilgreind vinna að fjárhæð 27.000 kr. og efni að fjárhæð -7.093 kr. Samtals fjárhæð á reikningi sé því 19.907 kr. og á þá fjárhæð sé lagður virðisaukaskattur að fjárhæð 4.778 kr. Einnig hafi verið meðfylgjandi staðfesting á greiðslu til B ehf. að fjárhæð 24.685 kr. Endurgreiðsluheimild virðisaukaskatts nái eingöngu til þess skatts sem greiddur sé, en það felist í orðinu endurgreiðsla. Kærandi hafi lagt fram reikning og greiðslukvittun þar sem fyrir liggi að eingöngu hafi verið greiddur virðisaukaskattur að fjárhæð 4.778 kr. Ekki verði því fallist á að réttur til endurgreiðslu nái til hærri fjárhæðar.

Með bréfi, dags. 22. apríl 2021, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Í bréfinu er vísað til meðfylgjandi gagna sem beri með sér að kærandi hafi greitt fyrir efni samkvæmt reikningi B ehf. nr. 2939 sem síðan hafi ekki verið notað og því verið skilað til verktaka gegn endurgreiðslu að fjárhæð 7.093 kr. sem sé dregið frá heildarfjárhæð samkvæmt reikningi nr. 3038.

III.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 5. mars 2021, um að endurgreiða kæranda virðisaukaskatt að fjárhæð 4.778 kr. samkvæmt framlögðum reikningi, dags. 21. febrúar 2021. Þrætuefni málsins er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að endurgreiða ekki fullan virðisaukaskatt af vinnu samkvæmt greindum reikningi að fjárhæð 27.000 kr. Byggir kærandi á því að endurgreiðslan eigi með réttu að nema 6.480 kr. en ekki 4.778 kr., svo sem ríkisskattstjóri ákvað.

Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, kemur fram að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils við endurbætur eða viðhalds þess. Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðinu. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur meðal annars fram að endurgreiða skuli á framangreindu tímabili 100% þess virðisaukaskatts sem eigendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við endurbætur eða viðhalds þess. Tekið skal fram að með breytingarreglugerð 1426/2020, um breytingu á reglugerð 690/2020, var umrætt endurgreiðslutímabíl framlengt til 31. desember 2021.

Samkvæmt fyrirliggjandi sölureikningi B ehf., dags. 21. febrúar 2021, sem lá endurgreiðslubeiðni kæranda til grundvallar, nam fjárhæð vinnuliðar 27.000 kr. án virðisaukaskatts. Af hálfu kæranda er komið fram að efnisliður á reikningnum að fjárhæð 7.093 kr., sem færður er til frádráttar fjárhæð reikningsins, sé vegna efnis sem kærandi hefði áður greitt fyrir en ekki verið nýtt við framkvæmdir við íbúðarhúsnæði kæranda og því verið skilað til seljanda gegn endurgreiðslu. Bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 22. apríl 2021, fylgja gögn þessu til staðfestingar, m.a. afrit af sölureikningi B ehf., dags. 31. október 2020, auk yfirlits þar sem tilgreind eru vöruskil að fjárhæð 20.328 kr. vegna efnis. Að framangreindu gættu og skýringum kæranda þykja ekki efni til annars en að fallast á kröfu hennar í málinu.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum, ber undir stjórnvald að framkvæma gjaldabreytingar sem stafa af úrskurði yfirskattanefndar. Er ríkisskattstjóra því falið að annast um endurgreiðslu samkvæmt úrskurði þessum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á umkrafða endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 1.702 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja