Úrskurður yfirskattanefndar
- Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða
Úrskurður nr. 94/2021
Lög nr. 50/1988, bráðabirgðaákvæði XXXIII, 4. mgr. Reglugerð nr. 690/2020, 5. gr. f-liður.
Fallist var á kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við bremsuskipti og olíuskipti á skiptingu bifreiðar. Kröfu kæranda vegna vinnu við þjónustuskoðun var hins vegar hafnað þar sem slík þjónusta teldist til reglulegrar umhirðu eða minniháttar viðhalds bifreiðar í skilningi reglugerðar um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts.
Ár 2021, miðvikudaginn 9. júní, er tekið fyrir mál nr. 71/2021; kæra A, dags. 18. mars 2021, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 18. mars 2021, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt bréfi, dags. 17. sama mánaðar, að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 22.129 kr. samkvæmt endurgreiðslubeiðni sem mun hafa borist ríkisskattstjóra í mars 2021. Var beiðnin byggð á 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. einnig 1. gr. reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Samkvæmt ákvæðum þessum skal á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að um væri að ræða beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við reglulega umhirðu bifreiðar eða minniháttar viðhald hennar sem félli undir ákvæði f-liðar 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020.
Í kæru kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Í kærunni kemur fram að kostnaður að fjárhæð 251.000 kr. vegna viðgerðar geti ekki talist minniháttar viðhald. Þá kemur fram að ákvörðun ríkisskattstjóra sé byggð á huglægu mati starfsmanns embættisins, enda séu engir bifvélavirkjar starfandi hjá ríkisskattstjóra.
II.
Með bréfi, dags. 27. apríl 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur fram að beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts sé til komin vegna þriggja vinnuliða á reikningi sem lagður hafi verið fram, þ.e. í fyrsta lagi vinnu við að skipta um bremsuklossa og bremsudiska, í öðru lagi vinnu við að skipta um olíu og í þriðja lagi vinnu við þjónustuskoðun bifreiðar. Með vísan til 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 50/1988 og 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020 verði ekki séð að heimild sé til endurgreiðslu þess virðisaukaskatts sem greiddur hafi verið vegna olíuskipta eða vinnu við þjónustuskoðun. Ríkisskattstjóri fallist á að réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við bremsuskipti sé til staðar, enda sé ekki um að ræða reglulegt viðhald. Sú vinna nemi 22.129 kr. á reikningi og virðisaukaskattur sé að fjárhæð 5.311 kr. Sé því fallist á endurgreiðslurétt kæranda að fjárhæð 5.311 kr. Að öðru leyti sé þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til annarra breytinga en að framan sé getið.
Með tölvupósti til yfirskattanefndar hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Kemur fram að kæranda hafi ekki verið kunnugt um að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna bílaviðgerðar tæki aðeins til vinnu við skítbretti og stuðara en ekki bremsur og þurrt plötutengsli með fjaðrafargi. Kærandi hafi aðeins farið eftir reikningi B ehf. sem liggi til grundvallar endurgreiðslubeiðni.
III.
Í 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, og 6. gr. laga nr. 141/2020, kemur fram að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 skuli endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts. Endurgreiðsla eftir ákvæði þessu skal innt af hendi á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 90 dögum eftir að Skattinum barst erindið. Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðinu. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um virðisaukaskatt sem ekki telst endurgreiðsluhæfur og kemur fram í f-lið greinarinnar að virðisaukaskattur fáist ekki endurgreiddur af reglulegri umhirðu fólksbifreiðar eða minniháttar viðhaldi hennar, svo sem ábyrgðarskoðun, tjónamati, ástandsskoðun, hjólbarðaviðgerðum, hjólbarðaskiptum, smurþjónustu, þrifum og bóni.
Beiðni kæranda í máli þessu um endurgreiðslu virðisaukaskatts tók til sölureiknings frá B ehf., dags. 1. mars 2021, að fjárhæð 251.091 kr. með virðisaukaskatti, en þar af nam vinna 92.205 kr. Miðað við lýsingu á sölureikningi B ehf. var um að ræða vinnu við bremsuskipti, skipti á olíu á skiptingu og þjónustuskoðun bifreiðar kæranda. Eins og hér að framan greinir er ábyrgðar- og ástandsskoðun bifreiðar sérstaklega tiltekin í 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020 sem dæmi um þjónustuþætti sem teljast til reglulegrar umhirðu fólksbifreiðar eða minniháttar viðhalds hennar. Verður því að hafna kröfu kæranda að því er snertir vinnu við þjónustuskoðun að fjárhæð 42.414,30 kr. án virðisaukaskatts. Eftir stendur þá vinna við bremsuskipti að fjárhæð 22.129,20 kr. án virðisaukaskatts og olíuskipti á skiptingu að fjárhæð 27.661,50 kr. án virðisaukaskatts. Þykir mega fallast á kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 11.950 kr. vegna þessara vinnuliða, sbr. og umsögn ríkisskattstjóra að því er snertir bremsuskipti.
Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum, ber undir stjórnvald að framkvæma gjaldabreytingar sem stafa af úrskurði yfirskattanefndar. Er ríkisskattstjóra því falið að annast um endurgreiðslu samkvæmt úrskurði þessum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 11.950 kr.