Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 515/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður — 95. gr. 1. mgr. 3. ml   Lög nr. 79/1989 — 1. gr.  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtabætur — Íbúðarhúsnæði, öflun — Öflun íbúðarhúsnæðis — Eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Notkun húsnæðis — Sifjalið — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra

Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990 felldi skattstjóri niður, með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, vaxtagjöld til frádráttar í reit 87 á framtali kæranda á þeim forsendum að viðkomandi íbúðarhúsnæði væri ekki nýtt til eigin nota eiganda þess.

Umboðsmaður kæranda kærði breytingar skattstjóra með bréfi, dags. 8. ágúst 1990. Í kærubréfi kom fram, að sonur kæranda hefði íbúðina til afnota án endurgjalds. Kærunni fylgdi staðfesting sonar þar að lútandi. Kærandi býr sjálf hjá frænda sínum, sem er ellilífeyrisþegi og sjúklingur, og annast húshald fyrir hann að X, Reykjavík.

Með úrskurði skattstjóra, dags. 29. október 1990, var kröfu kæranda synjað á fyrrgreindum forsendum, þ.e. að aðeins væri heimilt að samþykkja vaxtagjöld af lánum, sem tekin hefðu verið og notuð til kaupa eða byggingar á því íbúðarhúsnæði, sem viðkomandi skattþegn búi í sjálfur, en ekki af öðru íbúðarhúsnæði, sem hann kynni að eiga, jafnvel þótt það væri nýtt af nánustu ættingjum.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með svohljóðandi kæru, dags. 28. nóvember 1990:

„Með tilvísun til tveggja bréfa Skattstofu Reykjavíkur dags. 27. júlí s.l. og dags. 29. okt. 1990, til mín varðandi niðurfellingu á vaxtagjöldum mínum kr. 662.175.00 svo og svarbréfs [A], hdl. dags. 08.08. 1990 varðandi sama mál, vegna íbúðar minnar að [Y] í Reykjavík, vil ég taka fram eftirfarandi: Hér er um mikið fjárhagslegt áfall fyrir mig að ræða að þessi miklu vaxtagjöld skuli ekki tekin til greina. Samkvæmt ákvörðun Alþingis Íslendinga átti þessi regla um niðurfellingu á vaxtagjöldum vegna íbúðarkaupa að gilda í 3 ár. Mér er alveg hulin ráðgáta hvernig einn maður getur með einu pennastriki breytt þessu. Ég vil taka fram, að öll mín búslóð er í íbúð minni að [Y], þar sem sonur minn býr nú um stundarsakir, leigulaust. Í framhaldi af þessu leyfi ég mér að kæra þennan úrskurð til Ríkisskattanefndar og á fastlega von á því, að kæra mín verði tekin til greina.“

Með bréfi, dags. 8. mars 1991, gerir ríkisskattstjóri svohljóðandi kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Með vísan til þess að eigi verður séð að kærandi hafi búið í umræddri íbúð verður ekki séð að unnt sé að fallast á kröfur kæranda. Samkvæmt því er gerð krafa um staðfestingu hins kærða úrskurðar.“

Svo sem atvikum er lýst af hálfu kæranda máls þessa þykir bera að fallast á kröfu hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja