Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjufallsstyrkur

Úrskurður nr. 105/2021

Lög nr. 118/2020, 4. gr. 1. tölul.  

Í máli þessu vegna umsóknar um tekjufallsstyrk taldi yfirskattanefnd að skýra yrði heimild laga til að miða mat á tekjufalli rekstraraðila við annað tímabil en sjö mánaða tímabil á árinu 2019 svo að um væri að ræða heimild við sérstakar aðstæður til að byggja ákvörðun slíks styrks á samanburði við tekjur á styttra tímabili frá ársbyrjun 2019 til marsloka 2020. Gæti því ekki að lögum komið til viðmiðunar við eldri tímabil. Kröfu kæranda um að miðað yrði við rekstrarárið 2016 í þessu sambandi var því hafnað.

Ár 2021, miðvikudaginn 16. júní, er tekið fyrir mál nr. 68/2021; kæra A ehf., dags. 15. mars 2021, vegna ákvörðunar um tekjufallsstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 15. mars 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 23. febrúar 2021, að hafna umsókn kæranda um tekjufallsstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki. Ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin í framhaldi af tölvupóstsamskiptum, sbr. tölvupósta kæranda 12., 15. og 25. febrúar 2021 og tölvupóst ríkisskattstjóra 15. febrúar 2021. Byggðist höfnun ríkisskattstjóra á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 um a.m.k. 40% tekjufall á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Í ákvörðun sinni rakti ríkisskattstjóri fyrrgreind ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 og benti á að samkvæmt þeim væri meginregla við mat á tekjufalli að bera tekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 saman við sjö mánaða tekjur eða 7/12 hluta af heildartekjum ársins 2019, nema starfsemi hefði hafist eftir 1. apríl 2019 eða um nýstofnaðan atvinnurekstur væri að ræða, þ.e. ef starfsemi hefði staðið skemur en sjö heila almanaksmánuði í lok mars 2020. Ríkisskattstjóri tók fram að samkvæmt virðisaukaskattsskilum kæranda væri um að ræða skattskylda veltu á öllum uppgjörstímabilum árin 2016 til 2020 að undanskildu tímabilinu nóvember-desember 2016. Starfsemi kæranda hefði því aldrei alveg lagst af. Sérstakar aðstæður hjá kæranda á árunum 2017 og 2018, þ.e. annars vegar tjón á bát félagsins sumarið 2017 og hins vegar tjón um borð í bátnum í ársbyrjun 2018, gerðu það að verkum að tekjur almanaksársins 2019 væru ekki dæmigerðar fyrir rekstur félagsins. Hins vegar yrði ekki fallist á að miða við tekjur kæranda á árinu 2016 við mat á tekjufalli samkvæmt framangreindu. Telja yrði að í heimild til að miða við annað tímabil í þessu sambandi en sjö mánaða tímabil á árinu 2019, sbr. 4. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020, fælist að umsækjandi þyrfti að tilgreina annað sjö mánaða tímabil til viðmiðunar á árinu 2019 til og með mars 2020 væri tekjuöflun á annað borð hafin. Í ljósi þess að starfsemi kæranda hefði verið komin í fullan gang haustið 2019 kæmi því til álita að miða við tekjur tímabilsins september 2019 til mars 2020. Umsókn á þeim grundvelli hefði hins vegar ekki verið lögð fram. Með vísan til framanritaðs væri ekki fallist á að byggja samanburð á tekjufalli tímabilsins 1. apríl til 31. október 2020 við 7/12 hluta af tekjum ársins 2016. Umsókn um tekjufallsstyrk er byggði á þeirri viðmiðun væri því hafnað.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni kemur fram að kærandi sé ferðaþjónustufyrirtæki sem hafi orðið fyrir miklum áhrifum af kórónuveirufaraldrinum og samkomutakmörkunum vegna hans. Vegna sérstakra aðstæðna í rekstri kæranda, þ.e. tjóns á bát félagsins sumarið 2017 þegar báturinn hafi siglt á sker og tjón um borð í bátnum í ársbyrjun 2018, hafi kærandi óskað eftir því að við mat á tekjufalli vegna umsóknar um tekjufallsstyrk yrði rekstrarárið 2016 notað til viðmiðunar, enda sé það síðasta árið sem félagið hafi haft fullar tekjur. Umrædd áföll í rekstrinum á árunum 2017 og 2018 hafi haft í för með sér að tekjur kæranda árin 2017-2019 hafi verið mjög litlar og gefi alls ekki rétta mynd af því sem eðlilegt sé í rekstri félagsins. Eðlilegra sé því að miða við tekjuárið 2016 við mat á tekjufalli.

Í kærunni er ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 tekið upp orðrétt og bent á að samkvæmt orðskýringu þess sé ljóst að heimilt sé að miða við annað tímabil við ákvörðun á tekjufallsstyrk ef þannig fáist betri mynd af raunverulegu tekjufalli rekstraraðila. Heimild ákvæðisins hafi komið til í meðförum Alþingis á frumvarpi til laganna og séu fæðingarorlof eða veikindi nefnd sem dæmi um tilvik sem réttlæti frávik frá viðmiðunartímabili. Ekki sé þó um það að ræða að heimildin sé einskorðuð við slíkar aðstæður og aðrar óviðráðanlegar aðstæður, t.d. tjón af þeim toga sem kærandi hafi lent í, geti valdið því að umsækjanda sé heimilt að miða við annað tímabil. Vegna þeirra sjónarmiða í hinni kærðu ákvörðun, að starfsemi kæranda hafi verið komin í fullan gang haustið 2019, er tekið fram í kæru kæranda að þótt viðgerð hafi verið lokið á bát félagsins á þeim tíma hafi starfsemin ekki verið komin í fullan gang, enda geti tekið tíma að koma slíkri starfsemi sem kærandi stundar í gang aftur. Með vísan til framangreinds verði að telja að það viðmiðunartímabil, sem kærandi hafi byggt á í umsókn um tekjufallsstyrk, gefi bestu mynd af tekjufalli í rekstri félagsins. Kærandi uppfylli því skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 og því sé rétt að fella ákvörðun ríkisskattstjóra úr gildi. Í niðurlagi kæru kæranda er þess óskað að meðferð málsins verði hraðað eins og kostur sé.

II.

Með bréfi, dags. 4. maí 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með tölvupósti 18. maí 2021 hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra og ítrekað gerðar kröfur.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. apríl 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 118/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra tekjufallsstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í þremur töluliðum í lagagreininni.

Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 er skilyrði fyrir greiðslu tekjufallsstyrks að tekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 hafi verið a.m.k. 40% lægri en meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili 2019 og tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans bornar saman við tekjur hans fyrstu sjö heilu almanaksmánuði sem hann starfaði. Hafi hann starfað skemur en sjö heila almanaksmánuði í lok mars 2020 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í 214 daga viðmiðunartekjur. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-3. málsl. ákvæðisins.

Síðastnefnt ákvæði 4. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020, um að heimilt sé við sérstakar aðstæður að nota annað tímabil til viðmiðunar við ákvörðun tekjufallsstyrks en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-3. málsl. ákvæðisins, var ekki að finna í upphaflegu frumvarpi til laga nr. 118/2020, en var tekið upp í meðförum Alþingis. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis var gerð grein fyrir breytingu þessari í tengslum við þær breytingar á frumvarpinu að slaka á skilyrði um lágmark tekjufalls rekstraraðila (úr 50% í 40%) og gera ráð fyrir meiri sveigjanleika varðandi samanburðartímabil við mat á tekjufalli í einstökum tilvikum. Kemur eftirfarandi fram um þessar breytingar í nefndaráliti, sbr. þskj. 259 á 151. löggjafarþingi 2020-2021:

„Jafnframt leggur nefndin til að í stað þess að tekjufall á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 verði miðað við tekjur rekstraraðila sömu mánuði á árinu 2019 skuli miða við meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili á árinu 2019. Er þannig leitast við að koma til móts við rekstraraðila þar sem starfsemi er sveiflukennd eftir árstíðum auk þess sem fyrirkomulagið er einfaldara í framkvæmd. Þó er lagt til að heimilt verði að notast við annað viðmiðunartímabil ef rekstraraðili sýnir fram á að þannig fáist betri mynd af raunverulegu tekjufalli hans. Þetta getur t.d. átt við í tilviki einyrkja sem hefur verið í fæðingarorlofi eða veikindaleyfi stóran hluta rekstrarársins 2019. Í slíku tilviki er á herðum rekstraraðila að tilgreina annað viðmiðunartímabil og sýna fram á rök fyrir því að það gefi betri mynd af tekjufalli hans.“

Í upphaflegu frumvarpi til laga nr. 118/2020 var gengið út frá því að mat á tekjufalli við ákvörðun tekjufallsstyrkja tæki ávallt mið af samanburði við tekjur rekstraraðila á árinu 2019, eftir atvikum með umreikningi til loka mars 2020, sbr. 1. tölul. 4. gr. frumvarpsins. Þá var sömuleiðis gert að skilyrði í frumvarpinu að tekjur umsækjanda á rekstrarárinu 2019 næðu tilteknu lágmarki, sbr. 2. tölul. 4. gr. þess. Síðastnefnt ákvæði frumvarpsins var fellt brott í meðförum Alþingis með þeim rökum, sbr. nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar, að tilgangur þess væri orðinn hverfandi í ljósi annarra breytinga á frumvarpinu auk þess sem ákvæðið gæti flækt framkvæmd að óþörfu, einkum í tilviki rekstraraðila sem ekki hefðu verið starfandi allt rekstrarárið 2019. Að þessu athuguðu og með skírskotun til fyrrgreindra athugasemda í nefndaráliti verður að skýra ákvæði 4. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 svo að það feli í sér heimild við sérstakar aðstæður til að byggja ákvörðun tekjufallsstyrks á samanburði við tekjur á styttra tímabili frá ársbyrjun 2019 til marsloka 2020 en leiðir af reglum 1.-3. málsl. sama töluliðar. Getur því ekki að lögum komið til viðmiðunar við eldri tímabil, eins og krafa kæranda lýtur að. Þegar af þessi ástæðu verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður og að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja