Úrskurður yfirskattanefndar

  • Takmörkuð skattskylda
  • Lífeyrisgreiðslur
  • Tvísköttunarsamningur

Úrskurður nr. 99/2021

Gjaldár 2015-2020

Lög nr. 90/2003, 3. gr. 2. tölul., 101. gr. 2. mgr.   Lög nr. 30/1992, 12. gr.   Tvísköttunarsamningur við Pólland, 18. gr., 19. gr.  

Kærandi var búsettur í Póllandi og bar takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og íslenskum lífeyrissjóðum. Í máli þessu vegna skattalegrar meðferðar greiðslnanna lá fyrir að ríkisskattstjóri hafði fallist á að bótagreiðslur til kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins ættu einungis að koma til skattlagningar í Póllandi. Vegna þeirrar niðurstöðu var talið nauðsynlegt að ríkisskattstjóri tæki skattákvarðanir sínar vegna kæranda til heildstæðrar athugunar öll þau ár sem málið tók til, enda þótti blasa við að forsendur þeirra ákvarðana um skattskyldu teknanna hér á landi fengju þá ekki staðist. Var mál kæranda sent ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.

Ár 2021, miðvikudaginn 16. júní, er tekið fyrir mál nr. 47/2021; kæra A, dags. 28. janúar 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2015, 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 28. janúar 2021, sbr. greinargerð, dags. 4. febrúar 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 3. desember 2020, sem kveðinn var upp með vísan til 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með úrskurði þessum hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárin 2015, 2016, 2018 og 2019 með vísan til leiðréttra launaupplýsinga og skilagreina staðgreiðslu opinberra gjalda frá Tryggingastofnun ríkisins (hér eftir TR) vegna greiddra bóta til kæranda vegna tekjuáranna 2014 til 2019.

Af kæru til yfirskattanefndar verður ráðið að kærandi geri kröfu um breytingar á skattframtölum sínum árin 2015, 2016 og 2017 í samræmi við endurreikning TR, dags. 31. janúar 2020, á fjárhæð bóta til kæranda. Að auki gerir kærandi athugasemdir við að ríkisskattstjóri hafi ekki tekið tillit til vaxtagreiðslna frá TR vegna endurreiknings, sbr. greiðsluseðla stofnunarinnar í skattframtölum kæranda árin 2015 til 2018.

Með tölvupósti til yfirskattanefndar 22. febrúar 2021 hefur kærandi krafist þess að framangreindar greiðslur frá TR teljist undanþegnar skattlagningu á Íslandi, enda beri kæranda að greiða skatt af umræddum tekjum í Póllandi, þar sem hann beri ótakmarkaða skattskyldu.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem búsettur er í Póllandi, fékk greiddar örorkubætur frá TR m.a. á árunum 2014 til og með 2019. Um er að ræða tekjutengdar bætur sem eru ákvarðaðar miðað við áætlun tekna kæranda en sæta endurreikningi þegar tekjur viðkomandi árs liggja fyrir samkvæmt skattframtali.

Fyrir liggur í málinu að 31. janúar 2020 fór fram endurreikningur og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda tekjuárin 2014, 2015, 2016, 2017 og 2018. Mun endurreikningurinn hafa komið til í kjölfar álits umboðsmanns Alþings í máli nr. 8955/2016. Kærandi hefur lagt fram með kæru sinni gögn um þennan endurreikning.

Samkvæmt endurreikningi vegna tekjuárs 2014 kom fram að heildargreiðslur TR á árinu hefðu verið 385.786 kr. Réttindi kæranda samkvæmt skattframtali árið 2015 hefðu verið 823.815 kr. og fengi kærandi því greiddan mismuninn 438.019 kr. Var haldið eftir staðgreiðslu að fjárhæð 140.886 kr. Vegna tekjuárs 2015 kom fram að heildargreiðslur TR á árinu hefðu verið 361.704 kr. Réttindi kæranda samkvæmt skattframtali árið 2016 hefðu verið 1.121.942 kr. og fengi kærandi því greiddan mismuninn 760.238 kr. Var haldið eftir staðgreiðslu að fjárhæð 248.675 kr. Vegna tekjuárs 2016 kom fram að heildargreiðslur á árinu hefðu verið 389.013 kr. Réttindi kæranda samkvæmt skattframtali árið 2017 hefðu verið 1.243.264 kr. og fengi kærandi því greiddan mismuninn 854.251 kr. Var haldið eftir staðgreiðslu að fjárhæð 274.316 kr. Vegna tekjuárs 2017 kom fram að heildargreiðslur á árinu hefðu verið 495.727 kr. Réttindi kæranda samkvæmt skattframtali árið 2018 hefðu verið 1.336.771 kr. og fengi kærandi því greiddan mismuninn 841.044 kr. Var haldið eftir staðgreiðslu að fjárhæð 293.440 kr. Vegna tekjuárs 2018 kom fram að heildargreiðslur á árinu hefðu verið 522.132 kr. Réttindi kæranda samkvæmt skattframtali árið 2019 hefðu verið 1.399.159 kr. og fengi kærandi því greiddan mismuninn 877.027 kr. Var haldið eftir staðgreiðslu að fjárhæð 305.226 kr.

Jafnframt framangreindu voru kæranda reiknaðir vextir á greiðslur frá þeim tíma sem réttindin mynduðust til 31. janúar 2020. Samkvæmt greiðsluskjölum frá TR, dags. 31. janúar 2020, fékk kærandi greidda vexti vegna tekjuársins 2014 að fjárhæð 127.159 kr. og var haldið eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 27.975 kr. Þá fékk hann greidda vexti vegna tekjuársins 2015 að fjárhæð 187.261 kr. og var haldið eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 41.197 kr., vexti vegna tekjuársins 2015 að fjárhæð 187.261 kr. og var haldið eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 41.197 kr., vexti vegna tekjuársins 2016 að fjárhæð 158.175 kr. og var haldið eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 34.799 kr., vexti vegna tekjuársins 2017 að fjárhæð 119.786 kr. og var haldið eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 26.353 kr. og loks fékk kærandi greidda vexti vegna tekjuársins 2018 að fjárhæð 75.051 kr. og var haldið eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 16.511 kr.

Samkvæmt tilkynningu TR, dags. 21. ágúst 2019, voru greiðslur til kæranda endurreiknaðar að nýju á grundvelli skattframtals árið 2019. Samkvæmt bréfinu hafði kærandi fengið greitt á árinu 522.132 kr. en réttindi hans samkvæmt skattframtali árið 2019 voru 572.883 kr. Fékk kærandi því greiddan mismuninn 50.751 kr. og var haldið eftir staðgreiðslu að fjárhæð 18.747 kr.

Með bréfi, dags. 13. júlí 2020, fór kærandi fram á skýringar frá ríkisskattstjóra vegna skattframtals árið 2020 og afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt bréfi TR, dags. 21. ágúst 2019. Jafnframt óskaði kærandi eftir upplýsingum um hver myndi annast leiðréttingu skattframtala kæranda vegna endurreiknings TR 31. janúar 2020 í tengslum við álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8955/2016. Loks óskaði kærandi eftir frekari skýringum á leiðréttingum vegna tekjuársins 2019.

Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda, dags. 13. júlí 2020, til meðferðar með hinum kærða úrskurði, dags. 3. desember 2020, á þeim grundvelli að um væri að ræða beiðni um breytingu á skattstofnum eða skattálagningu (skatterindi) gjaldárin 2015 til 2020 samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Tók ríkisskattstjóri fram að óskað væri eftir leiðréttingu skattframtala og að afdregnir staðgreiðsluskattar yrðu færðir til frádráttar álögðum gjöldum. TR hefði látið embættinu í té leiðréttar launaupplýsingar og skilagreinar staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslna til kæranda á árunum 2014 til 2019. Samkvæmt nýjum gögnum frá TR hefðu bótagreiðslur til kæranda numið 446.104 kr. árið 2014, 455.253 kr. árið 2015, 504.464 kr. árið 2016, 1.336.771 kr. árið 2017, 1.399.159 kr. árið 2018 og 1.427.189 kr. árið 2019. Enn fremur hefði afdregin staðgreiðsla skatta samkvæmt gögnunum numið 140.886 kr. árið 2014, 248.675 kr. árið 2015, 0 kr. árið 2016, 293.440 kr. árið 2017, 305.226 kr. árið 2018 og 329.337 kr. árið 2019. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að með úrskurðum embættisins, dags. 5. desember 2017 og 30. nóvember 2020, hefðu skattframtöl kæranda árin 2017 og 2020 verið leiðrétt til samræmis við umrædd gögn. Með úrskurði þessum væru leiðrétt skattframtöl kæranda gjaldárin 2015, 2016, 2018 og 2019. Yrði stofn kæranda til tekjuskatts og útsvars gjaldárið 2015 780.546 kr., 680.308 kr. gjaldárið 2016, 1.688.026 kr. gjaldárið 2018 og 1.757.398 kr. gjaldárið 2019. Samkvæmt úrskurðinum hækkaði staðgreiðsla opinberra gjalda um 140.886 vegna tekjuársins 2014, um 248.675 vegna tekjuársins 2015, um 293.440 kr. vegna tekjuársins 2017 og 305.226 kr. vegna tekjuársins 2018.

Meðal gagna málsins er bréf frá fjármálaráðuneyti Póllands, dagsett í maí 2020, þar sem fram kemur að kærandi hafi verið búsettur í Póllandi frá árinu 2008. Kærandi hafi fengið greiðslur frá TR 31. janúar 2020 vegna endurreiknings bóta frá árinu 2014 auk vaxta vegna síðbúinna greiðslna. TR hafi haldið eftir staðgreiðslu skatta. Í bréfinu er greint frá þeirri ályktun ráðuneytisins að samkvæmt ákvæðum tvísköttunarsamnings milli Íslands og Póllands eigi Pólland skattlagningarrétt vegna umræddra greiðslna. Er óskað eftir afstöðu ríkisskattstjóra til þessa.

Með bréfi, dags. 9. desember 2012, svaraði ríkisskattstjóri bréfi fjármálaráðuneytis Póllands og féllst á sjónarmið ráðuneytisins um að skattlagningarréttur nefndra greiðslna væri í Póllandi, sbr. 11. og 21. gr. tvísköttunarsamnings milli ríkjanna. Í bréfinu er bent á að til þess að komast hjá því að staðgreiðslu verði haldið eftir af greiðslum til kæranda þurfi hann að sækja um undanþágu frá staðgreiðslu til ríkisskattstjóra. Það hafi kærandi ekki gert og sé TR því skylt að halda eftir staðgreiðslu af greiðslum til hans. Fram kemur að ríkisskattstjóri hafi endurákvarðað opinber gjöld kæranda vegna tekjuára 2014, 2015, 2017 og 2018 með úrskurði, dags. 3. desember 2020. Verði kæranda endurgreiddar þær skattfjárhæðir sem haldið hafi verið eftir. Jafnframt hafi opinber gjöld kæranda vegna tekjuárs 2016 verið endurákvörðuð með úrskurði, dags. 5. desember 2017, og opinber gjöld vegna tekjuársins 2019 með úrskurði, dags. 30. nóvember 2020, og verði ákvarðaður skattur einnig endurgreiddur vegna þeirra ára. Loks tekur ríkisskattstjóri fram að vextir sem greiddir hafi verið kæranda á árinu 2020 vegna endurreiknings TR teldust til tekna þess árs og verði skattur ákvarðaður af þeim tekjum við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021.

Fyrir liggur að kæranda voru endurgreidd opinber gjöld að fjárhæð 340.686 kr. 30. nóvember 2020 og 1.102.671 kr. 3. desember 2020.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 28. janúar 2021, sbr. greinargerð, dags. 4. febrúar 2021, vísar kærandi til þess að ríkisskattstjóri taki í úrskurði sínum, dags. 3. desember 2020, ekki mið af þeim breytingum sem hafi orðið á tekjum kæranda tekjuárin 2014, 2015 og 2016 samkvæmt bréfum TR, dags. 31. janúar 2020. Auk þess hafi ríkisskattstjóri ekki tekið tillit til vaxtatekna kæranda á árunum 2014 til 2018, sbr. ákvörðun TR þess efnis, sem einnig sé dagsett 31. janúar 2020.

Í kærunni gerir kærandi athugasemdir við tilvísun ríkisskattstjóra til úrskurðar embættisins, dags. 5. desember 2017, hvað snertir hækkun tekna kæranda frá TR úr 389.013 kr. í 504.464 kr. gjaldárið 2017. Kveðst kærandi ekki fá skilið hvers vegna ríkisskattstjóri hafi ekki miðað ákvörðun tekna sinna við endurreikning TR frá 31. janúar 2020 sem hafi samkvæmt tilkynningu numið 1.243.264 kr. tekjuárið 2016.

Með kæru fylgdu ýmis fylgiskjöl, þar á meðal tölvupóstsamskipti milli kæranda og ríkisskattstjóra, bréf TR til kæranda um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna á árunum 2014 til 2018, og greiðsluskjöl frá TR þar sem fram koma greiðslur vaxta inn á bankareikning kæranda, en skjöl þessi eru dagsett 31. janúar 2020.

Með bréfi, dags. 4. febrúar 2021, hefur kærandi lagt fram viðbótargögn með kæru sinni. Þá hefur kærandi með bréfi, dags. 15. apríl 2021, sent viðbótargögn vegna gjaldársins 2017.

IV.

Með bréfi, dags. 2. mars 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögn embættisins er vísað til þess að kærandi hafi falið pólskum skattyfirvöldum að leita eftir gagnkvæmu samkomulagi (e. Mutual Agreement Procedure / MAP) við íslensk skattyfirvöld um skattlagningu á tekjum frá TR, sbr. 25. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Póllands. Ríkisskattstjóri hafi með bréfi til pólskra yfirvalda, dags. 9. desember 2020, samþykkt að falla frá skattlagningu tekna frá TR, sbr. 21. gr. tvísköttunarsamnings milli ríkjanna, tekjuárin 2014 til 2019, auk þess að veita leiðbeiningar um hvernig sé hægt að sækja um undanþágu á skattlagningu framtíðargreiðslna frá TR.

Með tveimur tölvupóstum til yfirskattanefndar, sem báðir bárust 4. mars 2021, kvaðst kærandi ekki hafa séð bréf það sem ríkisskattstjóri vísi til í umsögn sinni og sent hafi verið til pólskra skattyfirvalda 9. desember 2020. Því geti kærandi ekki svarað þeirri athugasemd ríkisskattstjóra. Þá kvaðst kærandi hafa sent öll gögn málsins með kæru sinni til yfirskattanefndar og geri ekki frekari athugasemdir.

V.

Kæra í máli þessu varðar úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 3. desember 2020, sem kveðinn var upp með vísan til 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna erindis kærenda til embættisins, dags. 13. júlí 2020. Erindi þetta virðist ríkisskattstjóri hafa skilið sem beiðni um leiðréttingu á skattframtölum kæranda árin 2015, 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020 og afdreginni staðgreiðslu vegna endurreiknings Tryggingastofnunar ríkisins (TR) á tekjutengdum bótum kæranda í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8955/2016. Eins og málið liggur fyrir verður ekki gerð athugasemd við þessa afstöðu ríkisskattstjóra. Í úrskurði ríkisskattstjóra kemur fram að TR hafi látið ríkisskattstjóra í té leiðréttar launaupplýsingar og skilagreinar staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslna til kæranda vegna tekjuáranna 2014 til 2019 svo sem rakið hefur verið í kafla II hér að framan auk þess sem vísað er til þess að ríkisskattstjóri hafi áður leiðrétt skattframtöl kæranda árin 2017 og 2020. Samkvæmt úrskurðinum voru gerðar breytingar á tekjuskatts- og útsvarsstofnum kæranda gjaldárin 2015, 2016, 2018 og 2019 auk þess sem tilkynnt var um breytingar á fjárhæðum afdreginnar staðgreiðslu.

Kærandi hefur samkvæmt skráningu í þjóðskrá verið búsettur í Póllandi frá árinu 2008. Á þeim árum sem mál þetta tekur til hafði kærandi tekjur frá TR og íslenskum lífeyrissjóðum. Vegna þeirra tekna, að því leyti sem þær skulu koma til skattlagningar hér á landi, bar kærandi takmarkaða skattskyldu samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar er tekið fram að allir menn, sem njóti frá íslenskum aðilum launa fyrir störf, þar með talin stjórnar-, endurskoðenda- eða nefndarstörf, eftirlauna, biðlauna, lífeyris, styrkja eða hliðstæðra greiðslna, skuli greiða tekjuskatt af þeim greiðslum. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum, skulu þeir menn, sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum I. kafla laga um tekjuskatt, greiða útsvar af tekjum sínum til sveitarfélags eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum.

Bein kröfugerð kæranda í máli þessu virðist annars vegar lúta að því að viðurkennt verði að greiðslur til hans frá TR eigi að koma til skattlagningar í Póllandi en ekki á Íslandi, þar á meðal vextir sem TR ákvarðaði sökum síðbúins uppgjörs bótagreiðslna til kæranda. Hins vegar finnur kærandi að því að ekki verði séð að allar umræddar bótagreiðslur hafi fengið hliðstæða skattalega meðferð af hálfu ríkisskattstjóra. Í þessum efnum víkur kærandi sérstaklega að því að ekki hafi verið tekið tillit til allrar afdreginnar staðgreiðslu sem fram komi í gögnum málsins.

Það er að segja um fyrrnefnda kæruefnið að með bréfaskiptum pólska fjármálaráðuneytisins og ríkisskattstjóra liggur fyrir að viðurkennt er af hálfu íslenskra skattyfirvalda að bótagreiðslur TR, sem í málinu greinir, eigi einungis að koma til skattlagningar í Póllandi. Þá hefur ríkisskattstjóri fallist á að hið sama gildi um vexti sem kærandi fékk greidda frá TR. Ríkisskattstjóri lítur hins vegar svo á að síðarnefndar greiðslur tilheyri tekjuárinu 2020. Samkvæmt framansögðu verður litið svo á að þessi liður í kröfugerð kæranda sé tilefnislaus.

Hvað snertir athugasemdir kæranda að öðru leyti er þess að geta að við athugun á fyrirliggjandi gögnum um endurreikning TR á bótagreiðslum til kæranda verður ekki séð að samræmis gæti að öllu leyti við tilgreindar fjárhæðir í hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra um skattskyldar bætur og afdregna staðgreiðslu tekjuárin 2014, 2015 og 2016. Meðal annars er tiltekið í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra að afdregin staðgreiðsla tekjuárið 2016 nemi 0 kr. en samkvæmt tilkynningu TR um endurreikning vegna þess árs var afdregin staðgreiðsla 274.316 kr. Tekið skal tekið fram að ekki verður séð að nein gögn hafi fylgt erindi kæranda til ríkisskattstjóra en í hinni kærðu ákvörðun er vísað til leiðréttra launaupplýsinga og skilagreina staðgreiðslu opinberra gjalda frá TR. Margvísleg gögn um uppgjör greiðslna TR fylgja kæru til yfirskattanefndar. Er kæran til yfirskattanefndar að þessu leyti fólgin í upplýsingum og skýringum sem ekki lágu fyrir ríkisskattstjóra og hann hefur ekki tekið neina afstöðu til.

Þá athugist að hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp nokkrum dögum áður en ríkisskattstjóri ritaði bréf sitt, dags. 9. desember 2020, til pólska fjármálaráðuneytisins til svars erindi þess um framkvæmd gagnkvæms samkomulags. Telja verður að í ljósi niðurstöðu í bréfi ríkisskattstjóra um skattlagningarrétt örorkubóta kæranda beri nauðsyn til þess að ríkisskattstjóri taki skattákvarðanir sínar vegna kæranda til heildstæðrar athugunar öll þau ár sem málið varðar, enda blasir við að forsendur þeirra ákvarðana um skattskyldu umræddra tekna hér á landi fá þá ekki staðist. Jafnframt er tilefni til þess að ríkisskattstjóri láti uppi afstöðu sína til skattalegrar meðferðar greiðslna frá íslenskum lífeyrissjóðum sem taldar eru fram í skattframtölum kæranda. Í þessu sambandi er einnig rétt að beina því til ríkisskattstjóra að rekja til rótar og upplýsa kæranda um það hvernig farið hefur um afdregna staðgreiðslu opinberra gjalda af nefndum greiðslum TR, sem kærandi vísar sérstaklega til, en hagsmundir kæranda liggja ekki hvað síst í þeim þætti máls. Er hér um að ræða málefni sem varðar innheimtu opinberra gjalda og fellur ekki undir valdsvið yfirskattanefndar samkvæmt lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er kæran ásamt meðfylgjandi gögnum send ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni ásamt meðfylgjandi gögnum er vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja