Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lokunarstyrkur

Úrskurður nr. 124/2021

Lög nr. 38/2020, 4. gr. 4. tölul.  

Kröfu kæranda í máli þessu um greiðslu lokunarstyrks var hafnað þar sem kærandi uppfyllti ekki lagaskilyrði um að vera ekki í vanskilum með opinber gjöld sem komin væru á eindaga fyrir lok árs 2019. Var ekki fallist á með kæranda að opinber gjöld gætu ekki talist vera í vanskilum af þeirri ástæðu einni saman að gerð hefði verið um þau greiðsluáætlun við innheimtumann ríkissjóðs.

Ár 2021, miðvikudaginn 30. júní, er tekið fyrir mál nr. 80/2021; kæra A, dags. 26. mars 2021, vegna ákvörðunar um lokunarstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 26. mars 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 28. desember 2020, að hafna umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 þess efnis að rekstraraðili væri ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar væru á eindaga fyrir lok árs 2019. Ríkisskattstjóri tók fram að fyrir lægi að í lok árs 2019 hefði kærandi verið með þing- og sveitarsjóðsgjöld, ásamt staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjald, í vanskilum og væru gjöldin enn í vanskilum jafnvel þótt samið hefði verið um síðari greiðslur þeirra. Ljóst þætti því að kærandi uppfyllti ekki þetta skilyrði 4. gr. laga nr. 38/2020 og því ætti kærandi ekki rétt á lokunarstyrk úr ríkissjóði. Væri umsókn kæranda því hafnað.

Í kæru til yfirskattanefndar, sem reist er á sömu atriðum og umsókn kæranda um lokunarstyrk til ríkisskattstjóra, dags. 24. desember 2020, kemur fram að kærandi hafi þurft að loka starfsemi sinni um haustið 2020 vegna aðgerða stjórnvalda til þess að ná tökum á heimsfaraldri kórónuveiru. Kærandi viðurkenni að hafa verið í vanskilum með opinber gjöld í lok árs 2019, en hann hafi gert samning um greiðslu þeirra og sá samningur sé ekki í vanskilum. Þá sé kærandi ekki á vanskilaskrá. Hugtakið vanskil sé ekki skilgreint í lögum nr. 38/2020 og ríkisskattstjóri geti ekki upp á sitt einsdæmi og án lagastoðar ákveðið hvað teljist til vanskila, eins og gert sé á vefsíðu embættisins og í hinum kærða úrskurði. Kærandi telji jafnframt að synjun ríkisskattstjóra á umsókn hans um lokunarstyrk brjóti í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá meti kærandi það svo að 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til aðstoðar vegna atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika, hljóti að taka einnig til heimsfaraldurs kórónuveiru. Krefst kærandi þess því að fá lokunarstyrk eins og aðrir sem þurft hafi að loka starfsemi sinni haustið 2020.

II.

Með bréfi, dags. 4. maí 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögninni er tekið fram að gjalddagar/eindagar skattkrafna séu lögboðnir og verði ekki breytt. Ógreiddar kröfur teljist því alltaf til vanskila að gjalddögum/eindögum liðnum þótt gerð sé greiðsluáætlun. Til dæmis haldi álagning dráttarvaxta áfram og áfram sé skuldajafnað vegna krafna sem falli undir greiðsluáætlun. Þá snúi greiðsluáætlun eingöngu að því að ekki verði beitt íþyngjandi innheimtuúrræðum þar sem markmið um greiðslu náist með vægari hætti. Umfjöllun á vefsíðu ríkisskattstjóra um vanskil sé til áréttingar á þessu, en þar sé ekki önnur skilgreining á vanskilum en fram komi í lögum.

Með tölvubréfi 22. maí 2021 hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Þar er bent á að athygli veki að ríkisskattstjóri skuli ekki vísa til laga varðandi það hvað teljist til vanskila heldur vísi aðeins til umfjöllunar á vefsíðu embættisins. Allt að einu telji kærandi það ekki skipta máli hvort hann sé í vanskilum eða ekki þar sem ákvörðun ríkisskattstjóra brjóti gegn rétti hans til að njóta sama réttar og aðrir varðandi aðstoð vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 38/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra lokunarstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laganna á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fimm töluliðum í lagagreininni. Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 er skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar hafi verið á eindaga fyrir lok árs 2019. Þá er tekið fram í sama tölulið að skattar og gjöld megi ekki byggjast á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn hafi borist eða síðan rekstraraðili hafi hafið starfsemi ef það hafi verið síðar. Að auki skal rekstraraðili, eftir því sem við eigi og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga nr. 3/2006, og upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda.

Í athugasemdum við ákvæði 4. tölul. 4. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020, sbr. þskj. 1254 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, kemur fram að ekki sé talið eðlilegt að ríkissjóður veiti rekstraraðilum, sem hafi verið í vanskilum með opinber gjöld áður en áhrifa aðgerða til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar fór að gæta, sérstakan fjárstuðning. Því sé það gert að skilyrði fyrir styrkjum að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld sem hafi verið komin á eindaga í lok árs 2019. Þá segir að ákvæðið sé nánast samhljóða 3. efnismálsgrein 2. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, og að hafa megi hliðsjón af túlkun hennar. Í athugasemdum við umrætt ákvæði í frumvarpi til síðastnefndra laga, sbr. þskj. 1157 á sama löggjafarþingi, segir m.a. að með hliðstæðu skilyrði í því frumvarpi sé dregin sú lína að úrræðið nái aðeins til þeirra launagreiðenda sem fyrir lok árs 2019 hafi staðið skil á gjöldum og skattframtölum til skattyfirvalda.

Samkvæmt framansögðu er skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að rekstraraðili sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir lok árs 2019, sbr. 4. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020. Af hálfu kæranda hefur verið vísað til þess að hann hafi samið um greiðslu þeirra gjalda sem í vanskilum séu og að sá samningur sé ekki í vanskilum. Ganga verður út frá því að sá samningur, sem kærandi vísar hér til, sé greiðsluáætlun sem gerð hafi verið við innheimtumann ríkissjóðs á grundvelli 12. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinbera skatta og gjalda. Slík greiðsluáætlun felur í sér viðurkenningu gjaldanda á kröfu og rýfur fyrningu hennar, en frestar innheimtuaðgerðum vegna gjalda sem undir hana falla nema hætta sé á að hagsmunir ríkissjóðs fari annars forgörðum, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 150/2019. Eins og fram kemur í 2. og 3. mgr. sömu lagagreinar hefur greiðsluáætlunin hvorki áhrif á ákvörðun dráttarvaxta vegna gjalda sem undir hana falla né skuldajöfnun inneigna sem myndast í skattkerfinu. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki fallist á með kæranda að opinber gjöld geti ekki talist vera í vanskilum af þeirri ástæðu einni saman að gerð hafi verið um þau greiðsluáætlun. Verður því ekki talið að skilyrði 4. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 sé uppfyllt í tilviki kæranda. Þá verður ekki fallist á með kæranda að með lagaskilyrði þessu sé brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskipunarlaga, sbr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, enda verður að telja að málefnalegar ástæður búi að baki skilyrðinu. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja