Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 516/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 92. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.   Reglugerð nr. 245/1963 — 93. gr. 2. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Upplýsingaskylda — Launamiði — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Upplýsingar launagreiðanda rangar — Síðbúin kæra — Kæra, síðbúin — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Kærufrestur — Sönnun — Leiðrétting — Leiðrétting skattframtals — Leiðréttingarskylda skattstjóra

Með bréfi, ódagsettu en mótteknu af skattstjóra hinn 11. september 1990, fór umboðsmaður kæranda fram á, að tilfærðar launatekjur frá A í framtali árið 1990 yrðu leiðréttar til lækkunar um 123.949 kr. til samræmis við launamiða frá þessum launagreiðanda, en ljósrit þeirra fylgdu bréfinu. Með kæruúrskurði, dags. 8. október 1990, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram færðri, enda hefði kærufrestur runnið út 29. ágúst 1990.

Frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. nóvember 1990, og er ítrekað, að launafjárhæðin hafi verið offærð vegna mistaka og að lækka beri hana af þeim sökum um 123.949 kr.

Með bréfi, dags. 22. apríl 1991, geri ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Telji ríkisskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar niðurstöðu þrátt fyrir þann formgalla sem tilgreindur er í úrskurði skattstjóra, er fallist á kröfu kæranda.“

Í bréfi sínu til skattstjóra staðhæfði umboðsmaður kæranda, að álagningin væri röng og lagði fram gögn því til stuðnings. Samkvæmt gögnum málsins var tilfærð launafjárhæð frá nefndum launagreiðanda sú sama og í framtali árið 1989. Eins og atvikum var háttað verður að telja, að ekki hafi verið byggt á réttum heimildum við álagningu, þannig að skattstjóra hafi borið að gangast fyrir leiðréttingu af sjáfsdáðum eða við kæru, þótt hún kæmi ekki fram fyrr en að liðnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Að þessu virtu þykir bera að taka kæruna til efnismeðferðar og er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja