Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 132/2021

Lög nr. 138/2013, 5. gr. 3. mgr. og 4. mgr. (brl. nr. 56/2020, 2. gr.)  

Skilyrði fyrir helmingsafslætti af stimpilgjaldi vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis voru ekki talin uppfyllt í máli þessu þar sem kærandi hafði áður verið þinglýstur eigandi að eignarhlut í íbúð sem hann hlaut í arf á barnsaldri. Í úrskurði yfirskattanefndar var skírskotað til laga nr. 56/2020, sem breyttu lögum um stimpilgjald, og lögskýringargagna með þeim, þessari niðurstöðu til stuðnings.

Ár 2021, miðvikudaginn 25. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 106/2021; kæra A, dags. 31. maí 2021, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 31. maí 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar þeirri ákvörðun sýslumanns að synja kæranda um helmingsafslátt af stimpilgjaldi við þinglýsingu kaupsamnings um íbúð að F. Var ákvörðun sýslumanns byggð á því að ekki væri um fyrstu kaup kæranda á íbúðarhúsnæði að ræða, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um stimpilgjald nr. 138/2013. Í kærunni fer kærandi fram á endurgreiðslu stimpilgjalds þar sem honum beri helmingsafsláttur af gjaldinu vegna fyrstu kaupa. Er rakið að kærandi sé að kaupa sína fyrstu íbúð að F. Móðir kæranda hafi hins vegar á sínum tíma þurft að skrá eignarhlut í fasteign að M á kæranda, þá 11 ára, og systur kæranda vegna skipta á dánarbúi föður þeirra. Fasteignin hafi verið illseljanleg á þeim tíma og hafi umrædd ráðstöfun verið gerð samkvæmt ráðleggingum frá sýslumanni. Engar upplýsingar hafi þá fylgt um að litið yrði á gerninginn sem kaup á fyrstu íbúð. Kæranda sé synjað um helmingsafslátt af stimpilgjaldi vegna eignarhalds að hlut í M á þriggja ára tímabili. Ekki sé rétt að lög, sem tekið hafi gildi á árinu 2020, séu afturvirk.

II.

Með bréfi, dags. 24. júní 2021, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur fram að við eignakönnun sýslumanns í tilefni af þinglýsingu kaupsamnings vegna kaupa kæranda og B á íbúð að F hafi komið í ljós að kærandi hafi orðið eigandi að 12% eignarhlut í íbúð að M með skiptayfirlýsingu sem þinglýst hafi verið þann 14. desember 2001. Kaupsamningi hafi verið þinglýst vegna sölu á eignarhluta kæranda þann 28. september 2004 og afsali verið þinglýst 22. október sama ár. Er vísað til breytingar sem gerð hafi verið á lögum um stimpilgjald nr. 138/2013 með lögum nr. 56/2020 sem öðlast hafi gildi 9. júní 2020. Tilefni lagabreytingarinnar hafi verið úrskurður yfirskattanefndar nr. 103/2019. Í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013, sbr. 2. gr. laga nr. 56/2020, segi nú að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna séu þau að kaupandi íbúðarhúsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði hvort sem er með kaupum, arftöku, gjafagerningi eða eignayfirfærslu með hvers kyns öðrum hætti. Telji sýslumaður því ekki heimilt að lögum að veita kæranda helmingsafslátt af stimpilgjaldi vegna kaupa hans á 50% eignarhluta í F.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. júní 2021, var kæranda sent ljósrit af umsögn sýslumanns í málinu og kæranda gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal m.a. greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi. Um gjaldstofn stimpilgjalds í þessum tilvikum fer samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna skal greiða 0,8% stimpilgjald af gjaldskyldum skjölum ef rétthafi er einstaklingur. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar greiðist hálft stimpilgjald af gjaldskyldu skjali þegar um er að ræða fyrstu kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði. Þá kemur fram í 4. mgr. lagagreinarinnar, sbr. 2. gr. laga nr. 56/2020, um breytingu á lögum nr. 138/2013, að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi samkvæmt 3. mgr. séu þau að kaupandi íbúðarhúsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði hvort sem er með kaupum, arftöku, gjafagerningi eða eignaryfirfærslu með hvers kyns öðrum hætti.

Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 56/2020, var tilefni breytinga á orðalagi 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 með 2. gr. hinna fyrrnefndu laga niðurstaða yfirskattanefndar í úrskurði nefndarinnar nr. 103/2019. Í úrskurði þessum taldi yfirskattanefnd að skýra bæri hið eldra ákvæði laganna svo að við framkvæmd skilyrðis þess efnis, að kaupandi hefði ekki verið áður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði, bæri að líta framhjá íbúðareign sem til hefði komið vegna arftöku hlutaðeigandi, enda hefði hann ekki haft viðkomandi íbúð til eigin nota. Kemur fram í athugasemdum frumvarpsins að með breytingum á ákvæðinu sé lagt til að framkvæmd skilyrðisins verði einfölduð með því að kveðið verði með skýrari hætti á um það að skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi sé að kaupandi íbúðarhúsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði, hvort sem er með kaupum, arftöku, gjafagerningi eða eignaryfirfærslu með hvers kyns öðrum hætti. Þá skipti jafnframt ekki máli hvort kaupandinn hafi hagnýtt sér íbúðarhúsnæðið sem hann hafi áður verið þinglýstur eigandi að í eigin þágu eða á nokkurn annan hátt (Þskj. 935 á 150. löggjafarþingi 2019-2020).

Samkvæmt framansögðu er skilyrði helmingsafsláttar af stimpilgjaldi samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 138/2013 að hlutaðeigandi kaupandi íbúðarhúsnæðis hafi ekki áður verið þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði og sérstaklega tekið fram að ekki skipti máli í því tilliti hvort fyrra eignarhald sé til komið vegna kaupa, arftöku, gjafagernings eða eignaryfirfærslu með hvers kyns öðrum hætti, sbr. 2. gr. laga nr. 56/2020. Lög nr. 56/2020 öðluðust gildi við birtingu í Stjórnartíðindum þann 24. júní 2020, sbr. 3. gr. laganna, og taka til stimpilskyldra skjala sem undirrituð eru eftir gildistöku laganna. Verður því ekki fallist á með kæranda að um afturvirk áhrif laganna sé að ræða. Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja