Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða

Úrskurður nr. 134/2021

Lög nr. 50/1988, bráðabirgðaákvæði XXXIII, 4. mgr.   Reglugerð nr. 690/2020, 5. gr. f-liður.  

Kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við hjólbarðaskipti á bifreið kæranda var hafnað þar sem slík þjónusta teldist til reglulegrar umhirðu eða minniháttar viðhalds bifreiðar í skilningi reglugerðar um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts.

 

Ár 2021, miðvikudaginn 25. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 94/2021; kæra A, dags. 26. apríl 2021, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 2021. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 26. apríl 2021, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt orðsendingu sama dag að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 14.933 kr. samkvæmt endurgreiðslubeiðni sem barst ríkisskattstjóra 17. apríl 2021. Var beiðnin byggð á 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Samkvæmt ákvæðum þessum, sbr. og 6. gr. laga nr. 141/2020, skal á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Ákvörðun ríkisskattstjóra var byggð á því að um væri að ræða beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við dekkjakaup og umfelgun sem ekki teldist til bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 690/2020.

Í kæru er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Í kærunni kemur fram að engum efniskaupum hafi verið til að dreifa í tilviki kæranda, heldur hafi einungis verið unnið við bifreið kæranda, svo sem greinilega komi fram í sölureikningi. Því standist ekki að ríkisskattstjóri hafi hafnað endurgreiðslubeiðni kæranda.

II.

Með bréfi, dags. 8. júní 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögn ríkisskattstjóra er tekið fram að í 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020 sé sérstaklega kveðið á um þann virðisaukaskatt sem ekki sé heimilt að endurgreiða á grundvelli ákvæða reglugerðarinnar, sbr. 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Í f-lið 5. gr. reglugerðarinnar sé tekið fram að virðisaukaskattur vegna m.a. hjólbarðaviðgerða og hjólbarðaskipta sé ekki endurgreiðsluhæfur.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 11. júní 2021, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Í 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, og 6. gr. laga nr. 141/2020, kemur fram að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 skuli endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts. Endurgreiðsla eftir ákvæði þessu skal innt af hendi á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 90 dögum eftir að Skattinum barst erindið.

Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðinu. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um virðisaukaskatt sem ekki telst endurgreiðsluhæfur og kemur fram í f-lið greinarinnar að virðisaukaskattur fáist ekki endurgreiddur af reglulegri umhirðu fólksbifreiðar eða minniháttar viðhaldi hennar, svo sem ábyrgðarskoðun, tjónamati, ástandsskoðun, hjólbarðaviðgerðum, hjólbarðaskiptum, smurþjónustu, þrifum og bóni.

Heimild bráðabirgðaákvæðis XXXIII til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við bílaviðgerðir, bílamálun og bílaréttingar var tekin upp með 7. gr. fyrrgreindra laga nr. 25/2020. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laganna, sbr. þskj. 118 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, kemur fram að lagt sé til að endurgreiðsla virðisaukaskatts taki einnig til vinnu við bílaviðgerðir, bílasprautun (bílamálun) og bílaréttingar (bifreiðasmíði). Ekki sé gert ráð fyrir því að heimild til endurgreiðslu taki til smurþjónustu eða hjólbarðaviðgerða.

Til grundvallar beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts er kvittun eða reikningur frá X hf., dags. 31. mars 2021, vegna 6,5 klst. verkstæðisvinnu að fjárhæð 77.155 kr. með virðisaukaskatti. Ráðið verður af skjalinu að verkstæðisvinnan standi í tengslum við öflun kæranda á bíldekkjum „19R 255/55 Falken FK453CC“ sem reikningsfærð eru með 0 kr. Ríkisskattstjóri gekk út frá því að kærandi hefði keypt bíldekk og umfelgun. Í kæru til yfirskattanefndar kemur ekki annað fram um hið keypta en að ekki sé um nein efniskaup (dekkjakaup) að ræða, heldur einungis vinnu. Ályktun ríkisskattstjóra um keypta þjónustu við hjólbarðaskipti er þannig ekki mótmælt af hálfu kæranda.

Eins og fyrr segir er sérstaklega tekið fram í f-lið 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020 að virðisaukaskattur fáist ekki endurgreiddur af reglulegri umhirðu fólksbifreiðar eða minniháttar viðhaldi hennar. Meðal annars eru hjólbarðaviðgerðir og hjólbarðaskipti tilgreind í ákvæðinu sem dæmi um reglulega umhirðu eða minniháttar viðhald bifreiðar. Að þessu athuguðu og að því virtu sem fram er komið um keypta þjónustu kæranda verður ekki talið að skilyrði sé til að verða við kröfu hans um endurgreiðslu virðisaukaskatts af umræddum reikningi/kvittun frá X hf.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja