Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða

Úrskurður nr. 139/2021

Lög nr. 50/1988, bráðabirgðaákvæði XXXIII, 4. mgr.   Reglugerð nr. 690/2020, 5. gr. f-liður.  

Fallist var á kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við flauturofa, stýrisenda, drifskaft og hjólastillingu bifreiðar. Kröfu kæranda vegna vinnu við peruskipti var hins vegar hafnað þar sem slík þjónusta teldist til reglulegrar umhirðu eða minniháttar viðhalds bifreiðar í skilningi reglugerðar um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Ár 2021, miðvikudaginn 25. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 87/2021; kæra A, dags. 14. apríl 2021, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 14. apríl 2021, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt bréfi, dags. 14. apríl 2021, að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 12.427 kr. samkvæmt endurgreiðslubeiðni sem barst ríkisskattstjóra 8. apríl 2021. Var beiðnin byggð á 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Samkvæmt ákvæðum þessum, sbr. og 6. gr. laga nr. 141/2020, skal á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að um væri að ræða beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við manna við bílaviðgerðir, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Endurgreiðsla virðisaukaskatts tæki ekki til reglulegrar umhirðu fólksbifreiðar og minniháttar viðhalds hennar, svo sem ábyrgðarskoðunar, ástandsskoðunar og smurþjónustu, sbr. f-lið 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020, og væri umsókn kæranda því hafnað.

Í kæru kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Í kærunni kemur fram að ríkisskattstjóri hafi synjað endurgreiðslu á þeim grundvelli að um reglulega umhirðu eða minniháttar viðhald hafi verið að ræða. Teljist rúmlega 200 þúsund króna reikningur minniháttar sé óskað eftir útlistun á því hvar mörkin liggi á milli minniháttar og meiriháttar viðhalds. Falli rökstuðningur ríkisskattstjóra að þessu leyti um sjálfan sig. Þá er bent á að af innsendum reikningi megi sjá að um þjónustu frá viðurkenndu verkstæði umboðsaðila bílsins hafi verið að ræða og falli því ekki undir að vera ábyrgðarskoðun, ástandsskoðun eða smurþjónusta. Verði ekki ráðið hvernig vinna við uppsetningu á nýju drifskafti eða nýrri sveif fyrir flautu falli undir reglulegt viðhald. Sé þetta ekki reglulegra en svo að ekkert af því sem gert hafi verið við bílinn hafi verið gert áður í þau rúmlega fjögur ár sem kærandi hafi átt bifreiðina.

II.

Með bréfi, dags. 26. maí 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Er rakið í umsögninni að kærandi hafi lagt fram beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðgerða á bifreið sinni 8. apríl 2021. Þann 14. apríl 2021 hafi beiðninni verið synjað á þeim grundvelli að um væri að ræða reglulegt viðhald bifreiðar samkvæmt f-lið 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020. Fallist sé á með kæranda að hluti þeirra vinnuliða sem tilgreindir séu á reikningi þeim er legið hafi til grundvallar endurgreiðslubeiðni hans falli undir heimildir til endurgreiðslu en falli ekki undir framangreindan f-lið 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020. Um sé að ræða vinnuliði er beri heitin „Flauta virkar ekki“, „6176-0145 Sk. Stýrisenda v/m“ og „Drifskaft laust“, samtals að fjárhæð 41.548 kr. með virðisaukaskatti eða samtals 33.506 kr. án virðisaukaskatts og endurgreiddur virðisaukaskattur að fjárhæð 8.041 kr.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. maí 2021, var kæranda send umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um efni hennar og að leggja fram frekari gögn í málinu, ef hann teldi ástæðu til. Var kæranda veittur 20 daga frestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Í 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, og 6. gr. laga nr. 141/2020, kemur fram að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 skuli endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts. Endurgreiðsla eftir ákvæði þessu skal innt af hendi á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 90 dögum eftir að Skattinum barst erindið.

Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðinu. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um virðisaukaskatt sem ekki telst endurgreiðsluhæfur og kemur fram í f-lið greinarinnar að virðisaukaskattur fáist ekki endurgreiddur af reglulegri umhirðu fólksbifreiðar eða minniháttar viðhaldi hennar, svo sem ábyrgðarskoðun, tjónamati, ástandsskoðun, hjólbarðaviðgerðum, hjólbarðaskiptum, smurþjónustu, þrifum og bóni.

Heimild bráðabirgðaákvæðis XXXIII til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við bílaviðgerðir, bílamálun og bílaréttingar var tekin upp með 7. gr. fyrrgreindra laga nr. 25/2020. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laganna, sbr. þskj. 118 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, kemur fram að lagt sé til að endurgreiðsla virðisaukaskatts taki einnig til vinnu við bílaviðgerðir, bílasprautun (bílamálun) og bílaréttingar (bifreiðasmíði). Ekki sé gert ráð fyrir því að heimild til endurgreiðslu taki til smurþjónustu eða hjólbarðaviðgerða.

Beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts tók til sölureiknings frá X ehf., dags. 8. apríl 2021, að fjárhæð 192.478 kr. með virðisaukaskatti, en þar af nam vinna 64.210 kr. Miðað við lýsingu á sölureikningi X ehf. var um að ræða vinnu við að skipta um flauturofa, stýrisenda og drifskaft, vinnu við peruskipti og lagfæringu á perum og hjólastillingu. Telja verður vinnu við ljósaperur og skipti á þeim að fjárhæð 3.046 kr. til minniháttar viðhalds í framangreindum skilningi og verður því að hafna kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna hennar. Eftir stendur þá vinna við flauturofa 7.616 kr., stýrisenda 10.661 kr., drifskaft 15.231 kr. og hjólastillingu 15.231 kr., í öllum tilvikum án virðisaukaskatts. Þykir mega fallast á kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 11.693 kr. vegna þessara vinnuliða, sbr. og umsögn ríkisskattstjóra að því er snertir hina þrjá fyrstnefndu vinnuliði.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum, ber undir stjórnvald að framkvæma gjaldabreytingar sem stafa af úrskurði yfirskattanefndar. Er ríkisskattstjóra því falið að annast um endurgreiðslu samkvæmt úrskurði þessum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Fallist er á umkrafða endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 11.693 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja