Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 522/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 61. gr. 1. ml.  

Tekjuuppgjör — Tekjuuppgjörsaðferð — Tekjutímabil — Tekjuuppgjör rekstrar — Þjónusta — Vinnuþáttur — Skrifstofuvélaviðgerðir — Atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands — Hagstofa Íslands, atvinnuvegaflokkun — Innborganir vegna seldrar þjónustu

Í skattframtali sínu árið 1989 notfærði kærandi sér heimildarákvæði samkvæmt 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að miða tekjuuppgjör rekstrar við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu. Fjárhæð sú sem kærandi færði þannig til frádráttar skattskyldum tekjum var 2.140.644 kr.

Við frumálagningu gjaldárið 1989 felldi skattstjóri þennan frádráttarlið niður og hækkaði skattskyldar tekjur ársins samsvarandi á þeim forsendum, að einungis þeim er stundi þjónustu samkvæmt atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands væri heimil tekjuuppgjörsaðferð samkvæmt umræddri lagagrein. Var kæranda tilkynnt um þessa breytingu í bréfi, dags. 26. júlí 1989.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt með bréfi, sem var ódagsett en móttekið hjá skattstjóra þann 4. ágúst 1989 samkvæmt móttökukvittun hans. Í bréfi umboðsmannsins kom m.a. fram, að heimild frestunar tekjufærslu væri aðeins háð því skilyrði, að vinnuþáttur hinnar seldu þjónustu væri almennt yfir 70%. Í lagagreininni væri hvorki vísað í atvinnuvegaflokkun né nokkuð annað, sem þrengdi eða breytti ákvæðum lagagreinarinnar. Ennfremur taldi hann líklegt, að starfsemi kæranda væri ranglega flokkuð undir atvinnugrein 350 samkvæmt atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands og með synjun skattstjóra á frestun tekjufærslu væri forsenda fyrir starfsemi kæranda brostin, sökum þess hve seint greiðslur bærust fyrir innta þjónustu við viðskiptavini kæranda.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 19. febrúar 1990. Synjaði hann kröfu kæranda með eftirfarandi rökstuðningi:

„Varðandi nefnda lagagrein er það túlkun skattyfirvalda, að með „þeim sem selja þjónustu“ sé einungis átt við þá sem hafa atvinnugreinanúmerin frá 800-899 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands og við þessa túlkun eru frestunarheimildir skattstjóra bundnar. Eigi verður fallist á að framteljandi hafi rangt atvinnugreinanúmer enda númerið 350 á söluskattsskírteini hans sem gildir fyrir m.a. viðgerðir á skrifstofuvélum.“

Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 13. mars 1990. Er kröfugerð hans svohljóðandi:

„Umbjóðandi minn fer fram á að fá að miða tekjuuppgjör rekstrar síns við innborganir vegna seldrar þjónustu í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu. Samkvæmt 61. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981 er þessi heimild til staðar ef vinnuþáttur hinnar seldu þjónustu er almennt yfir 70%.

Vinnuþátturinn í hinni seldu þjónustu hjá ofanrituðum umbjóðanda mínum er um 90%. Þar með á hann rétt á því að nota sér heimild þá sem um getur í 61. gr. nefndra laga.

Sú fjarstæðukennda fullyrðing skattstofunnar í Reykjanesumdæmi að það sé túlkun skattyfirvalda að með „Þeim sem stunda þjónustu“ sé einungis átt við þá sem hafa atvinnugreina númerin frá 800 til 899 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands hlýtur að vera röng.

Í áður nefndri 61. gr. skattalaga kemur alls ekkert fram sem takmarkar heimild þessa við ákveðnar þjónustugreinar. Umbjóðandi minn hefur það að atvinnu að selja viðgerðaþjónustu á ljósritunarvélum. Hann krefst þess að skattyfirvöld fari að lögum varðandi afgreiðslu og ákvarðanatöku hans skattalegu mála. Hann telur skattstofuna í Reykjanesumdæmi alls ekki hafa vald til að breyta ákvæðum skattalaga með þeim hætti sem hér um ræðir. Í títt nefndri lagagrein er getið um þjónustu án nokkurra takmarkana.

Ef atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands kemur 61. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt eitthvað við þá væri um það getið í lagagreininni.

Ég fer fram á það fyrir hönd ofanritaðs umbjóðanda míns að ríkisskattanefnd breyti ákvörðun skattstofu Reykjanesumdæmis og heimili honum að nota ákvæði 61. gr. laganna við tekjuuppgjör ársins 1988.

Ég vil í lokin vekja athygli á þeim misrétti sem augljóslega liggur í ákvörðun þeirri sem starfsmaður skattstofunnar tilkynnir í bréfi skattstofunnar dagsettu 19. febrúar s.l.“

Með bréfi, dags. 21. desember 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Starfsemi kæranda þykir vera þess eðlis, að hún falli ekki undir heimildarákvæði 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er því úrskurður skattstjóra staðfestur að niðurstöðu til.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja