Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald, endurgreiðsla

Úrskurður nr. 151/2021

Lög nr. 138/2013, 3. gr., 9. gr. 1. mgr.  

Kærandi keypti íbúð í byggingu í ársbyrjun 2018. Í febrúar 2021 varð samkomulag með kæranda og seljanda íbúðarinnar að láta kaupin ganga til baka, m.a. vegna galla á eigninni, en afsal hafði þá ekki verið gefið út. Að virtum skýringum kæranda var krafa kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds vegna kaupa íbúðarinnar tekin til greina.

Ár 2021, miðvikudaginn 15. september, er tekið fyrir mál nr. 112/2021; kæra A, dags. 9. júní 2021, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 9. júní 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun sýslumanns um stimpilgjald. Kemur fram í kærunni að ágreiningur sé um ákvörðun stimpilgjalds í tengslum við eignayfirfærslu íbúðar að F til kæranda með kaupsamningi, dags. 18. janúar 2018. Af hálfu kæranda er gerð krafa um endurgreiðslu stimpilgjalds að fjárhæð 294.400 kr. vegna riftunar kaupsamningsins í febrúar 2021.

II.

Krafa kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds byggir á 9. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, en samkvæmt því ákvæði skal sýslumaður endurgreiða stimpilgjald þegar gjaldskylt skjal er ógilt með öllu að lögum eða ekki verður af því að það réttarástand skapist sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði. Telur kærandi að ekki verði séð að önnur ákvæði þessara laga komi í veg fyrir endurgreiðslu. Þá hafi sýslumaður ekki sent tilkynningu um synjun endurgreiðslu til kæranda né rökstutt ákvörðun sína þrátt fyrir áskorun og sé þar væntanlega um að ræða brot á stjórnsýslulögum. Er nánar rakið að hinn 1. maí 2021 hafi kærandi sent svohljóðandi fyrirspurn með tölvupósti til Sýslumanns: „Í samkomulagi um riftun á kaupsamningi milli A og X ehf., dags. 18. febrúar 2021, var gerð krafa um endurgreiðslu stimpilgjalda og skuli hún ganga til kaupanda samhliða riftun samningsins. A hefur í dag (30.4.2021) fengið afrit af skjalinu frá fasteignasala. Neðst í skjalinu má sjá handskrifaða athugasemd, væntanlega frá starfsmanni Sýslumannsembættis sem virðist segja eftirfarandi: „Stimpilgjald ekki endurgreitt þar sem fasteignin var í útleigu eftir kaup A.“ Og síðan er stimplað: „INNFÆRT“ með dagsetningu í mars 2021. Í 9. gr. laga nr. 138/2013 kemur m.a. fram varðandi endurgreiðslu stimpilgjalds: „Sýslumaður skal endurgreiða stimpilgjald þegar gjaldskylt skjal er ógilt með öllu að lögum eða ekki verður af því að það réttarástand skapist sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði.“ Óskað er eftir því að Sýslumaður útskýri skriflega á hvaða sjónarmiðum hann byggði ákvörðun sína. Bent er á að íbúðin var í raun og veru ekki leigð út á venjulegan hátt, t.d. gegn greiðslu leigugjalds, heldur bjó B ókeypis í íbúðinni vegna ákvörðunar í skilnaðarsamningi milli hennar og forráðamanns A. Samt hefur hún þinglýst þetta fyrirkomulag milli okkar hjá sýslumanni sem „húsaleigusamning“, en þar kemur einnig fram: „Leigjandinn fær full afnot íbúðarinnar án leigugreiðslna í full átta ár frá afhendingardegi.“

Er tekið fram í kærunni að ekkert svar hafi borist og hafi félagið því ákveðið að kæra þessa ákvörðun sýslumanns til yfirskattanefndar og sé farið fram á endurgreiðslu stimpilgjalds 294.400 kr. Er bent á að félagið hafi hvorki fengið tilkynningu um synjun endurgreiðslunnar né hafi endurgreiðslan borist.

III.

Með bréfi, dags. 16. júní 2021, hefur sýslumaður lagt fram umsögn vegna kærunnar. Í umsögninni er rakið að þann í febrúar 2018 hafi verið móttekinn til þinglýsingar kaupsamningur, dags. 18. janúar 2018. Samkvæmt kaupsamningnum hafi kærandi keypt íbúð að F af X ehf. Hafi kaupsamningnum verið þinglýst 6. febrúar 2018 og hafi kærandi greitt 294.400 kr. í stimpilgjald í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013. Þann 30. október 2018 hafi verið móttekin til þinglýsingar yfirlýsing frá kæranda og var henni þinglýst 5. nóvember 2018. Hafi yfirlýsingin varðað „ævilangan búseturétt“ D, en hann hafi verið stofnandi kæranda og fyrirsvarsmaður. Í yfirlýsingunni segði jafnframt: „Stjórn A ses. er kunnugt um að D hefur gert húsaleigusamning um íbúð að F við B ... frá 1. 10. 2018 til 30.09.2026.“ Ráða mætti af tilvísun til 8. gr. skilnaðarsamnings milli D og B að leiguréttur B samkvæmt húsaleigusamningnum hafi verið hluti af skilnaðarkjörum þeirra. Þann 18. febrúar 2021 hafi verið móttekið til þinglýsingar samkomulag vegna riftunar framangreindra kaupa kæranda á F af X ehf. og hafi yfirlýsingunni verið þinglýst 26. mars 2021. Með samkomulagi þessu hafi verið farið fram á að stimpilgjald, sem greitt hafi verið við þinglýsingu kaupsamnings, yrði endurgreitt. Þinglýsingastjóri hafi ekki orðið við því og ritað á skjalið svohljóðandi athugasemd: „Stimpilgjald ekki endurgreitt þar sem fasteign var í útleigu eftir kaup A.“ Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013 sé sýslumanni heimilt að endurgreiða stimpilgjald þegar skjal sé ógilt með öllu að lögum eða ekki verður af því að það réttarástand skapist sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði. Frá því kaupsamningi um eignina hafi verið þinglýst 6. febrúar 2018 þar til þinglýst hafi verið samkomulagi um riftun 26. mars 2021 hafi liðið tvö ár og á því tímabili hafi D hagnýtt sér eignina, með vitund og vilja kæranda, að því er virðist til að uppfylla ákvæði í skilnaðarsamningi hans og B. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hafi B átt lögheimili að F frá ... 2018 til ... 2021. Verði því að telja að það réttarástand hafi skapast sem kaupsamningur um eignina, hið gjaldskylda skjal, ráðgerði og sé það mat sýslumanns að endurgreiðslubeiðni kæranda falli því ekki undir heimild 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 29. júlí 2021, hefur fyrirsvarsmaður kæranda komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn sýslumanns. Í bréfinu er greint frá því að kærandi sé sjálfseignarstofnun sem starfi samkvæmt lögum nr. 19/1988. Stundi hún ekki atvinnurekstur og sé tilgangur hennar að vinna að umhverfisvernd og skógrækt og skuli hún ráðstafa fjármunum sínum í þágu markmiða stofnunarinnar. Stofnandi kæranda sé D og sé stofnfé 1.200.000 kr. Þá er rakið að forsenda þess að kærandi keypti íbúð að F hafi verið sú að D hafi með gjafagerningi lagt kæranda til viðbótarfé til kaupa á fasteign sem kærandi gæti haft leigutekjur af. Í staðinn hafi D fengið ævilangan afnotarétt af fasteigninni. Hafi tilgangur gerningsins verið sá að skapa möguleika fyrir félagið til þess að afla fé til öflunar náttúruverndar og skógræktar, enda hafi stofnfé félagsins og vaxtatekjur af því ekki dugað til. Vegna sérstakra atvika í einkalífi D hafi fyrrverandi eiginkona hans fengið ókeypis afnot af íbúðinni til 30. september 2026 og hafi hún þinglýst afnotunum með húsaleigusamningi. Ekki hafi verið um venjulega húsaleigu að ræða heldur ókeypis afnot sem B hafi aðeins nýtt sér veturinn 2019/2020 og aftur veturinn 2020/2021. Í janúar 2021 hafi komið í ljós mygla í íbúðinni sem stafað hafi af mistökum við byggingu hennar og hafi eiginkonan fyrrverandi þá flutt út. Vegna þessa galla hafi verið ákveðið að rifta kaupsamningnum við byggingaraðila, enda hafi ekki verið búið að ganga frá afsali vegna ýmissa annarra galla og kaupin því aldrei fullfrágengin. Í apríl 2021 hafi kærandi keypt aðra íbúð við G í þeim tilgangi að leigja hana út og greitt stimpilgjald af þeim kaupum. Með kaupum á F hafi kærandi því ekki getað náð þeim markmiðum sem að hafi verið stefnt í upphafi og því þurft að rifta kaupsamningnum og kaupa aðra íbúð. Sé það mat kæranda að 9. gr. laga um stimpilgjald eigi við um tilvikið, en kaupsamningur um F hafi gert ráð fyrir að kærandi fengi íbúð til eignar í nothæfu ástandi. Hafi seljandi íbúðarinnar viðurkennt að svo hafi ekki verið, enda hafi hann endurgreitt kaupverð að viðbættum skaðabótum.

IV.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun stimpilgjalds af kaupsamningi, dags. 18. janúar 2018, vegna kaupa kæranda á fasteign í byggingu að F. Af hálfu kæranda hefur verið greint frá því að ekki hafi komið til útgáfu afsals til kæranda í kjölfar kaupanna þar sem ýmsir gallar hafi komið í ljós á fasteigninni, m.a. vegna myglusvepps, og hafi orðið að samkomulagi með kæranda og seljanda húseignarinnar, X ehf., í febrúar 2021 að láta kaupin ganga til baka, sbr. samkomulag, dags. 10. febrúar 2021, sem er meðal gagna málsins og ber yfirskriftina „Samkomulag um riftun“, sbr. fskj. nr. 3 með umsögn sýslumanns í málinu. Í 2. gr. samkomulagsins kemur fram að risið hafi ágreiningur um ástand eignarinnar eftir afhendingu og lokauppgjör á greiðslum og því séu aðilar ásáttir um að rifta kaupsamningnum. Er tekið fram í 4. gr. samkomulagsins að skilyrði riftunar og forsenda aflýsingar kaupsamningsins sé að seljandi endurgreiði kaupanda það sem greitt hafi verið. Er krafa kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds af kaupsamningnum að fjárhæð 294.400 kr. byggð á 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Eins og fram er komið synjaði sýslumaður kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds á þeim grundvelli að fasteignin hefði verið í útleigu eftir kaup kæranda á henni. Var mat sýslumanns að með nýtingu eignarinnar í rúm tvö ár hefði skapast það réttarástand sem kaupsamningurinn um eignina, þ.e. hið gjaldskylda skjal, ráðgerði, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal greiða í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi, svo sem afsölum, kaupsamningum og gjafagerningum. Fer gjaldskylda skjals eftir þeim réttindum er það veitir en ekki nafni þess eða formi, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Í 9. gr. laganna er kveðið á um að sýslumaður skuli endurgreiða stimpilgjald þegar gjaldskylt skjal er ógilt með öllu að lögum eða ekki verður af því að það réttarástand skapist sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði.

Vegna umfjöllunar í málinu um innheimtu stimpilgjalds í kjölfar riftunar skal tekið fram að ráðið verður, m.a. af umfjöllun um framkvæmd eldri laga um stimpilgjald nr. 36/1978 í ritinu „Verklagsreglur við innheimtu stimpilgjalda“, sem gefið var út á vef fjármálaráðuneytisins á árinu 2012, að litið hafi verið svo á að riftun kaupa geti í vissum tilvikum fallið undir 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013 eða hliðstætt ákvæði í 14. gr. eldri laga nr. 36/1978. Í dæmaskyni í því sambandi er í riti þessu nefnt það tilvik „þegar kaupsamningi sem þegar hefur verið stimplaður er rift vegna forsendubrests, s.s. að lán sem gert var ráð fyrir kom ekki til“, eins og þar segir.

Samkvæmt framansögðu og miðað við orðalag umrædds ákvæðis 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013 þykir einsýnt að það geti átt við í ýmsum tilvikum þegar ráðgerð eigendaskipti að fasteign ganga ekki eftir af einhverjum ástæðum, svo sem ef lánsfjármögnun kaupanda fer út um þúfur eða kaupum er síðar rift vegna vanefnda þannig að ekkert verður úr þeim. Fyrir liggur í málinu að ekki kom til útgáfu afsals til kæranda í framhaldi af hinum umdeildu kaupum á F og varð samkomulag með aðilum í febrúar 2021 að láta kaupin ganga til baka. Að framangreindu athuguðu og fram komnum skýringum kæranda að öðru leyti þykir mega fallast á með kæranda að ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013 taki til þess tilviks sem um ræðir. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum, ber undir stjórnvald að framkvæma gjaldabreytingar sem stafa af úrskurði yfirskattanefndar. Er sýslumanni því falið að annast um gjaldabreytingu samkvæmt úrskurði þessum.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina. Sýslumanni er falið að annast um gjaldabreytingar sem leiða af niðurstöðu úrskurðar þessa.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja