Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Tapaðar kröfur

Úrskurður nr. 153/2021

Gjaldár 2020

Lög nr. 90/2003, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr. og 3. tölul.   Reglugerð nr. 483/1994, 3. gr. 7. mgr., 13. gr. og 14. gr.  

Í máli þessu var deilt um gjaldfærslu bifreiðakostnaðar, starfsmannatengds kostnaðar, m.a. vegna kaupa á fatnaði, og gjaldfærslu tapaðra krafna í skattskilum einkahlutafélags. Kröfum kæranda var hafnað þar sem félagið var ekki talið hafa lagt fram viðhlítandi skýringar og gögn til stuðnings umkröfðum frádrætti.

Ár 2021, miðvikudaginn 29. september, er tekið fyrir mál nr. 77/2021; kæra A ehf., mótt. 22. mars 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2020. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, mótt. 22. mars 2021, hefur kærandi, sem er einkahlutafélag, skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 25. febrúar 2021, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2020. Með úrskurði þessum, sem ríkisskattstjóri kvað upp vegna kæru kæranda, dags. 30. október 2021, staðfesti ríkisskattstjóri ákvarðanir sínar samkvæmt tilkynningu, dags. 22. október 2020, sbr. 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að lækka gjaldfærðan starfsmannakostnað um 177.957 kr., ákvarða frádráttarbæran bifreiðakostnað með 550.000 kr. og fella niður gjaldfærslu tapaðra krafna að fjárhæð 4.729.287 kr. í skattskilum kæranda gjaldárið 2020.

Í kæru til yfirskattanefndar er breytingum ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2020 mótmælt. Verður að skilja kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að breytingar ríkisskattstjóra verði að öllu leyti felldar niður.

II.

Málavextir eru þeir að með fyrirspurnarbréfi til kæranda, dags. 15. júní 2020, óskaði ríkisskattstjóri eftir gögnum og skýringum á gjaldfærðum kostnaði í skattframtali félagsins árið 2020. Fór ríkisskattstjóri í fyrsta lagi fram á lagðir yrðu fram launamiðar (RSK 2.01) vegna aðkeyptrar þjónustu að fjárhæð 970.000 kr. í skattframtali kæranda, sbr. 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í öðru lagi skyldi kærandi gefa skýringar á gjaldfærðum starfsmannatengdum kostnaði að fjárhæð 237.547 kr. Í sundurliðun með ársreikningi kæmi fram að um væri að ræða árshátíð og annan starfsmannakostnað, endurmenntunarnámskeið og vinnufatnað. Ríkisskattstjóri benti í þessu sambandi á að í rekstri kæranda væri aðeins gjaldfærð aðkeypt þjónusta en engin laun. Í þriðja lagi fór ríkisskattstjóri fram á rökstuddar skýringar á því hvernig gjaldfærður bifreiðakostnaður 1.353.902 kr. tengdist öflun tekna í atvinnurekstri. Ríkisskattstjóri tók fram að í eignaskrá kæranda (RSK 4.01) væru tilgreindar þrjár bifreiðar og gjaldfærð fyrning þeirra allra. Í fjórða lagi skyldi kærandi útskýra forsendur fyrir gjaldfærslu tapaðra krafna 5.453.725 kr., sem samkvæmt sundurliðun í ársreikningi væru kröfur á hendur samtökunum G, og sýna fram á frádráttarbærni gjaldfærslu í samræmi við ákvæði 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 og 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þar á meðal að krafan hefði áður verið tekjufærð hjá kæranda.

Svarbréfi kæranda, sem barst ríkisskattstjóra 1. júlí 2020, fylgdu launamiðar vegna tveggja verktaka. Um starfsmannakostnað að fjárhæð 237.547 kr. kom fram í bréfinu að kærandi hefði boðið aðstoðarmönnum vegna námskeiða hjá K og verktökum til árshátíðar og hefði kostnaður numið 59.590 kr. Þá hefði kostnaður við að senda verktaka á námskeið hjá K numið 50.000 kr. auk þess sem gjaldfærður hefði verið kostnaður að fjárhæð 127.957 kr. vegna hreinsunar á vinnufatnaði og kaupa á jakkafötum. Um bifreiðakostnað vísaði kærandi til þess að bifreiðarnar X-1 og X-2 væru á nafni eiganda kæranda, B. Bensín-, olíu- og viðhaldskostnaður samtals að fjárhæð 1.353.902 kr. væri vegna bifreiðanna X-3 og X-4. Viðhaldskostnaður væri eingöngu vegna X-4. Um afskrifaðar kröfur vísaði kærandi til þess að um væri að ræða reikninga og lögfræðikostnað að fjárhæð 4.729.287 kr. Þá kom fram að við flutninga árið 2018 hefðu gögn blandast saman við heimilisbókhald og önnur skjöl og virtust þau vera glötuð.

Með bréfi, dags. 22. október 2020, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um breytingar á skattframtali félagsins árið 2020, sbr. 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, vegna lækkunar gjaldfærðs rekstrarkostnaðar og kröfutaps, sbr. ákvæði 1. og 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að kærandi hefði ekki lagt fram nein gögn að baki gjaldaliðunum „starfsmannatengdur kostnaður“ og „rekstur flutningstækja“. Kærandi hefði ekki afhent umbeðna greinargerð um akstur bifreiða í þágu rekstrar eða gefið skýringar á rekstrarlegum tilgangi bifreiðanna. Ennfremur hefði kærandi ekki rökstutt tengingu gjaldaliðanna við öflun tekna í atvinnurekstri félagsins. Því væru gjaldfærðar fjárhæðir þeirra felldar niður Þá hefði kærandi ekki sýnt fram á frádráttarbærni kröfutaps í samræmi við ákvæði 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1993, og væri sá frádráttarliður því felldur niður. Að gerðum  þessum breytingum yrðu hreinar tekjur 4.661.334 kr.

Með kæru, dags. 30. október 2020, sbr. bréf, dags. 30. nóvember 2020, mótmælti kærandi breytingum ríkisskattstjóra á skattframtali félagsins árið 2020. Af hálfu kæranda kom fram að rekstur félagsins fælist í fyrirlestrahaldi og væri gjaldfærður kostnaður að fjárhæð 237.547 kr. aðallega fæðiskostnaður. Gjaldfærður kostnaður vegna reksturs bifreiða að fjárhæð 1.353.902 kr. væri vegna kaupa á bensíni, olíu, viðhaldi o.fl. Gjaldfærsla að fjárhæð 4.729.287 kr. væri vegna krafna frá fyrri árum, aðallega á hendur samtökunum G, sem ekki væri hægt að senda í innheimtu. Vegna flutninga milli byggðarlaga hefðu gögn ekki fundist. Ekkert hefði verið að gera hjá kæranda frá því að Covid-19 faraldurinn hófst og því þröngt í búi auk þess sem kærandi hefði verið í góðri trú um réttmæti skattskila félagsins.

Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 2. febrúar 2021, var því beint til kæranda að koma á framfæri frekari skýringum vegna kæru félagsins, þar á meðal að leggja fram gögn um nefnda tvo gjaldaliði og gögn til stuðnings gjaldfærslu tapaðra viðskiptakrafna. Í svarbréfi kæranda, dags. 14. febrúar 2021, var ítrekað að gögn hefðu tapast vegna flutninga. Um tapaðar viðskiptakröfur sagði í bréfinu að um hefði verið að ræða reikninga sem ekki hefðu fengist greiddir. Slitnað hefði upp úr samstarfi við samtökin G og hefðu samtökin neitað að greiða kæranda síðustu reikninga félagsins. Þar sem um virt samtök væri að ræða hefði verið hætt við lögsókn og reikningarnir afskrifaðir. Reikningarnir hefðu verið tekjufærðir og því væri ekkert óeðlilegt að kærandi vildi gjaldfæra þá. Um aksturskostnað og almennt um reksturinn kom fram að rekstur kæranda væri eins og sálfræðistofa, nánar tiltekið ráðgjafarstarf. Framkvæmdastjóri kæranda ferðaðist um landið, yfirleitt akandi, og héldi fyrirlestra. Auk þess væri rekin skrifstofa þar sem fólk gæti leitað ráðgjafar. Einnig væri kærandi leiðbeinandi hjá K. Bréfinu fylgdu hreyfingalistar nokkurra lykla í bókhaldi kæranda.

Samkvæmt kæruúrskurði ríkisskattstjóra í máli kæranda, dags. 25. febrúar 2021, féllst hann á gjaldfærslu vegna árshátíðar að fjárhæð 59.590 kr. en hafnaði á hinn bóginn gjaldfærslu námskeiðskostnaðar að fjárhæð 50.000 kr. og vinnufatnaðar að fjárhæð 127.957 kr. Ríkisskattstjóri tók fram að verktökum bæri sjálfum að greiða endurmenntunarkostnað sinn. Þá væri kostnaður vegna hreinsunar og kaupa á fötum ávallt persónulegur kostnaður og ekki gjaldfæranlegur hjá lögaðila, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Að virtum skýringum um bifreiðakostnað þætti mega áætla þann gjaldalið til frádráttar. Þætti hæfilegt að miða við heildarakstur 5.000 km á árinu 2019 og kostnað 110 kr. á kílómetra, þ.m.t. afskriftir. Þar sem áður hefðu verið gjaldfærðar afskriftir vegna þriggja bifreiða að fjárhæð 383.670 kr. yrði hækkun gjaldfærslu 166.330 kr. og bifreiðakostnaðar því samtals 550.000 kr. Ekki hefði verið skilað greinargerð um akstur bifreiða og væri því ekki tilefni til að fallast á hærri gjaldfærslu vegna aksturs, sbr. einnig 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Hvað snerti afskrift viðskiptakrafna 4.729.287 kr. vísaði ríkiskattstjóri til þess að engin gögn hefðu verið lögð fram til staðfestingar á töpuðum kröfum og þætti því ekki hafa verið sýnt fram á frádráttarbærni kröfutapsins í samræmi við ákvæði 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 og 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, mótt. 22. mars 2021, er vísað til þess að kærandi sé félag sem sérhæfi sig í ráðgjöf. Kærandi hafi unnið um árabil að verkefninu H sem m.a. hafi verið á vegum G. Aðilar að verkefninu hafi ekki greitt hluta af reikningum kæranda sem kærandi hafi tekjufært á nokkrum árum. Bókari kæranda hafi gjaldfært 4.729.287 kr. sem hafi verið að mestu skuld fyrrgreindra aðila en ekki hafi verið vilji til að innheima skuld umræddra aðila með lögfræðiaðstoð þar sem um væri að ræða virtar stofnanir. Ekki hafi öll upphæðin verið skuld fyrrgreindra stofnana, heldur einnig nokkurra annarra viðskiptavina kæranda. Erfitt hafi verið að finna gögn varðandi þetta mál, en meirihluti gagnanna hafi glatast í flutningum. Einnig er í kærunni mótmælt lækkun ríkisskattstjóra á gjaldfærðum kostnaði vegna reksturs bifreiða og starfsmannakostnaði.

Bókhald kæranda hafi verið fært í samræmi við lög og reglur auk þess sem félagið hafi staðið skil á opinberum gjöldum á réttum tíma. Hafi kærandi þegar tekjufært greindar 4.729.287 kr. á réttan hátt og greitt öll þau gjöld sem tilheyri málinu.

IV.

Með bréfi, dags. 4. maí 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 20. maí 2021, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu eru áréttaðar fyrri skýringar um að bókhald og fleiri gögn hafi glatast við flutninga. Þá kemur fram að B, framkvæmdastjóri kæranda, hafi fyrir hönd síns félags verið starfsmaður verkefnisins H sem verið hafi á vegum G og fleiri aðila. Hafi verið um að ræða ráðgjöf og fræðslufundi. Þetta hafi verið eina tekjulind kæranda. Meðfylgjandi séu reikningar að fjárhæð samtals 3.013.996 kr. sem ekki hafi fengist greiddir. Hér vanti reikninga upp á rúma eina milljón miðað við gjaldfærða fjárhæð en umboðsmaður kæranda standi við það að gjaldfærð fjárhæð sé rétt.

V.

Kæra í máli þessu varðar tilgreindar breytingar sem ríkisskattstjóri gerði á skattframtali kæranda árið 2020 á grundvelli 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 22. október 2020, og hinn kærða úrskurð, dags. 25. febrúar 2021. Í kærunni eru gerðar athugasemdir vegna þeirra breytinga ríkisskattstjóra á skattframtalinu að lækka gjaldfærðan starfsmannakostnað og kostnað vegna reksturs flutningstækja og að fella niður gjaldfærslu afskrifaðra krafna.

1. Um rekstrarkostnað.

Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 er heimilað að draga rekstrarkostnað frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, „þ.e. þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við […]“. Ákvæði þetta er samkvæmt orðalagi sínu heimildarákvæði og er það því undantekning frá þeirri meginreglu að lögaðilum sé skylt að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, sbr. 2. gr. laganna. Ber skattaðila því að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt, þ.m.t. að fyrir liggi gögn sem beri tilefni útgjalda með sér á fullnægjandi hátt, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands 30. janúar 1997 í málinu nr. 3/1997 (H 1997:385) og 20. febrúar 1997 í málinu nr. 163/1996 (H 1997:759). Almennur kostnaður vegna heimilis og fjölskyldu og annarra persónulegra þarfa er ekki frádráttarbær.

Starfsmannatengdur kostnaður.

Í skattframtali kæranda árið 2020 voru gjaldfærðar 237.547 kr. í reit 2470 sem „Starfsmannatengdur kostnaður“. Í skýringum með ársreikningi kæranda fyrir rekstrarárið 2019 var tiltekið að hér félli undir „árshátíð og annar starfsmannakostnaður“ að fjárhæð 59.590 kr., „endurmenntunarnámskeið“ að fjárhæð 50.000 kr. og „vinnufatnaður“ að fjárhæð 127.957 kr. Með hinum kærða úrskurði féllst ríkisskattstjóri á gjaldfærslu kostnaðar vegna árshátíðar að fjárhæð 59.590 kr. og er því ekki ágreiningur um þann kostnað. Af hálfu kæranda hefur sú skýring verið gefin á kostnaði vegna endurmenntunarnámskeiðs, sbr. bréf dags. 24. júní 2020, að verktaki hafi verið sendur á námskeið hjá K og að kostnaður vegna vinnufatnaðar sé vegna hreinsunar á fatnaði og kaupa á jakkafötum. Í kæru til ríkisskattstjóra, dags. 30. október 2020, var því haldið fram að starfsmannakostnaður 237.547 kr. væri aðallega fæðiskostnaður vegna ferða fyrirsvarsmanns kæranda til fyrirlestrahalds um landið. Að virtum tilgreiningum í hreyfingalistum bókhalds, sem fylgdu bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 14. febrúar 2021, verður hins vegar ráðið að fyrri skýringar voru nær lagi.

Ríkisskattstjóri felldi gjaldfærðan kostnað vegna námskeiðs niður á þeim forsendum að kærandi hefði ekki lagt fram bókhaldsgögn og ekki að öðru leyti sýnt fram á frádráttarbærni útgjaldanna samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 22. október 2020. Í kæruúrskurði sínum skaut ríkisskattstjóri þeirri stoð undir synjun gjaldfærslu þessara útgjalda að „verktökum bæri sjálfum að greiða sinn endurmenntunarkostnað“, svo sem þar sagði. Samkvæmt 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994 telst til rekstrarkostnaðar kostnaður við námskeið sem tengjast starfinu beint. Af orðan þessa ákvæðis og stöðu þess innan ramma reglna um laun og annan starfsmannatengdan kostnað, sbr. fyrirsögn 3. gr. reglugerðarinnar, má út af fyrir sig taka undir það sem sýnist viðhorf ríkisskattstjóra að ekki átti við að tilgreina útgjöld vegna verktaka í skattskilum sem „starfsmannatengdan kostnað“. Þar með er þó ekki sagt að frádráttur kostnaðar af því tagi sem hér um ræðir komi ekki til álita undir öðrum formerkjum, eftir atvikum sem liður í þóknun til hlutaðeigandi aðila. Eftir stendur hins vegar að kærandi hefur enga viðhlítandi grein gert fyrir þessum útgjöldum sínum og m.a. ekki lagt fram umbeðin gögn til sönnunar gjaldfærslu. Að svo vöxnu þykir ekki unnt að taka kröfu kæranda til greina um þetta kæruatriði.

Vegna gjaldfærðs kostnaðar vegna hreinsunar og kaupa á fötum skal tekið fram að útgjöld vegna fatnaðar eru þess eðlis að almennt verður að miða við að um sé að ræða persónuleg útgjöld og óviðkomandi tekjuöflun í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, nema sýnt sé fram á annað. Fram kom í svarbréfi kæranda, dags. 24. júní 2020, að auk hreinsunar á fötum væri um að ræða kaup á jakkafötum. Ekkert liggur annað fyrir í málinu en að um sé að ræða fatnað sem hafa mætti að fullu til persónulegra nota og hefur öðru ekki verið haldið fram af hálfu kæranda. Þykir kærandi með skýringum sínum ekki hafa sýnt fram á að um hafi verið að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 og verður því að hafna frádrætti vegna „vinnufatnaðar“ að fjárhæð 127.957 kr.

Rekstur flutningstækja.

Samkvæmt skattframtali kæranda nam bifreiðakostnaður 1.353.902 kr., sbr. reit 2280 í framtalinu. Í skýringum með ársreikningi kæranda eru týndir til kostnaðarliðirnir „bensín og olíur“, „skattar og vátryggingar“, „viðhald bifreiða“ og „annar kostnaður, skoðunargjöld o.fl.“, samtals með hinni gjaldfærðu fjárhæð. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir ríkisskattstjóra hefur kærandi ekki gert neina viðhlítandi grein fyrir notkun bifreiða í rekstrinum. Þá verður ekki annað ráðið af skýringum kæranda en að í bókhaldi þess og skattskilum hafi verið gjaldfærður kostnaður vegna bifreiða sem ekki voru í eigu kæranda. Ríkisskattstjóri hefur ákvarðað kæranda bifreiðakostnað að álitum með 550.000 kr. Ekkert kemur fram í kæru til yfirskattanefndar sem þykir gefa tilefni til að hrófla við þessari ákvörðun ríkisskattstjóra.

2. Afskrifaðar viðskiptakröfur.

Samkvæmt 1. mgr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 er heimilt að draga tap á útistandandi viðskiptakröfum, ábyrgðum og lánveitingum, sem beint tengjast atvinnurekstrinum, frá tekjum á því tekjuári sem eignir þessar eru sannanlega tapaðar. Í 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994 er nánar kveðið á um skilyrði slíkrar gjaldfærslu. Samkvæmt nefndri 13. gr. reglugerðarinnar er heimilt að draga tap á viðskiptakröfum, lánveitingum og skuldaábyrgðum frá tekjum á því tekjuári sem eignir þessar eru sannanlega tapaðar eða ábyrgð á fallin. Samkvæmt a-lið greinarinnar er það skilyrði sett að krafan, lánveitingin eða ábyrgðin stafi beinlínis af atvinnurekstri aðila, þ.e. að hún sé til komin í beinu samhengi við viðskipti eða eðlilega starfsemi hans. Samkvæmt b-lið greinarinnar ber að færa sönnur fyrir því að fjárhæð viðskiptakröfu hafi áður verið talin til tekna, lánveiting eignfærð eða ábyrgð hafi verið veitt. Samkvæmt c-lið greinarinnar kemur töpuð viðskiptakrafa eða veitt lán til frádráttar á því ári þegar slíkt tap er orðið sannanlegt. Í 14. gr. nefndrar reglugerðar er síðan skilgreint hvenær tap á kröfu, sbr. 13. gr., telst sannanlegt. Þar kemur fram að tap á kröfu telst sannanlegt ef krafan er fyrnd eða það sannast á fullnægjandi hátt að eignir séu eigi til fyrir henni eða hún verði eigi greidd, svo sem við gjaldþrot, nauðasamninga, árangurslaust fjárnám o.þ.h. eða ef telja má fullvíst að krafan fáist eigi greidd þótt framangreind atvik séu eigi fyrir hendi. Líkur einar eru þó eigi nægar, heldur verða öll rök að liggja til þess að krafan sé að fullu töpuð og að það hafi sýnt sig við ítrekaðar innheimtutilraunir, þar með talið tilraunir annarra kröfuhafa, að skuldari sé ófær til greiðslu, að af kröfunni fáist hvorki afborganir né vextir né veð fyrir henni og efnahagur skuldara og afkoma sé þannig að greiðslu verði ekki að vænta, enda sé ekki um gagnkröfu að ræða af hans hendi.

Í skattframtali kæranda árið 2020 eru 5.453.725 kr. gjaldfærðar undir liðnum „Annar skrifstofu- og stjórnunarkostn.“ (reitur 2380). Í ársreikningi kæranda fyrir rekstrarárið 2019 kemur fram að þar á meðal eru „afskrifaðar kröfur á G“ að fjárhæð 4.729.287 kr. Ekki eru frekari skýringar á þessum lið í ársreikningum. Eins og fram er komið er frádráttarheimild 1. mgr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994, bundin við tap á útistandandi viðskiptakröfum, ábyrgðum og lánveitingum samkvæmt nánari skilyrðum. Það ber undir kæranda að sýna fram á að skilyrðum gjaldfærslu samkvæmt þessum ákvæðum sé fullnægt.

Svo sem rakið er hér að framan hefur ríkisskattstjóri ítrekað í samskiptum sínum við kæranda spurst fyrir um þennan gjaldalið og óskað eftir skýringum og að lögð yrðu fram gögn. Kærandi hefur hins vegar borið því við að bókhaldsgögn hafi glatast. Við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra voru þannig engin gögn lögð fram af hálfu kæranda varðandi viðskiptakröfur sem kærandi telur tapaðar.

Með bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 20. maí 2021, fylgdu tólf sölureikningar kæranda, allir útgefnir á árinu 2016, á hendur verkefninu H, samtals að fjárhæð 3.133.996 kr. (ekki 3.013.996 kr. eins og umboðsmaður kæranda tiltekur í bréfi sínu). Þessir sölureikningar eru m.a. vegna „framkvæmdastjórastöðu“ hjá nefndum samtökum. Það athugist að þrír sölureikninganna bera sama reikningsnúmerið. Ráðið verður af bréfi umboðsmanns kæranda að mestur hluti afskrifaðra krafna sé vegna seldrar þjónustu samkvæmt þessum sölureikningum.

Það er að athuga við þessi gögn kæranda, sem fyrst koma fram við kærumeðferð fyrir yfirskattanefnd, að í ársreikningi félagsins fyrir rekstrarárið 2016 er tiltekin viðskiptakrafa á H að fjárhæð 1.453.676 kr. sem svarar þannig ekki til þess að allir nefndir sölureikningar kæranda að fjárhæð 3.133.996 kr. frá því ári hafi ekki fengist greiddir. Samkvæmt ársreikningi kæranda fyrir rekstrarárið 2017 hefur krafan á hendur H fengist greidd á árinu. Í ársreikningnum er hins vegar færð krafa á hluthafa með 3.642.469 kr., sbr. einnig tilgreindar „Vaxt.lausar kröfur á tengda aðila“ í skattframtali kæranda árið 2018. Sú krafa kæranda var greidd félaginu á árinu 2018 eftir því sem ráðið verður af ársreikningi kæranda fyrir rekstrarárið 2018, sbr. og skattframtal árið 2019, en þar verður til hin umdeilda fjárhæð 4.729.287 kr. sem viðskiptakrafa í árslok. Hefur sú krafa þá stofnast af rekstrartekjum ársins er námu 6.085.896 kr.

Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að umræddir sölureikningar kæranda frá árinu 2016 hafi neina þýðingu í málinu. Samkvæmt því getur kærandi ekki talist hafa orðið að neinu leyti við ósk ríkisskattstjóra um að sýnt verði fram á að fjárhæð viðskiptakröfu hafi áður verið færð kæranda til tekna, sbr. b-lið 13. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Kærandi hefur ekki heldur lagt neitt fram því til stuðnings að um tapaða kröfu sé að ræða, sbr. skilyrði 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 483/1994.

Með vísan til framanritaðs þykir kærandi því ekki hafa sýnt fram að um frádráttarbært kröfutap sé að ræða, sbr. 3. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Kröfu kæranda þar að lútandi er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja