Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna bílaviðgerða

Úrskurður nr. 155/2021

Lög nr. 50/1988, bráðabirgðaákvæði XXXIII, 4. mgr.  

Kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við breytingar á fólksbifreið hans, sem miðuðu fyrst og fremst að því að breyta notkunareiginleikum bifreiðarinnar með upphækkun hennar og stærri dekkjum, var hafnað. Voru ekki taldar forsendur til að skýra endurgreiðsluheimild virðisaukaskattslaga svo rúmt, miðað við orðalag hennar, að hún tæki til vinnu við slíkar breytingar.

Ár 2021, miðvikudaginn 29. september, er tekið fyrir mál nr. 124/2021; kæra A, dags. 24. júní 2021, vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts árið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 24. júní 2021, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt bréfi, dags. 8. sama mánaðar, að synja kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 240.240 kr. samkvæmt endurgreiðslubeiðni sem barst ríkisskattstjóra 7. mars 2021. Var beiðnin byggð á 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Samkvæmt ákvæðum þessum, sbr. og 6. gr. laga nr. 141/2020, skal á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að um væri að ræða beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við breytingar á bifreið sem ekki gætu talist til bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða í skilningi reglugerðar nr. 690/2020. Væri umsókn kæranda því hafnað.

Í kæru kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt. Í kærunni eru ákvæði 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og f-liðar 5. gr. reglugerðar nr. 690/2020 rakin. Er bent á að breyting á jeppabifreið feli í sér að skipt sé um ýmsa hluti bifreiðarinnar, þ.e. um sé að ræða viðgerð, breytingar á yfirbyggingu og undirvagni, bílasmíði og sprautun. Með gagnályktun frá ákvæði f-liðar 5. gr. fyrrnefndrar reglugerðar megi því draga þá ályktun að vinna við breytingu bifreiðar sé endurgreiðsluhæf. Er vikið að lögskýringargögnum að baki bráðabirgðaákvæði XXXIII í lögum nr. 50/1988, þar með talið nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, og tekið fram að vinna X ehf. við bifreið kæranda hljóti að falla undir viðgerðir, bílasmíði og bílasprautun, eins og fram komi í lögskýringargögnum. Hvergi komi fram í lögum eða reglugerð að bifreið þurfi að vera biluð eða óökuhæf til þess að vinna við bifreið geti talist viðgerð. Þvert á móti sé tæmandi talið í reglugerðinni hvaða vinna við bifreið geti ekki uppfyllt skilyrði endurgreiðslu og sé því ekkert rými að lögum til að víkka út þá vinnu sem ekki sé endurgreidd. Virðisaukaskattur sé endurgreiddur af vinnu við íbúðarhúsnæði án tillits til þess hvort húsnæðið sé illa farið, þ.e. endurgreitt sé af breytingum á húsnæði. Þá sé kæranda kunnugt um að aðrir aðilar hafi fengið endurgreiðslu vegna sambærilegrar vinnu við bifreiðar. Að þessu athuguðu og með vísan til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé ómögulegt að skilja höfnun ríkisskattstjóra, nema þá að um sé að ræða kerfisvillu sem rétt sé að leiðrétta.

II.

Með bréfi, dags. 20. júlí 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Er bent á í umsögninni að kæra kæranda hafi borist yfirskattanefnd að liðnum kærufresti sem runnið hafi út 22. júní 2021. Hins vegar hafi kæran borist ríkisskattstjóra með tölvupósti 8. júní sl. og telji ríkisskattstjóri því að taka beri kæruna til afgreiðslu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi ríkisskattstjóra láðst að framsenda yfirskattanefnd kæruna. Um efnishlið málsins kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra að bifreið sú, sem málið snúist um, sé nýskráð í febrúar 2021, þ.e. sama dag og kærandi hafi keypt bifreiðina, og reikningur X ehf., sem liggi til grundvallar endurgreiðslubeiðni kæranda, sé dagsettur 5. mars 2021. Megi því gera ráð fyrir því að kærandi hafi látið breyta bifreiðinni samhliða kaupum á henni nýrri, en samkvæmt sölureikningi X ehf. sé um að ræða vinnu við „breytingu, brettakanta, úrklippu, loftdælu og dráttarbeisli o.fl.“ Ekki verði fallist á með kæranda að breyting á nýrri jeppabifreið sem feli í sér stækkun á dekkjum og vinnu við að setja dráttarkrók á bifreiðina geti fallið undir bifreiðaviðgerð í skilningi 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 50/1988. Um sé að ræða verulegar endurbætur á bifreiðinni sem miði að því að gera hana betri og dýrmætari en ekki viðgerð sem þörf hafi verið á til að halda bifreiðinni í sambærilegu horfi og áður. Er í þessu sambandi skírskotað til þess að í skattframkvæmd hafi löngum verið gerður greinarmunur á endurbótum og viðhaldi. Heimild 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins einskorðist samkvæmt því við viðhald bifreiða en taki ekki til endurbóta á þeim. Því til stuðnings megi benda á að í 1. og 2. mgr. sama ákvæðis sé tekið fram um endurgreiðslurétt vegna vinnu við endurbætur og viðhald íbúðarhúsnæðis. Beiðni kæranda lúti að vinnu við valkvæða breytingu, þ.e. endurbætur, sem ekki sé til þess fallin að mynda stofn til endurgreiðslu. Vegna tilvísunar kæranda til jafnræðisreglu er tekið fram í umsögn ríkisskattstjóra að kærandi hafi enga grein gert fyrir því að aðilar hafi fengið endurgreiðslu vegna öldungis sambærilegrar vinnu og í tilviki hans. Með vísan til þessa sé þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. ágúst 2021, var kæranda send umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um efni hennar og að leggja fram frekari gögn í málinu, ef hann teldi ástæðu til. Var kæranda veittur 20 daga frestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Með vísan til þess sem fram kemur í umsögn ríkisskattstjóra í málinu þykir bera að taka kæru kæranda til efnislegrar meðferðar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, og 6. gr. laga nr. 141/2020, kemur fram að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021 skuli endurgreiða einstaklingum utan rekstrar 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna sem unnin er innan þess tímabils vegna bílaviðgerðar, bílamálningar eða bílaréttingar fólksbifreiða. Skilyrði endurgreiðslu er að fólksbifreið sé í eigu umsækjanda og að fjárhæð vinnuliðar sé að lágmarki 25.000 kr. án virðisaukaskatts. Endurgreiðsla eftir ákvæði þessu skal innt af hendi á grundvelli framlagðra reikninga eins fljótt og auðið er, þó aldrei síðar en 90 dögum eftir að Skattinum barst erindið.

Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXIII er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd endurgreiðslna sem fjallað er um í ákvæðinu. Hefur það verið gert með setningu reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um virðisaukaskatt sem ekki telst endurgreiðsluhæfur og kemur fram í f-lið greinarinnar að virðisaukaskattur fáist ekki endurgreiddur af reglulegri umhirðu fólksbifreiðar eða minniháttar viðhaldi hennar, svo sem ábyrgðarskoðun, tjónamati, ástandsskoðun, hjólbarðaviðgerðum, hjólbarðaskiptum, smurþjónustu, þrifum og bóni.

Heimild bráðabirgðaákvæðis XXXIII til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við bílaviðgerðir, bílamálun og bílaréttingar var tekin upp með 7. gr. fyrrgreindra laga nr. 25/2020. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laganna, sbr. þskj. 118 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, kemur fram að lagt sé til að endurgreiðsla virðisaukaskatts taki einnig til vinnu við bílaviðgerðir, bílasprautun (bílamálun) og bílaréttingar (bifreiðasmíði). Ekki sé gert ráð fyrir því að heimild til endurgreiðslu taki til smurþjónustu eða hjólbarðaviðgerða. Þá er tekið fram að rétt til endurgreiðslu eigi skráður eigandi þeirrar bifreiðar sem veitt sé viðhald.

Beiðni kæranda í máli þessu um endurgreiðslu virðisaukaskatts tók til sölureiknings frá X ehf., dags. 5. mars 2021, að fjárhæð alls 2.107.000 kr. með virðisaukaskatti, en þar af nam vinna 1.001.000 kr. Miðað við lýsingu á sölureikningnum var um að ræða vinnu „við 35“ breytingu, brettakanta, úrklippu, loftdælu og dráttarbeisli o.fl.“, eins og þar segir. Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu er dregin sú ályktun að um hafi verið að ræða breytingar á bifreiðinni í beinu framhaldi af kaupum kæranda á henni nýrri, en kærandi hafi keypt bifreiðina í febrúar 2021 eða sama dag og hún var nýskráð miðað við upplýsingar í ökutækjaskrá. Hafa ekki komið fram neinar athugasemdir af því tilefni af hálfu kæranda, sbr. bréf yfirskattanefndar til hans, dags. 5. ágúst 2021. Taka verður undir það með ríkisskattstjóra að miðað við orðalag endurgreiðsluheimildar 4. mgr. umrædds bráðabirgðaákvæðis XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 25/2020, sem eins og fram er komið tekur til vinnu vegna „bílaviðgerða, bílamálningar eða bílaréttingar“, þykja ekki vera forsendur til að skýra heimildina svo rúmt að hún taki til vinnu við slíkar breytingar á fólksbifreiðum sem um ræðir í tilviki kæranda sem telja verður að miði fyrst og fremst að því að breyta notkunareiginleikum viðkomandi bifreiðar með upphækkun hennar og stærri dekkjum. Þykja athugasemdir í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis með frumvarpi til laga nr. 25/2020 og frekast mæla gegn slíkri túlkun, sbr. hér að framan. Að þessu athuguðu og að því virtu sem fram er komið um keypta þjónustu kæranda verður ekki talið að skilyrði séu til að verða við kröfu kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af umræddum reikningi frá X ehf. Er kröfu kæranda því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja