Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjufallsstyrkur

Úrskurður nr. 157/2021

Lög nr. 118/2020, 4. gr. 1. tölul.  

Kröfu kæranda í máli þessu, sem rak gistiheimili og ferðaþjónustu, um tekjufallsstyrk var hafnað þar sem ekki var um að ræða tekjusamdrátt milli ára, þ.e. tekjur af rekstrinum á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 voru ekki lægri en á viðmiðunartímabili á árinu 2019. Var afkoma rekstrar að öðru leyti, svo sem með tilliti til framlegðar af honum, ekki talin geta skipt máli í þessu sambandi.

Ár 2021, miðvikudaginn 29. september, er tekið fyrir mál nr. 109/2021; kæra A, dags. 3. júní 2021, vegna ákvörðunar um tekjufallsstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 3. júní 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 4. mars 2021, að hafna umsókn kæranda um tekjufallsstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki. Ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin í framhaldi af umsókn kæranda þann 22. febrúar 2021 og byggðist höfnun embættisins á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 um a.m.k. 40% tekjufall á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Í ákvörðuninni reifaði ríkisskattstjóri fyrrgreint ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 og benti á að samkvæmt því ákvæði væri einungis horft til tekna aðila við mat á rétti á tekjufallsstyrk, en ekki til breytinga á framlegð milli ára, svo sem kærandi hefði krafist í umsókn sinni um tekjufallsstyrk. Ríkisskattstjóri benti jafnframt á að tekið væri fram í umsókn kæranda um tekjufallsstyrk að tekjur kæranda hefðu aukist á milli áranna 2019 og 2020, úr 5.481.155 kr. fyrra árið í 6.336.974 kr. seinna árið. Þegar af þeirri ástæðu yrði að hafna umsókn kæranda um tekjufallsstyrk.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og að kæranda verði úrskurðaður tekjufallsstyrkur að fjárhæð 3,8 milljónir króna í samræmi við umsókn kæranda. Að auki er krafist málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði. Í kærunni kemur fram að kærandi reki hótelið H. Forsendur fyrir umsókn kæranda um tekjufallsstyrk hafi byggst á því að hann hafi þurft að víkka þjónustuframboð hótelsins til að tryggja rekstrinum tekjur. Sú breyting hafi verið gerð að í stað þess að selja eingöngu gistingu, hafi verið skipulagðar hópferðir með afþreyingu og veitingum inniföldum. Þessi viðbót hafi hins vegar ekki skilað sér í þeirri framlegð sem hefði dugað til að bæta upp fyrir þau áhrif sem rekstur hótelsins hafi orðið fyrir af sökum heimsfaraldurs kórónuveiru. Nánar tiltekið hafi hótelið í þessu skyni skrifað undir samning við fyrirtækið T um leigu á öllum herbergjum hótelsins í fimm vikur og hafi heildartekjur af þeim samningi verið áætlaðar 57.500 bandaríkjadalir eða um 7,7 milljónir króna. Rekstrartölur sýni að framlegðarhlutfall hafi á árinu 2019 verið 16%, en hins vegar hafi framlegðarhlutfall ársins 2020 verið neikvætt um 47,3% og lækkun á framlegð hafi alls numið 3.874.603 kr. Ástæða þessa mismunar sé sú að samningurinn við T hafi falið í sér lágt þjónustustig og lítinn beinan kostnað. Tekjur vegna gistingu og veitinga hafi numið um 3,2 milljónum króna á árinu 2020 og því hafi tekjur vegna hótelreksturs verið um 4,5 milljónum króna lægri en samningurinn við T hafi miðað við. Kærandi krefst þess því að við ákvörðun um fjárhæð tekjufallsstyrks verði horft til rekstrarkostnaðar af sölu á veitingum og afþreyingu.

II.

Með bréfi, dags. 22. júní 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 28. júní 2021, hefur kærandi lagt fram athugasemdir sínar vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Í bréfinu er bent á að í kæru kæranda sé rakið hvernig breytt þjónustuframboð vegna reksturs hótelsins H hafi haft áhrif á afkomu þess. Tekjur og kostnaður hafi verið sundurliðaður eftir starfsemi og sýnt hafi verið fram á að tekjur á árinu 2020 af sambærilegri starfsemi og á árinu 2019 hafi lækkað milli ára sökum breyttra rekstrarskilyrða vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Einnig hafi verið færð rök fyrir því að horfa eigi á beinan viðbótarkostnað sem breytt rekstrarform hafi haft á rekstur hótelsins með vísan til 5. gr. laga nr. 118/2020.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. apríl 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 118/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra tekjufallsstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru upp í þremur töluliðum í lagagreininni.

Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 er skilyrði fyrir greiðslu tekjufallsstyrks að tekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 hafi verið a.m.k. 40% lægri en meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili 2019 og tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans bornar saman við tekjur hans fyrstu sjö heilu almanaksmánuði sem hann starfaði. Hafi hann starfað skemur en sjö heila almanaksmánuði í lok mars 2020 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í 214 daga viðmiðunartekjur. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-3. málsl. ákvæðisins. Samkvæmt orðskýringu í 3. gr. laga nr. 118/2020 er með tekjum átt við skattskyldar tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna, sbr. 6. tölul. lagagreinarinnar.

Kærandi í máli þessu rekur gistiheimili og ferðaþjónustu. Ekki er deilt um það í málinu að tekjur af rekstri kæranda á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 námu hærri fjárhæð en meðaltekjur rekstrarins á sjö mánaða tímabili á árinu 2019. Af hálfu kæranda er hins vegar byggt á því að þrátt fyrir að tekjur af rekstrinum hafi aukist milli ára beri að líta til breytinga á rekstrinum sem kærandi hafi ráðist í á árinu 2020 með sölu hópferða, afþreyingar og veitinga til þess að bregðast við tekjusamdrætti vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og tryggja rekstrinum auknar tekjur til að standa straum af föstum kostnaði. Allt að einu hafi framlegð af rekstri ekki dugað til að bæta fyrir neikvæð áhrif af faraldrinum. Er gerð nánari töluleg grein fyrir þessu í kæru til yfirskattanefndar. Af þessu tilefni skal tekið fram að samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir tekjufallsstyrk að rekstrartekjur á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 séu lægri en á viðmiðunartímabili á árinu 2019 þannig að um tekjusamdrátt sé að ræða milli ára hjá hlutaðeigandi rekstraraðila. Getur afkoma rekstrar að öðru leyti, svo sem með tilliti til framlegðar af rekstri, þá ekki skipt neinu máli. Að þessu athuguðu og með vísan til 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 verður að hafna kröfu kæranda. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu hans um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja