Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjufallsstyrkur, fjárhæð

Úrskurður nr. 158/2021

Lög nr. 118/2020, 5. gr. 1. mgr. og 2. mgr. (brl. nr. 133/2020, 37. gr.)  

Kærandi í máli þessu var einkahlutafélag um innflutning og smásölu. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru var engin starfsemi á vegum félagsins á tímabilinu 1. apríl til 30. október 2020 og hvorki rekstrartekjum né rekstrargjöldum til að dreifa. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að tekjufallsstyrkir tækju að lögum mið af rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 30. október 2020 en ekki tekjufalli hans, þó þannig að tekjufallsstyrkur gæti aldrei numið hærri fjárhæð en sem næmi tekjufalli milli ára. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2021, miðvikudaginn 29. september, er tekið fyrir mál nr. 85/2021; kæra A ehf., dags. 9. apríl 2021, vegna ákvörðunar um tekjufallsstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 9. apríl 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra frá 3. mars 2021 að hafna umsókn kæranda um tekjufallsstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki. Ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin í kjölfar rafrænnar umsóknar kæranda þann 15. janúar 2021 og byggðist á því að ekki væru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 118/2020 þar sem enginn rekstrarkostnaður hefði fallið til hjá kæranda á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að kæranda verði ákvarðaður tekjufallsstyrkur. Í kæru kemur fram að kærandi sé einkahlutafélag sem stundi innflutning og smásölu. Vegna aðgerða stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafi starfsemi félagsins legið niðri á því tímabili sem ríkisskattstjóri noti til viðmiðunar, þ.e. 1. apríl til 31. október 2020. Tekjufall félagsins frá sama tímabili á árinu 2019 sé 100% og hafi numið alls 16.265.605 kr. Sé þess krafist að við afgreiðslu umsóknar félagsins um tekjufallsstyrk verði miðað við tímabilið 1. apríl til 31. október 2019. Þá eru í kærunni gerðar athugasemdir við afgreiðslu ríkisskattstjóra á umsókn kæranda, en umsókninni hafi verið hafnað með rafpósti á innra samskiptaneti embættisins þann 15. janúar 2021. Félagið hafi þá ekki átt inni umsókn af neinu tagi hjá ríkisskattstjóra. Þann 10. febrúar 2021 hafi stjórnarformaður kæranda sent umsókn um tekjufallsstyrk sem undirrituð hafi verið þann 3. mars 2021. Telur kærandi að ríkisskattstjóri hafi hafnað umsókn kæranda löngu áður en sótt hafi verið um styrk sem teljist brot á lögum um tekjufallsstyrk.

II.

Með bréfi, dags. 25. maí 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Vegna athugasemda í kæru varðandi afgreiðslu umsóknar kæranda um tekjufallsstyrk er bent á í umsögn ríkisskattstjóra að kærandi hafi stofnað umsókn þann 15. janúar 2021. Ætla megi að fram hafi komið athugasemd þess efnis að kærandi hafi ekki haft neinn starfsmann á launaskrá og því ekki forsendur til að ákvarða félaginu tekjufallsstyrk. Þrátt fyrir það hafi kærandi klárað umsóknina með undirritun þann 3. mars 2021. Í kjölfarið hafi umsóknin verið tekin til afgreiðslu eins og hún hafi legið fyrir af hálfu kæranda. Samkvæmt umsókninni reiknist kæranda enginn tekjufallsstyrkur af þeim sökum að rekstrarkostnaður tímabilsins 1. apríl til 31. október 2020 sé tilgreindur 0 kr., þ.m.t. launakostnaður. Sú skráning kæranda sé í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og skil á innskatti samkvæmt virðisaukaskattsskrá sem endurspegli hluta kostnaðar félagsins. Heimilt sé samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 118/2020 að færa sem rekstrarkostnað tímabilsins 1. apríl til 31. október 2020 hluta launakostnaðar sem nemi 7/12 af gjaldfærðu reiknuðu endurgjaldi í skattframtali 2020 (fyrir rekstrarárið 2019) og miða mánaðarleg stöðugildi samkvæmt 1. mgr. 5. gr. við stöðugildi þeirra sem reiknað hafi verið endurgjald fyrir í rekstrinum, hlutfallslega miðað við starfstíma rekstrarins á árinu 2019. Ekki sé heimilt að sækja annan rekstrarkostnað til ársins 2019 við ákvörðun tekjufallsstyrks. Samkvæmt athugun ríkisskattstjóra hafi reiknað endurgjald eigenda kæranda verið 0 kr. bæði árin 2019 og 2020 og hafi því ekki áhrif á styrkhæfan kostnað. Ríkisskattstjóri telji því að kærandi hafi hvorki sýnt fram á að félagið hafi haft styrkhæfan kostnað á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 né að fyrir hendi hafi verið mánaðarleg stöðugildi vegna starfa við reksturinn.

Með bréfi, sem barst yfirskattanefnd 14. júní 2021, hefur kærandi gert athugasemdir í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Í bréfinu er bent á að það sé skilyrði fyrir tekjufallsstyrk að opinberar skuldir séu gerðar upp auk þess sem greiða til ríkissjóðs staðgreiðsluskatta af launum og tryggingagjald í atvinnuleysistryggingasjóð á því tímabili sem starfsemi kæranda hafi legið niðri vegna heimsfaraldurs. Eigi kærandi að sækja um tekjufallsstyrk til að fá opinber gjöld endurgreidd, en launþegar fái sitt að fullu þrátt fyrir ekkert vinnuframlag. Afgreiðsla ríkisskattstjóra leiði til stórfellds tjóns, enda tæmi hún allt lausafé kæranda þar sem engar tekjur komi inn á þeim tíma sem starfsemi kæranda liggi niðri. Kærandi hafi ávallt veitt ríkissjóði þjónustu við innheimtu á virðisaukaskatti og greiðslu tryggingagjalds í atvinnuleysistryggingasjóð vegna launþega. Á árinu 2019 hafi 93 vinnudagar farið í þessa þjónustu við ríkissjóð sem hafi kostað kæranda um 1,5 milljónir króna, auk húsaleigu og virðisaukaskatts. Samtals greiði kærandi um 3,9 milljónir króna í rekstrarkostnað sem annars tilheyri ríkissjóði vegna innheimtu virðisaukaskatts. Kærandi telji að afgreiðsla ríkisskattstjóra í málinu stangist á við markmið laga nr. 118/2020 sem sé að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum. Sé því ítrekuð krafa kæranda um að tekjufallsstyrkur verði ákvarðaður á forsendum rekstrarársins 2019 að fjárhæð 17.315.403 kr.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. apríl 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 118/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra tekjufallsstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í þremur töluliðum í lagagreininni. Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 er skilyrði fyrir greiðslu tekjufallsstyrks að tekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 hafi verið a.m.k. 40% lægri en meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili 2019 og tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.

Um fjárhæð tekjufallsstyrkja er fjallað í 5. gr. laga nr. 118/2020. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna skal fjárhæð tekjufallsstyrks vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020. Tekjufallsstyrkur getur þó aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur tekjufalli rekstraraðila samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laganna. Þá kemur fram að tekjufallsstyrkur fyrir hvern almanaksmánuð á tímabilinu 1. apríl til 31. október geti jafnframt aldrei orðið hærri en a) 400 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi hjá rekstraraðila á tímabilinu og ekki hærri en 2 millj. kr., enda sé tekjufall rekstraraðila samkvæmt 1. tölul. 4. gr. á bilinu 40-70% eða b) 500 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi hjá rekstraraðila á tímabilinu og ekki hærri en 2,5 millj. kr., enda sé tekjufall rekstraraðila samkvæmt 1. tölul. 4. gr. meira en 70%. Samkvæmt orðskýringu í 3. gr. laga nr. 118/2020 er hugtakið stöðugildi skilgreint sem starfshlutfall sem jafngildi fullu starfi launamanns í einn mánuð. Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 118/2020, sbr. 37. gr. laga nr. 133/2020, um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021, kemur fram að í stað þess að telja til rekstrarkostnaðar reiknað endurgjald fyrir tímabilið 1. apríl til 31. október 2020 sé rekstraraðila heimilt að reikna til rekstrarkostnaðar á því tímabili fjárhæð sem nemi 7/12 af gjaldfærðu reiknuðu endurgjaldi í skattframtali 2020 og miða mánaðarleg stöðugildi samkvæmt 1. mgr. við stöðugildi þeirra sem reiknað var endurgjald fyrir í rekstrinum hlutfallslega miðað við starfstíma rekstrarins á árinu 2019.

Kærandi í máli þessu hefur með höndum innflutning og sölu á vörum. Af hálfu kæranda er komið fram að engin starfsemi hafi verið í félaginu á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og samkvæmt umsókn félagsins um tekjufallsstyrk, dags. 15. janúar 2021, sem fylgir kæru til yfirskattanefndar, var hvorki um að ræða rekstrartekjur né -gjöld hjá félaginu á því tímabili. Lýtur krafa kæranda að því að við ákvörðun tekjufallsstyrks félagsins verði miðað við rekstrartekjur ársins 2019, sbr. kæru til yfirskattanefndar, en í umsókn kæranda eru meðaltekjur á sjö mánaða tímabili á árinu 2019 tilgreindar 16.265.605 kr. Vegna þessarar kröfu kæranda skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 118/2020 skal fjárhæð tekjufallsstyrks vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020. Tekur fjárhæð slíkra styrkja þannig mið af rekstrarkostnaði rekstraraðila en ekki tekjufalli hans, þó þannig að tekjufallsstyrkur getur aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur tekjufalli samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020. Verður því að hafna kröfum kæranda þess efnis að félaginu verði ákvarðaður tekjufallsstyrkur að fjárhæð 16.265.605 kr. eða með hærri fjárhæð, sbr. kæru kæranda og bréf félagsins til yfirskattanefndar, dags. 1. júní 2021. Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu kemur fram að samkvæmt athugun embættisins sé ekki um að ræða gjaldfærslu reiknaðs endurgjalds í skattframtali kæranda árið 2020 og af hálfu kæranda hafa engar athugasemdir komið fram af því tilefni. Verður því ekki séð að fyrrgreind heimild í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 118/2020 til að miða við gjaldfært reiknað endurgjald og stöðugildi á árinu 2019 hafi neina þýðingu í tilviki kæranda.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja