Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Skattmat

Úrskurður nr. 160/2021

Gjaldár 2018 og 2019

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 118. gr.   Skattmat fyrir tekjuárin 2017 og 2018.  

Í máli þessu var ágreiningur um ákvörðun bifreiðahlunninda vegna afnota kæranda, sem var fyrirsvarsmaður X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu, af bifreið í eigu X ehf. Ekki var talið að kæranda hefði með framlagningu gagna um akstursskráningu tekist að sýna fram á að allur akstur bifreiðarinnar hefði verið í þágu X ehf. Þótti draga verulega úr þýðingu þeirrar skráningar að hún var án tengingar við einstaka viðskiptavini eða útgefna reikninga og bar enga staðfestingu þriðja aðila. Taldi yfirskattanefnd að byggja yrði á því að kærandi hefði haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma, enda hefði ekkert komið fram um að kærandi hefði verið bundinn sérstökum takmörkunum varðandi afnot bifreiðarinnar og ekki annað ráðið en að hann hefði sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilfellum. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2021, miðvikudaginn 6. október, er tekið fyrir mál nr. 49/2021; kæra A, dags. 19. febrúar 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2018 og 2019. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 19. febrúar 2021, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 26. nóvember 2020, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2018 og 2019. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 3.238.275 kr. í skattframtali árið 2018 og 2.914.447 kr. í skattframtali árið 2019 vegna meintra ótakmarkaðra einkaafnota kæranda af bifreiðinni Z á árunum 2017 og 2018, en bifreið þessi var í eigu einkahlutafélags kæranda, X ehf.

Af hálfu kæranda er þess krafist í kæru til yfirskattanefndar að skattskil hans verði látin standa óhögguð. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Kærandi er eigandi alls hlutafjár í X ehf. og stjórnarmaður félagsins. Einkahlutafélagið var á árunum 2017 og 2018 eigandi bifreiðar af gerðinni BMW X5 með skráningarnúmið Z. Með fyrirspurnarbréfi til X ehf., dags. 3. október 2019, sbr. 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fór ríkisskattstjóri fram á að látnar yrðu í té upplýsingar um notkun á bifreið félagsins á árunum 2017 og 2018. Þyrftu að koma fram upplýsingar um það hverjir hefðu haft bifreiðina til umráða og hver þau umráð hefðu verið. Jafnframt óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum um það hvort félagið hefði lagt bann við einkaafnotum starfsmanna á téðri bifreið. Ef félagið hefði lagt bann við einkaafnotum starfsmanna væri óskað eftir upplýsingum um það hver hefði lagt bannið á og hvernig eftirliti hefði verið háttað.

Í svarbréfi X ehf., dags. 14. október 2019, var bent á að bifreiðin Z hefði verið keypt í lok árs 2016. Notkun bifreiðarinnar hefði verið einskorðuð við rekstur félagins sem starfaði í byggingarstarfsemi og við fasteignasölu. Starfsemi félagsins hefði hins vegar verið takmörkuð og notkun bifreiðarinnar að sama skapi lítil. Gjaldfærður rekstrarkostnaður bifreiðarinnar hefði verið 312.771 kr. rekstrarárið 2017 og 366.148 kr. rekstrarárið 2018, að stærstum hluta tryggingaiðgjöld og bifreiðagjald. Kærandi væri í hlutastarfi hjá félaginu og eini starfsmaður þess. Þá hefði kærandi verið í fullu starfi hjá Y ehf. á árunum 2017, 2018 og 2019 og haft bifreið til takmarkaðra afnota vegna þess starfs og greitt skatt af þeim hlunnindum. Þar sem greind bifreið X ehf. væri eingöngu notuð í rekstri félagsins hefði enginn aðili haft not af bifreiðinni.

Með bréfi til kæranda, dags. 11. nóvember 2019, óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum hans og gögnum vegna notkunar bifreiðarinnar Z á árunum 2017 og 2018, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Ríkisskattstjóri vísaði m.a. til þess að þar sem kærandi væri eini eigandi X ehf. yrði að gera ríkar kröfur til þess að hann leiddi í ljós með gögnum eða sýndi fram á með öðrum afdráttarlausum hætti að hann hefði ekki haft ótakmörkuð umráð yfir bifreið félagsins á umræddum árum. Þá yrði einnig að gera ríkar kröfur til þess að hann leiddi í ljós að bifreiðin hefði einungis verið nýtt í þágu rekstrarins. Væri kæranda samkvæmt þessu gefinn kostur á að koma á framfæri frekari skýringum, studdum viðeigandi gögnum, er sýndu fram á að hann hefði ekki haft ótakmörkuð umráð umræddrar bifreiðar í eigu einkahlutafélags kæranda á nefndum árum.

Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 15. febrúar 2020, kom m.a. fram að bifreið X ehf. hefði eingöngu verið nýtt í þágu rekstrar félagsins. Þessu til stuðnings væri skráning kæranda á notkun bifreiðarinnar í dagbækur árin 2017 og 2018, sbr. meðfylgjandi ljósrit, en upplýsingar úr dagbókum hefðu verið færðar í excel-skjöl sem jafnframt fylgdu svarbréfinu. Kærandi hefði haft umráð yfir annarri bifreið í eigu ótengds félags auk þess sem hann notaði reiðhjól og aðra ferðamáta. Þar sem kærandi væri forráðamaður og eigandi X ehf. væri ekki öðrum til að dreifa varðandi notkun bifreiðar félagsins og ákvarðanatöku í tengslum við hana. Kærandi hefði á umræddum árum ekki haft nein umráð yfir bifreiðinni sem hefði gefið honum leyfi eða tilefni til að nota hana í eigin þágu. Við kaup bifreiðarinnar hefði verið ákveðið að hún skyldi eingöngu vera notuð í þágu rekstrarins en ekki til eigin nota.

Með bréfi, dags. 4. júní 2020, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárin 2018 og 2019, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 3.238.275 kr. í skattframtali árið 2018 og 2.914.447 kr. í skattframtali árið 2019, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, vegna fullra umráða kæranda árin 2017 og 2018 af bifreiðinni Z, auk beitingar 25% álags á vantalinn tekjuskatts- og útvarsstofn kæranda nefnd gjaldár, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

Með bréfi, dags. 11. september 2020, mótmælti umboðsmaður kæranda áformaðri endurákvörðun ríkisskattstjóra. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 26. nóvember 2020, hratt ríkisskattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt því færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna sem skattskyld bifreiðahlunnindi 3.238.275 kr. í skattframtali árið 2018 og 2.914.447 kr. í skattframtali árið 2019. Ríkisskattstjóri bætti 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda.

III.

Í úrskurði sínum um endurákvörðun, dags. 26. nóvember 2020, sbr. einnig boðunarbréf frá 4. júní 2020, gerði ríkisskattstjóri grein fyrir málavöxtum, tildrögum málsins og bréfaskiptum í því. Þá rakti hann lagagrundvöll skattlagningarinnar, þar á meðal reglur um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2017 og 2018, sbr. auglýsingar nr. 1260/2016 og 1162/2017 í B-deild Stjórnartíðinda. Á árunum 2017 og 2018 hefði kærandi verið eini starfsmaður X ehf. og hefði reiknað endurgjald hans numið 450.000 kr. á árinu 2017 og 230.000 kr. á árinu 2018. Með vísan til lágra launa kæranda hjá félaginu og þess að kærandi hefði verið í fullu starfi hjá öðrum vinnuveitanda yrði þannig ekki annað ráðið en að vinnuframlag hans hjá félaginu hefði verið takmarkað og starfshlutfall hans lágt. Með hliðsjón af þessu þætti vandséð að fjöldi ekinna kílómetra bifreiðarinnar umrædd ár, sem verið hefði 11.739 km fyrra árið og 10.753 km síðara árið, bæri með sér að akstur hefði eingöngu verið í þágu félagsins. Hvað sem þessu liði yrði ekki horft framhjá því að raunverulegur akstur eða notkun í eigin þágu væri ekki hið eiginlega inntak þeirra hlunninda, sem um væri að ræða, heldur hin ótakmörkuðu endurgjaldslausu umráð. Í tilvitnuðum skattmatsreglum kæmi fram að eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum sem og stjórnarmenn félaga teldust ætíð hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeim væru látnar í té og þeir hefðu til einkanota. Kvaðst ríkisskattstjóri telja að þessi regla ætti við í tilviki kæranda og benti á að kærandi væri eigandi að öllu hlutafé félagsins, auk þess að vera fyrirsvarsmaður félagsins. Með tilliti til þessarar aðstöðu þætti ekki hafa verið sýnt fram á það að kærandi hefði ekki haft möguleika á að nýta bifreiðina til eigin nota. Þættu framlögð gögn um ekna kílómetra í þágu félagsins því ekki hafa þýðingu í þessu tilliti, enda þóttu þau einnig stangast á við fyrri yfirlýsingar kæranda og umboðsmanns um takmarkaða starfsemi félagsins. Yrði því ekki annað séð en að kærandi hefði haft bifreið félagsins til ótakmarkaðra umráða á árunum 2017 og 2018.

Vegna framkominna andmæla kæranda áréttaði ríkisskattstjóri í úrskurði sínum að sú staðreynd að kærandi hefði haft afnot af annarri bifreið á árunum 2017 og 2018 þætti ekki girða fyrir að kærandi hefði haft þau ótakmörkuðu umráð yfir greindri bifreið, sér í lagi þar sem afnot kæranda á bifreið í eigu annars vinnuveitanda hefðu verið takmörkuð. Hvað snerti framlagðar akstursdagbækur tók ríkisskattstjóri fram að honum bæri að meta vægi gagna með hliðsjón af heildarmati allra þátta málsins. Þætti mega líta til þess að störf kæranda fyrir X ehf. hlytu að hafa verið takmörkuð, enda bæri reiknað endurgjald kæranda þess merki. Yrði ekki fallist á það með kæranda að með akstursdagbókum hefði hann sýnt fram á það að hann hefði ekki haft ótakmörkuð umráð yfir bifreið félagsins, enda þættu þessi gögn stangast á við aðrar upplýsingar í málinu. Skráningar í bækurnar væru einnig án nokkurra tenginga við einstaka viðskiptavini, útgefna reikninga eða staðfestingar þriðja aðila. Eina starfsemi félagsins á árinu 2017 hefði falist í sölu fasteignar, auk tekna af þjónustu fasteignasala að fjárhæð 144.935 kr. Yrði með engu móti séð hvaða starfsemi á árinu 2017 hefði kallað á þá bifreiðanotkun sem lýst hefði verið af hálfu kæranda. Sama ætti við um árið 2018. Þá hefðu tekjur af þjónustu fasteignasala numið 786.723 kr., tekjurnar stafað frá einum aðila og öll veltan verið á einu virðisaukaskattstímabili. Yrði með engu móti séð hvaða umsvif vegna sölu þjónustu til eins aðila á árinu 2018 hefði kallað á þann akstur sem um ræddi.

Til stuðnings álagsbeitingu tók ríkisskattstjóri fram að það að vantelja til tekna hlunnindi samkvæmt skattmati væri slíkur annmarki á framtalsgerð að ekki þættu efni til annars en að beita álagi.

IV.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 19. febrúar 2021. Í kærunni eru málavextir raktir, þ.m.t. samskipti umboðsmanns kæranda við ríkisskattstjóra. Kærandi sé forráðamaður og eigandi X ehf., svo og eini starfsmaður félagsins, og því sé ekki öðrum til að dreifa varðandi notkun bifreiðarinnar Z og ákvarðanatöku í tengslum við hana.

Það hafi verið meðvituð ákvörðun kæranda frá því bifreiðin var keypt að hún skyldi eingöngu notuð í þágu rekstrarins en ekki til eigin nota. Kærandi hefði haft aðgang að bifreið í eigu Y hf., sem hann hefði greitt skatt af, auk þess sem hann notaði hjól og annan ferðamáta. Meginröksemd ríkisskattstjóra í málinu séu þau að þar sem kærandi sé eini starfsmaður félagsins og eini eigandi þess á umræddum árum hafi hann haft algert sjálfdæmi um afnot bifreiðarinnar án þess að nokkru eftirliti yrði komið við af hálfu þriðja aðila. Að mati kæranda fái þessi rök ekki staðist gegn þeirri fullyrðingu kæranda að ekki hafi verið um nein eigin not bifreiðarinnar að ræða, auk þess sem frjáls umráð bifreiðarinnar hafi verið óheimil. Skýringar kæranda styðjist við gögn og dagbækur sem sýni akstur bifreiðarinnar í þágu rekstrarins umrædd ár. Telji ríkisskattstjóri að málum sé öðruvísi háttað þurfi að rökstyðja það álit, en það hafi ekki verið gert.

Ríkisskattstjóri haldi því einnig fram að lág laun kæranda á umræddum árum bendi til þess að störf hans fyrir félagið hefðu verið takmörkuð og starfshlutfall lágt og því hlyti hluti akstursins að hafa verið í einkaþágu. Á það skuli bent að störf fasteignasala almennt, og það eigi kannski sérstaklega við um kæranda, krefðust mikils aksturs. Nauðsynlegt sé að sýna væntanlegum kaupendum fasteignir sem séu til sölu, oft á tíðum fasteignir sem séu staðsettar í nokkurra tuga kílómetra fjarlægð frá starfsstöð. Akstur umræddrar bifreiðar á þessum tveimur árum hafi einungis numið 22.492 km. Tekjur félagsins af fasteignasölu á þessum árum séu ekki miklar og hafi þótt ljóst að reksturinn bæri ekki hærri laun og ekki verið talin ástæða til að mynda tap með óhóflegum launum sem ekki væru í samræmi við tekjur félagsins. Sé það skoðun ríkisskattstjóra að laun kæranda séu lág í samanburði við vinnuframlag og aðrar breytur í rekstri félagsins sé það sjálfstætt mál og þessu máli í raun óviðkomandi.

V.

Með bréfi, dags. 29. mars 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögn sinni tekur ríkisskattstjóri fram að embættið hafi lagt mat á vægi framlagðra akstursbóka með hliðsjón af heildarmati á fyrirliggjandi gögnum. Meðal annars hafi verið litið til skattskila kæranda og til þess að hann hafi verið í fullu starfi hjá ótengdu félagi á árunum 2017 og 2018. Einnig hafi verið litið til þess að störf kæranda fyrir X ehf. hljóti að hafa verið takmörkuð, enda þótti reiknað endurgjald hans bera þess merki sem og yfirlýsing hans á fyrri stigum málsins um lítil umsvif félagsins. Við mat á vægi framlagðra akstursbóka hafi einnig verið litið til þess að skráningar í bækurnar hafi verið án nokkurra tenginga við einstaka viðskiptavini, útgefna reikninga eða staðfestingar þriðja aðila. Þá hafi einnig verið litið til þess að eina starfsemi félagsins á árinu 2017 hafi falist í sölu fasteignar, auk tekna af þjónustu fasteignasala að fjárhæð 144.935 kr. Um hafi verið að ræða sölu á fasteign sem hafi verið í byggingu á vegum félagsins. Fasteignin hafi verið seld kæranda þannig að ekki hafi verið um að ræða sölu til ótengds aðila. Út frá þessu sé með engu móti unnt að sjá hvaða starfsemi á árinu 2017 hafi kallað á þá bifreiðanotkun sem lýst hafi verið í málatilbúnaði kæranda. Sama eigi við um árið 2018. Þá hafi tekjur af þjónustu fasteignasala numið 786.723 kr. Hafi þær stafað frá einum aðila og hafi öll veltan verið á einu virðisaukaskattstímabili á árinu 2018.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. apríl 2021, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Kæran í máli þessu varðar skattlagningu bifreiðahlunninda kæranda gjaldárin 2018 og 2019 vegna ætlaðra einkanota hans af bifreiðinni Z, sem er af gerðinni BMW X5, á árunum 2017 og 2018, en bifreið þessi var í eigu félags kæranda, X ehf. Fram er komið að kærandi er eigandi að öllu hlutafé félagsins. Þá liggur fyrir að kærandi er framkvæmdastjóri félagsins og eini stjórnarmaður þess. Kærandi tilfærði engin skattskyld bifreiðahlunnindi í skattframtölum sínum árin 2018 og 2019, enda var og er viðhorf kæranda að engum einkaafnotum hans af bifreið þessari hafi verið fyrir að fara. Með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 26. nóvember 2020, færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna sem skattskyld bifreiðahlunnindi 3.238.275 kr. í skattframtali árið 2018 og 2.914.447 kr. í skattframtali árið 2019. Byggði ríkisskattstjóri á því að kærandi hefði haft full og ótakmörkuð umráð yfir umræddri bifreið á árunum 2017 og 2018, sbr. reglur ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2017 og 2018, en í því sambandi vísaði ríkisskattstjóri til auglýsinga nr. 1260/2016 og 1162/2017 í B-deild Stjórnartíðinda. Af hálfu kæranda er þess krafist að hin tekjufærðu bifreiðahlunnindi verði með öllu felld niður, enda hafi umrædd bifreið eingöngu verið notuð í þágu rekstrar X ehf. og ekki staðið kæranda til einkanota.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi eða hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 21. gr. laga nr. 128/2009, skal ríkisskattstjóri, að fenginni staðfestingu ráðherra, gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Um útgáfu ríkisskattstjóra á matsreglum samkvæmt áðurgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 75/1981 er fjallað m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 664/1997 og vísast í þann úrskurð um almenn atriði um ákvörðun bifreiðahlunninda. Kveðið er á um mat bifreiðahlunninda í lið 2.3 í reglum ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2017 og 2018, sbr. reglur nr. 1260/2016 og 1162/2017, sem birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda.

Með fyrirspurnarbréfum til X ehf., dags. 3. október 2019, og til kæranda sjálfs, dags. 11. nóvember 2019, fór ríkisskattstjóri m.a. fram á að gerð yrði grein fyrir afnotum kæranda af umræddri bifreið X ehf., hvort félagið hefði með formlegum hætti lagt bann við einkaafnotum starfsmanna á bifreið félagsins og þá með hvaða hætti og hvernig eftirliti með slíku banni væri hagað væri það til staðar. Í svarbréfi X ehf., dags. 14. október 2019, og í svarbréfi kæranda, dags. 15. febrúar 2020, var vísað til þess að bifreiðin hefði eingöngu verið notuð í þágu reksturs X ehf. og einkanot hafi engin verið af bifreiðinni. Jafnframt hefur komið fram af hálfu kæranda að hann hafi haft takmörkuð afnot af bifreið í eigu launagreiðanda hans, Y hf., auk þess sem hann noti hjól og aðra ferðamáta. Í svarbréfunum var ekki vikið sérstaklega að því með hvaða hætti eftirliti með notkun bifreiðarinnar hefði verið hagað. Í andmælabréfi umboðsmanns kæranda, dags. 11. september 2020, var tekið fram að ríkisskattstjóra væri frjálst að taka að sér slíkt eftirlit. Meðfylgjandi svarbréfi kæranda, dags. 15. febrúar 2020, voru ljósrit úr dagbók kæranda árin 2017 og 2018 þar sem m.a. eru færðar upplýsingar um akstur vegna X ehf. Staðhæfir kærandi að hér ræði um akstur bifreiðarinnar Z. Þá fylgdi einnig með bréfinu skjal úr töflureikniforriti, unnin úr dagbókum kæranda þar sem fram komu dagsetningar og lengd aksturs. Samkvæmt þessum gögnum og skýringum kæranda var bifreiðinni ekið 11.739 km á árinu 2017 og 10.753 km á árinu 2018. Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar eru fyrrgreind sjónarmið áréttuð og vísað til nefndra gagna því til stuðnings að umrædd bifreið hafi eingöngu verið notuð í þágu rekstur félagsins.

Eins og fram er komið er kærandi einn eigandi og eini stjórnarmaður X ehf. Að því athuguðu og þar sem engar haldbærar upplýsingar hafa komið fram um annað verður að byggja á því að bifreiðin hafi verið í umsjá kæranda sjálfs á þeim árum sem málið tekur til. Við slíkar aðstæður þykir verða að gera nokkuð ríkar kröfur til þess að kærandi leiði í ljós með gögnum, t.d. varðandi nýtingu bifreiðar í þágu rekstrar, eða sýni skýrlega fram á með öðrum hætti að hann hafi ekki þau umráð yfir bifreið launagreiðanda að þau verði metin honum til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full umráð. Tekið skal fram að miðað við aðstæður í málinu veltur úrlausn þess á því hvort eigin notum kæranda af umræddri bifreið hafi verið fyrir að fara, enda ber að ákvarða bifreiðahlunnindi miðað við ótakmörkuð afnot, þ.e. full umráð, verði niðurstaðan sú, sbr. fyrrgreindar skattmatsreglur.

Til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni að bifreiðin Z hafi alfarið verið notuð í þágu rekstrar X ehf. hefur kærandi vísað til skráningar í dagbækur þar sem færður hafi verið akstur í þágu félagsins, en auk ekinna kílómetra er í bókum þessum og í yfirliti sem kærandi hefur fært á grundvelli þeirra tiltekið í mörgum tilvikum – en þó alls ekki öllum – hvert var ekið og tilefni aksturs, en þegar slíkar skýringar koma fram eru þær þó jafnan með almennum hætti, svo sem „Vinna vegna B“, „Opin hús ofl“ og „Fasteignasala“. Taka verður undir það með ríkisskattstjóra að það dregur verulega úr þýðingu þessarar akstursskráningar kæranda að hún er án tengingar við einstaka viðskiptavini eða útgefna reikninga og ber enga staðfestingu þriðja aðila. Verður ekki talið að kæranda hafi tekist með þessum gögnum að sýna fram á að allur akstur bifreiðarinnar hafi verið í þágu einkahlutafélagsins. Í þessu sambandi verður ekki hjá því komist að horfa til þess sem ríkisskattstjóri hefur dregið fram um takmörkuð umsvif í rekstri X ehf. á árunum 2017 og 2018.

Hvað sem líður skýringum kæranda á notkun bifreiðarinnar Z í þágu X ehf. verður samkvæmt framansögðu byggt á því að kærandi hafi haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma, enda hefur ekkert komið fram um að kærandi hafi verið bundinn sérstökum takmörkunum varðandi afnot af bifreiðinni utan vinnutíma og ekki verður annað ráðið en að í raun hafi kærandi sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilfellum. Að því leyti sem kærandi byggir á því að notkun bifreiðarinnar skipti máli en ekki umráðin sem slík skal vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 10. febrúar 2000 í málinu nr. 356/1999, sbr. ennfremur dóm réttarins frá 24. september 2015 í málinu nr. 49/2015, en í hinum fyrrnefnda dómi er m.a. tekið fram að með skattlagningu bifreiðahlunninda launamanns, sem talinn er njóta ótakmarkaðra afnota af bifreið, sé verið að skattleggja umráðin sem slík og skipti ekki máli í því sambandi hversu mikið launþeginn nýtir sér umráðaréttinn. Þá er sérstaklega tekið fram í lið 2.3 í fyrrgreindum skattmatsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárin 2017 og 2018 að meta skuli full og ótakmörkuð umráð starfsmanns af bifreið launagreiðanda til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni. Við úrlausn málsins getur ekki haft þýðingu sú skýring kæranda að hann hafi á árunum 2017 til 2018 haft afnot annarrar bifreiðar í tengslum við starf hjá öðrum launagreiðanda.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaðan sú, að virtum aðstæðum og atvikum að öðru leyti, að miðað verður við að kærandi hafi haft umráð bifreiðarinnar Z utan vinnutíma á árunum 2017 og 2018. Í samræmi við þetta ber að ákvarða skattskyld bifreiðahlunnindi kæranda gjaldárin 2018 og 2019 vegna afnota af bifreiðinni Z í eigu félags kæranda, X ehf., eftir reglum um full og ótakmörkuð umráð í skilningi framangreindra skattmatsreglna. Með vísan til þess og þar sem enginn ágreiningur er um fjárhæð bifreiðahlunninda, sem leiðir af framangreindum reglum, er kröfu kæranda um niðurfellingu á hinum tekjufærðu bifreiðahlunnindum hafnað.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja