Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald
  • Eignayfirfærsla vegna hjónaskilnaðar

Úrskurður nr. 162/2021

Lög nr. 138/2013, 4. gr. 2. mgr., 6. gr. b-liður.  

Í máli þessu var deilt um það hvort eignaskiptayfirlýsing vegna fasteignar, sem gefin var út í tengslum við skilnað, væri undanþegin stimpilgjaldi. Yfirskattanefnd taldi að skýra yrði lög um stimpilgjald svo að skjöl varðandi yfirfærslu fasteigna vegna hjúskaparslita væru undanþegin stimpilgjaldi í þeim tilvikum er yfirfærsla fæli að öllu leyti í sér úthlutun upp í eignarhlut (búshelming) annars hjóna, þ.e. hlutdeild þess í samanlögðum eignum er kæmu til skipta. Fæli yfirfærsla fasteignar hins vegar í sér úthlutun til annars hjóna umfram eignarhluta þess þannig að greiðsla kæmi fyrir að réttri tiltölu yrði að telja að skjal væri gjaldskylt í réttu hlutfalli við þá fjárhæð sem fram yfir væri, enda væri þá auk útlagningar upp í eignarhluta um að ræða samhliða sölu eða söluafsal til annars hjóna. Var talið að greiðsla kæranda til fyrrum maka hans samkvæmt fjárskiptasamningi væri til komin vegna útlagningar fasteignarinnar til kæranda umfram eignarhlut hans. Allt að einu var sýslumaður talinn hafa ofákvarðað gjaldstofn stimpilgjalds vegna fasteignarinnar og var fallist á lækkun gjaldstofnsins, svo sem nánar greindi.

Ár 2021, miðvikudaginn 6. október, er tekið fyrir mál nr. 83/2021; kæra A, dags. 31. mars 2021, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 31. mars 2021, varðar ákvörðun stimpilgjalds. Kemur fram í kærunni að ágreiningur sé um ákvörðun sýslumanns á stimpilgjaldi í tengslum við yfirfærslu eignarréttar vegna fasteignar að F í kjölfar skilnaðar kæranda og fyrrum maka hans. Af hálfu kæranda er þess krafist að honum verði endurgreitt stimpilgjald vegna þinglýsingar skiptayfirlýsingar vegna fasteignar þessarar. Til vara er gerð sú krafa að stimpilgjald verði lækkað.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi og maki hans, B, fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng haustið 2019. Í tengslum við skilnaðinn gerðu þau samning um fjárskipti á sama ári. Kom fram í fjárskiptasamningnum að eignir búsins væru eftirtaldar sem kæmu í hlut kæranda: Eignarhlutur í X hf., bifreið, krafa á Y ehf., krafa á hendur D, götuhjól og fjallahjól. Þá komu eftirtaldar eignir í hlut B: Sumarhús að N, bifreið og tvær þar tilgreindar sæþotur. Jafnframt var tiltekið að fasteignin að F yrði seld og kæmi andvirði eignarinnar, að frádregnum kostnaði og uppgreiðslu á áhvílandi veðskuld, til greiðslu þannig að fyrstu 23.984.410 krónurnar rynnu til kæranda en eftirstöðvar kaupverðsins skiptist að jöfnu milli B og kæranda. Samkomulag væri um skiptingu innbús.

Með samkomulagi vorið 2020 voru gerðar breytingar á fyrrnefndum samningi aðila um fjárskipti. Voru meðal annars gerðar þær breytingar að fasteignin að F kæmi í hlut kæranda við skiptin. Að teknu tillit til fyrrgreinds mismunar að fjárhæð 23.984.410 kr., uppgjöri á skuld við banka og yfirtöku B á innstæðum á bankareikningum greiddi kærandi 31.035.622 kr. til B til jöfnunar. Í kjölfarið undirrituðu aðilar skiptayfirlýsingu þar sem því var lýst yfir að 50% hlutur B í fasteigninni F kæmi í hlut kæranda og yrði hann því 100% eigandi fasteignarinnar. Var óskað eftir því að yfirlýsingunni yrði þinglýst sem eignarheimild kæranda að fasteigninni F. Samkvæmt því sem fram kom í málinu mun sýslumaður hafa lagt stimpilgjald á kæranda við þinglýsingu skiptayfirlýsingarinnar. Í kjölfarið upphófust tölvupóstsamskipti kæranda og sýslumanns. Með tölvupósti 10. júní 2020 fór kærandi fram á við sýslumann að stimpilgjaldið yrði fellt niður. Byggði kærandi meðal annars á því að um væri að ræða skiptayfirlýsingu við skilnað og vísaði til b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, og forsögu þess ákvæðis. Sýslumaður staðfesti móttöku erindis kæranda með tölvupósti 2. júlí 2020. Af tölvupóstsamskiptum sem liggja fyrir í málinu verður ráðið að sýslumaður tók ekki efnislega afstöðu til erindis kæranda fyrr en með svarpósti 8. janúar 2021. Er það sú ákvörðun sem kærð er. Í ákvörðun sýslumanns var rakið að málið hefði verið tekið til skoðunar með hliðsjón af nýjum málsögnum. Vísaði sýslumaður til þess að með vísan til viðbótarsamnings B og kæranda hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að innheimta stimpilgjald miðað við greiðslu kæranda til B vegna fasteignarinnar F. Samkvæmt samningum bæri að líta svo á að 31.035.622 kr., sem kærandi hefði greitt B, væru fjármunir sem væru umfram búshluta hjóna við skilnað, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 234/2016. Vegna þessa hefðu 240.515 kr. verið endurgreiddar inn á reikning kæranda. Í niðurlagi póstsins leiðbeindi sýslumaður um kæruheimild til yfirskattanefndar, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 31. mars 2021, er gerð grein fyrir málsatvikum og tölvupóstsamskipti við sýslumann vegna málsins rakin. Í upphafi rekur kærandi að samkvæmt 1. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skuli greiða í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld séu samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 3. gr. laganna komi fram að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varði eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi, en stimpilgjald ákvarðist af fasteignamati eins og það sé skráð í fasteignaskrá þegar gjaldskylda stofnast. Kemur síðan fram að í 6. gr. laganna séu talin skjöl sem undanþegin séu stimpilgjaldi. Samkvæmt b-lið lagagreinarinnar falli þar undir skjöl er sýni yfirfærslu fasteigna er lagðar hafi verið út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming, enda sé ekki samhliða sölu eða söluafsal að ræða. Rekur kærandi að ákvæði b-liðar 6. gr. laganna hafi verið skýrt þannig að skjöl varðandi yfirfærslu fasteigna vegna hjúskaparslita séu undanþegin stimpilgjaldi í þeim tilvikum er yfirfærslan feli að öllu leyti í sér úthlutun upp í eignarhlut (búshelming) annars hjóna, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 234/2016. Í sama úrskurði komi fram að um samhliða sölu eða söluafsal til annars hjóna væri að ræða ef yfirfærsla fasteignar fæli í sér úthlutun til annars hjóna umfram eignarhluta þess þannig að greiðsla kæmi fyrir að réttri tiltölu.

Í kærunni vísar kærandi til þess að óumdeilt sé að fasteignin við F hafi komið í hlut kæranda vegna fjárskipta við skilnað hjóna. Þá liggi fyrir að í hlut B komi fasteign að N. Ekki hafi verið krafist stimpilgjalds við þinglýsingu skiptayfirlýsingar vegna þeirrar eignar. Af hálfu kæranda hafi ítrekað verið bent á að ekki beri að greiða stimpilgjald af skjölum er sýni yfirfærslu fasteigna sem lagðar séu út til maka upp í búshelming. Ekki sé unnt að líta svo á að um samhliða sölu hafi verið að ræða þegar kærandi hafi tekið við fasteigninni við F ásamt áhvílandi skuldum. Kærandi bendir á að meðfylgjandi kærunni sé verðmat löggilts endurskoðanda á hlutabréfum og kröfum sem hafi komið í hlut kæranda. Af verðmatinu megi ráða að aðrar verðmætar eignir hafi verið til skipta en fasteignir. Virði hlutabréfa í X hf. og peningakrafna hafi verið metið 36.752.210 kr. við skiptin. Byggir kærandi á því að á þessu leyti skilji þetta mál sig frá því máli sem hafi verið til umfjöllunar í úrskurði yfirskattanefndar nr. 234/2016.

Kærandi bendir á að B hafi fengið í sinn búshluta fasteign að N og án yfirtöku skulda. Í hlut kæranda hafi komið fasteignin við F og áhvílandi skuldir. Verðmæti fasteigna með tilliti til áhvílandi skulda á F hafi mæst að verulegu leyti. Þá hafi fengið hvort um sig sína bifreiðina. Eftir hafi því staðið hlutabréf, peningakröfur og innlán til skipta. Í ljósi meginreglunnar um helmingaskipti hafi kæranda verið nauðsynlegt að leysa til sín hlutabréf og peningakröfur. Til að jafna hlut B hafi kærandi greitt henni 31.035.622 kr. Kærandi hafi tekið lán að fjárhæð 40.000.000 kr. í þeim tilgangi. Ályktun sýslumanns um að kærandi hafi fengið hlut í fasteign við F umfram búshluta standist ekki nánari skoðun. Ljóst sé að kærandi hafi verið að leysa til sín eignarhlut í félagi og peningakröfur. Það sé því deginum ljósara að ekki hafi verið um að ræða sölu á eignarhluta B í fasteign heldur samkomulag um búskipti vegna skilnaðar. Rétt eins og B hafi ekki greitt stimpilgjald vegna sumarbústaðar þá beri kæranda ekki að greiða stimpilgjald vegna fasteignarinnar við F. Lántaka kæranda geti engu máli skipt í þessu sambandi, enda hafi hún verið nauðsynlegur þáttur í því að fjárskiptin gætu gengið eftir með jöfnum búshlutum, við aðstæður þar sem ekki hafi verið markaður til sölu á stærstu eign búsins. Verðmætin sem hafi komið í hlut hvors þeirra um sig við skiptin hafi verið þau sömu og áður. Efnisleg niðurstaða hafi verið sú nákvæmlega sama og lagt hafi verið upp með við fjárskiptin. Kærandi vísar til þess að það eigi ekki að breyta neinu með tillit til stimpilgjalds hvort kærandi og B hefðu ákveðið í upphafi að kærandi fengi eignina eða hvort það hefði verið ákveðið síðar, enda hefði eignin ekki skipt um hendur, þau hafi ekki verið skilin lögskilnaði og hafi setið uppi með eignina. Skiptayfirlýsingin sé rétt lýsing á atvikum og ljóst sé að hún sé óumdeilanlega til komin vegna tilgreindra fjárskipta við skilnað.

Í niðurlagi kæru kæranda er því haldið fram að skiptayfirlýsing vegna fasteignar að F hafi eingöngu falið í sér yfirfærslu eignar upp í búshelming kæranda. Ákvörðun sýslumanns um að greiða skuli stimpilgjald af skjalinu sé ólögmæt og að fella beri gjaldið niður. Til vara sé þess krafist að gjaldið verði lækkað með hliðsjón af virði lausafjár við búskiptin.

IV.

Með bréfi, dags. 7. maí 2021, hefur sýslumaður lagt fram umsögn vegna kærunnar. Í umsögninni er rakið að samkvæmt viðbótarsamningi aðila hafi sýslumaður litið svo á að greiðsla að fjárhæð 31.035.622 kr. frá kæranda til B hafi verið fjármunir umfram búshluta við skilnað og þ.a.l. eigi undanþága b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, ekki við. Tekur sýslumaður fram að við mat á þessum atriðum hafi meðal annars verið litið til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 234/2016. Bendir sýslumaður á að í greindum úrskurði hafi meðal annars verið bent á að lög um stimpilgjald séu skýrð svo að skjöl varðandi yfirfærslu fasteigna vegna hjúskaparslita séu undanþegin stimpilgjaldi í þeim tilvikum sem yfirfærslan feli að öllu leyti í sér úthlutun upp í eignarhlut annars hjóna, þ.e. hlutdeild þess í samanlögðum eignum sem komi til skipta. Feli yfirfærslan hins vegar í sér úthlutun til annars hjóna umfram eignarhluta þess þannig að greiðsla komi sérstaklega fyrir að réttri tiltölu, verði að telja að skjal sé þannig gjaldskylt í réttu hlutfalli við þá fjárhæð sem sé framyfir, enda sé þá auk útlagningar upp í þann eignarhluta um að ræða samhliða sölu eða söluafsal til annars hjóna. Telur sýslumaður að í fyrirliggjandi máli eigi hið síðarnefnda við, enda ljóst að greiðsla kæranda til fyrrum maka samkvæmt þar til gerðum samningi, sé komi til vegna útlagningar fasteignarinnar F, umfram eignarhluta makans.

Með bréfi umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 8. júní 2021, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn sýslumanns. Er vísað til þess að í kæru sé ítarlega rökstutt að kærandi og fyrrum eiginkona hans hafi fengið bæði fasteignir sem hafi mæst að verulegu leyti. Kærandi hafi átt verðbréf sem honum hafi verið nauðsynlegt að leysa til sín. Eðlilegra sé að miða við að hann hafi greitt fyrir þá fjármuni í stað þess að ganga út frá að greiðsla hans að fjárhæð 31.035.622 kr. hafi alfarið verið vegna fasteignar. Það sé jafnframt í samræmi við úrskurð yfirskattanefndar nr. 234/2016. Í umsögninni eru meðal annars raktar forsendur yfirskattanefndar í greindum úrskurði og þær bornar saman við mál kæranda. Telur kærandi ljóst að hann hafi ekki fengið fjármuni sem hafi verið umfram búshluta hans, enda ljóst að við skiptin hafi alfarið verið farið eftir helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993. Eignir búsins hafi ekki aukist við lántöku sem hafi verið óhjákvæmileg til að unnt væri að skipta stærstu eign búsins og tryggja skipti í samræmi við helmingaskiptareglu.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun stimpilgjalds af skiptayfirlýsingu vegna fasteignar að F. Í skjali þessu er því lýst yfir að með fjárskiptasamningi vegna skilnaðar kæranda og B hafi 50% hlutur B í fasteigninni komið í hlut kæranda og hann því orðið eigandi 100% fasteignarinnar. Er nánar tiltekið deilt um það í málinu hvort umrætt skjal sé undanþegið stimpilgjaldi á grundvelli b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, svo sem kærandi heldur fram. Því hafnaði sýslumaður með þeim rökum að líta yrði svo á að greiðsla kæranda til B að fjárhæð 31.035.622 kr. samkvæmt greindum fjárskiptasamningi væri til komin vegna útlagningar fasteignarinnar að F og því fjármunir umfram búshluta við skilnaðinn. Þar af leiðandi ætti undanþáguákvæði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 ekki við um greiðsluna og bæri að ákvarða gjaldstofn stimpilgjalds 31.035.622 kr. Af hálfu kæranda er því mótmælt að í samningi hans og B hafi falist sala á eign heldur hafi aðeins verið um skiptingu eigna í tengslum við skilnað að ræða. Sé skjalið því undanþegið stimpilgjaldi, sbr. b-lið 6. gr. laga nr. 138/2013.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal greiða í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu fasteigna hér á landi. Fer gjaldskylda skjals eftir þeim réttindum er það veitir en ekki nafni þess eða formi, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 138/2013, sbr. 1. gr. laga nr. 75/2014, ákvarðast stimpilgjald af gjaldskyldu skjali sem kveður á um eignaryfirfærslu fasteignar eftir matsverði eins og það er skráð í fasteignaskrá þegar gjaldskylda stofnast, enda endurspegli matsverðið byggingarstig eignar við afhendingu. Í 6. gr. laga nr. 138/2013 eru talin skjöl sem undanþegin eru stimpilgjaldi. Samkvæmt b-lið lagagreinarinnar falla þar undir skjöl er sýna yfirfærslu fasteigna er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming, enda sé ekki samhliða um sölu eða söluafsal að ræða.

Athugun á forsögu umrædds undanþáguákvæðis b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 leiðir í ljós að hliðstætt ákvæði var upphaflega tekið upp í lög um stimpilgjald með 1. gr. laga nr. 35/1933, um breyting á lögum nr. 75/1921, um stimpilgjald. Samkvæmt ákvæði þessu, sbr. lokamálslið 17. gr. laga nr. 75/1921, voru undanskildir stimpilgjaldi „útdrættir úr skiptabók og önnur skjöl, er sýna eignayfirfærslu fasteigna, er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur, eða maka upp í búshelming hans (lóðseðlar), enda sé eigi samhliða um sölu eða söluafsal að ræða“, eins og ákvæðið hljóðaði. Í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 35/1933, kom eftirfarandi fram um ástæður að baki lögtöku ákvæðisins:

„Ein aðalorsök þess, að afsals- og veðmálabækur eru eigi nú svo örugg heimild fyrir eignarrétti að fasteignum sem vera þyrfti, er sú, að þeir menn, er fá fasteignir að erfð, láta dragast, kostnaðarins vegna, að láta þinglesa eignarheimild sína (lóðseðil). Er það greiðsla stimpilgjaldsins, sem menn sérstaklega fráfælast, enda virðist það eigi sanngjarnt að taka bæði erfðafjárgjald og stimpilgjald af fasteignum, útlögðum við skipti, en aðeins erfðafjárgjald af lausafé. Kemur þetta sérstaklega hart niður og er erfitt í framkvæmd, þegar fasteign er útlögð maka, sumpart sem arfur, sumpart upp í búshelming hans. Mun þetta hafa leitt til mismunandi skilnings og framkvæmda á lögunum, og er sú ástæða ein næg til þess, að leitað sé heppilegri og sanngjarnari ákvæða. Er því hér lagt til, að stimpilgjaldið sé fellt alveg niður að því er lóðseðla snertir. Tekjutap ríkissjóðs vegna þessa getur eigi orðið svo tilfinnanlegt, að í það sé horfandi.“ (Þskj. nr. 161).

Í nefndaráliti fjárhagsnefndar Alþingis um frumvarpið, sbr. þskj. nr. 269, kom fram að nefndin féllist á efni frumvarpsins og rökstuðning. Var tekið fram að einkum væri ósamræmi í því, að gift kona, sem ætti óskilinn fjárhag með manni sínum, skyldi þurfa að greiða stimpilgjald til þess að fá þinglesna eignarheimild á sínum búshluta, vegna þess að maður hennar hefði einn verið talinn eigandi eignarinnar í veðmálabók.

Samkvæmt framansögðu verður að skýra ákvæði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013 í samræmi við orðalag þess og framangreind lögskýringargögn svo að skjöl varðandi yfirfærslu fasteigna vegna hjúskaparslita séu undanþegin stimpilgjaldi í þeim tilvikum er yfirfærslan felur að öllu leyti í sér úthlutun upp í eignarhlut (búshelming) annars hjóna, þ.e. hlutdeild þess í samanlögðum eignum sem koma til skipta, sbr. til hliðsjónar ákvæði XIV. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993. Feli yfirfærsla fasteignar hins vegar í sér úthlutun til annars hjóna umfram eignarhluta þess þannig að greiðsla komi fyrir að réttri tiltölu, sbr. 109. gr. laga nr. 31/1993, verður að telja að skjalið sé gjaldskylt í réttu hlutfalli við þá fjárhæð sem fram yfir er, enda er þá auk útlagningar upp í eignarhluta (búshelming) um að ræða samhliða sölu eða söluafsal til annars hjóna, sbr. niðurlagsákvæði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013. Verður og að leggja til grundvallar í málinu að stjórnsýsluframkvæmd við ákvörðun stimpilgjalds hafi verið hagað til samræmis við þessa túlkun, sbr. verklagsreglur fjármálaráðuneytisins við innheimtu stimpilgjalda frá janúar 2012 þar sem byggt er á sama skilningi, sbr. tilgreind dæmi á bls. 17-18 í reglunum.

Hér að framan er lýst efni eignaskiptayfirlýsingar vegna yfirfærslu eignarréttar að fasteigninni að F. Í yfirlýsingunni er vísað til fjárskiptasamnings vegna skilnaðar kæranda og B, en samningurinn fylgdi kæru kæranda til yfirskattanefndar. Samkvæmt samningnum voru eignir hjónanna umrædd fasteign að F, sumarhús að N, eignarhlutur í X hf., kröfur á hendur Y ehf. og D, tvær bifreiðar og tilgreindir lausafjármunir. Í samningnum kom fram að í hlut kæranda kæmu eignarhlutur í X hf., fyrrgreindar kröfur, bifreið og tvö reiðhjól, en í hlut B kæmi sumarhús, bifreið og tvær sæþotur ásamt kerru. Um fasteignina að F kom fram að hún yrði seld og að andvirði eignarinnar, að frádregnum kostnaði og uppgreiðslu á áhvílandi veðskuld, kæmi til greiðslu þannig að fyrstu 23.984.410 kr. rynnu til kæranda en eftirstöðvar kaupverðs skiptust að jöfnu milli kæranda og B. Annarra skulda er ekki getið í samningnum. Af hálfu kæranda er komið fram að sala fasteignarinnar að F hafi dregist vegna heimsfaraldurs og þjóðfélagsástands og hafi því orðið samkomulag með kæranda og B um að fasteignin kæmi alfarið í hlut kæranda, sbr. samkomulag um skilnað, fjárskipti og skilnaðarkjör, sem fylgir kæru. Í samkomulagi þessu kemur fram að fasteignin komi í hlut kæranda að teknu tilliti til fyrrgreinds mismunar 23.984.410 kr., uppgjöri á veðskuld og yfirtöku B á innstæðum á bankareikningum. Skuli kærandi greiða B 31.035.622 kr. til jöfnunar.

Af hálfu kæranda hefur ítrekað komið fram í málinu að fjárskiptasamningur vegna skilnaðar hans og B hafi miðast við helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 37/1993 og að auknum hlut kæranda í mögulegu söluandvirði fasteignarinnar að F að fjárhæð 23.984.410 kr., sbr. 3. gr. samnings þessa, hafi verið ætlað að tryggja jafna skiptingu eigna búsins. Að þessu athuguðu verður að fallast á með sýslumanni að virða beri þá breytingu á skilnaðarkjörum, sem kærandi og fyrrverandi eiginkona hans sammæltust um með gerð samkomulags á árinu 2020 og fól í sér að fasteignin kom alfarið í hlut kæranda gegn greiðslu til B að fjárhæð 31.035.622 kr., sem útlagningu eignarinnar til kæranda umfram eignarhlut hans, sbr. 109. gr. laga nr. 31/1993. Verður því að telja að með þessari ráðstöfun hafi falist samhliða sala B á eignarhlut hennar í fasteigninni, sbr. niðurlagsákvæði b-liðar 6. gr. laga nr. 138/2013. Þykja sjónarmið í kæru varðandi verðmæti annarra eigna búsins, svo sem hlutafjár og krafna, ekki fá neinu breytt í þessu sambandi í ljósi þess sem áður greinir um efni fjárskiptasamnings kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans. Með vísan til þessa verður að hafna aðalkröfu kæranda.

Eins og fram er komið ákvarðaði sýslumaður gjaldstofn stimpilgjalds vegna sölu F 31.035.622 kr. eða sem nam greiðslu kæranda til B samkvæmt samkomulagi þeirra á árinu 2020. Vegna samanburðar í bréfi umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 8. júní 2021, við ákvörðun sýslumanns á gjaldstofni stimpilgjalds í máli því, sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 234/2016, skal tekið fram að í því máli var ekki einvörðungu um að ræða yfirfærslu fasteignar til fyrrverandi maka heldur jafnframt yfirfærslu annarra eigna, þ.e. bifreiðar, sem tekið var tillit til við ákvörðun á gjaldstofni stimpilgjalds, svo sem rakið er í úrskurði þessum. Í tilviki kæranda liggur á hinn bóginn fyrir að greiðsla kæranda á grundvelli samkomulagsins frá árinu 2020 er aðeins til komin vegna útlagningar fasteignarinnar að F til hans. Á hinn bóginn verður að taka undir með kæranda að með ákvörðun sýslumanns hafi gjaldstofn allt að einu verið ofákvarðaður, sbr. ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 138/2013 þar sem fram kemur að stimpilgjald af gjaldskyldu skjali sem kveði á um eignaryfirfærslu fasteignar skuli ákvarðast eftir matsverði eins og það sé skráð í fasteignaskrá þegar gjaldskylda stofnast, svo sem nánar greinir. Fasteignamatsverð fasteignarinnar að F nam ... kr. þegar viðkomandi skjal var undirritað á árinu 2020. Eftir því sem fram kemur í fyrrgreindu bréfi umboðsmanns kæranda var við fjárskiptin lagt til grundvallar að verðmæti fasteignarinnar næmi 140.000.000 kr. Samkvæmt því nam greiðsla kæranda til B að fjárhæð 31.035.622 kr. fyrir eignarhlut hennar í fasteigninni 22,17% af verðmæti eignarinnar. Er því fallist á að ákvarða gjaldstofn stimpilgjalds miðað við sama hlutfall af fasteignamatsverði eignarinnar ... 2020. Lækkar gjaldstofn því um 3.943.882 kr. frá því sem sýslumaður ákvað og er varakrafa kæranda tekin til greina með þessum hætti.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum, ber undir stjórnvald að framkvæma gjaldabreytingar sem stafa af úrskurði yfirskattanefndar. Er sýslumanni því falið að annast um gjaldabreytingu samkvæmt úrskurði þessum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldstofn stimpilgjalds af skiptayfirlýsingu vegna fasteignarinnar að F lækkar um 3.943.882 kr. frá því sem sýslumaður ákvað. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað. Sýslumanni er falið að annast um gjaldabreytingar sem leiða af niðurstöðu úrskurðar þessa.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja