Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 523/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 92. gr. — 116. gr. Lög nr. 49/1987 — 3. gr. Auglýsing um skattmat í staðgreiðslu á árinu 1988, liður 2.3.
Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Fæðispeningar — Dagpeningar — Fæðisfrádráttur — Dagpeningafrádráttur — Frádráttarheimild — Lagaheimild — Ferðakostnaður — Dvalarkostnaður — Ferða- og dvalarkostnaður vegna vinnuveitanda — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Launamiði
Kæruefni máls þessa er frádráttur á móti fæðispeningum 21.868 kr. frá vinnuveitanda kæranda, sbr. launauppgjöf launagreiðanda. Kærandi krafðist þess í kæru til skattstjóra, dags. 18. ágúst 1989, að frádráttur yrði heimilaður á móti tekjufærðum fæðispeningum í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Fé þetta hefði verið greitt vegna ferða á svæðum í nágrenni Reykjavíkur „þar sem hægt var að fara að morgni og koma heim aftur að kveldi“.
Með kæruúrskurði, dags. 4. desember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda um frádrátt á móti fæðispeningum. Segir svo í úrskurðinum: „Fæðispeningar eru skattskyldar tekjur skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 en frádráttur frá slíkum tekjum er aðeins heimill skv. 1. mgr. 30. gr. laganna. Frádráttarheimild vegna fæðispeninga er ekki að finna í áðurnefndri lagagrein og er því þessum hluta kærunnar synjað.“
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. janúar 1990. Krefst kærandi frádráttar á móti fengnum fæðispeningum og telur, að heimild til frádráttarins sé að finna í 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fæðispeningarnir séu eingöngu vegna starfsferða og hljóti að flokkast undir dagpeninga eða hliðstæðar endurgreiðslur á kostnaði, er sannað sé að sé ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda, sbr. nefnt lagaákvæði, enda verði greiðslurnar aldrei hærri en sem nemur matsreglum ríkisskattstjóra.
Með bréfi, dags. 8. maí 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Með 3. gr. laga nr. 49/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. 2. gr. laga nr. 92/1987, var felld niður sú heimild, sem áður var í lögum til slíks frádráttar, sem kærandi krefst. Með þessari athugasemd þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.