Úrskurður yfirskattanefndar
- Tekjutímabil
- Breytt reikningsár
Úrskurður nr. 181/2021
Lög nr. 90/2003, 59. gr. 1. mgr.
Ríkisskattstjóri féllst á að kæranda, sem rak tónlistarskóla, væri heimilt að miða reikningsár sitt við tímabilið frá 1. janúar til 31. júlí í stað almanaksársins, en taldi þó að heimildin gæti aðeins tekið til skattskila kæranda frá og með rekstrarárinu 2020. Þar sem ekki varð séð af gögnum málsins að kærandi hefði neytt heimilda í lögum um bókhald og ársreikninga til að miða reikningsár sitt við annað tólf mánaða tímabil en almanaksárið var kröfu félagsins, er tók til skattskila vegna rekstrarársins 2019, hafnað.
Ár 2021, miðvikudaginn 17. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 97/2021; kæra A ehf., dags. 29. apríl 2021, vegna umsóknar um að miða skattár við annað tímabil en almanaksárið. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að með erindi til ríkisskattstjóra, dags. 2. september 2020, fór kærandi fram á að ríkisskattstjóri veitti félaginu heimild til þess að miða skattár þess við annað tímabil en almanaksárið, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Nánar tiltekið var þess óskað að félaginu yrði heimilað að miða tekjur til álagningar tekjuskatts við reikningsárið 1. ágúst til 31. júlí í stað almanaksársins. Ástæða þess væri vegna kröfu Reykjavíkurborgar til allra tónlistarskóla í Reykjavík sem borgin geri þjónustusamning við, um að skólarnir skili skólaársreikningi en ekki almanaksársreikningi. Þeir hafi átt að skila stuttum reikningi frá 1. janúar 2019 til 31. júlí 2019, og svo skólareikningi frá 1. ágúst 2019 til 31. júlí 2020.
Með tilkynningu til kæranda, dags. 10. september 2020, hafnaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda að því er varðar breytingu reikningsárið 2019, en taldi mega fallast á breytingu reikningsárið 2020. Embættið vísaði til 1. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að samkvæmt ákvæði þessu væri það almenn regla að tekjuskatt skyldi miða við tekjur næsta almanaksár á undan skattákvörðun. Ríkisskattstjóri gæti þó veitt félagi heimild til að miða tekjuskatt við það rekstrarár sem félag ákvarði í samræmi við 4. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Ljóst væri að fyrir hendi væru skilyrði til að fallast á breytingu á reikningsári kæranda, sbr. ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra nr. 3/2004. Í 90. gr. laga nr. 90/2003 kæmi m.a. fram að skýrslu lögaðila og einstaklinga sem hefðu með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skyldi fylgja undirritaður ársreikningur með sundurliðunum og skýringum í samræmi við ákvæði laga um bókhald eða eftir atvikum laga um ársreikninga, ásamt sérstakri greinargerð um skattstofna í því formi sem ríkisskattstjóri ákvæði. Núverandi samþykktir félagsins væru frá stofnun þess og þar væri ekki miðað við annað rekstrarár en hið hefðbundna almanaksár. Fyrir lægi að búið ætti að gera upp árið 2019 en skilafrestur á ársreikningi væri eigi síðar en einum mánuði frá samþykkt hans en þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs og hafi ársreikningaskrá ekki fallist á að heimilt sé að breyta samþykktum afturvirkt. Yrðu að koma til nýjar samþykktir sem varði einungis frá og með yfirstandandi ári. Ríkisskattstjóri taldi í ljósi þessa ekki unnt að fallast á breytingu á reikningsári 2019, en hins vegar væri hægt að fallast á breytt reikningsár frá árinu 2020 að því tilskildu að hluthafafundur samþykki slíkt og félagið legði fram nýjar samþykktir þess efnis. Samkvæmt þessu féllst ríkisskattstjóri á beiðni kæranda frá og með reikningsárinu 2020 og að félaginu væri heimilt að miða uppgjörstímabil sitt til álagningar gjalda sem tilkynna beri samkvæmt 98. gr. laga nr. 90/2003 við 12 mánaða reikningsár félagsins, þ.e. frá 1. ágúst til 31. júlí ár hvert í stað almanaksársins. Skattframtal ársins 2021 yrði því fyrir tímabilið frá 1. janúar 2020 til 31. júlí 2020, eða 7 mánuðir, enda tilkynnti kærandi um breytt reikningsár til fyrirtækjaskrár. Ríkisskattstjóri vísaði einnig til verklagsreglna um framtalsskil og framtalsgerð sem fram kæmu í fyrrnefndu ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 3/2004.
Næst mun það hafa gerst í málinu að kærandi stóð skil á skattframtali árið 2020 þann 25. september 2020 og var framtalið tekið til meðferðar sem kæra, sbr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Með kæruúrskurði, dags. 25. febrúar 2021, hafnaði ríkisskattstjóri að byggja álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2020 á skattframtalinu í stað áætlunar. Tók ríkisskattstjóri fram í úrskurði sínum að þann 10. febrúar 2021 hafi þess verið óskað að kærandi skilaði inn skattframtali 2020 fyrir almanaksárið 2019. Því bréfi hafi verið svarað þann 12. febrúar 2021, en skattframtali fyrir greint tímabil hafi ekki verið skilað. Niðurstaða ríkisskattstjóra var sú að samkvæmt tilkynningu ríkisskattstjóra frá 10. september 2020 væri reikningsár kæranda fyrir gjaldárið 2020 frá 1. janúar 2019 til 31. desember 2019. Þar sem ekki lægi fyrir önnur niðurstaða æðra stjórnvalds um breytt reikningsár kæranda yrði ekki hægt að fallast á annað rekstrarár en almanaksárið 2019, enda hefði ekki verið skilað skattframtali fyrir það tímabil. Var kröfum kæranda því hafnað.
II.
Með kæru, dags. 29. apríl 2021, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 25. febrúar 2021, og tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 10. september 2020, til yfirskattanefndar. Í kærunni eru málavextir raktir í stuttu máli og kemur þar fram að Reykjavíkurborg hafi gert þá kröfu að tónlistarskólar í Reykjavík myndu breyta tímabili ársreiknings úr almanaksári í skólaársreikning, þ.e. frá 1. ágúst til 31. júlí ár hvert, og skyldi fyrsti heili skólaársreikningurinn vera 1. ágúst 2019 til 31. júlí 2020. Kærandi hafi með höndum rekstur tónlistarskóla auk þess sem félagið hafi gefið út kennsluefni. Kærandi bendir á að í febrúar 2020 hafi ársreikningur fyrir fyrstu 7 mánuðina verið gerður, þ.e. 1. janúar til 31. júlí 2019. Ekki hafi verið gefinn kostur á því í rafrænu kerfi ríkisskattstjóra að skila inn slíkum ársreikningi á þeim tímapunkti. Hafi forsvarsmaður kæranda því óskað eftir upplýsingum hjá embættinu um hvernig slíkt mætti verða með tölvupósti, dags. 25. febrúar 2020, og með ítrekun, dags. 27. febrúar sama ár, auk þess sem fyrirsvarsmaður kæranda hafi reynt að ná símasambandi við ríkisskattstjóra til að fá umbeðnar upplýsingar, en allt án árangurs. Forsvarsmaður kæranda hafi því afráðið að skila ársreikningnum á pappírsformi fyrir þann skilafrest sem fyrirtæki hafi samkvæmt auglýsingu. Á haustmánuðum 2020 hafi ríkisskattstjóri stofnað tilefnislausa reikninga á kæranda, en kærandi hafi fengið þær upplýsingar að ekki væri um sektir að ræða af hálfu embættisins. Þá bendir forsvarsmaður kæranda einnig á að ársreikningur og skattframtal fyrir skólaárið 1. ágúst 2019 til 31. júlí 2020 hafi einnig verið skilað á pappír. Kærandi bendir á að hann hafi reynt að uppfylla kröfur ríkisskattstjóra um útfyllingu eyðublaða vegna stjórnarmanna og uppgjörstímabila, og mótmælir því sem kærandi telji að gefið sé í skyn í úrskurði ríkisskattstjóra að kærandi falli ekki undir rétt til að fá frest lengstan til 2. október 2020.
III.
Með bréfi, dags. 7. júní 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 10. júní 2021, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Af kæru kæranda til yfirskattanefndar verður ráðið að kæruefni málsins lúti að þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra, sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 10. september 2020, að synja kæranda um heimild til að miða skattskil félagsins vegna ársins 2019 við tímabilið 1. janúar til 31. júlí 2019 í stað almanaksársins, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum. Með sama bréfi féllst ríkisskattstjóri á að kæranda væri heimilt að miða skattskil við annað reikningsár en almanaksárið frá og með tekjuárinu 2020, enda yrði samþykktum félagsins breytt í þá veru og fyrirtækjaskrá tilkynnt um það. Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 9. gr. laga nr. 165/2010, um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, má skjóta ákvörðun ríkisskattstjóra um synjun til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd. Eins og fram er komið er fyrrgreind ákvörðun ríkisskattstjóra dagsett 10. september 2020 og liggur ekki annað fyrir en ákvörðunin hafi verið póstlögð þann sama dag. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum, er kærufrestur til yfirskattanefndar þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar ríkisskattstjóra. Samkvæmt þessu var síðasti dagur kærufrests 10. desember 2020. Kæra til yfirskattanefndar er dagsett 29. apríl 2021 og barst yfirskattanefnd 3. maí sama ár. Samkvæmt þessu er kæran fram komin að liðnum kærufresti. Þegar á hinn bóginn er litið til þess hvernig kæruleiðbeiningum er farið í greindri ákvörðun ríkisskattstjóra, en þær eru ófullnægjandi með tilliti til ákvæðis 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þykja á hinn bóginn vera skilyrði til að taka kæruna til efnislegrar meðferðar vegna höfnunar ríkisskattstjóra 10. september 2020, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. sömu laga.
Samkvæmt 9. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, skal greina í samþykktum einkahlutafélags hvert reikningsár þess sé. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 7. gr. laga nr. 48/2005, um breyting á þeim, og 4. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, sbr. 2. gr. laga nr. 171/2007, um breyting á þeim, kemur fram að reikningsár skuli vera 12 mánuðir og miðast við mánaðamót. Hefst nýtt reikningsár daginn eftir að fyrra reikningsári lýkur. Þá kemur fram að ef breyta á reikningsári frá því, sem ákveðið hefur verið í öndverðu, þurfa sérstakar ástæður að gefa tilefni til þess og skal breytingin ákveðin í samþykktum félags og rökstudd í skýringum með fyrsta ársreikningi eftir hana.
Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, skal miða tekjuskatt við tekjur næsta almanaksár á undan skattákvörðun, nema annað sé venjulegt rekstrarár í atvinnugrein aðila eða hann sýnir, þegar hann telur fram, að hann hafi annað reikningsár. Getur ríkisskattstjóri þá veitt honum heimild til að hafa það reikningsár í stað almanaksársins.
Kærandi hefur með höndum rekstur tónlistarskóla. Eins og hér að framan greinir hefur ríkisskattstjóri fallist á að félaginu sé heimilt að miða reikningsár sitt við tímabilið frá 1. janúar til 31. júlí í stað almanaksársins þar sem venjulegt rekstrarár í slíkri starfsemi sé annað, sbr. m.a. ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra nr. 3/2004 sem vísað er til í hinni kærðu ákvörðun. Á hinn bóginn taldi ríkisskattstjóri að sú heimild gæti einvörðungu tekið til skattskila kæranda frá og með rekstrarárinu 2020 þar sem fyrirmælum samþykkta félagsins um reikningsár þess hefði ekki verið breytt. Ekki verður séð af gögnum málsins að kærandi hafi neytt áðurgreindra heimilda í lögum nr. 145/1994 og lögum nr. 3/2006 til að miða reikningsár sitt við annað tólf mánaða tímabil en almanaksárið. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna kröfu kæranda í málinu, sbr. og dóm Hæstaréttar Íslands frá 20. janúar 2011 í málinu nr. 212/2010 (Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. gegn íslenska ríkinu). Vegna athugasemda í kæru um skort á leiðbeiningum af hendi ríkisskattstjóra skal tekið fram að í hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 10. september 2020, er vikið að breytingum og nauðsynlegum gögnum vegna reikningsársins 2020 og reglum um framtalsskil og -gerð, sbr. fyrrgreint ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra nr. 3/2004. Þá liggja fyrir tölvupóstsamskipti þar sem kæranda var leiðbeint af hálfu ríkisskattstjóra, sbr. tölvupóst embættisins, dags. 10. september 2020.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.