Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vanræksla á skilum fullnægjandi ársreiknings
  • Sekt
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 184/2021

Lög nr. 3/2006, 96. gr., 98. gr. 1. mgr., 109. gr., 120. gr. 3. mgr. (brl. nr. 73/2016, 58. gr., 60. gr., 71. gr.)  

Kærandi, sem var einkahlutafélag, mótmælti þeirri ákvörðun ársreikningaskrár að gera félaginu sekt vegna meintrar vanrækslu á að standa skil á endurskoðuðum ársreikningi til opinberrar birtingar. Sú viðbára kæranda, að mistök hefðu valdið því að endurskoðuðum ársreikningi var ekki skilað innan tilskilins frests, var ekki talin geta leitt til niðurfellingar sektar. Á hinn bóginn var talið að lækka bæri sektarfjárhæð um 60% þar sem úrbætur hefðu verið gerðar á ársreikningnum innan tveggja mánaða frá tilkynningu ársreikningaskrár.

Ár 2021, miðvikudaginn 17. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 118/2021; kæra A ehf., dags. 9. júní 2021, vegna ákvörðunar um sekt vegna brota á reglum um ársreikninga. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 9. júní 2021, hefur kærandi, sem er einkahlutafélag, skotið ákvörðun ársreikningaskrár, dags. 25. maí 2021, til yfirskattanefndar. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun gerði ársreikningaskrá kæranda sekt að fjárhæð 360.000 kr. vegna vanrækslu félagsins á að standa ársreikningaskrá skil á endurskoðuðum ársreikningi fyrir reikningsárið 2019 til opinberrar birtingar innan tilskilins frests. Sektarfjárhæð hafði áður verið ákvörðuð 600.000 kr., sbr. tilkynningu ársreikningaskrár, dags. 24. febrúar 2021.

Af hálfu kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ársreikningaskrár verði felld niður að fullu.

II.

Málavextir eru þeir að hinn 3. september 2020 stóð kærandi skil á ársreikningi fyrir reikningsárið 2019 til ársreikningaskrár. Með bréfi ársreikningaskrár til kæranda, dags. 20. janúar 2021, var félaginu greint frá því að innsendur ársreikningur þess fyrir reikningsárið 2019 hefði verið felldur af skrá sem ófullnægjandi. Félagið væri yfir þeim stærðarmörkum sem fram kæmu í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, og bæri því að kjósa endurskoðanda til að láta endurskoða ársreikninginn, sbr. 96. gr. laganna. Með bréfinu var kæranda gefinn kostur á að leggja fram endurskoðaðan ársreikning, en að öðrum kosti yrði félaginu ákvörðuð sekt að fjárhæð 600.000 kr., sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006. Var tekið fram að ársreikningurinn þyrfti að vera með áritun endurskoðanda ásamt skýrslu stjórnar og þyrfti hann að hafa verið samþykktur á hluthafafundi. Var kæranda veittur 30 daga frestur til að bregðast við bréfi ársreikningaskrár. Þann 19. febrúar 2021 barst ársreikningaskrá að nýju ársreikningur kæranda fyrir reikningsárið 2019, áritaður um endurskoðun.

Með tilkynningu, dags. 24. febrúar 2021, hratt ársreikningaskrá hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd og ákvað kæranda sekt að fjárhæð 600.000 kr. Í tilkynningu ársreikningaskrár var greint frá því að í kjölfar bréfs ársreikningaskrár frá 20. janúar 2021 hefði borist ársreikningur kæranda fyrir reikningsárið 2019, áritaður um endurskoðun 10. febrúar 2021 af B, löggiltum endurskoðanda. Í árituninni kæmi ekki fram nafn endurskoðunarfyrirtækisins og væri áritun því ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun, svo sem vera bæri, sbr. 1. og 2. mgr. 104. gr. laga nr. 3/2006. Samkvæmt upplýsingum sem ársreikningaskrá hefði undir höndum starfaði B ekki hjá félagi sem hefði fengið starfsleyfi sem endurskoðunarfyrirtæki, og hefði honum því ekki verið heimilt að árita ársreikninginn sem endurskoðandi, sbr. ákvæði 4. gr. laga nr. 94/2019. Að auki væri áritun endurskoðanda ábótavant þar sem ekki kæmi fram staðfesting þess að skýrsla stjórnar og ársreikningur innihéldi það sem skylt væri samkvæmt lögum um ársreikninga, sbr. 6. mgr. 16. gr. laga nr. 94/2019 og 2. mgr. 104. gr. laga nr. 3/2006. Í ljósi þess að framlagður ársreikningur kæranda þætti vera ófullnægjandi hefði ársreikningaskrá ákveðið að leggja stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr. á félagið. Var kæranda leiðbeint um að legði félagið fram fullnægjandi ársreikning innan 30 daga frá tilkynningu ársreikningaskrár myndi sektarfjárhæðin lækka um 90%. Legði félagið fram fullnægjandi ársreikning innan tveggja mánaða frá sama tímapunkti myndi sektin lækka um 60% en yrði hann lagður fram innan þriggja mánaða myndi sektin lækka um 40%.

Þann 23. apríl 2021 stóð kærandi enn skil á ársreikningi félagsins fyrir reikningsárið 2019 til ársreikningaskrár. Var ársreikningurinn áritaður af C, endurskoðanda hjá ... Í kjölfarið tilkynnti ársreikningaskrá kæranda með hinni kærðu ákvörðun, dags. 25. maí 2021, að með hliðsjón af því að „félagið skilaði fullnægjandi ársreikningi reikningsársins 2019 til ársreikningaskrár þann 21. maí 2021 hefur ársreikningaskrá lækkað sektarfjárhæðina um 40 hundraðshluti, úr 600.000 kr. niður í 360.000 kr., sbr. 4. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006.“

III.

Í kæru til yfirskattanefndar er rakið að kærandi hafi, eins og ávallt, skilað ársreikningi fyrir árið 2019 á réttum tíma og hafi hann verið skráður samþykktur af ársreikningaskrá. Með bréfi, dags. 20. janúar 2021, hafi ríkisskattstjóri fellt ársreikninginn af skrá þar sem velta og niðurstöðutala efnahagsreiknings hafi verið komin yfir mörk og kæranda því skylt að skila endurskoðuðum ársreikningi. Menn hefðu ekki áttað sig á þessu.

Kærandi hafi reynt að fá endurskoðanda til verksins en það hafi ekki gengið vegna anna hjá endurskoðendum á þessum tíma. Hafi því verið leitað til fyrrum endurskoðanda félagsins og hafi hann fallist á að ganga frá endurskoðuðum ársreikningi þó svo hann væri annars hættur slíkri vinnu. Hafi nýr ársreikningur verið sendur inn 19. febrúar 2021.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 2021, hafi ársreikningaskrá tilkynnt að endurskoðandinn hefði ekki starfsleyfi og lagt 600.000 kr. sekt á kæranda án frekari viðvarana. Kæranda hafi tekist að fá annan endurskoðanda og skila inn nýjum ársreikningi sem leitt hafi til lækkunar sektarfjárhæðarinnar um 40% með hinni kærðu ákvörðun ársreikningaskrár.

Óumdeilt sé að félagið hafi skilað upphaflegum ársreikningi á réttum tíma og hafi að fenginni áskorun um úrbætur 20. janúar 2021 gert allt sem unnt hafi verið til að gera úrbætur á innsendum ársreikningi. Sé það ansi harkaleg aðgerð að leggja á stjórnvaldssekt á meðan unnið hafi verið í málinu og sé því gerð krafa um niðurfellingu sektarinnar að fullu.

IV.

Með bréfi, dags. 9. júlí 2021, hefur ársreikningaskrá ríkisskattstjóra lagt fram umsögn í málinu. Er tekið fram í umsögninni að kærandi hafi skilað óendurskoðuðum ársreikningi til ársreikningskrár 3. september 2021 þrátt fyrir að vera yfir þeim mörkum sem fram komi í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, og því borið að láta endurskoða ársreikning sinn samkvæmt 96. gr. laganna. Ársreikningur félagsins hafi því ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 3/2006. Með bréfi, dags. 20. janúar 2021, hafi ársreikningaskrá gefið félaginu kost á að leggja fram endurskoðaðan ársreikning. Í bréfinu hafi komið fram að ef ekki bærust fullnægjandi gögn eða skýringar innan 30 daga frá dagsetningu bréfsins yrði lögð sekt á félagið að fjárhæð 600.000 kr. án frekari viðvarana í samræmi við ákvæði 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006. Félagið hafi skilað ársreikningi til ársreikningaskrár 19. febrúar 2021 en ársreikningurinn hafi verið áritaður um endurskoðun af endurskoðanda sem ekki hafði gilt starfsleyfi. Hafi áritunin því ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga nr. 3/2006. Að mati ársreikningaskrár hefði félagið því ekki staðið skil á fullnægjandi ársreikningi innan 30 daga frá tilkynningu um kröfu um úrbætur. Af þeirri ástæðu hafi verið lögð stjórnvaldssekt á félagið að fjárhæð 600.000 kr. með bréfi, dags. 24. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 25. maí 2021, hafi félaginu verið tilkynnt að ársreikningaskrá hefði 21. maí 2021 móttekið fullnægjandi ársreikning frá félaginu fyrir reikningsárið 2019 og því hefði ársreikningaskrá lækkað sektarfjárhæð félagsins um 40% eða úr 600.000 kr. í 360.000 kr., sbr. 4. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006.

Við yfirferð málins hafi komið í ljós að kærandi hefði skilað fullnægjandi ársreikningi fyrir reikningsárið 2019 til ársreikningaskrár 23. apríl 2021 en ekki 21. maí 2021. Skil hafi því verið innan tveggja mánaða frá því að félaginu var tilkynnt um álagningu stjórnvaldssektar. Hafi ársreikningaskrá því borið að lækka sektarfjárhæðina um 60% eða úr 600.000 kr. í 240.000 kr., sbr. 4. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006. Með bréfi, dags. 7. júlí 2021, hafi kæranda verið tilkynnt um að sektarfjárhæðin hafi verið leiðrétt í samræmi við það með vísan til 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V.

Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ársreikningaskrár, dags. 25. maí 2021, að gera kæranda sekt vegna vanrækslu félagsins á að standa skil á endurskoðuðum ársreikningi fyrir reikningsárið 2019 innan tilskilins frests, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, með áorðnum breytingum.

Krafa kæranda um niðurfellingu sektarinnar er aðallega byggð á því að kærandi, sem ávallt hafi skilað ársreikningi á réttum tíma, hafi ekki áttað sig á að félaginu væri nú skylt að standa skil á endurskoðuðum ársreikningi. Eftir ábendingu ársreikningaskrár hafi reynst erfitt að fá endurskoðanda til verksins en fullnægjandi ársreikningi hafi verið skilað til ársreikningaskrár 23. apríl 2021. Sé ansi harkalegt að leggja stjórnvaldssekt á meðan unnið sé að úrbótum.

Í IX. kafla laga nr. 3/2006, um ársreikninga, eru ákvæði um endurskoðun og yfirferð ársreikninga félaga sem falla undir gildissvið laganna. Í 1. mgr. 96. gr. laganna kemur fram að aðalfundur eða almennur félagsfundur kjósi einn eða fleiri endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki, í samræmi við ársreikningalög og samþykktir félagsins, til að endurskoða ársreikning viðkomandi félags. Í samþykktum megi enn fremur fela opinberum eða öðrum aðilum að tilnefna einn eða fleiri endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki. Í 1. mgr. 98. gr. laganna kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 96. gr. laganna sé félögum, sem séu undir tveimur af þremur stærðarmörkun sem tilgreind eru í lagaákvæðinu, ekki skylt að kjósa endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki til að endurskoða ársreikninga sína. Er þar í fyrsta lagi miðað við niðurstöðutölu efnahagsreiknings 200.000.000 kr., í öðru lagi hreina veltu 400.000.000 kr. og í þriðja lagi að meðaltali 50 ársverk á fjárhagsárinu. Í 2.­–4. mgr. ákvæðisins eru síðan talin upp félög sem falla ekki undir undanþágu 1. mgr. þess. Er þar um að ræða félög sem flokkast sem einingar tengdar almannahagsmunum, félög sem ekki leggja hömlur á viðskipti með eignarhluta og samvinnufélög er hafa B-deild stofnsjóðs.

Um birtingu ársreikninga og skyldur félaga til þess að standa ársreikningaskrá skil á ársreikningum sínum eru ákvæði í X. kafla laga nr. 3/2006. Í XII. kafla laganna er fjallað um viðurlög og málsmeðferð vegna brota á þeim. Í 3. mgr. 120. gr. laganna, sbr. 71. gr. laga nr. 73/2016, um breytingu á lögum um ársreikninga nr. 3/2006, kemur fram að uppfylli ársreikningur eða samstæðureikningur ekki ákvæði laganna að mati ársreikningaskrár skuli hún tilkynna félagi um þá afstöðu, gefa því kost á úrbótum og möguleika á að koma að andmælum. Berist ekki fullnægjandi skýringar eða úrbætur innan 30 daga skuli ársreikningaskrá leggja á félagið stjórnvaldssekt að fjárhæð 600.000 kr. Þá eru í 4. mgr. sömu lagagreinar kveðið á um að leggi félag fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi innan 30 daga frá tilkynningu um álagningu stjórnvaldssektar skuli ársreikningaskrá lækka sektarfjárhæðina um 90%. Séu úrbætur gerðar innan tveggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skuli lækka sektarfjárhæðina um 60%, en séu úrbætur gerðar innan þriggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skuli lækka sektarfjárhæðina um 40%. Í 3. málsl. 5. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að ákvörðun ársreikningaskrár um álagningu sektar samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins sé kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992. Þá er kveðið á um það í 6. mgr. sömu lagagreinar að stjórnvaldssektum verði beitt óháð því hvort lögbrot séu framin af ásetningi eða gáleysi.

Óumdeilt er í málinu að ársreikningur kæranda fyrir reikningsárið 2019, sem upphaflega var sendur ársreikningaskrá, uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 3/2006 hvað snerti endurskoðun ársreikningsins. Ennfremur er óumdeilt að áritun endurskoðanda á ársreikningi sem skilað var 19. febrúar 2021 hafi ekki verið fullnægjandi, sbr. ákvæði laga nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun. Hins vegar hefur ársreikningaskrá ekki gert athugasemdir við ársreikning kæranda sem kærandi sendi 23. apríl 2021. Vegna vanrækslu kæranda á að sinna þeirri skyldu sinni að skila endurskoðuðum ársreikningi innan tilskilins frests voru lagaskilyrði til beitingar sektar samkvæmt 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006. Sektarfjárhæð er fastákvörðuð 600.000 kr. samkvæmt þessu lagaákvæði. Hins vegar bar ársreikningaskrá að lækka ákvarðaða sekt vegna skila kæranda á endurskoðuðum ársreikningi 23. aprí1 2021, sbr. 4. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006. Á þeim grundvelli var sektarfjárhæð lækkuð og ákvörðuð að lyktum 360.000 kr. með hinum kærða úrskurði.

Af hálfu kæranda hefur því einkum verið borið við að ákvörðun sektar sé ósanngjörn þar sem kærandi hafi vegna vanþekkingar skilað óendurskoðuðum ársreikningi og síðan hafi reynst erfitt að fá endurskoðanda til að árita ársreikninginn. Þessar viðbárur kæranda þykja ekki geta leitt til niðurfellingar hinnar umdeildu sektarákvörðunar ársreikningskrár, enda verður stjórnvaldssektum beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi, sbr. 6. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006. Er kröfu kæranda um niðurfellingu sektar því hafnað.

Eins og fyrr segir tilkynnti ársreikningaskrá kæranda um sektarákvörðun sína upphaflega þann 24. febrúar 2021. Ársreikningur kæranda, áritaður af endurskoðanda með fullnægjandi hætti, barst ársreikningaskrá 23. apríl 2021. Þar sem úrbætur voru þannig gerðar af kæranda á ársreikningi félagsins innan tveggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar bar ársreikningaskrá að lækka sektarfjárhæð félagsins um 60% en ekki 40% svo sem gert var með hinni kærðu ákvörðun. Að þessu athuguðu þykir bera að lækka fjárhæð sektar samkvæmt hinum kærða úrskurði úr 360.000 kr. í 240.000 kr.

Í umsögn ársreikningaskrár ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar, dags. 9. júlí 2021, er greint frá því að við yfirferð málsins hafi komið í ljós að kærandi skilaði fullnægjandi ársreikningi til ársreikningaskrár 23. apríl 2021 en ekki 21. maí 2021 eða innan tveggja mánaða frá því að félaginu var tilkynnt um álagningu stjórnvaldssektar. Hafi ársreikningaskrá því tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. júlí 2021, um lækkun sektarinnar í 240.000 kr. á grundvelli leiðréttingarheimildar í 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki verður fallist á það með ársreikningaskrá að hér ræði um bersýnilega villu í skilningi 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga, en það ákvæði tekur ekki til leiðréttingar á efni ákvörðunar, heldur hefur ársreikningaskrá endurupptekið ákvörðun sína, en það var stjórnvaldinu ekki heimilt í ljósi þess að mál kæranda var í kærumeðferð hjá yfirskattanefnd. Verður því að virða þetta inngrip ársreikningaskrár sem markleysu.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Sektarfjárhæð ákveðst 240.000 kr. og lækkar því um 120.000 kr. frá því sem ársreikningaskrá ákvað. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja