Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt
  • Kærufrestur
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 185/2021

Virðisaukaskattur 2019

Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. og 6. mgr., 28. gr.   Lög nr. 30/1992, 2. gr., 5. gr. 1. mgr.  

Kærandi sætti álagsbeitingu vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti. Að virtum atvikum málsins var fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álagsins. Þar sem ekki var talið á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda um niðurfellingu dráttarvaxta var þeim hluta kærunnar vísað frá yfirskattanefnd.

 

 

Ár 2021, miðvikudaginn 17. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 123/2021; kæra A, dags. 4. júní 2021, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts árið 2019. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 4. júní 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 8. mars 2020, um endurákvörðun virðisaukaskatts uppgjörstímabilið september-október 2020 „til samræmis við innsenda virðisaukaskattsskýrslu, leiðréttingarskýrslu eða bréf frá yður …“, eins og þar segir. Samkvæmt úrskurði þessum var virðisaukaskattur kæranda ákvarðaður 803.266 kr. umrætt uppgjörstímabil (útskattur 1.384.992 kr. og innskattur 581.726 kr.). Í úrskurðinum er tekið fram að álag og dráttarvextir reiknist samkvæmt 27. og 28. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt öðrum gögnum ákvarðaði ríkisskattstjóri álag að fjárhæð 80.327 kr. með úrskurðinum.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að þegar kærandi hafi fengið virðisaukaskattsnúmer hafi hann verið settur í tveggja mánaða skil. Vegna tímabundinnar lækkunar atvinnutekna hafi kærandi verið óumbeðinn settur í ársskil. Vísar kærandi til þess að síðla árs 2019 hafi verið ljóst að tekjur hans færu yfir mörk ársskila og hafi hann þá reynt að standa skil á virðisaukaskatti í gegnum „skattur.is“ eins og venjulega, en það hafi ekki verið hægt. Hafi kærandi þá hringt í ríkisskattstjóra til að fá úrlausn sinna mála og fengið uppgefið reikningsnúmer til að geta greitt á réttum gjalddaga, sem kærandi og hafi gert. Hafi kærandi þá talið sig vera skuldlausan vegna virðisaukaskatts. Þá vísar kærandi til þess að þótt pappírsvinnan hafi farið í handaskolum hjá sér finnist honum skjóta skökku við að vera krafinn um full vanskilagjöld og dráttarvexti eins og hann hafi vísvitandi haldið eftir greiðslum.

II.

Með bréfi, dags. 20. júlí 2021, hefur ríkiskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Krefst ríkisskattstjóri þess að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd þar sem hún sé of seint fram komin, en lögmæltur þriggja mánaða kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, hafi runnið út 8. júní 2021. Kærubréf kæranda hafi hins vegar ekki borist yfirskattanefnd fyrr en 9. júní 2021. Þyki kærandi ekki hafa sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.

Telji yfirskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar sé til þess að líta að fyrir liggi að kærandi hafi 5. desember 2019 millifært fjárhæð sem hafi samsvarað álagningu virðisaukaskatts fyrir fimm fyrstu uppgjörstímabil ársins 2019, sbr. skýrslu sem hafi borist ríkisskattstjóra 8. mars 2021. Þar sem fyrir hafi legið að kærandi væri skráður í ársskil hafi greiðslunni verið ráðstafað inn á uppgjörstímabilið nóvember-desember 2019. Virðisaukaskattsskil kæranda fyrir það uppgjörstímabil hafi kveðið á um inneign að fjárhæð 25.116 kr. og hafi þeirri inneign ásamt hluta af greiðslunni 5. desember 2019 verið skuldajafnað upp í aðra skuld. Eftirstöðvar inneignarinnar, samtals 772.799 kr., hafi verið millifærðar á reikning kæranda 16. mars 2020 og honum tilkynnt um það með sérstakri tilkynningu á vefsvæðinu „island.is“, enda engri álagningu fyrir að fara hjá kæranda á öðrum uppgjörstímabilum. Kærandi hafi því haft framangreinda fjárhæð undir höndum frá mars 2020 til 25. mars 2021 þegar hann hafi greitt álagningu samkvæmt innsendri leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts. Í ljósi þess að kærandi hafi fengið endurgreiðslu sem hafi numið mun hærri fjárhæð en inneign vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2019 verði að telja að rétt hefði verið af kæranda að grennslast fyrir um ástæðu millifærslunnar og í kjölfarið endurgreiða fjárhæðina og ganga frá skýrslu fyrir uppgjörstímabilið september-október 2019. Það hafi hann ekki gert heldur haldið fjárhæðinni í heilt ár eða þar til virðisaukaskatturinn hafi verið greiddur að nýju.

Með vísan til framangreinds verði ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á gildar ástæður sér til málsbóta þannig að fella megi niður álag samkvæmt 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Sé þess því krafist að álag að fjárhæð 80.327 kr. á virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins september-október 2019, sem hafi náð til fyrstu fimm uppgjörstímabila ársins 2019, standi óbreytt.

Ríkisskattstjóri tekur fram að kröfu um niðurfellingu á dráttarvöxtum sé ekki réttilega beint til yfirskattanefndar en kæru vegna dráttarvaxta skuli beint til fjármála- og efnahagsráðuneytisins samkvæmt 5. gr. laga nr. 150/2019. Enn fremur verði ekki séð að fyrir liggi kæranleg ákvörðun lægra setts stjórnvalds um dráttarvextina og beri því að framenda málið til meðferðar sýslumannsins á Norðurlandi með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. ágúst 2021, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra er dagsettur 8. mars 2021 og liggur ekki annað fyrir en að hann hafi verið póstlagður sama dag. Kærufrestur til yfirskattanefndar er þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar ríkisskattstjóra, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt þessu var síðasti dagur kærufrests 8. júní 2021. Kæra til yfirskattanefndar, sem er dagsett 4. júní 2021, var send ríkisskattstjóra og er kæran árituð móttekin af ríkisskattstjóra 9. júní 2021. Ríkisskattstjóri framsendi kæruna til yfirskattanefndar með bréfi, dags. 21. júní 2021. Hvorki í því bréfi né í umsögn embættisins er vikið að póstlagningardegi kæru, en telja ber kæru nægilega snemma fram komna ef bréf sem hefur að geyma kæru er afhent pósti áður en kærufrestur er liðinn, sbr. 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu þykir ekki liggja fyrir svo óyggjandi sé að kæran hafi verið of seint fram komin. Verður frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því ekki sinnt.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Af hálfu ríkisskattstjóra er byggt á því að kærandi hafi ekki í tæka tíð staðið skil á virðisaukaskatti fyrir uppgjörstímabilið september-október 2019, þannig að lagaskilyrði hafi verið til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Fyrir liggur að ríkisskattstjóri ákvarðaði álag samkvæmt nefndum lagaákvæðum. Í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra kemur það eitt fram um þetta að þess er getið að „[á]lag og dráttarvextir reiknast skv. 27. og 28. gr. laga nr. 50/1988“. Ekki er hins vegar gerð grein fyrir fjárhæð álags. Verður að gera athugasemd við skýrleika stjórnvaldsákvörðunarinnar að þessu leyti.

Af hálfu kæranda er m.a. komið fram að þegar hann hafi orðið þess áskynja að tekjur hans hafi farið yfir mörk ársskila hafi hann reynt að standa skil á virðisaukaskatti í gegnum vefsíðuna skattur.is, en ekki haft erindi sem erfiði. Kærandi hafi fengið þær leiðbeiningar frá ríkisskattstjóra símleiðis að leggja fjárhæð virðisaukaskattsins inn á tiltekinn bankareikning. Það hafi kærandi gert á gjalddaga vegna uppgjörstímabilsins september-október 2019, þ.e. 5. desember 2019. Fyrir liggur að kærandi sinnti því ekki að senda samhliða greiðslu sinni virðisaukaskattsskýrslur til ríkisskattstjóra vegna fyrri uppgjörstímabila ársins 2019. Í umsögn ríkisskattstjóra er rakið að þetta hafi leitt til þess að 16. mars 2020 hafi  kæranda verið endurgreidd að mestu sú fjárhæð sem hann hafði greitt. Hinn 25. mars 2021 greiddi kærandi síðan virðisaukaskatt á grundvelli leiðréttingarskýrslu vegna ársins 2019 sem barst ríkisskattstjóra 8. mars 2021.

Í umsögn ríkisskattstjóra er talið mæla gegn niðurfellingu álags að kærandi hafi ekki brugðist við þegar honum barst endurgreiðsla frá innheimtumanni ríkissjóðs 16. mars 2020 og kannað ástæður þessarar greiðslu. Þessu sjónarmiði má raunar snúa upp á innheimtumann og/eða ríkisskattstjóra sem ekki virðast hafa aflað skýringa frá kæranda um tilefni greiðslu hans frá 5. desember 2019. Þegar þetta er virt og atvik málsins að öðru leyti, þar á meðal að kærandi greiddi virðisaukaskattinn á gjalddaga að fengnum leiðbeiningum ríkisskattstjóra, svo og að nokkru með tilliti til þess hvernig tilgreiningu álags var farið í úrskurði ríkisskattstjóra, þykir mega fallast á niðurfellingu álags, sbr. heimild í 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Er ríkisskattstjóra falið að annast um þá gjaldabreytingu, sbr. 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum

Að því er snertir mótmæli kæranda við dráttarvöxtum skal tekið fram að í 28. gr. laga nr. 50/1988 eru ákvæði um dráttarvexti vegna síðbúinnar greiðslu skattaðila á virðisaukaskatti og vegna síðbúinnar endurgreiðslu af hálfu ríkissjóðs. Ekki er sérstaklega kveðið á um málsmeðferð vegna þessara atriða í lögunum. Fjallað er um innheimtu opinberra gjalda, þ.m.t. vexti af vangreiddu og ofgreiddu skattfé, í lögum nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. áður 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lög nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Valdsvið yfirskattanefndar tekur ekki til meðferðar ágreiningsefna varðandi innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. m.a. 5. gr. laga nr. 150/2019, þar sem kveðið er á um kæruheimild til fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna ákvarðana innheimtumanns ríkissjóðs samkvæmt lögunum. Kröfu um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta ber því í tilviki kæranda að beina til sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Samkvæmt framansögðu er eigi á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda varðandi dráttarvexti og er þeim hluta kærunnar af þeim sökum vísað frá.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu um niðurfellingu álags. Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd að því er varðar dráttarvexti.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja