Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána
  • Fyrstu kaup íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 194/2021

Lög nr. 111/2016, 5. gr. 1. mgr. (brl. nr. 63/2017, 3. gr.)   Reglugerð nr. 555/2017, 1. gr., 3. gr.  

Kærandi hóf byggingu íbúðarhúsnæðis á árinu 2018 og í desember sama ár var fasteignin skráð á byggingarstigi 4 í fasteignaskrá þjóðskrár sem fokheld eign. Umsókn kæranda um nýtingu og ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa íbúðarhúsnæðis, sem barst ríkisskattstjóra þann 7. janúar 2021, var hafnað þar sem talið var að umsóknin hefði borist að liðnum lögboðnum tólf mánaða fresti.

Ár 2021, miðvikudaginn 8. desember, er tekið fyrir mál nr. 131/2021; kæra A, dags. 8. júlí, vegna úttektar séreignarsparnaðar. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 8. júlí 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra frá 8. apríl 2021 um að hafna umsókn kæranda um nýtingu séreignarsparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð, sbr. lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, með áorðnum breytingum. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að umsókn kæranda hefði borist að liðnum umsóknarfresti samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016. Fram kom af hálfu ríkisskattstjóra að umsóknin varðaði öflun íbúðarhúsnæðis að S sem kærandi hefði verið skráður eigandi að frá desember 2018 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 skyldi sækja um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings og gilti hið sama um umsókn um ráðstöfun iðgjalda inn á lán. Í þeim tilvikum sem ekki væri um að ræða eiginlegan kaupsamning heldur fasteign sem umsækjandi byggði sjálfur væri litið svo á að umsækjandi eignaðist fasteignina í síðasta lagi þegar hún væri skráð á byggingarstigi 4 í þjóðskrá, en á þeim tímapunkti væri eiganda heimilt að taka fasteignalán með veði í eigninni. Væri litið svo á að þá tæki 12 mánaða frestur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna að líða. Þar sem fasteignin að S hefði verið skráð á 4. byggingarstigi í desember 2018 hefði umsóknarfrestur um útgreiðslu séreignarsparnaðar eða ráðstöfun hans inn á lán samkvæmt þessu runnið út í desember 2019. Umsókn kæranda hefði borist þann 7. janúar 2021 og teldist hún því of seint fram komin. Benti ríkisskattstjóri á að þrátt fyrir að tilgreindur umsóknarfrestur laga nr. 111/2016 væri liðinn væri kæranda heimilt að sækja um útgreiðslu og/eða ráðstöfun séreignarsparnaðar, sbr. lög nr. 40/2014, um ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, á vefnum leidretting.is.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 8. júlí 2021, er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi. Er vísað til þess að úrræði um nýtingu séreignarsparnaðar byggi á lögum nr. 111/2016, sbr. 1. mgr. 5. gr. þeirra laga. Hvergi í þeim lögum sé  tekið fram frá hvaða tímamarki miða skuli 12 mánaða umsóknarfrest í þeim tilvikum þegar um nýbyggingar sé að ræða. Í ákvörðun ríkisskattstjóra komi ekki fram á hverju sú niðurstaða embættisins, að miða við að umsóknarfrestur byrji að líða þegar fasteign sé skráð í þjóðskrá á byggingarstigi 4, sé byggð, enda sé ekki vísað í lög eða reglugerðir í því sambandi. Í ljósi þessa líti kærandi svo á að hann hafi ekki verið of seinn að sækja um úrræðið vegna S.

II.

Með bréfi, dags. 10. september 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögn ríkisskattstjóra er vísað til þess að umsókn kæranda varði nýbyggingu sem kærandi hafi reist sjálfur. Lóðarleigusamningur á lóð kæranda hafi verið undirritaður í júní 2018 og á þeim tímapunkti hafi fasteignin verið skráð sem lóð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Fasteignin hafi síðan verið skráð sem íbúðarhúsnæði í eigu kæranda á byggingarstigi 2 í júlí 2018 og á byggingarstigi 4 í desember sama ár. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 555/2017, um samræmt verklag við ráðstöfun iðgjalda til séreignarsparnaðar til stuðnings kaupa á fyrstu íbúð, sé með íbúðarhúsnæði átt við fasteign sem hafi sérstakt fasteignanúmer hjá Þjóðskrá Íslands. Fasteignanúmer og skráning íbúðarhúsnæðis sé gefið út strax á byggingarstigi 1. Samkvæmt orðanna hljóðan megi halda því fram að kærandi hafi orðið eigandi íbúðarhúsnæðisins samkvæmt skilgreiningu laganna þegar við skráningu eignarinnar í fasteignaskrá í júlí 2018. Við túlkun á því hvenær 12 mánaða umsóknarfrestur byrji að líða hafi orðalag skilgreiningar á íbúðarhúsnæði verið skýrt með nokkuð ívilnandi hætti og miðað við að fresturinn byrji þá fyrst að líða þegar fasteign sé vottuð í fasteignaskrá sem fokheld eign, þ.e. á byggingarstigi 4. Við það tímamark eigi sér stað ákveðin vatnaskil þar sem þá fyrst sé hægt að taka lán með veði í fasteigninni. Þá sé ekki hægt að sækja um að ráðstafa séreign inn á lán fyrr en á þeim tímapunkti. Í framkvæmd hafi því verið miðað við að 12 mánaða fresturinn byrji ekki að líða fyrr en umsækjandi geti sótt um að greiða inn á lán, þ.e. við byggingarstig 4. Umsóknarfrestur vegna nýbyggingar kæranda hafi því runnið út í desember 2019, en umsókn kæranda hafi borist 7. janúar 2021.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 2. september 2021, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Að beiðni umboðsmanns kæranda var sá frestur framlengdur til 28. september 2021, sbr. tölvupósta 20. sama mánaðar. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Um skattfrjálsa úttekt séreignarsparnaðar, sbr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, vegna kaupa á fyrstu íbúð gilda lög nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Samkvæmt 2. gr. laganna er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, sem greitt er á samfelldu tíu ára tímabili, eftir gildistöku laganna að tilteknu hámarki á ári, sbr. 4. gr. þeirra, með því að a) verja uppsöfnuðu iðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð og/eða b) ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð. Þá er rétthafa heimilt að nýta iðgjald sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess eftir því sem nánar er kveðið á um í 3. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016 er skilyrði fyrir úttekt á séreignarsparnaði að rétthafi hafi ekki áður átt íbúð og að hann afli sér íbúðarhúsnæðis annaðhvort einn eða í félagi við annan einstakling. Þá skal rétthafi eiga að minnsta kosti 30% eignarhlut í þeirri íbúð sem aflað er. Í 1. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 63/2017, kemur fram að umsókn rétthafa um nýtingu séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð samkvæmt 2. gr. skuli beint rafrænt til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður. Sækja skuli um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings. Sama gildi um ráðstöfun iðgjalda inn á lán.

Samkvæmt gögnum málsins hóf  kærandi byggingu íbúðarhúsnæðis að S á árinu 2018. Fram kemur í umsögn ríkisskattstjóra að lóðarleigusamningur hafi verið undirritaður í júní 2018 og fasteignin verið skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá þjóðskrár á byggingarstigi 2 í júlí sama ár. Í desember 2018 mun fasteignin hafa verið skráð á byggingarstigi 4 í fasteignaskrá sem er það tímamark sem ríkisskattstjóri telur að miða eigi upphaf tólf mánaða frests samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016 við í þeim tilvikum þegar sótt er um ráðstöfun séreignarsparnaðar á grundvelli laganna vegna nýbygginga. Er bent á í umsögn ríkisskattstjóra að um sé að ræða ívilnandi túlkun laga við þessar aðstæður sem styðjist við þau rök að þegar fasteign í byggingu hafi verið skráð á byggingarstigi 4 sé fyrst gerlegt að taka lán með veði í eigninni. Í tilviki kæranda hafi tólf mánaða umsóknarfrestur því runnið út í desember 2019.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 555/2017, um samræmt verklag við ráðstöfun iðgjalda til séreignarsparnaðar til stuðnings kaupa á fyrstu íbúð, sem sett er á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga nr. 111/2016, er að finna nánari ákvæði ráðstöfun uppsafnaðra viðbótariðgjalda af launagreiðslum við kaup á fyrstu íbúð, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2016. Segir í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að sækja skuli um ráðstöfun á uppsöfnuðum iðgjöldum eigi síðar en tólf mánuðum frá undirritun kaupsamnings, eða þeim degi sem nýbygging fær fastanúmer, og skuli umsækjandi tilgreina upphafsmánuð úttektar í umsókn sinni. Er greind viðmiðun reglugerðarákvæðisins við úthlutun fastanúmers í fasteignaskrá í samræmi við skilgreiningu hugtaksins íbúðarhúsnæði í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 555/2017, en þar kemur fram að sé um nýbyggingu að ræða skuli hún vera komin með fastanúmer í fasteignaskrá. Við sama tímamark er miðað í leiðbeiningum á vef ríkisskattstjóra þar sem finna má upplýsingar um rétt fyrstu íbúðarkaupenda til að nýta og ráðstafa séreignarsparnaði sínum, sbr. lög nr. 111/2016, og um umsóknarferli, þar með talið lögbundinn umsóknarfrest. Í leiðbeiningum þessum kemur fram að sé sótt um úttekt vegna nýbyggingar þurfi umsókn að berast í síðasta lagi tólf mánuðum eftir að eignin fær fastanúmer í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Fyrir liggur í málinu að umsókn kæranda um ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna S barst ríkisskattstjóra 7. janúar 2021. Verður því að fallast á með ríkisskattstjóra að umsóknin hafi borist að liðnum lögboðnum tólf mánaða fresti samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2016, sbr. 3. gr. laga nr. 63/2017, sbr. og fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 555/2017. Af hálfu kæranda hefur ekkert komið fram um að afsakanlegar ástæður hafi legið að baki hinni síðbúnu umsókn hans þannig að ríkisskattstjóra hafi verið rétt að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar, sbr. til hliðsjónar ákvæði um afleiðingar þess er kæra til æðra stjórnvalds berst að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kæranda um endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar ríkisskattstjóra.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja