Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjufallsstyrkur

Úrskurður nr. 195/2021

Lög nr. 118/2020, 4. gr. 1. tölul.  

Kærandi, sem var einkahlutafélag, taldi að við mat á tekjufalli félagsins við ákvörðun tekjufallsstyrks bæri einungis að líta til tekna félagsins af rekstri hótels og ferðaþjónustu en ekki til tekna þess af afurðasölu. Yfirskattanefnd taldi að af lögum yrði ekki önnur ályktun dregin en sú að við mat á tekjufalli rekstraraðila bæri að miða við heildartekjur viðkomandi aðila. Sú aðferð að greina á milli ólíkra rekstrarþátta í blandaðri starfsemi eins og sama aðila þannig að við mat á tekjufalli væri einungis tekið tillit til sumra þátta starfsemi en annarra ekki fengi því ekki staðist að lögum. Að því gættu og þar sem fyrir lá að tekjufall kæranda milli áranna 2019 og 2020 var undir lögbundnu 40% lágmarki var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2021, miðvikudaginn 8. desember, er tekið fyrir mál nr. 136/2021; kæra A ehf., dags. 19. júlí 2021, vegna ákvörðunar um tekjufallsstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 19. júlí 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 20. apríl 2021, að hafna umsókn kæranda um tekjufallsstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki. Ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 4. mars 2021, og svarbréf kæranda, dags. 9. apríl 2021. Í bréfi þessu óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum kæranda á tilfærðum rekstrartekjum í umsókn félagsins um tekjufallsstyrk og benti á að fjárhæð þeirra væri ekki í samræmi við virðisaukaskattsskil kæranda. Í svarbréfi kæranda, dags. 9. apríl 2021, kom fram að megintilgangur kæranda væri rekstur ferðaþjónustu. Félagið starfrækti hótel, veitingahús og ýmsa ferðatengda þjónustu. Fram kom að fyrir nokkrum árum hefði kærandi hafist handa við að þróa og selja framleiðsluafurðir. Sú starfsemi hefði vaxið hratt og tekjur af afurðasölu numið ... milljónum króna á árinu 2019 og ... milljónum króna á árinu 2020. Tekjur af ferðaþjónustu hefðu hins vegar dregist saman um ... milljónir króna milli þessara ára. Virðisaukaskattsskyld velta kæranda væri þannig vegna beggja rekstrarþátta, þ.e. ferðaþjónustu og afurðasölu, en af hálfu kæranda væri miðað við að umsókn félagsins um tekjufallsstyrk tæki einvörðungu til ferðaþjónustu.

Höfnun ríkisskattstjóra samkvæmt hinni kærðu ákvörðun embættisins byggðist á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 um a.m.k. 40% tekjufall á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Í ákvörðun sinni tók ríkisskattstjóri orðrétt upp ákvæði 1. gr. laga nr. 118/2020 og benti á að samkvæmt því féllu undir lögin lögaðilar sem væru sjálfstæðir skattaðilar og bæru einkvæmt auðkennisnúmer samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá. Kennitala tæki aðeins til eins lögaðila og annar lögaðili gæti ekki haft sömu kennitölu, né gæti atvinnurekstur eins lögaðila tilheyrt öðrum. Að mati ríkisskattstjóra væri ljóst af lögum nr. 118/2020 og frumvarpi því er orðið hefði að þeim lögum að með lögaðila væri átt við sama lögaðila sem bæri hið einkvæma auðkennisnúmer. Samkvæmt þessu væri með tekjum samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga nr. 118/2020 horft til heildartekna viðkomandi lögaðila, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að undanskildum söluhagnaði fyrnanlegra eigna og heildarkostnaði, sbr. 1. tölul. 31. gr. sömu laga, og að undanskildum niðurfærslum og fyrningu eigna. Engin heimild væri til þess að skipta starfsemi eftir starfsþáttum og draga einstaka þætti starfseminnar út úr heildarstarfsemi við mat á tekjufalli hjá umsækjanda um tekjufallsstyrk. Einungis væri því heimilt „að horfa til breytinga á tekjum félagsins á kennitölu þess“ en ekki að taka einungis með í reikninginn hluta tekna, þ.e. í tilviki kæranda tekna af ferðaþjónustu. Með hliðsjón af framangreindu væri ljóst að upplýsingar um tekjur kæranda í umsókn félagsins væru ekki réttar. Miðað við heildartekjur félagsins á völdu tímabili reiknaðist tekjufall þess 14,60% í stað 88,54%, svo sem kærandi hefði tilgreint. Yrði því að hafna kröfu kæranda.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt og að kæranda verði ákvarðaður tekjufallsstyrkur í samræmi við umsókn félagsins. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði. Í kærunni kemur fram að megintilgangur kæranda hafi verið rekstur ferðaþjónustu, þ.e. hótels auk veitingastaðar og tengdrar þjónustu. Á undanförnum árum hafi stjórnendur félagsins þróað viðburði fyrir ferðamenn og mikill vöxtur hafi verið í starfseminni á þessum tíma. Á síðustu árum hafi kærandi síðan þróað og selt tilteknar afurðir, en sú starfsemi sé rekin óháð ferðaþjónustu að því undanskildu að yfirstjórn sé sameiginleg. Þá er tekið fram að kærandi sé með langtímalán sem skiptist þannig að ... milljónir króna séu vegna ferðaþjónustu og ... milljónir króna séu vegna afurðasölu. Nánast allar tekjur af ferðaþjónustu kæranda hafi myndast á tímabilinu frá maí til september ár hvert og hafi tekjur af þjónustunni numið ... milljónum króna á árinu 2019. Áætlanir fyrir árið 2020 hafi gert ráð fyrir tekjum að fjárhæð ... milljónum króna af ferðaþjónustu, en þær áætlanir hafi ekki gengið eftir og tekjur af ferðaþjónustu á árinu 2020 hafi aðeins numið um ... milljónum króna og því ekki einu sinni staðið undir greiðslu af lánum vegna ferðaþjónustuhluta starfsemi kæranda. Samkvæmt meðfylgjandi yfirliti hafi tekjusamdráttur numið ... milljónum króna á tímabilinu 1. apríl - 31. október. Tilfærð velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum kæranda sé til komin vegna beggja rekstrarþátta sem geri samanburð við virðisaukaskattsskýrslur án greiningar starfsþátta ónákvæman. Telji stjórnendur og eigendur kæranda að ákvörðun þeirra um að bæta þróun og sölu afurða við rekstur félagsins eigi ekki að útiloka félagið frá því að njóta úrræða stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

II.

Með bréfi, dags. 20. september 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, 27. september 2021, hefur kærandi gert athugasemdir vegna umsagnar ríkisskattstjóra og ítrekar gerðar kröfur.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. apríl 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 118/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra tekjufallsstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru upp í þremur töluliðum í lagagreininni.

Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 er skilyrði fyrir greiðslu tekjufallsstyrks að tekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 hafi verið a.m.k. 40% lægri en meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili 2019 og tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans bornar saman við tekjur hans fyrstu sjö heilu almanaksmánuði sem hann starfaði. Hafi hann starfað skemur en sjö heila almanaksmánuði í lok mars 2020 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í 214 daga viðmiðunartekjur. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-3. málsl. ákvæðisins. Samkvæmt orðskýringu í 3. gr. laga nr. 118/2020 er með tekjum átt við skattskyldar tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna, sbr. 6. tölul. lagagreinarinnar.

Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag sem rekur gistiheimili og ferðaþjónustu og hefur jafnframt með höndum afurðasölu. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins, sbr. m.a. yfirlit er fylgdi bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 9. apríl 2021, að tekjufall kæranda milli áranna 2019 og 2020 er undir lögbundnu 40% lágmarki samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 eða 14,6% samkvæmt því sem fram kemur í ákvörðun ríkisskattstjóra. Af hálfu kæranda er hins vegar byggt á því að við mat á tekjufalli félagsins beri einungis að líta til tekna félagsins af rekstri gistiheimilis og ferðaþjónustu en ekki til tekna þess af afurðasölu. Er bent á í kæru að tekjufall milli ára vegna hins fyrrnefnda rekstrarþáttar sé tæplega 90%. Af þessu tilefni skal tekið fram að af fyrrgreindum ákvæðum 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 og ákvæðum þeirra laga að öðru leyti verður ekki önnur ályktun dregin en sú að við mat á tekjufalli rekstraraðila beri að miða við heildartekjur viðkomandi aðila, þ.e. skattskyldar tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna, sbr. m.a. skilgreiningu hugtaksins „tekjur“ í 6. tölul. 3. gr. laga nr. 118/2020. Verður því ekki talið að sú aðferð sem kærandi byggir á í þessum efnum, þ.e. að greina á milli ólíkra rekstrarþátta í blandaðri starfsemi eins og sama rekstraraðila þannig að við mat á tekjufalli sé einungis tekið tillit til sumra þátta starfseminnar en annarra ekki, fái staðist að lögum. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að stuðningur eftir greindum lögum nr. 118/2020 tekur ekki til allra rekstraraðila sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs eða aðgerða stjórnvalda vegna hans heldur eingöngu þeirra rekstraraðila sem orðið hafa fyrir a.m.k. 40% tekjufalli. Að þessu athuguðu og með vísan til 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 verður að hafna kröfu kæranda. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu hans um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja