Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna staðgreiðsluskila

Úrskurður nr. 197/2021

Staðgreiðsla 2021

Lög nr. 45/1987, 28. gr. 6. mgr.  

Kröfu kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu í mars 2021 var hafnað með úrskurði yfirskattanefndar. Vegna skýringa kæranda þess efnis, að ekki hefði tekist að greiða staðgreiðsluna á eindaga vegna reglna um háar greiðslur í stórgreiðsluhluta millibankagreiðslukerfis Seðlabanka Íslands, kom fram að ganga yrði út frá því að kæranda hafi átt að vera kunnugt um skilmála viðskiptabanka síns varðandi rafræn greiðslufyrirmæli.

Ár 2021, miðvikudaginn 8. desember, er tekið fyrir mál nr. 126/2021; kæra A, dags. 30. júní 2021, vegna ákvörðunar staðgreiðslu opinberra gjalda árið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 30. júní 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 13. apríl 2021. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu opinberra gjalda. Af hálfu kæranda er þess krafist að álag verði fellt niður á grundvelli 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir febrúar mánuð 2021, en gjalddagi var 1. mars 2021 og eindagi 15. sama mánaðar. Í gögnum málsins eru rakin tölvupóstsamskipti kæranda og ríkisskattstjóra. Kom fram í tölvupósti kæranda til ríkisskattstjóra 16. mars 2021 að ekki hefði tekist að greiða kröfu vegna staðgreiðslu, að fjárhæð 67.646.357 kr., vegna þess að viðskiptabanki kæranda lokaði fyrir svo háar greiðslur eftir kl. 16:15 síðdegis. Vísaði kærandi til þess að náðst hefði í þjónustufulltrúa hjá viðkomandi banka sem hefði ætlað að „valitera“ greiðsluna. Þá liggja fyrir í málinu tölvupóstsamskipti þjónustufulltrúa viðskiptabanka kæranda og ríkisskattstjóra 16. mars þar sem bankinn staðfesti að hann hefði fengið ósk um greiðslu kröfunnar 15. mars. Viðkomandi starfsmaður bankans, þ.e. tengiliður kæranda, hefði þá verið farinn úr vinnu, en hefði síðan ætlað að greiða kröfuna að morgni 16. mars 2021 með „valideringu“. Í svarpósti ríkisskattstjóra til kæranda og viðskiptabanka hans kom fram að þar sem greiðslan hefði ekki verið innt réttilega af hendi á eindaga kröfunnar bæri hún dráttarvexti frá gjalddaga. Dráttarvextir væru lögboðnir í 10. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, og ekki væri heimilt að fella þá niður nema til staðar væri sérstök heimild í lögum. Engin slík heimild væri í lögum hvað varðaði tryggingagjaldið og því væri ekki heimilt að fella niður dráttarvexti, sbr. 7. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Benti ríkisskattstjóri á að varðandi álag á staðgreiðslu væri unnt að senda inn ósk um niðurfellingu til ríkisskattstjóra.

Með úrskurði, dags. 13. apríl 2021, hafnaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um niðurfellingu álags. Í úrskurðinum reifaði ríkisskattstjóri málavexti og rakti ákvæði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, um að ef launagreiðandi sem ekki innti greiðslu, sbr. 20. gr. laganna, af hendi á tilskildum tíma, skyldi hann sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins eða til viðbótar því skilafé sem honum bæri að standa skil á. Þá rakti ríkisskattstjóri hvernig álag á vanskilafé, sbr. 1. mgr., skyldi vera. Fella mætti niður álag ef launagreiðandi færði gildar ástæður sér til afsökunar og mæti ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skyldi gildar ástæður í því sambandi, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Að mati ríkisskattstjóra yrði eigi á það fallist að tilvik kæranda hefði borið að með þeim hætti að ómögulegt eða illgerlegt hefði verið að sjá svo um að tilskilin greiðsla yrði innt af hendi innan settra tímamarka. Eindagi í staðgreiðslu væri 15. hvers mánaðar, en eftir eindaga birtist krafa í heimabanka og væri hún þá með álögðum kostnaði. Kærandi teldist því ekki hafa fært fram gildar ástæður sér til afsökunar, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Var beiðni kæranda um niðurfellingu álags vegna skila á staðgreiðslu fyrir febrúarmánuð 2021 því hafnað.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 30. júní 2021. Krafa kæranda um niðurfellingu álags er byggð á 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Í kærunni er vísað til þess að kærandi hafi sýnt fram á að hann hafi gert sitt besta til að inna af hendi staðgreiðsluskatta til Fjársýslu ríkisins 15. mars 2021. Kærandi hafi raunverulega innt greiðsluna af hendi á tilsettum tíma, en af tæknilegum ástæðum, sem gerð sé grein fyrir í kæru, hafi ekki tekist að ljúka ferlinu að öllu leyti fyrr en 16. mars. Sé það mat kæranda að í málinu liggi fyrir „gildar ástæður“ í skilningi 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og að fella beri úrskurð ríkisskattstjóra úr gildi. Er bent á að kærandi hafi ávallt staðið í skilum með opinber gjöld og vörsluskatta sem inna beri af hendi til ríkisins og greitt á tilsettum tíma. Hér sé því um einstakt óhappatilvik að ræða. Álag sem lagt sé á kæranda nemi umtalsverðri fjárhæð eða 538.565 kr. Sé í því sambandi vísað til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem hljóti að eiga við í tilviki kæranda. Með því að beita svo íþyngjandi úrræði sem gert hafi verið af hálfu ríkisskattstjóra hafi meðalhófsreglu ekki verið gætt.

IV.

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að ekki séu fyrir hendi gildar afsökunarástæður til niðurfellingar álags samkvæmt 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. ágúst 2021, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisríkisskattstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Í máli þessu er ágreiningur um beitingu álags á vangreidda staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. skilaskyldu kæranda samkvæmt ákvæðum 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Um er að ræða vangreidda staðgreiðslu vegna febrúar 2021 og var gjalddagi skattsins 1. mars 2021 og eindagi 14 dögum síðar eða 15. mars 2021, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Óumdeilt er í málinu að greiðsla skattsins fór fram 16. mars 2021, en starfsmanni kæranda varð ljóst degi fyrr eða 15. mars 2021 að ekki hefði tekist að greiða skattinn þar sem viðskiptabanki kæranda lokaði fyrir svo háar greiðslur eftir kl. 16:15. Var kæranda gert að greiða álag samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 vegna síðbúinnar greiðslu. Ríkisskattstjóri synjaði kröfu kæranda um niðurfellingu álags með úrskurði, dags. 13. apríl 2021, þar sem embættið taldi að af hálfu kæranda hefðu ekki verið færðar fram gildar ástæður fyrir niðurfellingu álags, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Af hálfu kæranda er þess krafist í kæru til yfirskattanefndar að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að álag verði fellt niður. Er krafan einkum studd þeim rökum að kærandi hafi sýnt fram á að hann hafi gert sitt besta til að inna af hendi greiðsluna 15. mars 2021, en af tæknilegum ástæðum hafi ekki verið unnt að ljúka ferlinu að öllu leyti fyrr en 16. mars. Þá bendir kærandi á að hann hafi ávallt staðið í skilum með opinber gjöld.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, skal launagreiðandi ótilkvaddur greiða mánaðarlega það fé sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir á greiðslutímabilum næstliðins mánaðar samkvæmt ákvæðum 15.-17. gr. laganna. Í 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987 er mælt svo fyrir að gjalddagi greiðslu samkvæmt 1. mgr. greinarinnar sé 1. hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Þá er boðið að launagreiðandi skuli sæta álagi samkvæmt 28. gr. laganna hafi hann eigi greitt á eindaga. Í 28. gr. laga nr. 45/1987 er fjallað um álag á vanskilafé í staðgreiðslu og beitingu þess. Í 1. mgr. greinarinnar er tekið fram að séu greiðslur launagreiðanda samkvæmt 20. gr. ekki inntar af hendi á tilskildum tíma skuli hann sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins, eða til viðbótar því skilafé sem honum bar að standa skil á. Sama gildi ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og greiðsluskyld fjárhæð því verið áætluð, sbr. 21. gr., nema launagreiðandi hafi greitt fyrir eindaga upphæð er svarar til áætlunar. Í 2. mgr. 28. gr. eru síðan ákvæði um álag á vanskilafé. Samkvæmt 6. mgr. greinarinnar má fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef launagreiðandi færir gildar ástæður sér til afsökunar og metur ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Fyrir liggur að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á staðgreiðslu opinberra gjalda þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Þá er álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 lögbundið og leiðir sjálfkrafa af þeim tilteknu aðstæðum sem lýst er í 1. mgr. greinarinnar. Er því ekki að lögum til að dreifa mati ríkisskattstjóra á beitingu álags að undanskilinni niðurfellingu álags samkvæmt heimildarákvæði 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 við þær sérstöku aðstæður er þar greinir. Veltur því úrlausn málsins á því hvort fram komnar upplýsingar um ástæður þess að ekki var greidd staðgreiðsla á eindaga eigi að leiða til niðurfellingar álags á grundvelli þess ákvæðis.

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi þann háttinn á að greiða umrædda kröfu með rafrænum hætti í heimabanka, sbr. til hliðsjónar 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 13/2003, um skil á staðgreiðslu útsvars, tekjuskatts og tryggingagjalds. Um slíkar kröfufjárhæðir, sem eru hærri en 10.000.000 kr., gilda reglur Seðlabanka Íslands nr. 1030/2020, um millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands. Samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglnanna á „millibankakerfi“ skiptist það í tvo hluta, stórgreiðsluhluta og smágreiðsluhluta. Í 7. gr. reglnanna er mælt fyrir um opnunartíma hvors hluta millibankakerfisins og tilgreint að upplýsingar um opnunartíma og uppgjörstíma hvors hluta megi nálgast á vefsíðu Seðlabankans. Á vefsíðu Seðlabankans er síðan sérstaklega tilgreint að stórgreiðslukerfið sé opið fyrir hefðbundna greiðslumiðlun milli viðskiptavina þátttakenda milli kl. 9:00 og 16:30 á viðskiptadögum. Tekið skal fram að hér er ekki um að ræða breytingu frá reglum en samkvæmt áðurgildandi reglum nr. 703/2009, um stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands, skyldi stórgreiðslukerfið starfrækt frá kl. 9.00 til 16.30, og frá 16.15 skyldu þátttakendur loka fyrir greiðslufyrirmæli frá viðskiptavinum sínum sem væru yfir stórgreiðslumörkum. Tekið skal fram að á vefsíðu ríkisskattstjóra er jafnframt sérstaklega tilgreint að greiðslur sem nemi 10.000.000 kr. eða hærra þurfi að framkvæma milli kl. 9:00 og 16:15 á virkum bankadögum.

Í málinu liggur fyrir að hinn 15. mars 2021 reyndi kærandi að greiða staðgreiðslu vegna febrúarmánaðar 2021 að fjárhæð 67.646.357 kr. í heimabanka, en vegna reglna stórgreiðsluhluta millibankagreiðslukerfis Seðlabanka Íslands, sem tekur til greiðslna að fjárhæð 10.000.000 kr. eða hærri, fór greiðsla ekki fram, enda er stórgreiðsluhluti kerfisins einungis starfræktur milli kl. 9:00 og 16:15 á almennum bankadögum, sbr. fyrrnefndar reglur nr. 1030/2020. Ganga verður út frá því að kæranda hafi átt að vera kunnugt um skilmála viðskiptabanka síns varðandi rafræn greiðslufyrirmæli. Þegar virt eru atvik að þeim drætti á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem í málinu greinir, eins og þeim er lýst samkvæmt skýringum kæranda, verður að telja að hér sé um að ræða atriði sem kærandi ber einn ábyrgð á og verða ekki að neinu leyti kennd utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Samkvæmt þessu þykir kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður er geti leyst hann undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987.

Vegna athugasemda í kæru til yfirskattanefndar varðandi meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skal áréttað að beiting álags samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 er lögbundin og leiðir sjálfkrafa af þeim aðstæðum sem lýst er í ákvæðinu, sbr. hér að framan. Verður því ekki talið að meðalhófsregla hafi staðið í vegi fyrir beitingu álagsins.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið, er kröfu kæranda um niðurfellingu álags hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja