Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjufallsstyrkur

Úrskurður nr. 204/2021

Lög nr. 118/2020, 4. gr. 1. tölul.  

Kærandi var einkahlutafélag sem stofnað var vorið 2020 um rekstur gistiheimilis sem áður var rekið í nafni R og S, eigenda alls hlutafjár í kæranda. Í máli þessu vegna umsóknar kæranda um tekjufallsstyrk taldi yfirskattanefnd að eins og lagareglum um slíka styrki væri háttað, þar sem gengið væri út frá sjálfstæðum rétti hvers og eins rekstraraðila fyrir sig, yrði að telja að það krefðist sérstakrar heimildar í lögum þessum ef mat á tekjufalli gæti undir einhverjum kringumstæðum tekið mið af tekjum fleiri en eins rekstraraðila. Var kröfu kæranda, sem byggði á samanburði á tekjum af rekstri gistiheimilisins á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 og tekjum af rekstrinum á sjö mánaða viðmiðunartímabili á árinu 2019 þegar reksturinn var á nafni R og S, hafnað.

Ár 2021, föstudaginn 17. desember, er tekið fyrir mál nr. 128/2021; kæra A ehf., dags. 1. júlí 2021, vegna ákvörðunar um tekjufallsstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 1. júlí 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 11. maí 2021, að hafna umsókn kæranda um tekjufallsstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki. Byggðist höfnun ríkisskattstjóra á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020. Í ákvörðun ríkisskattstjóra var rakið að af lögum nr. 118/2020 og frumvarpi því, er varð að þeim lögum, væri ljóst að með rekstraraðila í skilningi 1. tölul. 4. gr. laganna væri átt við einn og sama lögaðilann eða einstaklinginn sem bæri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi og hefði sama auðkennisnúmer. Í umsókn kæranda um tekjufallsstyrk kæmi fram að rekstur gistiheimilisins M á árinu 2019, hefði verið á virðisaukaskattsnúmeri og kennitölu R, en á árinu 2020 hefði verið stofnað einkahlutafélag um reksturinn á annarri kennitölu. Samkvæmt lögum nr. 118/2020 væri litið til tekna og gjalda hvers lögaðila fyrir sig og hvers einstaklings í rekstri fyrir sig, þ.e. hverja kennitölu, eða með öðrum orðum atvinnurekstur tiltekins lögaðila eða einstaklings, en ekki tiltekins rekstrar sem slíks. Það væri meginregla samkvæmt framangreindu ákvæði að bera skyldi saman meðaltekjur viðkomandi rekstraraðila á árinu 2019 við tekjur hans á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020. Tók ríkisskattstjóri fram að ekki væri til að dreifa sérstakri heimild í lögum nr. 118/2020 til að taka tillit til þeirra aðstæðna þegar félag tæki yfir rekstur einstaklings þannig að fram færi samanburður á tekjum umsækjanda um tekjufallsstyrk og viðkomandi einstaklings sem áður hefði stundað hlutaðeigandi rekstur. Umsókn kæranda um tekjufallsstyrk væri því hafnað.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að kæranda verði veittur tekjufallsstyrkur. Er tekið fram að höfnun ríkisskattstjóra hafi byggst á því að ekki séu lagalegar heimildir til að veita kæranda tekjufallsstyrk. Kæranda hafi ekki verið leiðbeint um að sækja um styrk vegna niðurlagningar fyrirtækis, en kærandi telji að stjórnvaldi beri skylda til að leiðbeina um slíkt. Um sé að ræða sama fyrirtæki og það eina sem hafi breyst sé að ný kennitala hafi tekið við rekstrinum. Sömu eigendur standi að rekstrinum og áður.

II.

Með bréfi, dags. 23. ágúst 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 8. september 2021, hefur kærandi lagt fram athugasemdir í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Kemur fram að kærandi sé ósammála niðurstöðu ríkisskattstjóra um að við samanburð á tekjufalli milli ára sé átt við einn og sama aðila. Telji kærandi heimilt að bera saman tekjur vegna áranna 2019 og 2020 í tilviki félagsins þar sem um sama rekstur sé að ræða í eigu sömu aðila. Vísar kærandi til markmiðs laga nr. 118/2020, sbr. 2. gr. laganna, sem og til skýringa í greinargerð með lögunum. Óumdeilt sé að kærandi hafi orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Telji kærandi ljóst að tilgangur laganna hafi verið að styðja við starfsemi eins og um ræði í máli þessu og önnur niðurstaða leiði til þess að hreinlega sé farið gegn tilgangi laganna og kæranda í raun refsað fyrir það eitt að hafa breytt um rekstrarform.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. apríl 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 118/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra tekjufallsstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í þremur töluliðum í lagagreininni.

Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 er skilyrði fyrir greiðslu tekjufallsstyrks að tekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 hafi verið a.m.k. 40% lægri en meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili 2019 og tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans bornar saman við tekjur hans fyrstu sjö heilu almanaksmánuði sem hann starfaði. Hafi hann starfað skemur en sjö heila almanaksmánuði í lok mars 2020 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í 214 daga viðmiðunartekjur. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-3. málsl. ákvæðisins.

Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag og hefur með höndum rekstur gistiheimilis. Var félagið stofnað um vorið 2020 samkvæmt því sem skráð er í hlutafélagaskrá. Fram kemur í gögnum málsins að R og S, eigendur alls hlutafjár í kæranda, hafi rekið gistiheimilið í eigin nafni á árinu 2019, en vorið 2020 hafi þau að ráðum bókhaldsþjónustu stofnað félag um reksturinn, þ.e. kæranda í máli þessu. Í umsókn kæranda um tekjufallsstyrk var rakið að reksturinn hefði gengið með ágætum á árinu 2019 sem hafi þó verið fyrsta heila rekstrarár gistiheimilisins. Á árinu 2020 hafi starfsemin hins vegar verið lítil sem engin nema fyrstu vormánuði þess árs. Umsókninni mun hafa fylgt skjal þar sem bornar voru saman tekjur af rekstri gistiheimilisins á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 og tekjur af rekstrinum á sjö mánaða viðmiðunartímabili á árinu 2019 og tekjufall milli ára talið nema 78,49%. Af hálfu kæranda er byggt á því að þar sem einungis hafi verið um að ræða breytingu á rekstrarformi gistiheimilisins með stofnun kæranda á árinu 2020 eigi stofnun félagsins og yfirtaka þess á rekstri R og S ekki að girða fyrir möguleika á tekjufallsstyrk með samanburði á tekjum af rekstrinum milli áranna 2019 og 2020. Er vísað til markmiðs laga nr. 118/2020 í því sambandi, sbr. 2. gr. laganna.

Í lögum nr. 118/2020 er engum ákvæðum til að dreifa um það hvernig háttað sé rétti til tekjufallsstyrks við þær aðstæður þegar til breytinga hefur komið á rekstrarformi hlutaðeigandi rekstraraðila milli áranna 2019 og 2020, t.d. þegar nýstofnað einkahlutafélag tekur við rekstri sem áður hefur verið á vegum einstaklings, svo sem við á í tilviki kæranda. Eins og almennum reglum laga þessara er háttað, þar sem gengið er út frá sjálfstæðum rétti hvers og eins rekstraraðila fyrir sig, sbr. 1. gr. laganna og skilgreiningu hugtaksins „rekstraraðili“ í 3. tölul. 3. gr. þeirra, verður að telja að það krefðist sérstakrar heimildar í lögunum ef mat á tekjufalli samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laganna gæti undir einhverjum kringumstæðum tekið mið af tekjum fleiri en eins rekstraraðila. Slíkri heimild er hvorki til að dreifa í 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 né annars staðar í lögunum. Þá er hvergi í lögunum gert ráð fyrir sameiginlegri umsókn fleiri en eins rekstraraðila um tekjufallsstyrk. Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja