Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna staðgreiðsluskila

Úrskurður nr. 210/2021

Lög nr. 94/1996, 17. gr. 6. mgr.  

Fallist var á kröfu kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu, en hin síðbúnu skil áttu rót sína að rekja til mistaka fjármálafyrirtækis.

 

 

Ár 2021, föstudaginn 17. desember, er tekið fyrir mál nr. 179/2021; kæra A ehf., dags. 30. september 2021, vegna ákvörðunar staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur árið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 30. september 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 13. júlí 2021. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum. Af hálfu kæranda er þess krafist að álag verði fellt niður.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts vegna greiðslutímabilsins janúar-mars 2021, en gjalddagi var 20. apríl 2021 og eindagi 4. maí sama ár. Sætti kærandi af þessum sökum álagsbeitingu samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Nam fjárhæð álags 3.863.229 kr. samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins.

Með tölvupósti til ríkisskattstjóra 21. júní 2021 fór kærandi fram á niðurfellingu álagsins. Kom fram að kærandi væri í viðskiptum við X hf. Kærandi hefði úthlutað arði til hluthafa sinna á fyrsta greiðslutímabili á árinu 2021 og því borið að standa skil á staðgreiðslu skatts að fjárhæð 38.632.290 kr. Kærandi hefði gefið X hf. fyrirmæli um að standa skil á framangreindri fjárhæð, en meðfylgjandi þeim fyrirmælum hefði verið skilagrein vegna staðgreiðslu af arði, svo sem meðfylgjandi gögn bæru með sér. Mistök X hf. hefðu hins vegar orðið til þess að greiðslan hefði ekki verið innt af hendi á réttum tíma. Yrði kæranda ekki kennt um það.

Ríkisskattstjóri tók erindið til afgreiðslu þann 13. júlí 2021 á grundvelli 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Varð það niðurstaða ríkisskattstjóra að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu álags. Ríkisskattstjóri rakti ákvæði 17. gr. laga nr. 94/1996 þar sem fram kæmi að væru greiðslur samkvæmt lögum þessum ekki inntar af hendi á tilskildum tíma skyldi ríkisskattstjóri gera skilaskyldum aðila að sæta álagi til viðbótar þeim skatti sem honum hefði borið að standa skil á. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. mætti fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef skilaskyldur aðili færði gildar ástæður sér til afsökunar og mæti ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skyldi gildar ástæður í þessu sambandi. Að mati ríkisskattstjóra yrði eigi á það fallist að tilgreint tilvik kæranda hefði borið að með þeim hætti að ómögulegt eða illgerlegt hefði verið að sjá svo um að greiðsla væri innt af hendi innan settra tímamarka þar sem eindagi á skilum fjármagnstekjuskatts vegna fyrsta tímabils ársins 2021 hefði verið 5. maí 2021. Væri það mat ríkisskattstjóra að kærandi hefði ekki fært fram gildar ástæður sér til afsökunar, sbr. 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996, og yrði því að synja beiðni félagsins um niðurfellingu álags.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að álag vegna síðbúinnar staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts verði fellt niður. Krafa kæranda um niðurfellingu álags er byggð á 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Er vísað til þess í kærunni að kærandi sé í viðskiptum við X hf. og veiti X hf. fyrirmæli um greiðslur þegar svo beri undir. Fyrir liggi að tafir hafi orðið á greiðslu fjármagnstekjuskatts af arðgreiðslu á árinu 2021 og að greiðslan hafi ekki verið innt af hendi fyrr en að loknum eindaga. Hafi ríkisskattstjóri því ákvarðað félaginu álag auk dráttarvaxta. Kærandi hafi hins vegar gefið X hf. skýr fyrirmæli um að standa skil á framangreindri greiðslu. Í ljósi þess að um mannleg mistök hjá X hf. hafi verið að ræða hafi kærandi farið fram á niðurfellingu álags og dráttarvaxta hjá ríkisskattstjóra með vísan til 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996, sbr. og úrskurð yfirskattanefndar nr. 392/2003. Annmarkar séu á málavaxtalýsingu ríkisskattstjóra og rökstuðningi í hinni kærðu ákvörðun. Í fyrsta lagi hafi kærandi bent á að mistök X hf. hafi valdið hinum síðbúnu skilum og í því sambandi vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 392/2003. Í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra sé ekki vikið að þessu og sé rökstuðningi ríkisskattstjóra því ábótavant, sbr. 3. mgr. 21. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sé hinn kærði úrskurður haldinn verulegum annmörkum.

Með vísan til þess að kærandi hafi gefið X hf. fyrirmæli um að standa skil á staðgreiðslu skatts af þeim fjármagnstekjum sem félagið greiddi út, en mistök þess félags hafi orðið til þess að greiðslan var ekki innt af hendi á réttum tíma, sé gerð krafa um endurgreiðslu álags með vísan til 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Hin síðbúnu skil verði ekki rakin til kæranda heldur til viðskiptabanka félagsins. Er í þessu sambandi einnig vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 392/2003 þar sem sambærilegt tilvik hafi verið til umfjöllunar. Fylgir kærunni m.a. útprentun á tölvupóstsamskiptum milli kæranda og X hf. og yfirlýsing frá X hf., dags. 29. september 2021, þar sem fram kemur að hin síðbúnu skil staðgreiðslu kæranda vegna greiðslutímabilsins janúar-mars 2021 megi rekja til mannlegra mistaka hjá X hf.

IV.

Með bréfi, dags. 26. október 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Að mati ríkisskattstjóra séu ekki fyrir hendi gildar afsökunarástæður til niðurfellingar álags samkvæmt 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 29. október 2021, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Í máli þessu er ágreiningur um beitingu álags á vangreidda staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, sbr. skilaskyldu kæranda samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með áorðnum breytingum. Um er að ræða vangreidda staðgreiðslu vegna greiðslutímabilsins janúar-mars 2021 og var gjalddagi skattsins 20. apríl 2021 og eindagi 15 dögum síðar eða 4. maí 2021, sbr. 7. gr. laga nr. 94/1996, eins og ákvæði þessu var breytt með 5. gr. laga nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Var kæranda gert að greiða álag samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 vegna síðbúinnar greiðslu. Ríkisskattstjóri synjaði um niðurfellingu álagsins með hinum kærða úrskurði, dags. 13. júlí 2021, þar sem embættið taldi að af hálfu kæranda hefðu ekki verið færðar fram gildar ástæður fyrir niðurfellingu álags samkvæmt 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 94/1996, eins og ákvæðinu var breytt með 5. gr. laga nr. 70/2009, skal greiðslutímabil skatts samkvæmt lögunum vera þrír mánuðir, þ.e. janúar-mars, apríl-júní, júlí-september og október-desember. Gjalddagar eru 20. apríl, 20. júlí, 20. október og 20. janúar og eindagi 15 dögum síðar. Í 8. gr. laganna segir að skilaskyldur aðili samkvæmt 3. gr. skuli ótilkvaddur greiða á gjalddaga samkvæmt 7. gr. skatt samkvæmt lögunum og skuli inna greiðslu af hendi til innheimtumanns ríkissjóðs í því umdæmi sem skilaskyldur aðili eigi lögheimili í. Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 er tekið fram að séu greiðslur samkvæmt lögunum eigi inntar af hendi á tilskildum tíma skuli ríkisskattstjóri gera skilaskyldum aðila að sæta álagi til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Sama gildir ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og skattur því verið áætlaður, sbr. 3. mgr. 9. gr., nema skilaskyldur aðili hafi greitt fyrir eindaga fjárhæð er svarar til áætlunarinnar. Í 2. mgr. 17. gr. eru síðan ákvæði um álag á vanskilafé samkvæmt 1. mgr. Þar er í fyrsta lagi mælt svo fyrir í 1. tölulið málsgreinarinnar að álagið skuli vera einn hundraðshluti af fjárhæð vanskilafjár fyrir hvern dag eftir eindaga, þó ekki hærra en tíu hundraðshlutar, og í öðru lagi er í 2. tölulið málsgreinarinnar mælt fyrir um álag til viðbótar af upphæð vanskilafjár reiknað frá og með gjalddaga, hafi ekki verið greitt á 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga, og skuli álag þetta vera hið sama og dráttarvextir sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. má fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef skilaskyldur aðili færir gildar ástæður sér til afsökunar og metur ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Samkvæmt framansögðu er álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 lögbundið og leiðir sjálfkrafa af þeim tilteknu aðstæðum sem lýst er í 1. mgr. greinarinnar. Er því ekki að lögum til að dreifa mati ríkisskattstjóra á beitingu álags að undanskilinni niðurfellingu álags samkvæmt heimildarákvæði 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996 við þær sérstöku aðstæður er þar greinir.

Fyrir liggur og er óumdeilt að kærandi stóð ekki skil á greiðslu fjármagnstekjuskatts á eindaga 4. maí 2021 þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Af hálfu kæranda er komið fram að mistök fjármálafyrirtækis, þ.e. X hf., hafi valdið hinum síðbúnu skilum staðgreiðslu og verði kæranda ekki kennt um þau. Þessu til stuðnings er vísað til bréfs X hf., dags. 29. september 2021, sem fylgdi kæru kæranda til yfirskattanefndar. Þessar skýringar kæranda hafa ekki verið vefengdar af hálfu ríkisskattstjóra. Þá hefur ekkert komið fram í málinu um að óeðlilegur dráttur hafi orðið á því að kærandi hlutaðist til um greiðslu á skattfjárhæð sem félaginu bar að standa skil á. Að svo vöxnu þykir mega taka kröfu kæranda um niðurfellingu álags til greina, sbr. heimild í 6. mgr. 17. gr. laga nr. 94/1996. Um úrskurðaframkvæmd í þessu sambandi má vísa til úrskurða yfirskattanefndar nr. 392/2003 og 320/2004.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Hið kærða álag fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja