Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tvísköttunarsamningur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 211/2021

Gjaldár 2021

Lög nr. 90/2003, 95. gr. 1. mgr.   Tvísköttunarsamningur við Ungverjaland.  

Í skattframtali sínu árið 2021 gerði kærandi grein fyrir tekjum frá Ungverjalandi í lið 2.8 og greiddum sköttum af þeim. Allt að einu voru tekjurnar skattlagðar að fullu hjá kæranda við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021 án þess að honum væri tilkynnt um þá ákvörðun. Eins og skattframtal kæranda lá fyrir ríkisskattstjóra fékk sú skattlagning að mati yfirskattanefndar ekki staðist með tilliti til ákvæða tvísköttunarsamnings milli Íslands og Ungverjalands. Af þessum sökum var ákvörðun ríkisskattstjóra ómerkt.

Ár 2021, föstudaginn 17. desember, er tekið fyrir mál nr. 172/2021; kæra A, dags. 23. september 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 23. september 2021, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. september 2021, til yfirskattanefndar. Samkvæmt úrskurði þessum synjaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda samkvæmt kæru, dags. 16. ágúst 2021, vegna álagðra opinberra gjalda gjaldárið 2021, þess efnis að framtaldar erlendar tekjur, sbr. lið 2.8 í skattframtali kæranda, yrðu færðar sem fjármagnstekjur og tekið tillit til skattgreiðslna í Ungverjalandi. Ríkisskattstjóri byggði synjun sína á því að kærandi hefði ekki lagt fram umbeðin gögn til stuðnings skattgreiðslum í Ungverjalandi.

II.

Í skattframtali kæranda árið 2021 var gerð grein fyrir stofni til tekjuskatts og útsvars að fjárhæð 4.940.659 kr., sbr. lið 2.7 í skattframtalinu, en auk þess tilfærði kærandi í lið 2.8 tekjur í Ungverjalandi að fjárhæð 23.310.000 HUF eða 10.517.472 kr. miðað við gengi 0,45. Tegund tekna var tilgreind „Aðrar tekjur“. Jafnframt kom fram að greiddir hefðu verið skattar að fjárhæð 3.820.976 HUF af nefndum tekjum í Ungverjalandi. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021 var tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda ákvarðaður 15.458.131 kr. Ekki verður séð að ríkisskattstjóri hafi neitt litið til upplýsinga í skattframtali kæranda um skattgreiðslur erlendis.

Kærandi mótmælti álagningunni með kæru, dags. 29. maí 2021. Í kærunni kom fram að tekjur kæranda 10.517.472 kr. í Ungverjalandi væru arðgreiðslur og hefði hann greitt skatt af þeim í Ungverjalandi með 3.820.976 HUF. Hugsanlega hefði hann átt að tilfæra arðgreiðslurnar í lið 3.6 í skattframtalinu. Ísland og Ungverjaland hefðu gert með sér tvísköttunarsamning og ættu greiðslur til kæranda því ekki að skattleggjast tvisvar. Með bréfi, dags. 16. ágúst 2021, sendi kærandi ríkisskattstjóra vottorð frá Ungverjalandi til staðfestingar á greiddum sköttum þar í landi.

Með bréfi, dags. 18. ágúst 2021, lagði ríkisskattstjóri fyrir kæranda að láta í té staðfestingu á að umræddur arður hefði verið skattlagður í Ungverjalandi og þyrfti staðfestingin að vera á ensku eða í enskri þýðingu. Var kæranda veittur 15 daga svarfrestur. Af hálfu kæranda var þessu bréfi ríkisskattstjóra ekki svarað og tók ríkisskattstjóri kæruna til meðferðar með hinum kærða úrskurði, dags. 21. september 2021, þar sem niðurstaðan varð sú sem gerð er grein fyrir í kafla I hér að framan. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til ákvæða 10. gr. og 2. tölul. 22. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Ungverjalands, sbr. auglýsingu nr. 2/2006 í C-deild Stjórnartíðinda.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar tekur kærandi fram að hann sé meðal eigenda B, félags í Ungverjalandi. Á árinu 2020 hafi kærandi fengið arð frá félaginu og hafi hann greitt skatt af arðinum í Ungverjalandi. Kærandi hafi sjálfur annast framtalsgerð sína hér á landi og hafi hann tilfært arðstekjur í röngum reit sem leitt hafi til þess að við álagningu opinberra gjalda hans hafi komið fram skattskuld. Fyrirtæki kæranda í Ungverjalandi hafi haldið eftir sköttum af arðgreiðslum til hans og staðið skil á þeim. Kærandi hafi sent ríkisskattstjóra staðfestingu frá skattyfirvöldum í Ungverjalandi um að hann skuldi ekki skatta þar í landi. Skattyfirvöld í Ungverjalandi séu ekki tilbúin til að staðfesta að allir skattar af arðgreiðslum greiddum á árinu 2020 hafi verið greiddir. Með sama hætti geti skattyfirvöld í Ungverjalandi staðfest að B skuldi ekki opinber gjöld en geti hins vegar ekki staðfest að félagið hafi greitt öll opinber gjöld af öllum arðgreiðslum á árinu 2020. B geti staðfest með bréfi að skattar hafi verið greiddir af öllum arðgreiðslum. Óski kærandi eftir leiðbeiningum um hvaða leið skattyfirvöld á Íslandi myndu taka gilda til staðfestingar á skattgreiðslum hans í Ungverjalandi og muni kærandi afla nauðsynlegra gagna og þýðingar á þeim á ensku eins fljótt og hann geti.

IV.

Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 26. október 2021, er farið fram á að kærunni verði vísað til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar. Þessu til stuðnings er vísað til lagaraka er búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

V.

Kærandi var heimilisfastur hér á landi á árinu 2020 og bar því ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í því felst að kæranda var skylt að greiða tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra var aflað, þar með töldum tekjum þeim sem upprunnar eru í Ungverjalandi og deilt er um í málinu. Við álagningu á kæranda bar hins vegar að gæta ákvæða samnings milli Íslands og Ungverjalands til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur, en samningur þessi var birtur sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 2/2006 í C-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi gerði grein fyrir tekjum þeim sem hann aflaði í Ungverjalandi á árinu 2020 í lið 2.8 í skattframtali sínu árið 2021 svo og kom þar fram að launagreiðandi væri félagið B. Samkvæmt þessari tilgreiningu kæranda mátti ætla að um væri að ræða launatekjur eða aðrar starfstengdar greiðslur. Samkvæmt framtalsleiðbeiningum ríkisskattstjóra (RSK 8.01) fyrir framtalsárið 2021, sbr. bls. 30 í leiðbeiningunum þar sem fjallað er um tekjur og eignir erlendis, ber að færa starfstengdar greiðslur svo og lífeyrisgreiðslur frá erlendum greiðendum í lið 2.8. Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra segir nánar að hafi tekna verið aflað í ríki sem í gildi sé tvísköttunarsamningur við sé meðferð tekna í álagningu í samræmi við ákvæði viðeigandi tvísköttunarsamnings. Mismunandi sé eftir samningum hvaða aðferð sé beitt til að komast hjá tvísköttun og e.t.v. séu tekjurnar skattskyldar á Íslandi að fullu. Sé um að ræða tekjur frá ríki sem ekki sé tvísköttunarsamningur við þurfi að leggja fram gögn sem sýni greiddan skatt.

Kærandi lét þess getið í viðeigandi reit í lið 2.8 í skattframtalinu að umræddar tekjur hans væru „Aðrar tekjur“. Ráðið verður af framtalsleiðbeiningum að með slíkri tilgreiningu sé vísað til annarra tekna en starfstengdra greiðslna (m.a. lífeyrisgreiðslna), vaxtatekna og arðs af erlendum hlutabréfum. Aðrar tekjur geta þannig verið söluhagnaður, leigutekjur, hvers konar skattskyldir vinningar o.fl. Samkvæmt leiðbeiningunum ber að gera grein fyrir tekjum af þessu tagi í athugasemdadálki í lið 1.4 og tilgreina þá einnig skatta sem greiddir hafi verið af þessum tekjum erlendis. Hafi teknanna verið aflað í ríki, sem Ísland hafi ekki tvísköttunarsamning við, skuli jafnframt láta fylgja með staðfestingu um greidda skatta erlendis.

Eins og greinir í lýsingu málavaxta hér að framan voru tekjur kæranda frá Ungverjalandi skattlagðar að fullu hjá honum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021 þrátt fyrir tilgreiningu teknanna í skattframtali með þeim hætti sem að framan greinir. Ekki var einhlítt af skattframtalinu um tegund teknanna. Hvað sem því líður má ljóst vera að eins og skattframtal kæranda lá fyrir ríkisskattstjóra fékk skattlagningin ekki staðist með tilliti til fyrrgreinds tvísköttunarsamnings við Ungverjaland, enda verður ekkert ráðið af málsgögnum um að fyrir ríkisskattstjóra hafi legið frekari upplýsingar um tekjur þessar en fram komu í framtali kæranda. Þá liggur fyrir að kæranda var ekki tilkynnt um hina umdeildu ákvörðun. Fyrst við kærumeðferð hjá ríkisskattstjóra kom fram að í tilviki kæranda væri hvorki um að ræða starfstengdar tekjur né „aðrar tekjur“ í fyrrgreindum skilningi. Það fær þó ekki breytt því að verulegir annmarkar voru á álagningu opinberra gjalda á kæranda. Samkvæmt framansögðu verður ekki hjá því komist að ómerkja hina kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra. Á þeim grundvelli verður tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda lækkaður að svo stöddu um nefndan tekjulið 10.517.472 kr. Tekið skal fram að með úrskurði þessum er engin afstaða tekin til efnisatriða málsins.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Hin kærða skattlagning erlendra tekna 10.517.472 kr. er felld úr gildi.

 

 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja