Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stuðningur vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 3/2022

Lög nr. 30/1992, 2. gr.   Lög nr. 50/2020, 8. gr. 6. mgr.  

Kæru kæranda í máli þessu, sem laut að endurákvörðun ríkisskattstjóra á stuðningsfjárhæð kæranda vegna greiðslu launakostnaðar í uppsagnarfresti, var vísað frá yfirskattanefnd þar sem talið var að ákvörðunin væri ekki kæranleg til yfirskattanefndar.

 

 

 

Ár 2022, miðvikudaginn 26. janúar, er tekið fyrir mál nr. 210/2021; kæra A ehf., dags. 13. desember 2021, vegna greiðslu launakostnaðar á uppsagnarfresti. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 13. desember 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. nóvember 2021, um endurákvörðun stuðningsfjárhæðar kæranda samkvæmt lögum nr. 50/2020, um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Með úrskurðinum lækkaði ríkisskattstjóri áður ákvarðaða stuðningsfjárhæð til kæranda vegna launatímabilanna júní, júlí og ágúst 2020 úr 10.638.387 kr. í 4.364.811 kr. eða um 6.273.576 kr. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Þá er þess krafist að kæranda verði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Um kæruheimild er í kærunni vísað til ákvæða 100. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 30/1992. Í kærunni kemur fram að við meðferð máls kæranda hjá ríkisskattstjóra hafi ekki verið gætt fyrirmæla í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ranglega sé byggt á því í úrskurði ríkisskattstjóra að andmæli hafi ekki borist embættinu í framhaldi af boðunarbréfi, dags. 1. febrúar 2021. Af hálfu kæranda hafi verið brugðist við því bréfi með andmælabréfi, dags. 18. febrúar 2021, sem hafi verið sent starfsmanni ríkisskattstjóra í tölvupósti sama dag. Engu að síður sé tekið fram í hinum kærða úrskurði að 15 daga svarfrestur hafi runnið út án þess að svar bærist. Ekkert tillit sé því tekið til andmæla kæranda. Er vísað til gagna er fylgja kærunni, þar með talið tölvupósta.

II.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, skulu ágreiningsmál um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna, þar með talin rekstrartöp, úrskurðuð af sérstakri, óháðri nefnd, yfirskattanefnd. Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992 kemur fram að úrskurðarvald yfirskattanefndar taki til ákvarðana ríkisskattstjóra og tollyfirvalda sem þar greinir. Jafnframt tekur úrskurðarvald yfirskattanefndar til annarra ákvarðana ríkisskattstjóra og tollyfirvalda eftir því sem mælt er fyrir um í lögum. Eins og fram er komið varðar kæran í máli þessu endurákvörðun ríkisskattstjóra á stuðningsfjárhæð sem kæranda var ákvörðuð á grundvelli laga nr. 50/2020, um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Í lögum nr. 50/2020 er ekki mælt fyrir um kæruheimild til yfirskattanefndar vegna ákvarðana ríkisskattstjóra samkvæmt þeim lögum, enda kemur fram í 6. mgr. 8. gr. laganna að stjórnvaldsákvarðanir Skattsins samkvæmt lögunum séu endanlegar á stjórnsýslustigi. Verður því ekki séð að í málinu liggi fyrir nein ákvörðun ríkisskattstjóra sem kæranleg sé til yfirskattanefndar. Er kæru kæranda því vísað frá yfirskattanefnd.

Rétt þykir, í ljósi athugasemda í kæru um meðferð málsins, að senda ríkisskattstjóra kæruna til meðferðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd og framsend ríkisskattstjóra til meðferðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja