Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Skattmat

Úrskurður nr. 8/2022

Gjaldár 2017, 2018 og 2019

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 118. gr.   Skattmat fyrir tekjuárin 2017 og 2018.  

Kærandi var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður X ehf. og eigandi félagsins. Deilt var um skattlagningu bifreiðahlunninda hjá kæranda vegna umráða hans yfir bifreið X ehf. Kærandi hélt því fram að kaup X ehf. á bifreiðinni hefðu verið í fjárfestingarskyni og að kærandi hefði ekki haft nein einkaafnot af bifreiðinni, enda væri um að ræða sérstaka og verðmæta afmælisútgáfu af Porche 911. Taldi yfirskattanefnd að byggja yrði á því að kærandi hefði haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma, enda hefði ekkert komið fram um að kærandi hefði verið bundinn sérstökum takmörkunum varðandi afnot bifreiðarinnar og ekki annað ráðið en að hann hefði sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilfellum. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2022, miðvikudaginn 2. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 165/2021; kæra A, dags. 10. september 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2017, 2018 og 2019. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 10. september 2021, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 16. september 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 10. júní 2021, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2017, 2018 og 2019. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 2.243.836 kr. í skattframtali árið 2018 og 6.300.000 kr. í skattframtali árið 2019 vegna meintra ótakmarkaðra einkaafnota kæranda af bifreið að gerðinni Porsche 911 á árunum 2017 og 2018, en bifreið þessi var í eigu einkahlutafélags kæranda, X ehf. Bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við hækkun skattstofna kæranda er af breytingunum leiddi bæði gjaldárin, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með úrskurðinum gerði ríkisskattstjóri ennfremur tilteknar breytingar á skattstofnum kæranda gjaldárin 2017, 2018 og 2019 vegna tekjufærslu húsnæðishlunninda, bifreiðahlunninda og söluhagnaðar hlutabréfa, en þær breytingar sæta ekki kæru til yfirskattanefndar.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi að því er varðar ákvörðuð bifreiðahlunnindi vegna meintra ótakmarkaðra einkaafnota kæranda af bifreiðinni á árunum 2017 og 2018. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að á þeim tíma sem málið varðar var kærandi eigandi alls hlutafjár í X ehf. Þá var kærandi skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Einkahlutafélagið var á árunum 2017 og 2018 eigandi bifreiðar af gerðinni Porsche 911. Með fyrirspurnarbréfi til X ehf., dags. 8. maí 2020, sbr. 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fór ríkisskattstjóri fram á að látnar yrðu í té upplýsingar um notkun á bifreið félagsins á árunum 2017 og 2018. Þyrftu að koma fram upplýsingar um það hverjir hefðu haft bifreiðina til umráða og hver þau umráð hefðu verið.

Í svarbréfi X ehf., dags. 5. júní 2020, kom fram að bifreiðin hefði verið keypt á árinu 2017 (misritað 2016) í þeim tilgangi að selja aftur með hagnaði. Um væri að ræða sérstaka afmælisútgáfu bifreiðarinnar en slíkar útgáfur væru verðmætar. Á árinu 2019 hefði bifreiðin verið notuð sem greiðslumiðill í stærri viðskiptum. Söluverð hennar hefði verið 25.000.000 kr., en enginn hefði haft umráð yfir bifreiðinni á eignarhaldstímanum og enginn haft afnot af henni.

Með bréfum til X ehf. og til kæranda, dags. 16. september 2020, fór ríkisskattstjóri m.a. fram á skýringar og gögn varðandi notkun bifreiðarinnar á árunum 2017 og 2018, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Þar  sem kærandi hefði verið stjórnarmaður og eini hluthafi X ehf. á þessum tíma yrði að gera ríkar kröfur til þess að hann leiddi í ljós með gögnum eða sýndi fram með öðrum afdráttarlausum hætti að hann hefði ekki haft ótakmörkuð umráð yfir bifreiðinni á umræddum árum og að hún hefði einungis verið notuð í þágu reksturs félagsins.

Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 2. nóvember 2020, kom m.a. fram að X ehf. hefði keypt bifreiðina 6. september 2017 og hefði kaupverðið verið 26.000.000 kr. Hefði félagið selt bifreiðina 5. júní 2019 fyrir 25.000.000 kr. Um væri að ræða sérstaka 50 ára afmælisútgáfu af Porsche 911 sem framleidd hefði verið í aðeins 1963 eintökum. Þá hefðu aðeins 150 eintök verið framleidd í upprunalegum lit og bæri þessi tiltekna bifreið þann lit. Þekkt væri að bifreiðar sem væru framleiddar í takmörkuðu upplagi hækkuðu í verði með tímanum. Þrátt fyrir að bifreiðin hefði verið seld með tapi væri engu að síður um fjárfestingu að ræða, en vegna aðstæðna hefði þurft að selja bifreiðina fyrr en ella. Var tekið fram í bréfinu að á þeim tíma sem bifreiðin hefði verið í eigu X ehf. hefðu engin afnot verið af henni. Bifreiðin hefði verið flutt til landsins í febrúar 2014 og þann 15. maí 2015 hefði fyrri eigandi keypt hana. Hefði hún þá verið ekin 161 km. Bifreiðin hefði verið í hans eigu í rúmlega tvö ár. X ehf. hefði keypt bifreiðina 6. september 2017 og átt hana í rúm tvö ár þegar hún hefði verið seld félaginu Y ehf. 5. júní 2019. Sama dag hefði bifreiðin farið í aðalskoðun og hefði skráð staða á kílómetramæli bifreiðarinnar verið 16.908 km. Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá Samgöngustofu væri meðalaakstur fólksbifreiða tæplega 13.000 km á ári. Með hefðbundinni notkun hefði kílómetramæltir bifreiðarinnar því átt að vera í kringum 52.000 kílómetra. Með hliðsjón af framangreindu hefðu afnotin af bifreiðinni verið afar takmörkuð í þessi fjögur ár á meðan hún hefði verið í eigu, annars vegar fyrri eiganda og hins vegar félagsins. Eini aksturinn hjá félaginu hefði verið í tengslum við sölumeðferð á bifreiðinni, svo sem reynsluakstur hjá áhugasömum kaupendum, við myndatökur o.s.frv. Eignarhald félagsins á bifreiðinni væri því með sama hætti og almennt gerðist hjá bifreiðasölum. Væri því ómögulegt að heimfæra reglur um bifreiðahlunnindi undir þau atvik sem hér ættu við.

Með bréfi til kæranda, dags. 10. nóvember 2020, fór ríkisskattstjóri fram á að kærandi sýndi með viðhlítandi gögnum, eða öðrum afdráttarlausum hætti, að rekstrarlegur tilgangur hefði verið hjá félaginu með kaupum félagsins á umræddri bifreið. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 14. desember 2020, var tekið fram að akstur bifreiðarinnar hefði verið takmarkaður og hún notuð töluvert í myndatökum og sýningum. Meðfylgjandi svarbréfi kæranda var tölvupóstur frá starfsmanni umboðsaðila Porsche á Íslandi þar sem m.a. kom fram að afmælisútgáfur Porsche 911 væru vinsælar og teldust frekar fjárfesting en ökutæki sökum verðmætaaukningar.

Með bréfi, dags. 26. apríl 2021, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2017, 2018 og 2019, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þar sem m.a. væri fyrirhugað að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 2.243.836 kr. í skattframtali árið 2018 og 6.300.000 kr. í skattframtali árið 2019, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, vegna fullra umráða kæranda umrædd ár yfir bifreið X ehf. á árunum 2017 og 2018. Bréfinu var ekki svarað af hálfu kæranda.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 10. júní 2021, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðinum gerði ríkisskattstjóri grein fyrir málavöxtum og lagagrundvelli málsins. Að því er varðar kæruefni málsins rakti ríkisskattstjóri ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og reglur um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2017 og 2018, sbr. auglýsingar nr. 1260/2016 og 1162/2017 í B-deild Stjórnartíðinda. Tók ríkisskattstjóri fram að ekki hefði verið sýnt fram á að kaup X ehf. á bifreið af gerðinni Porsche 911 hefðu aðeins verið gerð í rekstrarlegum tilgangi. Í öllu falli yrði ekki komið auga á þann rekstrarlega ávinning sem hefði getað hlotist af kaupunum á framangreindum árum, hvorki þá út frá notkun hennar né fjárfestingargildi. Taldi ríkisskattstjóri að kaup bifreiðarinnar hefðu fyrst og fremst varðað fyrirhuguð persónuleg afnot kæranda af bifreiðinni. Þá væri ekki tekið undir það sjónarmið kæranda að líta bæri á eignarhald félagsins á bifreiðinni sem lið í einhvers konar endursölu hennar, en bifreiðin hefði verið í notkun á eignarhaldstímanum og kærandi sá eini sem kæmi til greina sem gæti hafa haft umráð hennar. Yrði ekki annað ráðið en að kærandi hefði haft algert ákvörðunarvald um afnot af bifreiðinni. Þá hefðu engin gögn komið fram um að allur akstur bifreiðarinnar hefði verið í þágu félagsins. Færði ríkisskattstjóri kæranda því til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 2.243.836 kr. í skattframtali árið 2018 og 6.300.000 kr. í skattframtali árið 2019, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð í kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. september 2021. Í kærunni eru málavextir raktir. Telur kærandi að ákvæði 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og ákvæði skattmatsreglna um bifreiðahlunnindi verði ekki skilin á þann veg að bifreið sem sé í eigu einkahlutafélags skuli sjálfkrafa talin vera starfsmönnum, stjórnendum og/eða hluthöfum til afnota, heldur verði að liggja eitthvað fyrir um afnotin, þ.e. að bifreið hafi verið látin þeim í té til einkanota. Vísar kærandi til þess að hann hafi ítrekað upplýst ríkisskattstjóra um að hann hafi ekki haft nein afnot af Porsche bifreið X ehf. Þá liggi engar upplýsingar eða gögn fyrir í málinu um að kærandi hafi haft afnot af bifreiðinni. Það eina sem liggi fyrir er að kærandi hafi verið eini hluthafi og stjórnarformaður félagsins, en það geti eitt og sér ekki leitt til þess að hann eigi sjálfkrafa að teljast hafa haft afnot af bifreiðinni, jafnvel þótt óumdeilt sé að hann hafi getað haft afnot af henni í krafti stöðu sinnar. Þvert á móti liggi fyrir að bifreiðin sé verulega frábrugðin hefðbundnum bifreiðum og að tilgangur kaupa félagsins á henni hafi verið fjárfesting. Um sé að ræða sérstaka viðhafnarútgáfu sem framleidd hafi verið í tilefni af 50 ára afmæli Porsche 911. Framleidd hafi verið 1963 eintök á heimsvísu. Viðhafnarútgáfur Porsche njóti almennt mikilla vinsælda, einkum á meðal safnara og sem sýningargripir. Telur kærandi að bifreiðin beri frekar einkenni þess að vera söfnunargripur en hefðbundin bifreið en það hljóti að vega þungt við mat á fjárfestingargildi hennar. Skjóti skökku við að ríkisskattstjóri skuli ekkert víkja að þessu í hinum kærða úrskurði og slá því föstu án nokkurs rökstuðnings að ekki verði komið auga á rekstrarlegan ávinning af kaupunum. Hafi kaupin verið hugsuð sem langtímafjárfesting þó að félagið hafi þurft skyndilega að nota bifreiðina sem greiðslumiðil í öðrum viðskiptum á árinu 2019. Hins vegar liggi fyrir að söluandvirði bifreiðarinnar hafi verið 25.000.000 kr., eftir að félagið hafi átt bifreiðina í tæp tvö ár, en upphaflegt kaupverð hafi verið 26.000.000 kr. Því sé ljóst að bifreiðin, sem hafi verið orðin fimm ára við söluna, hafi haldið verðgildi sínu með töluvert öðrum hætti en hefðbundið sé. Þá liggi fyrir að umboðsaðili Porsche á Íslandi hafi fengið bílinn lánaðan á sýningar sem og í myndatökur sem bendi frekar til þess að um fjárfestingu í söfnunargrip hafi verið að ræða frekar en hefðbundin kaup á bifreið til afnot fyrir hluthafa.

Í niðurlagi kærunnar er rakið að hefði kærandi ætlað sér bifreiðina til eigin nota hefði hann einfaldlega keypt hana sjálfur, en félagið skuldi kæranda hærri fjárhæð en sem nemi kaupverði bifreiðarinnar. Hefði kæranda því verið í lófa lagið að kaupa bifreiðina í eigin nafni. Þá hefði það verið skattalegra hagkvæmara þar sem þá hefði líklega verið farið með söluhagnað bifreiðarinnar samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 90/2003. Þegar litið sé til framangreinds og þess að ríkisskattstjóri hafi einnig úrskurðað um að kærandi hafi haft full og ótakmörkuð umráð yfir annarri bifreið beri að fallast á það með kæranda að hann hafi ekki haft afnot af bifreiðinni og að tilgangur kaupa félagsins á bifreiðinni hafi verið að fjárfesta í söfnunargrip en ekki bifreið til afnota fyrir eiganda félagsins. Beri því að taka kröfur kæranda til greina og fella hinn kærða úrskurð úr gildi að þessu leyti.

Með kærunni fylgir afrit af tölvupósti sölustjóra Porsche á Íslandi 3. desember 2020 þar sem eiginleikum bifreiðarinnar er lýst. Þá fylgir kærunni kynningarefni um bifreiðina frá framleiðanda hennar.

IV.

Með bréfi, dags. 1. október 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 19. október 2021, hefur umboðsmaður kæranda komið á framfæri athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra og áréttað kröfur kæranda.

V.

Kæra í máli þessu varðar skattlagningu bifreiðahlunninda kæranda gjaldárin 2018 og 2019 vegna ætlaðra einkanota hans af bifreiðinni ..., sem er af gerðinni Porsche 911, en bifreið þessi var í eigu félags kæranda, X ehf., á greindum árum. Fram er komið í málinu að kærandi var á þeim tíma sem um ræðir eini hluthafi og framkvæmdastjóri félagsins. Kærandi tilfærði ekki skattskyld bifreiðahlunnindi vegna bifreiðarinnar í skattframtölum sínum þau ár sem málið tekur til, enda var og er viðhorf kæranda að engum einkaafnotum af bifreiðinni hafi verið fyrir að fara. Ríkisskattstjóri byggði á því að kærandi hefði haft full og ótakmörkuð umráð yfir umræddri bifreið á árunum 2017 og 2018, sbr. reglur ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2017 og 2018, en í því sambandi vísaði ríkisskattstjóri til auglýsinga nr. 1260/2016 og 1162/2017 í B-deild Stjórnartíðinda. Af hálfu kæranda er þess krafist að hin tekjufærðu bifreiðahlunnindi verði með öllu felld niður, enda hafi umræddrar bifreiðar eingöngu verið aflað sem fjárfestingar í þágu rekstrar X ehf. og ekki staðið kæranda til einkanota.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi eða hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 21. gr. laga nr. 128/2009, skal ríkisskattstjóri, að fenginni staðfestingu ráðherra, gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Um útgáfu ríkisskattstjóra á matsreglum samkvæmt áðurgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 75/1981 er fjallað m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 664/1997 og vísast í þann úrskurð um almenn atriði um ákvörðun bifreiðahlunninda. Kveðið er á um mat bifreiðahlunninda í lið 2.3 í reglum ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2017 og 2018, sbr. reglur nr. 1260/2016 og 1162/2017, sem birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda.

Með fyrirspurnarbréfum til X ehf. og til kæranda sjálfs, dags. 16. september 2020, fór ríkisskattsstjóri m.a. fram á skýringar og gögn varðandi notkun umræddrar bifreiðar á árunum 2017 og 2018, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 2. nóvember 2020, var m.a. vísað til þess að á þeim tíma sem bifreiðin hefði verið í umráðum félagsins hefðu engin afnot verið af henni. Eini aksturinn hjá félaginu hefði verið í tengslum við sölumeðferð á bifreiðinni. Í svarbréfinu var ekki vikið sérstaklega að því með hvaða hætti eftirliti með notkun bifreiðarinnar hefði verið hagað. Í svarbréfi kæranda, dags. 14. desember 2020, við fyrirspurn ríkisskattstjóra, dags. 10. nóvember s.á., var tekið fram að akstur bifreiðarinnar hefði verið takmarkaður og hún notuð töluvert í myndatökum og sýningum. Meðfylgjandi svarbréfi kæranda var tölvupóstur frá starfsmanni umboðsaðila Porsche á Íslandi, þar sem kom m.a. fram að afmælisútgáfur Porsche 911 væru vinsælar og teldust frekar vera fjárfesting en ökutæki sökum verðmætaaukningar.

Eins og fram er komið var kærandi á þeim tíma er málið varðar einn eigandi og eini stjórnarmaður X ehf. Að því athuguðu og þar sem engar haldbærar upplýsingar hafa komið fram um annað verður að byggja á því að bifreiðin hafi verið í umsjá kæranda sjálfs á þeim árum sem málið tekur til. Við slíkar aðstæður þykir verða að gera nokkuð ríkar kröfur til þess að kærandi leiði í ljós með gögnum, t.d. varðandi nýtingu bifreiðar í þágu rekstrar, eða sýni skýrlega fram á með öðrum hætti að hann hafi ekki þau umráð yfir bifreið launagreiðanda að þau verði metin honum til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full umráð. Tekið skal fram að miðað við aðstæður í málinu veltur úrlausn þess á því hvort eigin notum kæranda af umræddri bifreið hafi verið fyrir að fara, enda ber að ákvarða bifreiðahlunnindi miðað við ótakmörkuð afnot, þ.e. full umráð, verði niðurstaðan sú, sbr. fyrrgreindar skattmatsreglur.    

Kærandi byggir á því að kaup X ehf. á bifreiðinni hafi verið í fjárfestingarskyni og að afnot af henni hafi verið hafi verið takmörkuð eða engin. Hvað sem líður þessum skýringum kæranda verður að byggja á því að kærandi hafi haft umráð bifreiðarinnar, enda hefur ekkert komið fram um það að kærandi hafi verið bundin sérstökum takmörkunum varðandi afnot af bifreiðinni utan vinnutíma. Þá verður ekki annað ráðið en að í raun hafi kærandi sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilfellum. Geta skýringar kæranda um að bifreiðinni hafi aðeins verið ekið 16.747 kílómetra á eignarhaldstíma X ehf. og fyrri eiganda bifreiðarinnar ekki haft neina þýðingu, enda verður ekki ráðið af þeim skýringum að bifreiðin hafi ekki verið í notkun á eignarhaldstíma félagsins. Þá þykja skýringar kæranda um afnot af öðrum bifreiðum ekki hafa þýðingu við úrlausn málsins. Að því leyti sem byggt er á því að notkun bifreiðarinnar skipti máli en ekki umráðin sem slík skal vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 10. febrúar 2000 í málinu nr. 356/1999, sbr. ennfremur dóm réttarins frá 24. september 2015 í málinu nr. 49/2015, en í hinum fyrrnefnda dómi er m.a. tekið fram að með skattlagningu bifreiðahlunninda launamanns, sem talinn er njóta ótakmarkaðra afnota af bifreið, sé verið að skattleggja umráðin sem slík og skipti ekki máli í því sambandi hversu mikið launþeginn nýtir sér umráðaréttinn. Þá er sérstaklega tekið fram í lið 2.3 í fyrrgreindum skattmatsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárin 2017 og 2018 að meta skuli full og ótakmörkuð umráð starfsmanns af bifreið launagreiðanda til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaðan sú, að virtum aðstæðum og atvikum að öðru leyti, að miðað verður við að kærandi hafi haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma á árunum 2017 og 2018. Í samræmi við þetta ber að ákvarða skattskyld bifreiðahlunnindi kæranda gjaldárin 2018 og 2019 vegna afnota af bifreið í eigu félags kæranda, X ehf., eftir reglum um full og ótakmörkuð umráð í skilningi framangreindra skattmatsreglna. Með vísan til þess og þar sem enginn ágreiningur er um fjárhæð bifreiðahlunninda, sem leiðir af framangreindum reglum, er kröfu kæranda um niðurfellingu á hinum tekjufærðu bifreiðahlunnindum hafnað.

Kærandi hefur gert kröfu um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja