Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald
  • Afsal

Úrskurður nr. 9/2022

Lög nr. 138/2013, 3. gr. 1. mgr., 4. gr. 4. mgr.  

Í kaupsamningi vegna kaupa A og B á fasteign kom fram að A væri kaupandi að 75% hlut í eigninni og B kaupandi að 25% hlut. Í afsali vegna sömu fasteignar var hins vegar tilgreint að A væri kaupandi að 60% hlut og B kaupandi að 40% hlut. Í úrskurði yfirskattanefndar var talið að þar sem með afsalinu hefði orðið breyting á eignarhaldi að fasteigninni, þ.e. eignarhlutur B aukist um 15% frá því sem tilgreint var í kaupsamningi, væri um gjaldskylda eignaryfirfærslu að ræða samkvæmt lögum um stimpilgjald nr. 138/2013 þannig að greiða bæri stimpilgjald af afsalinu.

Ár 2022, miðvikudaginn 2. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 178/2021; kæra A og B, dags. 28. september 2021, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 28. september 2021, hefur fasteignamiðlunin X ehf. skotið til yfirskattanefndar ákvörðun sýslumanns, dags. 9. september 2021, um stimpilgjald vegna afsals fasteignar við R. Kemur fram í kærunni að í maí 2021 hafi verið lagður inn til þinglýsingar kaupsamningur um fasteignina milli C sem seljanda og kærenda, A og B, sem kaupenda. Hafi kærandi, A, verið kaupandi að 75% hlut í fasteigninni en kærandi, B, verið kaupandi að 25% hlut. Hafi fasteignamiðlunin greitt til sýslumanns fullt stimpilgjald, 0,8% af fasteignamati 498.000 kr., auk 2.500 í þinglýsingargjald, þ.e. samtals 500.500 kr. Við gerð afsals fyrir eignina hafi kærendur beðið X ehf. að leiðrétta hlutföll þeirra í kaupunum í 40% og 60% sem hafi verið gert. Enn hafi seljandi verið að selja 100% eignarinnar og kaupendur að kaupa 100% í eigninni. Við innlagningu afsals til þinglýsingar í september 2021 hafi sýslumaður krafið kæranda, B, um viðbótarstimpilgjald þar sem hún hafi ekki lengur verið að kaupa 25% hlut í eigninni heldur 40% hlut. Er bent á í kærunni að með sömu rökum eigi kærandi, A, rétt á því að fá endurgreitt oftekið stimpilgjald þar sem hann hafi aðeins verið að kaupa 60% hlut en ekki 75% hlut. Á þeim grundvelli sé farið fram á endurgreiðslu oftekins stimpilgjalds að fjárhæð 74.700 kr.

II.

Með bréfi, dags. 11. nóvember 2021, hefur sýslumaður lagt fram umsögn um kæruna. Í umsögninni bendir sýslumaður á að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, beri aðili sem byggir rétt á gjaldskyldu skjali ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds. Hin gjaldskyldu skjöl sem um ræðir varði eignayfirfærslu milli C annars vegar og þeirra A og B hins vegar. X ehf. fasteignamiðlun hafi eingöngu haft milligöngu um kaupin og verði því ekki séð að félagið sé aðili máls í skilningi laga nr. 138/2013, sbr. og 3. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Í umsögninni er tekið fram að 26. apríl 2021 hafi verið lagður inn til þinglýsingar hjá sýslumanni kaupsamningur, dags. 23. apríl 2021, um fasteignina að R milli seljanda, C, og kaupenda, A og B, þar sem kaupendur hafi keypt fasteignina í eignarhlutföllunum 75% og 25%. Við eignayfirfærslu hafi kaupendur greitt 498.000 kr. í stimpilgjald í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013. Afsal, dags. 7. júlí 2021, hafi í framhaldinu verið lagt inn til þinglýsingar í september 2021 með breyttum hlutföllum milli kaupenda. Samkvæmt afsalinu hafi eignarhlutföll kaupenda verið annars vegar 60% og hins vegar 40%. Hafi sýslumaður litið svo á að eignayfirfærsla hefði átt sér stað milli kaupenda frá gerð kaupsamningsins sem heimila bæri gegn greiðslu stimpilgjalds, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013. Sýslumaður telji því að réttilega hafi verið staðið að innheimtu stimpilgjalds vegna þessarar eignayfirfærslu og að ekki sé tilefni til endurgreiðslu gjaldsins, enda hafi í raun verið um tvær eignayfirfærslur að ræða.

Með bréfi, dags. 3. desember 2021, hefur X ehf. fasteignamiðlun komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn sýslumanns. Er vísað til þess að sýslumaður bendi réttilega á að fasteignamiðlunin hafi haft milligöngu um kaupin, kaupsamning, afsal og greiðslu stimpilgjalds fyrir hönd kærenda við þinglýsingu kaupsamnings, svo og oftekin stimpilgjöld og sé því vissulega aðili að málinu. Öðrum skjölum sé ekki til að dreifa um viðskiptin sem heimili sýslumanni að innheimta 15% viðbótarstimpilgjald, þótt kærendur hafi ákveðið að uppfylla skyldur sínar gagnvart seljanda í öðrum hlutföllum en getið hafi verið um í kaupsamningi. Ef rök sýslumanns fyrir því að kærandi, B, eigi að greiða viðbótar stimpilgjald vegna aukningar eignarhluta hennar frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í kaupsamningi hljóti kærandi, A, sömuleiðis að eiga að fá endurgreitt stimpilgjald vegna minni eignarhluta hans. Þar sem hvorki sé um kaupsamning né afsal að ræða milli kærenda, A og B, hafi sýslumaður farið út fyrir sínar heimildir samkvæmt lögum nr. 138/2013 og beri því að endurgreiða það sem ofgreitt hafi verið.

III.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun stimpilgjalds af afsali, dags. 7. júlí 2021, vegna fasteignar að R. Kærendur keyptu fasteignina með kaupsamningi, dags. 23. apríl 2021, sem eins og rakið er í umsögn sýslumanns var færður til þinglýsingar 26. sama mánaðar og greiddu kærendur stimpilgjald að fjárhæð 498.000 kr. af samningnum, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald. Í kaupsamningnum var tilgreint að kærandi, A, væri kaupandi 75% eignarhlutar í fasteigninni og kærandi, B, kaupandi 25% eignarhlutar í eigninni. Samkvæmt fyrrgreindu afsali, dags. 7. júlí 2021, er A hins vegar kaupandi 60% eignarhlutar í eigninni og B kaupandi 40% eignarhlutar. Lýtur ágreiningur málsins að þeirri ákvörðun sýslumanns að krefja kæranda, B, um greiðslu stimpilgjalds vegna kaupa á 15% eignarhlut í fasteigninni umfram það sem fram kom í kaupsamningi. Er tekið fram í umsögn sýslumanns að um gjaldskylda eignayfirfærslu sé að ræða milli kaupsamningshafa, þ.e. A og B, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013. Þessari afstöðu sýslumanns er mótmælt í kæru kærenda til yfirskattanefndar og bent á að með sömu rökum og sýslumaður beiti hljóti A að eiga rétt á endurgreiðslu oftekins stimpilgjalds vegna 15% eignarhlutar í fasteigninni.

Rétt er að taka fram, vegna sjónarmiða um aðild að málinu í umsögn sýslumanns, að X ehf. fasteignamiðlun mun hafa haft milligöngu í þeim fasteignaviðskiptum sem um ræðir. Er fyrirliggjandi greiðslukvittun sýslumanns vegna hins umdeilda stimpilgjalds, dags. 26. apríl 2021, raunar stíluð á X ehf. Líta verður svo á að X ehf. reki málið í umboði kærenda, en eins og bent er á í umsögn sýslumanns ber sá aðili, sem byggir rétt á gjaldskyldu skjali, ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 138/2013.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal greiða í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varða eignayfirfærslu fasteigna hér á landi, svo sem afsölum, kaupsamningum og gjafagerningum. Fer gjaldskylda skjals eftir þeim réttindum er það veitir en ekki nafni þess eða formi, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar. Um gjaldstofn stimpilgjalds eru ákvæði í 4. gr. laga nr. 138/2013. Kemur m.a. fram í 4. mgr. þeirrar greinar að þegar greitt hafi verið stimpilgjald vegna kaupsamnings eða annars skjals um eignaryfirfærslu á fasteign sé afsalsbréf til sama kaupanda undanþegið stimpilgjaldi. Í athugasemdum við ákvæði þetta í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 138/2013, kemur fram að þar komi fram sú meginregla að greiða skuli stimpilgjald einu sinni vegna hvers gernings. Þannig sé ekki skylt að greiða gjaldið vegna afsals hafi það þegar verið greitt vegna kaupsamnings um sömu eign. Þessa reglu beri þó að skýra með hliðsjón af ákvæði 2. málsl. 1. mgr. sem kveði á um skyldu til greiðslu viðbótargjalds ef verðbreytingar séu síðar gerðar á skjali til hækkunar (þskj. 4 á 143. löggjafarþingi 2013-2014).

Óumdeilt er í málinu að með afsali, dags. 7. júlí 2021, varð sú breyting á eignarhaldi að fasteigninni að R að eignarhlutur kæranda, B, jókst um 15% frá því sem tilgreint var í kaupsamningi um fasteignina. Verður því að telja að um gjaldskylda eignaryfirfærslu sé að ræða samkvæmt ákvæðum laga nr. 138/2013, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, þannig að greiða beri stimpilgjald af afsalinu, svo sem sýslumaður hefur talið. Verður og ekki talið að fyrrgreind undanþága 4. mgr. 4. gr. laganna geti tekið til afsalsins að þessu leyti, enda fól það í sér eignayfirfærslu til viðbótar því sem fram kom í kaupsamningi að því er snertir kæranda, B. Vegna athugasemda í kæru um rétt kæranda, A, til endurgreiðslu stimpilgjalds vegna breytingar á eignarhlutföllum sem um ræðir skal tekið fram að líta verður svo á að um tvær aðskildar eignaryfirfærslur sé að tefla, þ.e. annars vegar við kaup kærenda á fasteigninni af seljanda og hins vegar við þá ráðstöfun þeirra í millum sem gerð var með afsalinu í júlí 2021. Með vísan til framanritaðs, og þar sem ekki er að öðru leyti tölulegur ágreiningur í málinu um fjárhæð stimpilgjalds, verður að hafna kröfum kærenda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja