Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 529/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 73/1980 — 34. gr. 1. mgr. — 35. gr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. og B-liður — 15. gr. — 100. gr. 3. og 5. mgr. — 106. gr. 2. mgr.  

Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsskylda — Aðstöðugjaldsstofn — Bifreið — Einkabifreið — Frystivagn — Bifreiðaviðskipti — Bifreiðainnflutningur — Bílasala — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Tómstundagaman — Atvinnurekstrartekjur — Reiknað endurgjald — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Söluhagnaður — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Lausafé — Skattfrelsi — Skattfrelsi söluhagnaðar — Skattfrelsi söluhagnaðar lausafjár — Söluhagnaður, skattfrjáls — Gróðaskyn — Sönnun — Sönnunarbyrði — Endurupptaka máls — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Álag — Álag vegna vantalins skattstofns — Framtalsháttur — Kröfugerð kæranda — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Rökstuðningi kæru áfátt — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar — Leiðrétting — Leiðrétting ríkisskattanefndar — Leiðrétting skattframtals — Leiðrétting ríkisskattanefndar á skattframtali — Álagningarmeðferð skattstjóra

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem rekur knattborðsstofu, hafði einnig bifreiðaviðskipti með höndum. Í skattskilum sínum fyrir tekjuárið 1988 skipti hann síðarnefndu viðskiptunum í tvennt. Annars vegar taldi hann hluta þeirra sjálfstæða starfsemi og gerði ársreikning vegna þeirra. Hins vegar taldi kærandi hluta bifreiðaviðskiptanna vera vegna einkabifreiða og gerði grein fyrir þeim í sérstöku fylgiskjali með skattframtali árið 1989. Til þessa hluta viðskiptanna taldi kærandi sölu á bifreið af gerðinni Range Rover ’85 fyrir 1.450.000 kr., er hann hafði keypt á árinu 1987 fyrir 999.280 kr. Einnig kaup á bifreið sömu gerðar en árg. ’82 fyrir 750.000 kr. og sölu hennar fyrir 870.000 kr. Ennfremur kaup á Range Rover ’85 fyrir 1.350.000 kr. Þá taldi kærandi tilheyra viðskiptum með einkabifreiðar sölu á bifreið af gerðinni Honda ’84 fyrir 500.000 kr. en bifreið þessa flutti kærandi inn frá V-Þýskalandi árið 1987 og var kostnaðarverð hennar 394.265 kr. Þá felldi kærandi undir einkaviðskipti sölu á frystivagni (50%) fyrir 600.000 kr. en hlutdeild sína í þessu fyrirbrigði keypti kærandi af Ríkisskipum árið 1987 fyrir 280.000 kr. Einnig var getið kaupa á M. Bens ’82 (50%) fyrir 300.000 kr. undir viðskiptum einkabifreiða. Fyrrgreinda Range Rover bifreið árg. 1985 og hlutdeild (50%) í M. Bens árg. ’82 færði kærandi sem bifreiðaeign í árslok 1988 í reit 06 í skattframtali sínu árið 1989.

Í rekstrarreikningi vegna bifreiðaviðskipta voru eftirgreind viðskipti tilgreind: Kaup á bifreið af gerðinni Lada sport árg. ’85 fyrir 270.000 kr. og sala sömu bifreiðar fyrir 260.000 kr. Kaup á bifreið af gerðinni Lada sport árg. ’81 fyrir 140.000 kr. og sala á sömu bifreið fyrir 150.000 kr. Kaup á bifreið af gerðinni Nissan Patrol árg. ’86 fyrir 1.475.000 kr. og sala sömu bifreiðar fyrir 1.500.000 kr. samtals var söluverð því 1.910.000 kr. en kaupverð 1.885.000 kr. Auk söluverðs bifreiða var tekjufærð tekjufærsla vegna verðbreytinga 9.023 kr. Auk kaupverðs keyptra bifreiða var gjaldfært reiknað aðstöðugjald 24.380 kr. Rekstrarhagnað 9.643 kr. færði kærandi sem reiknað endurgjald ásamt reiknuðu endurgjaldi vegna vinnu við knattborðsstofu 540.000 kr. í reit 24 í framtalinu eða reiknað endurgjald samtals 549.643 kr.

II.

Með bréfi, dags. 2. október 1989, boðaði skattstjóri kæranda að færa honum til tekna skattskyldan söluhagnað 687.184 kr. vegna sölu þeirra bifreiða, er kærandi taldi falla undir einkabifreiðar, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Sagði svo í bréfi skattstjóra: „Ef þér færið ekki fram haldbær rök fyrir öðru er fyrirhugað að líta á öll bifreiðaviðskipti yðar sem skattskylda starfsemi, þannig að rekstrarhagnaður verði kr. 696.827.- í stað kr. 9.643.- Aðstöðugjaldsstofn hækkar þá tilsvarandi.“ Í bréfi, dags. 12. október 1989, gerði umboðsmaður kæranda grein fyrir bifreiðaviðskiptum þeim, er talin voru til viðskipta með einkabifreiðar, og ástæðum fyrir þeim kaupum og sölum, er talin voru þessa eðlis. Laut málatilbúnaður hans og skýringar að því að rökstyðja að fara bæri með söluhagnað af bifreiðum þessum m.t.t. þess, að um einkabifreiðar væri að ræða. Sama taldi hann eiga að gilda um nefndan frystivagn og gerði hann jafnframt grein fyrir ástæðum til kaupa á honum.

Með bréfi, dags. 8. desember 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hans gjaldárið 1989 vegna tekjufærslu söluhagnaðar alls 687.184 kr. til viðbótar áður töldum söluhagnaði 9.643 kr., enda væri ekki fallist á rök kæranda í bréfi, dags. 12. október 1989. Þá bætti skattstjóri 25% álagi á vantalinn skattstofn skv. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 5. janúar 1990, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 11. janúar 1990. Þess var krafist, að ekki yrði haggað við framtalinu að því er þessa þætti þess varðar og sérstaklega mótmælt álagsbeitingu. Ítrekaði umboðsmaðurinn áður framkomnar skýringar og rök. Með kæruúrskurði, dags. 30. janúar 1990, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda bæði um niðurfellingu söluhagnaðar og álags. Segir svo um fyrra atriðið:

„Þegar maður sem hefir m.a. atvinnu af kaupum og sölu bifreiða, kaupir ökutæki, sem hann selur síðan á verulega hærra verði, þá verður að telja eðlilegt að líta svo á, að ökutækin hafi verið keypt og seld sem þáttur í þeim atvinnurekstri og breytir þar engu þótt viðkomandi tæki séu nýtt til einkaaksturs þann tíma sem þau eru í eign viðkomandi. Jafnvel þótt svo væri ekki, væri söluhagnaður tækjanna skattskyldur skv. 2. mgr. (sic) 15. gr. laga nr. 75/1981.“

III.

Með kæru, dags. 28. febrúar 1990, skaut umboðsmaður kæranda kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og boðaði, að frekari rökstuðningur yrði sendur síðar. Með úrskurði nr. 454, dags. 25. maí 1990 vísaði ríkisskattanefnd kærunni frá vegna vanreifunar, þar sem boðaður rökstuðningur hafði ekki borist.

Með bréfi, dags. 1. júní 1990, hefur umboðsmaður kæranda farið fram á, að fyrrnefndur frávísunarúrskurður verði endurupptekinn og málið tekið til efnismeðferðar. Efnislega eru þær kröfur gerðar, að söluhagnaður sá, sem skattstjóri skattlagði 687.184 kr. verði felldur undan skattlagningu og álag fellt niður. Vísað er til framkominna skýringa og röksemda við meðferð málsins á skattstjórastigi. Þá er því mótmælt, sem fram kemur í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 30. janúar 1990, að kærandi hafi atvinnu af kaupum og sölu bifreiða „Þó svo að hann hafi keypt og selt þrjár bifreiðar að gamni sínu á árinu“ eins og umboðsmaðurinn segir í bréfinu. Þá segir hann svo um þetta: „Sumir menn hafa einfaldlega ánægju af slíku og áréttað er að sérstakt rekstraryfirlit fylgdi skattframtali kæranda varðandi þessi viðskipti.“

IV.

Með bréfi, dags. 25. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar athugasemdir í tilefni af framkominni endurupptökubeiðni:

„Í nefndum úrskurði var kæru ofangreinds aðila vísað frá ríkisskattanefnd þar sem áður boðaður rökstuðningur hafði ekki borist. Nú hefur verið bætt úr því með bréfi sem barst nefndinni og getur ríkisskattstjóri fyrir sitt leyti fallist á að nefndur úrskurður verði endurupptekinn og setur fram eftirfarandi kröfugerð.

Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“

V.

Eftir öllum atvikum þykir mega sinna framkominni beiðni um endurupptöku úrskurðar nr. 454/1990 með því að af hálfu kæranda hefur nú verið lögð fram kröfugerð. Mál þetta liggur þannig fyrir, að kærandi hefur talið hluta bifreiðaviðskipta sinna vera sjálfstæða starfsemi en hluta viðskipti með einkabifreiðar þannig að hagnaður af sölu bifreiða af þeim hluta teljist ekki til skattskyldra tekna skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Skattstjóri hefur hins vegar litið svo á, að bifreiðaviðskiptin féllu að öllu leyti undir sjálfstæða starfsemi kæranda. Hann hefur að vísu samkvæmt framtali 1989 fært söluhagnað 696.827 kr. kæranda til tekna í reit 77, en meðferð hans að öðru leyti, sbr. m.a. aðstöðugjaldsálagningu v/bifreiðaviðskipta, byggist á því, að um sjálfstæða starfsemi hafi verið að ræða.

Þegar bifreiðaviðskipti kæranda eru virt, þau er í málinu greinir, og það sem fyrir liggur um slík viðskipti umliðin ár, sbr. framtöl árin 1987 og 1988, er liggja fyrir í málinu, verður ekki talið að með þeim hafi kærandi stundað atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Jafnframt er til þess að líta, að þrátt fyrir framtalshátt sinn í þessum efnum, virðist af hálfu kæranda sjálfs ekki litið svo á, að um sjálfstæða starfsemi sé að neinu leyti að ræða, sbr. það sem fram kemur í endurupptökubeiðni hans, dags. 1. júní 1990. Með hliðsjón af umfangi þessara viðskipta kæranda verður hins vegar ekki talið, að honum hafi tekist að gera líklegt, að þau hafi ekki farið fram í hagnaðarskyni, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eins og atvikum er háttað ber að fara með söluhagnað kæranda af þessum viðskiptum samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 15. gr. nefndra laga, en telja verður að í henni felist hin almenna regla um meðferð söluhagnaðar af lausafé, sem ekki er heimilt að fyrna og fellur ekki undir atvinnurekstur. Samkvæmt þessu færast kæranda til tekna í reit 77 í skattframtali árið 1989 712.184 kr. sem söluhagnaður af nefndum viðskiptum. Aðstöðugjaldsálagning vegna bifreiðaviðskipta er felld niður og rétt þykir að fella úr reit 24 9.643 kr. sbr. að framan. Þá þykir mega fella niður álag það, sem skattstjóri bætti við vantalinn skattstofn.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja