Úrskurður yfirskattanefndar
- Ívilnun í sköttum
- Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu
- Málsmeðferð
Úrskurður nr. 14/2022
Gjaldár 2021
Lög nr. 90/2003, 65. gr. 1. mgr. 1. tölul., 99. gr. 1. mgr. Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um lækkun skattstofna gjaldárið 2021.
Með úrskurði yfirskattanefndar var fallist á beiðni kæranda um ívilnun í sköttum vegna kostnaðar af heilbrigðisþjónustu á árinu 2020, enda var ekki talin ástæða til að draga í efa að sá kostnaður, þar með talið vegna kaupa á læknisþjónustu, sjúkraþjálfun og lyfjum, væri umfram venjulegan almennan kostnað af greindum toga í skilningi viðmiðunarreglna frá ríkisskattstjóra.
Ár 2022, miðvikudaginn 2. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 201/2021; kæra A, dags. 30. nóvember 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 30. nóvember 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 18. nóvember 2021, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021. Er kæruefnið sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum að hafna beiðni kæranda um lækkun tekjuskattsstofns vegna veikinda, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að frumálagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021 verði ómerkt. Þá er gerð sú krafa að kæranda verði veitt veruleg ívilnun í sköttum umrætt gjaldár. Loks er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.
Fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra að skattframtal kæranda árið 2021 hafi borist að liðnum framtalsfresti eða 4. maí 2021 og því hafi ekki verið unnt að taka ívilnunarbeiðni kæranda til afgreiðslu fyrir álagningu. Þá kemur fram að beiðnin hafi lotið að kostnaði að fjárhæð 523.270 kr. vegna MS-sjúkdóms. Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 29. október 2021, hafi verið lagt fyrir kæranda að láta í té frumrit reikninga vegna kostnaðar við lyf og heilbrigðisþjónustu eða yfirlit frá Sjúkratryggingum Íslands. Í bréfi þessu hafi verið áréttað að samkvæmt úrskurði í máli kæranda, dags. 12. nóvember 2020, vegna eldra gjaldárs hafi komið fram að framvegis yrði að standa skil á slíkum gögnum vegna kostnaðar af umræddum toga. Engin svör hefðu borist. Þar sem yfirlit yfir hreyfingar á bankareikningi gæti ekki talist gild gögn þar sem ekki yrði ráðið af yfirlitinu hvað væri verið að greiða fyrir yrði að hafna ívilnunarbeiðni kæranda.
Í kæru kemur fram að því sé ranglega haldið fram í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra að skattframtal kæranda árið 2021 hafi borist að liðnum framtalsfresti þann 4. maí 2021. Hið rétta sé að skattframtali kæranda umrætt ár hafi verið skilað 12. mars 2021, sbr. meðfylgjandi staðfestingu ríkisskattstjóra. Í framtalinu hafi verið farið fram á ívilnun og framlagning frekari gagna af því tilefni boðuð. Ríkisskattstjóri hafi þó haft öll gögn undir höndum vegna fyrri ívilnunarbeiðna kæranda varðandi gjaldárin 2016-2020. Kærandi hafi lagt fram frekari gögn með bréfi, dags. 26. apríl 2021, þ.e. um mánuði fyrir álagningu. Rangt sé því sem fram komi í kæruúrskurði ríkisskattstjóra að ekki hafi verið unnt að afgreiða beiðni kæranda fyrir álagningu. Órökstudd höfnun ríkisskattstjóra á beiðninni teljist því ólögmæt og beri að ómerkja hana. Svo virðist sem málsmeðferðarreglum skattalaga hafi af hendi ríkisskattstjóra verið fórnað á altari málshraða og rafrænna samskipta. Sé því beint til yfirskattanefndar að ganga úr skugga um hvort sú sé raunin. Kæranda hafi hvorki verið tilkynnt um höfnun á beiðni hans um ívilnun með formlegu bréf né verið gefinn kostur á að bæta úr meintum upplýsinga- og gagnaskorti. Þá hafi kæranda verið mismunað með því að vera aðeins gefinn viku frestur til að koma á framfæri skýringum og gögnum með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 29. október 2021, sem sent hafi verið um fimm mánuðum eftir að kæra barst embættinu. Kærunni sé síðan synjað án þess að tekin hafi verið afstaða til beiðni kæranda frá 12. nóvember 2021 um frekari frest til gagnaöflunar. Málsmeðferð embættisins sé í heild sinni í andstöðu við skatta- og stjórnsýslulög.
Um efnisatriði málsins kemur fram í kæru að í málum kæranda vegna eldri gjaldára hafi yfirskattanefnd ekki gert neinar athugasemdir við að kærandi styddi kröfur við „rafrænar bankareikningsfærslur kreditkorts“, eins og segir í kærunni. Órökstutt sé af hálfu ríkisskattstjóra af hvaða ástæðum reikningsyfirlit banka geti ekki talist fullnægjandi til sönnunar útgjöldum, en á yfirlitinu sé greiðsla merkt sjúkraþjálfun. Ríkisskattstjóri hljóti að bera sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum um að ekki sé um gild gögn að ræða. Kærandi hafi sýnt fram á að um sé að ræða útlagðan kostnað í skilningi 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Sé farið fram á að úrskurðað verði í málinu hið fyrsta.
II.
Með bréfi, dags. 14. desember 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að skattframtal kæranda árið 2021 hafi borist 12. mars 2021. Í athugasemd í skattframtalinu komi fram að gögnum yrði skilað „vegna lækkunar á forsendum veikinda á næstu dögum“, en útfyllt umsókn um lækkun (RSK 3.05) hafi ekki fylgt framtalinu, eins og gert sé ráð fyrir í reglugerð nr. 1434/2020. Af þessum sökum hafi kærandi ekki fengið formlega tilkynningu um höfnun. Ívilnunarbeiðni hafi síðan borist ríkisskattstjóra 4. maí 2021 eftir að yfirferð skattframtala hafi verið lokið og hafi beiðnin því verið tekin til afgreiðslu sem kæra, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Hinn kærði úrskurður hafi verið sendur kæranda 18. nóvember 2021 en í millitíðinni eða 17. sama mánaðar hafi borist beiðni frá kæranda um viðbótarfrest. Sú frestbeiðni hafi ekki verið skráð í tölvukerfi Skattsins fyrr en 19. nóvember 2021 þegar búið hafi verið að póstleggja úrskurð. Ekki hafi verið unnt að veita kæranda viðbótarfrest þar sem ríkisskattstjóra hafi borið að ljúka vinnslu kærumála innan þriggja mánaða frá lokum kærufrests, þ.e. fyrir 30. nóvember, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, eins og tilkynnt hafi verið um með bréfi, dags. 23. nóvember 2021. Þá sé bent á að framlögð yfirlit yfir hreyfingar á bankareikningi beri ekki með sér tengsl greiðslu við veikindi og verði slík yfirlit því ekki lögð að jöfnu við yfirlit Sjúkratrygginga Íslands um óbættan veikindakostnað eða frumgögn um kostnað. Hafi kæranda verið leiðbeint um þetta oftar en einu sinni í eldri úrskurðum sem og í bréfi, dags. 29. október 2021.
Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 29. desember 2021, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Í bréfinu eru áður fram komin sjónarmið kæranda áréttuð, m.a. varðandi ágalla á málsmeðferð ríkisskattstjóra. Þá er bent á að vegna veikinda kæranda, sem sé langt genginn MS-sjúklingur, sé kæranda ókleift að verða við óbilgjörnum kröfum ríkisskattstjóra um framlagningu gagna. Kærandi hafi sýnt fram á að gjaldþol hans hafi skerst verulega vegna MS-sjúkdóms og langt umfram þau mörk sem ríkisskattstjóri miði við. Hljóti skattyfirvöldum að vera unnt að meta þá skerðingu að álitum á grundvelli fyrirliggjandi gagna, eins og áratuga hefð sé fyrir. Fyrrgreind afstaða ríkisskattstjóra sé því brot á meðalhófsreglum skatta- og stjórnsýslulaga, enda sé því vart haldið fram af hálfu embættisins að kærandi hafi greitt fyrir sjúkraþjálfun, tannlækningar, lyf, fæðubótarefni o.fl. fyrir aðra aðila. Séu því kröfur kæranda ítrekaðar. Til stuðnings málskostnaðarkröfu er vísað til meðfylgjandi reiknings umboðsmanns kæranda, dags. 29. desember 2021, að fjárhæð 197.400 kr. með virðisaukaskatti.
III.
Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkisskattstjóri taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol hans verulega. Lögin hafa ekki að geyma nánari ákvæði um ákvörðun ívilnunar við þessar aðstæður. Í 3. mgr. 65. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 50/2018, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, kemur fram að ríkisskattstjóri skuli í upphafi hvers árs að fenginni staðfestingu ráðherra gefa út reglur um nánari skilyrði fyrir veitingu ívilnana samkvæmt ákvæði 65. gr. laganna. Með auglýsingu nr. 1434, 9. desember 2020, sem birt var í Stjórnartíðindum, hefur ríkisskattstjóri sett viðmiðunarreglur um ákvörðun um lækkun á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda 2021. Í reglum þessum er m.a. fjallað um ívilnanir á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Hvað varðar ívilnun vegna veikinda, slysa eða ellihrörleika, sbr. tilgreiningu í fyrrgreindum tölulið, kemur fram að við mat á því, hvort gjaldþol manns hafi skerst verulega af greindum orsökum, sé fyrst og fremst litið til þess að til hafi fallið kostnaður sem einstaklingurinn hefur greitt sjálfur og sé umfram það sem teljist venjulegur almennur kostnaður, t.d. vegna lyfja og læknishjálpar. Ívilnun komi því almennt ekki til greina nema kostnaður sé umfram það sem venjulegt telst. Eru nánari ákvæði í reglunum um ýmsar viðmiðanir í þessu sambandi. Þá kemur fram að telji umsækjandi að gjaldþol hans hafi skerst umfram það sem útreikningur samkvæmt reglunum sýni beri honum að rökstyðja það sérstaklega og leggja fram skýringar og eftir atvikum gögn.
Í greindum viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra kemur fram um ívilnun samkvæmt 65. gr. laga nr. 90/2003 að óska þurfi eftir lækkun (ívilnun) í skattframtali og fylla út þar til gerða umsókn (RSK 3.05) á þann hátt sem hún geri ráð fyrir. Gera þurfi grein fyrir ástæðum umsóknar og aðstæðum, sýna fram á útlagðan kostnað á viðkomandi ári og leggja fram önnur gögn eftir því sem við á. Sé umsókn ekki útfyllt samkvæmt því sem form hennar geri ráð fyrir eða hún er á annan hátt ófullnægjandi þannig að nauðsynlegar upplýsingar komi ekki fram, gögn fylgja ekki eða eru ófullnægjandi sé umsókninni synjað að svo stöddu.
Samkvæmt því sem fram kemur í umsögn ríkisskattstjóra í máli þessu, dags. 14. desember 2021, er óumdeilt að skattframtal kæranda árið 2021 hafi borist ríkisskattstjóra 12. mars 2021 eða áður en framtalsfrestur einstaklinga rann út vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021, svo sem bent er á í kæru til yfirskattanefndar og gögn málsins bera að öðru leyti með sér, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 66, 26. janúar 2021. Er því ranghermt sem fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 18. nóvember 2021, að skattframtalið hafi borist embættinu 4. maí 2021 eða að liðnum framtalsfresti umrætt ár. Á hinn bóginn liggur fyrir að skattframtalinu fylgdi ekki útfyllt umsókn um lækkun (RSK 3.05), svo sem viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra áskilja, heldur var þess eins getið með athugasemd á forsíðu skattframtalsins að gögnum yrði skilað „vegna lækkunar á forsendum veikinda á næstu dögum“, eins og þar sagði. Slík gögn bárust síðan ríkisskattstjóra með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 26. apríl 2021, þar sem vísað var til afgreiðslu ríkisskattstjóra á ívilnunarbeiðnum kæranda vegna eldri ára, gagna sem þá hefðu verið lögð fram og meðfylgjandi reikningsyfirlita sparisjóðs vegna ársins 2020 þar sem sérstaklega væru tilgreind útgjöld vegna lyfjakaupa og heilbrigðisþjónustu. Þegar litið er til þess hvernig skattframtal kæranda árið 2021 var úr garði gert samkvæmt því sem að framan greinir og þar sem greinargerð kæranda til stuðnings beiðni hans um ívilnun barst ríkisskattstjóra ekki fyrr en að liðnum framtalsfresti vegna álagningar opinberra gjalda á einstaklinga gjaldárið 2021, sem rann út 12. mars 2021, sbr. 1. gr. fyrrnefndrar auglýsingar ríkisskattstjóra nr. 66/2021, verður ekki fundið að því að ríkisskattstjóri hafi tekið erindi kæranda til meðferðar sem kæru á álagningu opinberra gjalda umrætt gjaldár, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Verður hinn kærði úrskurður því ekki felldur úr gildi á þeim forsendum að málsmeðferð ríkisskattstjóra hafi að þessu leyti verið áfátt.
Með bréfi til kæranda, dags. 29. október 2021, skoraði ríkisskattstjóri á kæranda að leggja fram frumrit reikninga vegna þeirra útgjalda, sem ívilnunarbeiðni kæranda laut að, eða yfirlit frá Sjúkratryggingum Íslands vegna kostnaðar við lyf og heilbrigðisþjónustu. Var kæranda veittur 15 daga frestur frá dagsetningu bréfsins að telja til að láta umbeðin gögn í té. Af hálfu kæranda var óskað eftir viðbótarfresti með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 12. nóvember 2021, sem mun hafa borist embættinu 17. sama mánaðar. Fram kemur í umsögn ríkisskattstjóra að frestbeiðnin hafi ekki verið skráð í tölvukerfi embættisins fyrr en 19. nóvember eða degi eftir póstlagningardag hins kærða úrskurðar, dags. 18. nóvember 2021. Samkvæmt þessu má taka undir með kæranda að við meðferð málsins hafi láðst að taka tillit til framkominnar frestbeiðni hans áður en málinu var ráðið til lykta með uppkvaðningu úrskurðar, en á því hafa ekki komið fram aðrar skýringar en að framan greinir. Eins og atvikum er háttað og málið ber að þykir þó ekki um að ræða slíkan annmarka á meðferð málsins er leitt geti til ógildingar úrskurðar ríkisskattstjóra, enda verður hvorki séð að greindur annmarki hafi haft áhrif á efni ákvörðunar ríkisskattstjóra né leitt til réttarspjalla fyrir kæranda. Er þá haft í huga að meginatriði í málatilbúnaði kæranda lýtur að því að þess verði ekki krafist af honum að leggja fram þau gögn sem ríkisskattstjóri fór fram á með bréfi sínu, dags. 29. október 2021.
Vegna athugasemda í kæru varðandi drátt á afgreiðslu málsins skal tekið fram að úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp innan lögboðins þriggja mánaða frests samkvæmt ákvæði 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Verður því ekki tekið undir með kæranda að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins af hendi ríkisskattstjóra, sbr. og niðurstöðu hér að framan um að rétt hafi verið að haga afgreiðslu málsins eftir ákvæðum nefndrar lagagreinar.
Með vísan til framanritaðs verður að hafna ómerkingarkröfu kæranda. Víkur þá að efniskröfu hans um lækkun skattstofna.
Eins og fram er komið lýtur umsókn kæranda um ívilnun gjaldárið 2021 að lækkun tekjuskattsstofns vegna kostnaðar sem hlotist hafi af veikindum kæranda á árinu 2020, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Fram kemur í kæru til yfirskattanefndar að kærandi sé með taugasjúkdóm og glími við margvíslegar afleiðingar sjúkdómsins. Í bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 26. apríl 2021, kom fram að um væri að ræða kostnað að fjárhæð alls 526.270 kr. og var skírskotað til meðfylgjandi reikningsyfirlits sparisjóðs þar sem kærandi hafði tilgreint sérstaklega þau útgjöld sem umsóknin tæki til vegna ársins 2020. Samkvæmt þessum gögnum er einkum um að ræða útgjöld vegna kaupa á lyfjum og heilbrigðisþjónustu, en þar af eru útgjöld að fjárhæð 114.700 kr. vegna sjúkraþjálfunar og 65.696 kr. vegna tannlæknaþjónustu. Eins og fram er komið hafnaði ríkisskattstjóri umsókninni á þeim forsendum að kærandi hefði ekki lagt fram frumrit reikninga eða yfirlit frá Sjúkratryggingum Íslands vegna kostnaðar við lyfjakaup og læknisþjónustu á árinu 2020 og þannig ekki sýnt fram á að um kostnað vegna veikinda væri að ræða. Tók ríkisskattstjóri fram að reikningsyfirlit banka gæti ekki talist til gildra gagna í þessu sambandi þar sem slíkt yfirlit bæri ekki nægjanlega með sér hvað verið væri að greiða fyrir hverju sinni. Af hálfu kæranda er þessu mótmælt og m.a. bent á í kæru að hluti kostnaðar vegna veikinda kæranda sé af þeim toga að falla ekki undir greiðsluþátttökukerfi hins opinbera, svo sem vegna verkjalyfja, fæðubótarefna og tannlækninga vegna sjúkdóms kæranda.
Í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um ívilnun við álagningu opinberra gjalda 2021, sbr. auglýsingu nr. 1434/2020, kemur sem fyrr greinir fram með almennum hætti að umsækjandi um lækkun skuli sýna fram á útlagðan kostnað á viðkomandi ári og leggja fram önnur gögn eftir því sem við á. Ekki er nánar vikið að því í reglunum hvaða gögn teljist fullnægjandi í þessu sambandi. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því í reglum þessum að taka beri tillit til sértæks kostnaðar, þ.e. kostnaðar sem ekki fellur undir greiðsluþátttökukerfi ríkisins, í einstökum tilvikum, t.d. ákveðins lyfjakostnaðar og kostnaðar sem ekki falli undir skilgreiningu reglnanna á því sem teljist venjulegur heilbrigðiskostnaður, t.d. kostnaðar við heyrnartæki og tannviðgerðir vegna sjúkdóma. Taka má undir það með ríkisskattstjóra að bankareikningsyfirlit séu almennt ekki fullnægjandi til sönnunar útgjöldum, enda bera þau ekki með sér nægjanlega tilgreiningu hins keypta. Ekkert þykir þó vera því til fyrirstöðu að hafa hliðsjón af slíkum upplýsingum þegar annarra gagna nýtur ekki. Eins og fram er komið varð kærandi ekki við áskorun ríkisskattstjóra um að láta í té yfirlit Sjúkratrygginga Íslands um kostnað vegna lyfjakaupa og heilbrigðisþjónustu á árinu 2020. Verður kærandi að bera hallann af þessu, hvað sem líður skýringum hans um ástæður fyrir vöntun slíkra gagna, enda verður ekki talið að öflun þeirra geti talist viðurhlutamikil.
Þess er að geta að í gögnum málsins er að finna úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 5. nóvember 2019, þar sem fallist var á umsókn kæranda um lækkun tekjuskattsstofns vegna veikinda gjaldárin 2016, 2017, 2018 og 2019, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Með úrskurði þessum féllst ríkisskattstjóri á að lækka tekjuskattsstofn kæranda umrædd ár um 80.000 kr. fyrsta árið, um 100.000 kr. annað árið, um 100.000 kr. þriðja árið og um 120.000 kr. fjórða árið. Af hálfu kæranda var þessum úrskurði skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 6. janúar 2020, þar sem þess var krafist að kæranda yrði veitt ívilnun í sköttum umfram það sem ríkisskattstjóri ákvað. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 22, 26. febrúar 2020 var kærunni ásamt meðfylgjandi gögnum vísað til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs úrskurðar. Með kæruúrskurði, dags. 30. júní 2020, tók ríkisskattstjóri málið til meðferðar að nýju og féllst á frekari lækkun tekjuskattsstofns kæranda umrædd ár en áður hafði verið ákveðin. Nam lækkun tekjuskattsstofns kæranda 285.000 kr. gjaldárið 2015, 530.000 kr. gjaldárið 2016, 125.000 kr. gjaldárið 2017 og 290.000 kr. gjaldárið 2018 samkvæmt þessum úrskurði ríkisskattstjóra. Í úrskurðinum kom fram að framlögð yfirlit frá Sjúkratryggingum Íslands bæru með sér kostnað vegna lyfja og læknisþjónustu að fjárhæð 36.792 kr. á árinu 2015, 57.093 kr. á árinu 2016, 67.609 kr. á árinu 2017 og 55.471 kr. á árinu 2018. Þá tók ríkisskattstjóri tillit til kostnaðar vegna tannlæknaþjónustu samkvæmt fyrirliggjandi kvittunum sem nam 235.141 kr. fyrsta árið, 454.129 kr. annað árið, 50.910 kr. þriðja árið og 224.424 kr. fjórða árið. Loks var litið til fyrirliggjandi upplýsinga um greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar til kæranda, sbr. 10. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og miðað við helming fjárhæðar í því sambandi eða 80.586 kr. fyrsta árið, 88.404 kr. annað árið, 95.034 kr. þriðja árið og 99.498 kr. fjórða árið. Var þannig litið til útgjalda að fjárhæð alls 352.519 kr. tekjuárið 2015, 599.626 kr. tekjuárið 2016, 213.553 kr. tekjuárið 2017 og 379.393 kr. tekjuárið 2018.
Af skýringum kæranda í málinu verður frekast ráðið af útgjöld hans vegna kaupa á lyfjum og læknisþjónustu hafi verið svipuð milli ára, enda hefur kærandi ítrekað vísað til upplýsinga og gagna vegna afgreiðslu í málum hans vegna eldri ára. Ljóst er að kostnaður kæranda af tannlæknaþjónustu á árinu 2020 var í lægri kantinum sé miðað við kostnað vegna tannlækninga sem féll til á árunum 2015, 2016, 2017 og 2018, sbr. hér að framan. Þá þykir mega byggja á því að útgjöld kæranda af sjúkraþjálfun á árinu 2020 hafi numið þeirri fjárhæð sem framlögð gögn hans bera með sér og að þar sé að öllu leyti um að ræða kostnað vegna veikinda í skilningi reglna um ívilnun. Að framangreindu athuguðu og að virtum fram komnum skýringum kæranda þykir ekki ástæða til að draga í efa að kærandi hafi haft kostnað af veikindum á árinu 2020, þar með talið vegna kaupa á lyfjum, læknisþjónustu og sjúkraþjálfun, sem umfram sé venjulegan almennan kostnað af greindum toga, sbr. viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra, en samkvæmt reglunum telst almennur venjulegur kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja að jafnaði geta numið samtals 90.000 kr. á ári í tilviki aldraðra og öryrkja.
Með vísan til framanritaðs er fallist á beiðni kæranda um lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2021 á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um fjárhæð þess kostnaðar sem um ræðir, sbr. hér að framan, og að teknu tilliti til tekjuskattsstofns kæranda þykir lækkun tekjuskattsstofns hæfilega ákveðin 250.000 kr. Útsvarsstofn kæranda lækkar um sömu fjárhæð, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.
Af hálfu kæranda er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis. Umkrafinn kostnaður vegna málsins nemur samkvæmt framlögðum reikningi 197.400 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna 14 klukkustunda vinnu umboðsmanns kæranda við málið. Til þess er að líta að málið verður hvorki talið umfangsmikið né flókið, sbr. lagaskilyrði fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, auk þess sem efnisleg sjónarmið kæranda, sem þýðingu höfðu við úrlausn um kæruna, komu að mestu fram við meðferð máls kæranda hjá ríkisskattstjóra, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 26. apríl 2021, og kæru, dags. 8. júní 2021. Með vísan til þess og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar frá 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar, þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 120.000 kr. Er þá miðað við u.þ.b. átta tíma vinnu sérkunnáttumanns vegna kærumálsins.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárið 2021 lækkar um 250.000 kr. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 120.000 kr.