Úrskurður yfirskattanefndar

  • Ívilnun í sköttum
  • Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu

Úrskurður nr. 109/2017

Gjaldár 2016

Lög nr. 90/2003, 65. gr. 1. mgr. 1. tölul.   Reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996.  

Í máli þessu var ekki talið sýnt nægilega fram á, svo sem með framlagningu læknisvottorðs, að útgjöld kæranda vegna magabandsaðgerðar á árinu 2015 hafi verið óhjákvæmileg í skilningi reglna um ívilnun. Þá voru önnur útgjöld kæranda vegna heilbrigðisþjónustu, þ.e. lyfjakaupa og kaupa á læknisþjónustu, á sama ári ekki talin það mikil að af þeim hefði leitt veruleg gjaldþolsskerðing kæranda. Var kröfu kæranda um ívilnun hafnað.

Ár 2017, miðvikudaginn 28. júní, er tekið fyrir mál nr. 3/2017; kæra A, dags. 6. janúar 2017, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2016. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 6. janúar 2017, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 11. október 2016, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2016. Er kæruefnið synjun ríkisskattstjóra um ívilnun opinberra gjalda á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.e. vegna ellihrörleika, veikinda, slysa eða mannsláts er skert hefðu gjaldþol manns verulega. Af hálfu kæranda er farið fram á lækkun tekjuskattsstofns gjaldárið 2016 vegna læknis- og lyfjakostnaðar á árinu 2014.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 17. ágúst 2016, fór kærandi fram á lækkun tekjuskattsstofns vegna veikinda samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kom fram að við gerð skattframtals árið 2016 hefði kæranda láðst að sækja um ívilnun vegna lækniskostnaðar. Kærandi hefði farið í tvær aðgerðir á árinu 2015 og læknis- og lyfjakostnaður numið 1.126.750 kr. Með kærunni fylgdi tölvupóstur X slf., dags. 8. ágúst 2016, og viðhengd ódagsett kvittun frá félaginu fyrir greiðslu 1.050.000 kr. vegna magabandsaðgerðar á árinu 2015, greiðsluskjal frá Sjúkratryggingum Íslands vegna kostnaðar sjúklings samtals að fjárhæð 62.686 kr. vegna rannsókna og þjónustu sérfræðilækna í maí, júlí og ágúst 2015 og yfirlit úr réttindagátt Sjúkratrygginga þar sem tilgreindur var kostnaður vegna lyfjakaupa samtals að fjárhæð 37.507 kr. á árinu 2015.

Með kæruúrskurði, dags. 11. október 2016, synjaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um ívilnun vegna kostnaðar við magabandsaðgerð og annars lyfja- og lækniskostnaðar á árinu 2015. Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og gerði grein fyrir reglum ríkisskattstjóra nr. 212 frá 29. mars 1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. gr. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt (nú 65. gr. laga nr. 90/2003). Í úrskurðinum var bent á að kostnaður við nauðsynlegar læknisfræðilegar aðgerðir væri að öllu jöfnu greiddur af almannatryggingum. Ekki yrði ráðið af skýringum og gögnum kæranda að um hefði verið að ræða óhjákvæmilegan kostnað vegna veikinda. Þá lægi ekki fyrir að almannatryggingar hefðu synjað kæranda endanlega um þátttöku í kostnaði vegna umræddrar aðgerðar. Einnig kom fram hjá ríkisskattstjóra að lyfja- og lækniskostnaður samtals að fjárhæð 76.750 kr. samkvæmt innsendum yfirlitum frá Sjúkratryggingum Íslands væri ekki það mikill að unnt væri að tala um verulega gjaldþolsskerðingu.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 6. janúar 2017, kemur fram að kærandi hafi glímt við offitu í áratugi og hafi afleiðingar hennar m.a. verið lélegt stoðkerfi og veruleg hætta á sykursýki. Hafi kærandi heilsu sinnar vegna ekki talið forsvaranlegt að bíða eftir offitumeðferð á Reykjalundi þar sem biðlisti sé nokkur ár og því ákveðið að varna frekari afleiðingum ástands síns með því að fara í magabandsaðgerð hjá X slf. og greiða fyrir hana 1.050.000 kr. Um hafi verið að ræða óhjákvæmilegan kostnað vegna veikinda, enda hafi almenn líðan kæranda batnað verulega eftir aðgerðina. Stoðkerfisvandamál hafi minnkað verulega og hættan á sykursýki sé ekki lengur fyrir hendi. Án aðgerðarinnar hefði kærandi að öllum líkindum þurft að glíma við ýmis önnur veikindi. Þá sé ekki rétt hjá ríkisskattstjóra að ekki liggi fyrir að almannatryggingar hafi synjað kæranda endanlega um þátttöku í kostnaði aðgerðarinnar, þar sem kærandi hafi haft samband við almannatryggingar fyrir aðgerðina og verið tjáð að þær tækju ekki þátt í kostnaði við aðgerðina. Óumdeilt sé að gjaldþol kæranda hafi skerst verulega á tekjuárinu 2015 vegna lækniskostnaðar sem tilkominn sé vegna veikinda hennar. Um hafi verið að ræða lífsnauðsynlega aðgerð. Með vísan til framangreinds óski kærandi þess að tekin verið til greina umsókn hennar um lækkun tekjuskattsstofns vegna verulega skerts gjaldþols sökum veikinda.

IV.

Með bréfi, dags. 16. janúar 2017, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 19. janúar 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Eins og fram kemur í kæru til yfirskattanefndar lýtur krafa kæranda að því að kæranda verði ákvörðuð ívilnun vegna læknis- og lyfjakostnaðar á árinu 2015, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt greindu ákvæði skal ríkisskattstjóri taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef ellihörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol manns verulega. Lögin hafa ekki að geyma nánari ákvæði um ákvörðun ívilnunar við þessar aðstæður. Í reglum ríkisskattstjóra nr. 212/1996, um skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 66. og 80. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að skilyrði fyrir lækkun samkvæmt þessum tölulið séu að ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafi haft í för með sér skert gjaldþol. Með skertu gjaldþoli sé átt við að greiðslugeta manns sé skert vegna þess að hann hafi orðið fyrir verulegum kostnaði umfram bætur og styrki sem hann hafi fengið vegna framangreindra tilvika. Með kostnaði vegna ellihrörleika, veikinda eða slysa í þessu sambandi sé átt við dvalarkostnað á stofnunum, lyfja- og lækniskostnað, kostnað vegna ferða, ýmiss konar sérútbúnaðar vegna fötlunar o.s.frv. Sýnt skuli fram á að um óhjákvæmilegan kostnað sé að ræða og fyrir þurfa að liggja gögn til staðfestingar á honum.

Eins og fram er komið fylgdi kæru til ríkisskattstjóra, dags. 17. ágúst 2016, kvittun fyrir greiðslu 1.050.000 kr. vegna magabandsaðgerðar kæranda á árinu 2015. Þá fylgdu kærunni yfirlit frá Sjúkratryggingum Íslands um kostnað vegna þjónustu sérfræðilækna að fjárhæð 62.686 kr. og lyfjakostnað að fjárhæð 37.507 kr. Ekki kemur fram í yfirliti yfir lyfjakaup hvaða lyf voru keypt. Öðrum gögnum var ekki framvísað þegar mál kæranda var til afgreiðslu hjá ríkisskattstjóra og engin gögn fylgdu kæru kæranda til yfirskattanefndar.

Samkvæmt framansögðu hefur kærandi fært fram ýmis gögn um kostnað við lyfjakaup, þjónustu sérfræðilækna og magabandsaðgerð á árinu 2015. Hvað sem líður skýringum kæranda vegna síðastnefnds liðar verður allt að einu að telja að ekki hafi verið sýnt nægilega fram á það, svo sem með framlagningu læknisvottorðs, að útgjöld hennar vegna magabandsaðgerðar hafi verið óhjákvæmileg í skilningi reglna ríkisskattstjóra nr. 212/1996. Þá verður ekki talið að önnur framangreind útgjöld séu svo mikil að telja megi að af þeim hafi leitt veruleg gjaldþolsskerðing.

Með vísan til framanritaðs verður að taka undir með ríkisskattstjóra að kærandi hafi ekki með fram komnum skýringum og gögnum sýnt fram á að skilyrði ívilnunar vegna veikinda samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, sbr. reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996, séu fyrir hendi í tilviki kæranda. Verður því að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja