Úrskurður yfirskattanefndar

  • Ívilnun í sköttum
  • Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu

Úrskurður nr. 21/2022

Gjaldár 2021

Lög nr. 90/2003, 65. gr. 1. mgr. 1. tölul.   Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um lækkun skattstofna gjaldárið 2021.  

Í máli þessu var ekki talið sýnt nægilega fram á, svo sem með framlagningu læknisvottorðs, að útgjöld kæranda vegna liðskiptaaðgerðar á hné á árinu 2020 hafi verið óhjákvæmileg í skilningi reglna um ívilnun. Var kröfu kæranda um ívilnun hafnað.

 

Ár 2022, miðvikudaginn 16. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 213/2021; kæra A, dags. 17. desember 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 17. desember 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. september 2021, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2021. Er kæruefnið sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum að hafna beiðni kæranda um lækkun tekjuskattsstofns vegna veikinda, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði hnekkt.

II.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2021 fylgdi umsókn um lækkun á tekjuskattsstofni (RSK 3.05) vegna veikinda, slysa eða ellihrörleika, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með umsókninni fylgdi afrit af reikningum frá Klíníkinni vegna liðskiptaaðgerðar að fjárhæð 1.200.000 kr. og vegna læknisþjónustu að fjárhæð 9.038 kr. Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 24. júní 2021, óskaði kærandi eftir skýringum á því hvers vegna umsókn hans um ívilnun hefði verið hafnað, en ljóst væri af álagningarseðli að ekki hefði verið fallist á umsóknina.

Ríkisskattstjóri tók erindi kæranda til meðferðar sem kæru á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2021, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og með kæruúrskurði, dags. 20. september 2021, hafnaði ríkisskattstjóri umsókn kæranda um ívilnun. Í úrskurðinum kom fram að við meðferð skattframtals kæranda hefðu þau mistök verið gerð að afgreiðsla á umsókn kæranda um ívilnun hefði fallið niður og væri beðist velvirðingar á mistökunum. Þá tiltók ríkisskattstjóri að um heimildir til lækkunar á gjaldstofnum færi eftir ákvæðum 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Í tilviki kæranda hefði læknisvottorð ekki fylgt umsókninni. Þá hefði ekki verið sýnt fram á að kostnaður vegna liðskiptaaðgerðar yrði rakinn til sjúkdóma eða slyss sem væri skilyrði ívilnunar. Ennfremur væri kostnaður við nauðsynlegar læknisfræðilegar aðgerðir að öllu jöfnu greiddur af almannatryggingum. Yrði því ekki ráðið að um óhjákvæmilegan kostnað vegna veikinda væri að ræða. Þessu til viðbótar lægi ekki fyrir að almannatryggingar hefðu synjað kæranda endanlega um þátttöku í kostnaði af aðgerðinni. Með vísan til þessa væri umsókn kæranda hafnað.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 17. desember 2021, er þess farið á leit að „málið fái efnislega meðferð sem ekki [hafi] fengist hjá skattyfirvöldum“, eins og segir í kærunni. Telur kærandi kröfu ríkisskattstjóra um læknisvottorð ekki svaraverða, enda fari fólk ekki í slíkar aðgerðir án þess að brýna nauðsyn beri til. Með kærunni fylgir afrit af tölvupósti frá Sjúkratryggingum Íslands til kæranda frá 12. október 2021 þar sem fram kemur að Sjúkratryggingar Íslands taki ekki þátt í kostnaði við liðskiptaaðgerðir sem gerðar séu hjá Klíníkinni þar sem ekki hafi verið gerður samningur við félagið.

IV.

Með bréfi, dags. 4. janúar 2022, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. janúar 2022, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkisskattstjóri taka til afgreiðslu umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns ef ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol hans verulega. Lögin hafa ekki að geyma nánari ákvæði um ákvörðun ívilnunar við þessar aðstæður. Í 3. mgr. 65. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 50/2018, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, kemur fram að ríkisskattstjóri skuli í upphafi hvers árs að fenginni staðfestingu ráðherra gefa út reglur um nánari skilyrði fyrir veitingu ívilnana samkvæmt ákvæði 65. gr. laganna. Með auglýsingu nr. 1434, 9. desember 2020, sem birt var í Stjórnartíðindum, hefur ríkisskattstjóri sett viðmiðunarreglur um ákvörðun um lækkun á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda 2021. Í reglum þessum er m.a. fjallað um ívilnanir á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Hvað varðar ívilnun vegna veikinda, slysa eða ellihrörleika, sbr. tilgreiningu í fyrrgreindum tölulið, kemur fram að við mat á því, hvort gjaldþol manns hafi skerst verulega af greindum orsökum, sé fyrst og fremst litið til þess að til hafi fallið kostnaður sem einstaklingurinn hefur greitt sjálfur og sé umfram það sem teljist venjulegur almennur kostnaður, t.d. vegna lyfja og læknishjálpar. Ívilnun komi því almennt ekki til greina nema kostnaður sé umfram það sem venjulegt telst. Eru nánari ákvæði í reglunum um ýmsar viðmiðanir í þessu sambandi. Þá kemur fram að telji umsækjandi að gjaldþol hans hafi skerst umfram það sem útreikningur samkvæmt reglunum sýni beri honum að rökstyðja það sérstaklega og leggja fram skýringar og eftir atvikum gögn.

Kærandi hefur lagt fram afrit af reikningum vegna liðskiptaaðgerðar á hné sem kærandi gekkst undir á árinu 2020 hjá Klíníkinni í Ármúla í Reykjavík, þ.e. annars vegar reikning vegna liðskiptaaðgerðar að fjárhæð 1.200.000 kr. og hins vegar tvo reikninga vegna viðtals og skoðunar að fjárhæð samtals 9.038 kr. Á hinn bóginn hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn, svo sem læknisvottorð, til staðfestingar á því að aðgerðina megi rekja til veikinda eða slyss, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Verður því ekki talið að nægilega hafi verið sýnt fram á að kostnaður kæranda vegna liðskiptaaðgerðar geti talist til óhjákvæmilegra útgjalda vegna slíkra atvika.

Með vísan til framanritaðs verður að taka undir með ríkisskattstjóra að kærandi hafi ekki með fram komnum skýringum og gögnum sýnt fram á að skilyrði ívilnunar vegna veikinda eða slyss samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og fyrrgreindar viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra, séu fyrir hendi í tilviki kæranda. Verður því að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja