Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 530/1991
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 51. gr. 1. mgr. 2. tl. og 2. mgr. Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I.
Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Greinargerð um vaxtagjöld — Afföll — Ávöxtunarkrafa
Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að lækka tilfærð vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa í skattframtali kærenda árið 1989. Eftir bréfaskipti kvað skattstjóri upp svohljóðandi úrskurð, dags. 30. apríl 1990:
„Fallist er á að leggja innsenda greinargerð um vaxtagjöld RSK 3.09 til grundvallar endurákvörðun vaxtaafsláttar en þó með þeirri breytingu að ekki er fallist á að miða afsláttinn við afföll af skuldabréfum kr. 102.059,- þar sem ekki verður séð að kærendur hafi orðið fyrir afföllum sem frádráttarbær séu sem vaxtagjöld af skuldum skv. ákvæðum 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 eins og þau ákvæði hljóðuðu fyrir samþykkt laga nr. 49/1987.“
Umboðsmaður kærenda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 30. maí 1990, þar sem hann krefst þess að afföll af framtöldum skuldabréfum samkvæmt umræddri greinargerð kærenda verði tekin til greina. Um málavexti vísar umboðsmaðurinn til fyrri gagna málsins, en í kærubréfi umboðsmanns kærenda til skattstjóra, dags. 8. apríl 1990, var niðurfellingu affallanna mótmælt með svohljóðandi rökstuðningi:
„Því er mótmælt að afföll af skuldabréfum séu ekki vaxtagjöld í skilningi laganna, þar sem sá viðskiptamáti sé nú algengur að verðbréfasjóðir kaupi skuldabréf af væntanlegum lánþegum húsnæðisstofnunar og þá með afföllum sem reiknuð eru út frá hefðbundinni ávöxtunarkröfu sem slíkir sjóðir gera.
Afföllin eru leiðrétt miðað við afborgunartíma lánanna.“
Með bréfi, dags. 8. mars 1991, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
Að virtum öllum málavöxtum þykir bera að taka kröfu kærenda til greina.