Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Búslóð
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 26/2022

Lög nr. 88/2005, 6. gr. 1. mgr. 4. tölul.   Lög nr. 37/1993, 10. gr.   Reglugerð nr. 630/2008, 16. gr. 1. mgr. 1. og 4. tölul. og 2. mgr.  

Í málinu var deilt um hvort skilyrði fyrir tollfrelsi búslóðar væru uppfyllt í tilviki kæranda sem flutti búslóð til Íslands frá Noregi sumarið 2021, en hafði þá átt skráð lögheimili hér á landi frá sumri 2019. Yfirskattanefnd taldi að viðeigandi lagareglur yrðu ekki skýrðar svo að skráning lögheimilis réði ávallt úrslitum um tollfrelsi vegna innflutnings búslóða ef sýnt væri fram á að með gögnum að búferlaflutningur hefði í reynd átt sér stað á öðrum tíma. Að virtum skýringum kæranda um flutning til landsins, sem ekki höfðu sætt neinni rökstuddri vefengingu af hendi tollyfirvalda, var fallist á kröfu kæranda í málinu.

Ár 2022, mánudaginn 28. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 197/2021; kæra A, mótt. 19. nóvember 2021, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, sem er dagsett 8. nóvember 2021 en barst yfirskattanefnd 19. sama mánaðar, varðar kæruúrskurð tollgæslustjóra, dags. 19. október 2021, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings búslóðar. Í úrskurði þessum kom fram að deiluefnið lyti að aðflutningsgjöldum vegna búslóðar sem komið hefði til landsins í júlí 2021. Af hálfu tollyfirvalda hefði því verið hafnað að innflutningur búslóðarinnar væri tollfrjáls á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. ákvæði II. kafla reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Var rakið að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hefði kærandi flutt til Noregs á árinu 2016 og flutt aftur til Íslands í júní 2019 og haft skráð lögheimili hér á landi frá þeim tíma. Ljóst væri því að kærandi hefði verið með skráð lögheimili hér í rúmlega ár áður en kærandi flutti búslóð sína hingað til lands. Væri því ekki uppfyllt lagaskilyrði um að innflytjandi hefði flutt búslóðina með sér er hann flytti búferlum til landsins. Þá væri skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um að búslóð væri flutt til landsins innan sex mánaða frá því innflytjandi tæki sér bólfestu hér á landi eða öðlaðist hér lögheimili ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Til stuðnings niðurstöðu sinni vísaði tollgæslustjóri til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 97/2016. Þá vék tollgæslustjóri í úrskurði sínum að ákvæði 2. tölul. 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um tollfrelsi endursendra vara og benti á að þar sem búslóð kæranda hefði ekki verið flutt aftur til Íslands innan árs frá því er búslóðin var flutt til Noregs á árinu 2016 gæti umrætt ákvæði ekki tekið til innflutningsins. Með hliðsjón af framansögðu yrði að hafna kröfu kæranda um tollfríðindameðferð vegna innflutningsins.

Af hálfu kæranda er komið fram, sbr. kæru hennar til tollgæslustjóra, dags. 9. ágúst 2021, og kæru til yfirskattanefndar, að kærandi hafi ætlað sér að flytja aftur til Íslands frá Noregi á árinu 2019 og þess vegna skráð lögheimili sitt hér. Vegna aðstæðna hafi það þó ekki gengið eftir og síðan hafi heimsfaraldur riðið yfir. Í febrúar 2021 hafi verið ákveðið að barn í fjölskyldu kæranda lyki barnaskóla í Noregi og því sé fjölskylda kæranda enn þar í landi, tveimur árum eftir áætlaðan flutning. Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að bróðurpartur hinnar innfluttu búslóðar séu sömu munir og kærandi hafi flutt með sér til Noregs á árinu 2016, en kærandi hafi verið án atvinnu í Noregi og því ekki haft mikil tök á að endurnýja búslóðina. Samkvæmt yfirliti sé búslóð keypt í Noregi að verðmæti 279.130 kr. og sanngjarnt að greiða af því virðisaukaskatt 54.025 kr. Fjölskylda kæranda hafi veitt henni aðstoð við að koma búslóðinni heim. Kærandi hafi haldið til Noregs eftir fermingu barnsins í júlí 2019 og komið til baka 1. júlí 2021. Hafi kærandi búið með barninu í Noregi á meðan það var að ljúka skóla. Í ljósi framangreinds telji kærandi ákvörðun tollgæslustjóra í málinu ósanngjarna og sé því farið fram á endurskoðun hennar.

II.

Með bréfi, dags. 5. janúar 2022, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur. Í umsögninni er m.a. bent á að sex mánaða fresti, sem mælt sé fyrir um í 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008, sé ætlað að tryggja að einvörðungu notaðir munir séu fluttir til landsins á þeim tíma þegar innflytjandi þeirra komi sjálfur til landsins, enda sé erfiðara að leggja mat á hvort búslóð innihaldi einungis notaða muni eftir því sem lengri tími líði. Er ítrekað að kærandi uppfylli hvorki skilyrði um sex mánaða tímaramma samkvæmt fyrrnefndu ákvæði né skilyrði um lágmarks búsetutíma erlendis sem kveðið sé á um í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga. Í tilviki kæranda sé erfitt eða ómögulegt að sanna eða staðreyna að um sömu muni sé að ræða og fluttir voru úr landi á árinu 2016. Sé því gerð krafa um staðfestingu úrskurðar.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. janúar 2022, var kæranda send umsögn tollgæslustjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á búslóð á árinu 2021, sbr. kæruúrskurð tollgæslustjóra, dags. 19. október 2021. Hafnaði tollgæslustjóri því að búslóðin væri tollfrjáls á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 þar sem ekki væri uppfyllt það skilyrði ákvæðisins að innflytjandi hefði haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins, sbr. ennfremur ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 er hver sá tollskyldur sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. þó 4. gr. laganna um takmarkaða tollskyldu aðila sem þar eru tilgreindir. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skal greiða toll af þeim vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins en í 6. gr. laganna er mælt fyrir um vissar vörur sem skuli vera tollfrjálsar. Kemur þar fram í 4. tölul. 1. mgr. að búslóð manna sem flytjast búferlum hingað til lands skuli vera tollfrjáls, enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins. Kemur fram í ákvæðinu að ráðherra geti með reglugerð takmarkað niðurfellingu samkvæmt þessum lið meðal annars við notkun, vöruflokka eða hámarksverð að teknu tilliti til dvalartíma erlendis, fjölskyldustærðar og annarra aðstæðna. Í 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, er nánar kveðið á um almenn skilyrði tollfrelsis búslóða. Samkvæmt 1. tölul. 16. gr. reglugerðarinnar þarf innflytjandi að hafa haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins. Þá er skilyrði tollfrelsis samkvæmt 4. tölul. sömu greinar að viðkomandi hafi búslóðina með sér er hann flytur búferlum til landsins eða flytji hana til landsins eigi síðar en innan 6 mánaða frá því að hann tók sér bólfestu hér á landi eða öðlaðist hér lögheimili. Tollgæslustjóri geti veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega standi á, svo sem ef dvöl manns hér hafi upphaflega verið ákveðin um skemmri tíma en framlengist síðan til varanlegrar búsetu.

Óumdeilt er í málinu að kærandi flutti til Noregs á árinu 2016. Samkvæmt því sem skráð er í þjóðskrá flutti kærandi aftur til Íslands sumarið 2019, en af hennar hálfu er komið fram að sú skráning eigi ekki við rök að styðjast þar sem ekkert hafi orðið úr áformuðum flutningi á því ári. Hafi kærandi í reynd ekki flutt til Íslands fyrr en um sumarið 2021 eftir að fjölskyldumeðlimur lauk grunnskólanámi í Noregi. Kemur fram í kæru kæranda til yfirskattanefndar að hún hafi komið til Íslands á árinu 2020 vegna fermingar og haldið aftur til Noregs 10. júlí sama ár.

Eins og rakið er í kafla II hér að framan byggði tollgæslustjóri ákvörðun sína alfarið á því að þar sem kærandi væri með skráð lögheimili hér á landi frá og með júní 2019 væru skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. ákvæði 1. og 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008, ekki uppfyllt í tilviki hennar. Vék tollgæslustjóri í úrskurði sínum í engu að fyrrgreindum skýringum kæranda í kæru, dags. 9. ágúst 2021, þar sem fram kom að lögheimilisskráningin væri röng þar sem fyrirhugaður flutningur kæranda til Íslands hefði frestast, bæði vegna heimsfaraldurs og skólagöngu barnsins í Noregi. Kærunni fylgdu gögn til stuðnings sjónarmiðum kæranda, þ.e. tölvupóstsamskipti vegna barnsins. Ákvæði 4. tölul. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 verður ekki skýrt svo að skráning lögheimilis ráði ávallt úrslitum í þessu efni sé sýnt fram á með gögnum að búferlaflutningur hafi í reynd átt sér stað á öðrum tíma. Er þá bæði til þess að líta að ákvæðið sjálft gerir ráð fyrir því berum orðum að miða megi við það tímamark er rétthafi tekur sér bólfestu hér á landi auk þess sem tollgæslustjóra er fengin bein heimild til að veita undanþágu frá skilyrðum ákvæðisins ef sérstaklega stendur á. Af hálfu tollgæslustjóra var enginn reki gerður að því að upplýsa málið frekar með tilliti til þess hvenær kærandi fluttist til landsins frá Noregi, enda verður naumast talið, miðað við rökstuðning hins kærða úrskurðar, að tollgæslustjóri hafi dregið fram komnar skýringar kæranda í þessu sambandi í efa. Var kærandi ekki krafin um neinar frekari upplýsingar eða gögn vegna málsins, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008, svo sem hvort kærandi hefði óskað eftir leiðréttingu á lögheimilisskráningu sinni, sbr. 16. gr. laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur. Vegna tilvísunar tollgæslustjóra til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 97/2016, þar sem reyndi á tollfrelsi búslóðar við flutning til landsins, skal tekið fram að eins og rakið er í forsendum úrskurðarins lá fyrir í gögnum þess máls að hlutaðeigandi innflytjandi hafði tekið sér bólfestu hér á landi áður en búslóðin var flutt til landsins. Verður því ekki talið að atvik þess máls séu fyllilega sambærileg atvikum í máli kæranda eins og það liggur fyrir yfirskattanefnd.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af fram komnum skýringum kæranda, sem eins og áður greinir hafa ekki sætt neinni rökstuddri vefengingu af hendi tollyfirvalda, þykir mega fallast á að skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 séu uppfyllt í tilviki kæranda. Er krafa kæranda því tekin til greina. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, ber undir stjórnvald að framkvæma gjaldabreytingar sem stafa af úrskurði yfirskattanefndar. Er tollgæslustjóra því falið að annast um gjaldabreytingu samkvæmt úrskurði þessum.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja